Greinar / 2. febrúar 2013

Veðrið er betra en þú heldur!

Gildi hreyfingar fyrir heilbrigði okkar hefur margoft verið rannsakað. Flest vitum við að okkur er uppálagt að hreyfa okkur alla daga. Það ætti að vera okkur jafn sjálfsagður hlutur og að bursta tennurnar daglega.

Inni eða úti

En mörg okkar ná ekki að stunda reglubundna hreyfingu og eru ástæðurnar allmargar. Ein ansi algeng er að veðrið sé svo leiðinlegt eða vont. En versta veðrið er inni hjá okkur þegar við lítum út um gluggann og dæmum veðrið. Það er ekki eins slæmt og við viljum halda fram. Öll eigum við föt til skiptanna ef við blotnum og flest okkar eiga ullarpeysur, ullarsokka og húfu til að fara út með. Ég leyfi mér að fullyrða að ef fólk gæti valið á milli þess að æfa inni eða úti þá myndu nánast allir velja að æfa úti.

Nú, hvað er það sem okkur líkar svo vel við að vera úti? Ferskt loft, fallegt umhverfi, ótal möguleikar á æfingum, miklir sigrar, vera laus við stressið um að falla inn í hópinn, hugleiðsla, jákvæð upplifun, að komast burt frá hversdagsleikanum og amstrinu. Allt þetta hefur sannarlega mjög góð áhrif á andlegan líðan.

Frisk i Naturen

Verkefnið Frisk i Naturen byrjaði út af áhyggjum regnhlífasamtaka á Norðurlöndunum vegna þess hve litla athygli náttúran og útivera fengu út frá lýðheilsusjónarmiðum. Verkefnið var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og voru haldnar ráðstefnur, fundir og upplýsingum miðlað. Verkefnið hafði með fjögur meginatriði að gera:

1. Útikennslu í skólum.
2. Líkamlega hreyfingu í formi hreyfiseðla/ forvörn og meðhöndlun heilbrigðismála.
3. Græn svæði í borg.
4. Útiveru og andlega heilsu.

Verkefnið fólst mikið í því að miðla upplýsingum á milli landa og hjálpast að við þessi meginatriði. Við Íslendingar tókum þátt í verkefninu og var undiritaður einn af þeim þátttakendum. Það sem okkur skortir er skipulagið sem hin Norðurlöndin hafa. Við erum langt á eftir þessum frændum okkar og frænkum þegar kemur að skipulagðri útiþjálfun og útiveru. Þar hafa verið til samtök í áratugi sem hafa það að helsta markmiði að auka útiveru og útiþjálfun hjá fólki. Þessi samtök eru oft í góðum tengslum við ríki, sveitarfélög og mörg önnur áhrifasamtök, s.s. ferðafélög, skógræktarfélög og skíðafélög.

Haldið var málþing tengt þessu verkefni hér heima og var mjög vel mætt á það. Fenginn var erlendur fyrirlesari, dr. William Bird, sem hefur verið mikill talsmaður hreyfingar og þá sérstaklega utandyra. Mjög skemmtilegur og fræðandi læknir sem hefur mikla trú á því verkefni sem Frisk i Naturen lagði upp með. Hann hefur sett á laggirnar hin ýmsu prógrömm: Walking for Health, Green Gym, Blue Gym, Health Forcasting og Beat the Street. Fólk með ólíkann bakgrunn mætti og voru fínar umræður og erindi. En hvað svo? Það er enginn sem heldur utan um þetta hjá okkur og tekur við keflinu. Lýðheilsustofa, nú Landlæknisembættið, hélt utan um þetta, gerði sitt besta og gerði það vel, en keflið er í lausu lofti núna. Sjálfsagt væri að heppilegast að Landlæknisembættið eða Umhverfisstofa sinntu þessu verkefni. En aðsjálfsögðu þarf áhuga og peninga til að halda þessu úti.

Margt í boði

Það er margt sem við getum lært af nágrannalöndum okkar, og þó svo að við Íslendingar eigum ekki til samtök eins hin Norðurlöndin þá er margt í boði fyrir fólk sem hefur áhuga á útiþjálfun og útiveru. Það hefur til dæmis verið algjör sprenging hjá ferðafélögunum (FÍ og Útivist), enda hafa þau verið dugleg við að bjóða upp á skipulagðar ferðir allt árið í kring. Hinir ýmsu hópar eru þar í boði: hjólahópar, gönguhópar, útivistarrækt, ferðafélög barnanna og það nýjasta: bakskólinn. Þessi tvö félög eru algjörlega til fyrirmyndar og eiga heiður skilinn. Svo er margt annað í boði, hinir ýmsu skokkhópar, stafganga, golf, folf, ratleikur, skíði,úti- þjálfun hjá einstökum þjálfurum, hjólreiðar og kajakar svo eitthvað sé nefnt. En það sem okkur vantar eru samtök sem halda utan um málefni útivistar í formi þjálfunar og tómstundaiðju. Áhrifarík samtök sem stuðla að aukinni útiveru og hreyfingu í samvinnu við sem flesta.

Útiþjálfun á Reykjalundi

Útiþjálfun hefur verið stór þáttur í endurhæfingunni á Reykjalundi í um það bil 30 ár, eða síðan Heilsuþjálfunardeildin var sett þar á laggirnar. Reykjalundur er svo heppinn að vera staðsettur þar sem hann er í dag, því umhverfið er frábært fyrir útiþjálfun. Það hefur verið algjört gæfuspor á þeim tíma að fá þessa staðsetningu fyrir tæpum 70 árum síðan.

Enn í dag er Reykjalundur staðsettur nálægt náttúrunni og í rólegu umhverfi þrátt fyrir að vera mjög nærri Reykjavík og einnig hefur Mofellsbær stækkað mjög. Sú útiþjálfun sem stunduð er á Reykjalundi eru: göngur, fjallgöngur, stafganga, skokk, hjólreiðar, ratleikur, gönguskíði, bátar, golf, folf, og ýmis útiþjálfun (leikfimi). Að sjálfsögðu hefur veðrið eitthvað að segja um þátttöku og möguleika til að stunda hina ýmsu útiþjálfun, en ávallt er reynt að fara út og stunda þjálfun. Er það algjör undantekning ef útiþjálfun er látin falla niður vegna veðurs.

Bætt aðstaða í höfuðborginni

Það hefur verið gert flott átak á höfuðborgarsvæðinu í að bæta göngu- og hjólastíga. Það er alls ekki búið og sífellt verið að bæta við. Það mun ýta undir aukna hreyfingu og útiveru hjá fólki, engin spurning. Og það mun hafa í för með sér margar jákvæðar afleiðingar fyrir okkur sjálf og okkar nánasta umhverfi.

Já, margt flott hefur verið gert hér en ansi oft detta góðar hugmyndir upp fyrir. Langar mig að nefna sem dæmi hina frábæru hugmynd um Hreyfistrætóinn, sem var verkefni í samvinnu grunnskóla og Félags íslenskra sjúkraþjálfara. En eins og svo oft áður var þetta bara tímabundið átak og hefur ekki verið haldið áfram svo að ég viti. Þetta hefði svo mikil snjóbolta- áhrif á okkar samfélag og að sjálfsögðu ætti Hreyfistrætóinn að vera hluti af skólakerfinu.

Svona rétt í lokin vil ég minna á að tilraunaverkefnið með Hreyfiseðlana er enn í gangi. Ég bind miklar vonir við að það nái fótfestu hér, en það mun þurfa mikinn stuðning innan heilbrigðiskerfisins til að það gangi upp. Ekki skortir nú vísindin til að bakka upp gildi hreyfingar fyrir meðferð við hinum ýmsu kvillum. Ég sakna þess að sjá ekki heilsugæslustöðvarnar taka þátt í því fyrirkomulagi að hafa gönguhópa hjá sér. Þetta er eitt auðveldasta æfingarform sem til er og ætti ekki að þurfa kosta heilsugæsluna neitt aukalega.

Hjalti Kristjánsson

Heilsuþjálfi

Nýtt á vefnum