Greinar / 5. júlí 2016

Ferðamaður í eigin landi

Einar2.JPG

Sumarið er runnið upp og margir verða á faraldsfæti víða um land. Vinsælast er að ferðast um landið í júlí og þá er bæði fjöldi Íslendinga og útlendinga í hámarki. Sumir býsnast yfir fjöldanum á vinsælustu ferðamannastöðunum og auðvitað er mikill fjöldi samankominn á mörgum stöðum, sérstaklega á Suðurlandi. Það dregur úr náttúruupplifun að deila stað með mörg hundruð eða þúsund manns og því hlýtur að vera eftirsóknarvert að fara um svæði þar sem eru færri ferðamenn. Ég vil því hvetja landsmenn til að hugsa lengra og velta fyrir sér hvort ekki eru staðir sem þeir eiga eftir að heimsækja og skoða.

Vestfirðir

Vestfirðir eru til dæmis gríðarlega spennandi svæði og þar hefur ferðamönnum fjölgað hægar en í öðrum landshlutum. Ef við skoðum sunnanverða Vestfirði þá má stoppa í Vatnsfirðinum og ganga á nokkrum stöðum og kannski sjá örn á flugi. Hægt er að kaupa nýju göngubókina um Barðastrandarhrepp og uppgötva Mórudal og fleiri fallega staði. Velja sólríkan dag og verja honum á Rauðasandi í sólbaði, skoða selalátrið með tugum sela og rölta upp að Sjöundá og skoða sögusvið eins þekktasta sakamáls síðustu alda á Íslandi.

Einar3.JPG

Það er svo ógleymanlegt að koma að Látrabjargi og spjalla við lundann þar sem hann situr í mestu makindum í eins metra fjarlægð og horfa á Snæfellsjökul í góðu skyggni. Í kringum sumarsólstöður má koma sér fyrir ofan við bjargið og fylgjast með sólsetri og heyra hvernig tugþúsundir fugla þagna allt í einu fyrir lúrinn sinn. Mörg undanfarin sumur hefur verið hægt að fylgjast með höfrungum í Patreksfirði og hnúfubak og hnísum í Arnarfirði.

Einar5.JPG

Selárdalur er seiðmagnaður með ógleymanlegum listaverkum Samúels Jónssonar og andi Gísla á Uppsölum svífur enn yfir vötnum. Náttúrulaugar í Vatnsfirði, Tálknafirði og Reykjafirði og sundlaugar á Patreksfirði, Tálknafirði, í Flókalundi og við Birkimel eru svo punkturinn yfir iið á þessu fallega svæði.

Norðanverðir Vestfirðir eru svo ekki síðri, hvort sem farið er um firðina, Djúpið eða Strandir, að ekki sé minnst á friðlandið á Hornströndum. Það er auðveldlega hægt að verja öllu sumrinu á Vestfjörðum og sjá eitthvað nýtt og spennandi á hverjum degi.

Norðurland vestra

Flestir telja sig þekkja Norðurland vel, en þegar nánar er að gáð er það hugsanlega bundið við tiltekin svæði. Til dæmis má keyra af þjóðveginum við Hvammstanga og nýta sér góða sundlaug þar, fara svo Vatnsneshringinn, stoppa á Illugastöðum og skoða sögusvið atburða sem leiddu til síðustu aftöku á Íslandi þegar Agnes og Friðrik voru tekin af lífi fyrir morðin á Natan Ketilssyni og Fjárdráps-Pétri. Hannah Kent skrifaði bók byggða á þessum atburðum og kvikmyndarétturinn var seldur til sama teymis og framleiddi Hunger Games myndirnar og fréttir voru fluttar af því í kjölfarið að Jennifer Lawrence ætti að leika Agnesi en ekkert hefur verið staðfest í þeim efnum.

Einar4.JPG

Ekki má gleyma selunum á Illugastöðum og þar er sérstakt skýli með sjónaukum til að skoða seli og fugla. Þegar komið er fyrir Vatnsnesið er hægt að skoða Hvítserk og fólk er hvatt til að fara göngustíginn niður í fjöru og skoða þennan sérstaka klett í nærmynd og jafnframt selalátrið í Sigríðastaðaósi í leiðinni. Eftir það má gera stutt stopp við Borgarvirki, fara í göngutúr við Kolugljúfur í Víðidal, Vatnsdalshóla og Þrístapa þar sem fyrrnefnd aftaka fór fram.

Einar6.JPG

Vatnsdalshólamegin við ána og aðeins inn með dalnum er Kattarauga, tjörn með tveimur fljótandi hólmum eða eyjum sem mjög sérstakt og skemmtilegt er að skoða. Á Blönduósi er Hrútey, sannkölluð perla, og einnig má ganga frá höfn- inni meðfram ströndinni að Bolabás og skoða fugla og seli. Spákonufellið er spennandi fjall ofan Skagastrandar og Kálfshamarsvík er þögul í dag miðað við 100 manna byggð áður fyrr. Í Skagafirði er bátsferð út í Drangey stórkostleg og bað í Grettislaug á eftir er ómissandi. Rölt upp á Reykjarhól við Varmahlíð er á færi flestra og Glaumbær, Víðimýrarkirkja og Hofsós sýna gamla tímann í skemmtilegu ljósi svo ekki sé minnst á Hóla í Hjaltadal.

Svo margt að skoða

Við eigum svo marga spennandi og fallega staði að ég hvet alla til að gerast ferðamenn og landkönnuðir í eigin landi. Margt er til á Netinu um þessa staði, árbækur Ferðafélags Íslands eru uppfullar af fróðleik og víða hafa verið gefnar út sérstakar göngubækur, sögukort eða annar fróðleikur um staðina. Wapp – Walking app er með lengri og styttri gönguleiðir víða um land og fólk er hvatt til að hlaða því á símana sína og fá þannig áreiðanlega leiðsögn, auk tengingar við staðsetningarbúnað og gott kort.

Góða ferð og góða skemmtun!

Einar Skúlason

Framkvæmdastóri Wapp

Nýtt á vefnum