Það er ekki áfangastaðurinn heldur ferðalagið, ekki markmiðið heldur leiðin. Hugmyndin er sú sama: Við lifum í raun og veru frá augnabliki til augnabliks en ekki í stökkum milli áfangastaða. Lífið er óslitin röð upplifana en ekki tómarúm milli sumarfría, helgarfría, verslunarferða eða upplifana sem vissulega geta verið tilhlökkunarefni, en látum ekki tilhlökkunarefnin stýra lífi okkar heldur reynum að njóta augnabliksins. Náttúran býður upp á ótal tækifæri til að lifa í núinu og njóta upplifunarinnar frá mínútu til mínútu. Ef maður gefur sér tíma til að vera en ekki bara að gera, þá má eyða löngum tíma á sama svæðinu við að skoða plönturnar – kannski með plöntubók við höndina – eða spinna ævintýraheima úr heimi kóngulóa, járnsmiða og annarra smádýra sem lifa í grassverðinum.
Vel heppnuð útivist getur verið þegar við jafnvel komumst varla úr sporunum því börnin eru út um allt að safna steinum eða í óðaönn að stífla læk. Ef til vill komumst við aldrei á tindinn sem ætlunin var að ná, en þá skiptir mestu að láta slíkt ekki á sig fá heldur skilja það sem börnin eru að kenna okkur og það sem þau eru sérfræðingar í: Að lifa í núinu og njóta hverrar mínútu í algleymi. Ef maður man eftir að njóta í stað þess að neyta, þá skiptir ekki máli hvort viðfangsefnið er einn af stórfossunum okkar eða bara lítil lækjarsytra með hrafna- klukku sem speglar sig í lygnu. Það skiptir heldur í raun engu máli hvort hæsta tindi er náð eða hvort við liggjum í fullkominni náttúrutengingu í grasbrekku og horfum upp í himininn. Reynum líka að skilja stundum við okkur staðalmyndirnar – að það þurfi að ganga Laugaveginn eða Fimmvörðuháls, fara Esjuna upp að Steini, á Súlur, á Hornstrandir – því þótt þessir staðir séu dásamlegir er það í raun upplifunin frá mínútu til mínútu sem færir okkur hamingju og kyrrð.
Líf nútímamannsins er kannski of mikið drifið áfram af væntingum og minningum. Leyfum okkur að lifa í núinu og taka eftir því. Til þess er útivist í íslenskri náttúru nærtæk leið.