„Heima er best“, segir máltækið. En þegar við þurfum og viljum fara ferða okkar utan heimilis eða dvalarstaðar þurfum við að kunna að lesa umhverfið. Tökum nokkur dæmi. Þegar gengið er, eða farið um í hjólastól, þarf sá hinn sami stöðugt að líta í kringum sig og rýna eftir nálægum umferðarmerkjum, götuköntum og misfellum í gangstéttum, en jafnframt eftir einhverju áhugaverðu, honum/henni til fróðleiks og ánægju. Þetta geta verið sögulegir staðir, s.s. Alþingishúsið eða Stjórnarráðið, litskrúð náttúran eða bara fallegt umhverfið: Hljómskálagarðurinn, Laugardalurinn, Kirkjufellið, Rauðanes eða Goðafoss. Um blinda gegnir hins vegar öðru máli. Þeir þurfa bæði handleiðslu og leiðsögn til að geta upplifað slík góðgæti á framangreindum stöðum.
Um 1200 ára saga
Þegar af stað er farið, með það að markmiði að skoða áhugaverða staði, er mikilvægt að hafa nokkur heilræði á bak við að minnsta kosti annað eyrað. Landið sem við ferðumst um á sér nálægt 1200 ára sögu. Í því leynast bæði ógreinilegar og greinilegar mannvistarleifar, svo sem tóftir íbúðarhúsa, útihúsa, selja og veiðistöðva. Á milli allra staða lágu leiðir fyrrum. Þær voru gjarnan varðaðar. Enn í dag má sjá vörðurnar við þær, eða að minnsta kosti leifar þeirra, þótt nýir akvegir, sem hafa tekið mið af nútímalegri þörfum, hafi verið lagðir í seinni tíð í stað hinna fornu leiða.
Mannvist í nýju landi fylgdi óhjákvæmlegt verulegt jarðrask. Allt það er maðurinn hefur áorkað í gegnum tíðina má lesa af landinu. Samkvæmt sögulegum heimildum komu fyrstu norrænu landnemarnir til landsins í kringum 872 e. Kr. Í þeim sömu heimildum er þó sagt frá öðrum íbúum, sem hér voru fyrir, pöpum (Írum). Óljóst er hversu lengi þeir höfðu búið í landinu áður en norrænir menn komu hingað til fastrar búsetu. Elstu búsetuminjar norrænna manna er að finna í miðbæ Reykjavíkur. Hluti þeirra hafa verið gerðar opinberar.
Reykjanesskaginn
Til að auðvelda umfjöllunina er hún öll yfirfærð á Reykjanesskagann, fyrrum landnám Ingólfs. Það er reyndar ekki svo vitlaust því svæðið sem slíkt endurspeglar sögulegt samhengi landsins alls.
Á Reykjanesskaganum má til dæmis finna um 130 fornar þjóðleiðir, 360 fornar selstöður, 110 fornar réttir, 86 fornar refagildrur, um 300 hella og fjárskjól, 183 brunna og vatnsstæði, 93 varir og 23 verstöðvar - fyrir utan allar hinu fornu bæjarleifar, sem framangreindar selstöður gefa til kynna.
Á Reykjanesskaganum má auk þessa sjá leifar að minnsta kosti 130 fjárborga, 87 letursteina, 86 refagildrur, ótelj- andi vörður og um það bil 60 flugvélaflök frá tímum Seinni heimstyrjaldarinnar. Fyrir utan þetta má í landshlutanum finna leifar nánast óteljandi minja, bæði skráðra og óskráðra. Sumar þeirra eiga enn eftir að koma á óvart, til dæmis minjarnar í Húshólma.
Einstök náttúra
Náttúran á Reykjanesskaganum verður að teljast einstök á heimsvísu, þótt ekki væri fyrir annað en flekaskil jarðskorp- unnar. Búin hefur verið til áþreifanleg og aðgengileg ásýnd þeirra fyrir ferðamenn á svæðinu milli Hafna og Reykjanesvita – „Brúin milli heimsálfa“.
Í Austurhálsi (Sveifluhálsi) og Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi) má sjá ljóslifandi afurðir goss undir ísaldarjöklinum fyrir meira en 11 þúsund árum. Í Þráinsskyldi og Hrútargjádyngju er t.d. skráð saga dyngjujarðfræðitímabilsins á svæðinu (7-5 hundruð ára) og Eldvörpin eru dæmigerð sprungureinagoshrina frá 13. öld. Slík gos tíðkast hér á landi enn í dag.
Nauðsyn hreyfingarinnar
Í kjölfar fæðingar sér hreyfingin um viðhald lífsins - á meðan það varir. Þess vegna er svo nauðsynlegt fyrir hvern og einn að nýta sér hina margvíslegustu möguleika hreyfingar á hverjum tíma. Einföld hreyfing getur verið fólgin í að fara fram úr á morgnana, huga að nauðsynlegum verkefnum, svo sem að ganga niður öll þrep stigagangsins í stað þess að taka lyftuna, ganga út í bílinn, fara út í búð eða sinna öðrum mikilvægum erindum þann daginn. Allt kallar þetta á einhverja hreyfingu.
Það er líka hægt að bæta um betur og taka einfaldlega þá ákvörðun að ætla hreyfa sig svolítið umfram það dags daglega. Það má auðveldlega gera, til að byrja með, með því að nýta sér bara sitt nánasta umhverfi til að skoða allar þær merkilegu dásemdir, sem það hefur upp á að bjóða. Auk fyrrum mannvistarleifa má gjarnan huga að breytilegum gróðrinum eftir árstíðum, tímabundnum vexti í ám og lækjum að vorlagi, komu farfuglanna, hreiðurgerð, eggjum og uppvexti unganna.
Erfitt getur verið að taka ákvörðun um breytingar frá því sem verið hefur, það er hinu venjulega. Það er þó hægt – og er í rauninni alls ekki svo erfitt. Það eina, sem þarf að gera er að taka ákvörðunina, kanna aðstæður (til dæmis á Netinu), meta vegalengdir, ákveða hvort ætlunin er að ganga styttri hringleið eða lengri, eða fram og til baka, leggja síðan af stað, skoða umhverfið allt og upplifa það á sem áhrifalegastan hátt. Í raun skiptir veðrið litlu máli – það er okkar að búa okkur eftir aðstæðurm hverju sinni.
Íslenska flóran
Gróður - blóm, mosi og trjágróður ýmiskonar – er áhugaverður til skoðunar á hinum ýmsu árstímum. Enginn veit með vissu hvað íslenska flóran hefur að geyma margar tegundir af plöntum. Á hverju ári finnast allmargar nýjar tegundir, bæði af sveppum, fléttum og mosum sem ekki var áður vitað að væru til á Íslandi. Það er hins vegar sjaldgæfara að nýjar blómplöntur og byrkningar finnist.
Eftir því sem best er vitað í dag, á þessari stundu, munu um 5.400 villtar tegundir plantna vaxa í landinu.
Á Reykjanesskaganum er stundum sagt að þar sé einungis eitt blóm – og þá er mosinn ekki meðtalinn. Þetta blóm heitir stundum lambagras, stundum geldingahnappur, stundum bláklukka, stundum brönugras – allt eftir hvernig á það er litið. Þetta eina blóm vekur alltaf jafn mikla athygli, hvar sem til þess sést á annars fáskrúðugu landi. Þess vegna er svo mikilvægt að líta niður fyrir sig og í kringum sig þegar þegar gengið er um skagann. Horfa þarf á öll litlu blómin, lit þeirra og lögun. Hvoru tveggja segir til um nafn þess – hvert blómið er.
Sjálfum þykir mér mest koma til vetrarblómsins – þess er fyrst blóma blómstrar á vorin (venjulega í kringum 20. mars). Vetrarblómið boðar vorkomuna. Auðveldast er að vitja þess undir Hellunni við Kleifarvatn.
Á Íslandi eru nú skráðar:
- um 2000 tegundir af sveppum, auk um 700 tegundir sveppa sem eru fléttumyndandi, það er hafa þörunga í þjónustu sinni
- um 710 tegundir af fléttum
- um 600 tegundir af mosum
- um 430 tegundir villtra blómplantna
- um 40 tegundir af byrkningum
Hraunin
Stór hluti Reykjanesskagans er stór þakinn hraunum og eru þau klædd mosaþembu (hraungambra), mólendi eða jafnvel kjarri, allt eftir aldri hraunanna. Að öðru leyti ber mest á lyng- og heiðagróðri, mólendi eins og það er oftast kallað, en minna ber á graslendi eða jurtastóði þó það sé einnig til og þá aðallega í lautum og bollum. Einnig er töluvert kjarrlendi í brúnum.
Á seinni árum hefur sá trjágróður sem gróðursettur hefur verið sett svip á landið og jafnframt hefur annar gróður tekið verulegum framförum vegna skjóls og friðunar. Þó má sjá verulega gróðureyðingu á einstökum svæðum, svo sem í Krýsuvík og á Strandarheiði og upp með fjallshlíðum, svo sem í Brennisteinsfjöllum.
Allur gróður á sér ákveðinn líftíma. Þá deyr hann og annar gróður tekur við. Á meðan vinna vindar, vatn og frost á veikburða gróðrinum og gerir nýjum erfitt uppdráttar.
Á heimasíðu Náttúrustofu Reykjaness er fjallað um jarðfræði og gróður á Reykjanesi. Þar segir meðal annar: „Fyrir meira en 10.000 árum myndaðist Reykjanesskaginn út frá Lönguhlíðafjöllunum og Undirhlíðum, Öskjuhlíðin, Digranesið, Arnarnesið, Hálsarnir fyrir ofan Hafnarfjörð, Hvaleyrartanginn og Holtin, Vesturháls, Austurháls, Skógfellin, Þórðarfell, Þorbjarnarfell, Miðnesið og slík auðkenni. Síðan hlóðust hraungos allt í kring og fylltu inn á milli.
Að minnsta kosti tólf hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist, svo sem Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun og Svínahraun um 1000, Ögmundarhraun og Kapelluhraun 1151 og Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun um 1188. Svartahraun við Bláa lónið er frá 1226. Kapelluhraun er frá 1150. Afstapahraun er frá sögulegum tíma og Stampahraun og Arnarseturshraun eru frá 1226. Nýjasta er sennilega frá 14. öld, það er hraun við Hlíðarvatn frá árinu 1340.
Vötnin
Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum verið virk- ar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir (dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigígir, til dæmis Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla eins og Hvirfil og Kistufell.
Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi, en Kleifarvatn, sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum, er á sjálfu gosbeltinu. Vorkvöldin þar til myndatöku eru hrein dásemd – hvað þá norðurljósamyndefnin að vetrarlagi.
Víða á skaganum eru smávötn (Djúpavatn, Grænavatn, Seltjörn, Snorrastaðatjarnir, Hvaleyrarvatn og Urriðavatn) og tjarnir (Augun í Krýsuvík, Hraunsfells-Vatnsfells vatnstæðið, Fagradals-Vatnsfells vatnstæðið), bæði í lægðum og gígum. Vatnstæðin og sum vötnin hafa þótt aðlaðandi selstæði, til að mynda Hvaleyrarvatn, Seltjörn og Snorrastaðatjarnir sem og Kaldá við Kaldársel.
Þeir/þær/þau er vilja leita sér nákvæmari upplýsinga um áhugaverða staði á Reykjanesskaganum geta kíkt á www. ferlir.is. Eða sent fyrirspurnir á netfangið [email protected]. Auk þess má kynna sér meira um efnið á vefsíðunum http://borgarsogusafn.is/adgengi og http://www.thjodminjasafn.is/