Miklar breytingar hafa orðið á lifnaðarháttum fólks á Íslandi sem og í hinum vestræna heimi á undanförnum tveimur til þremur áratugum. Afleiðingar þessara breytinga eru m.a. aukning á heilsufarstengdum vandamálum meðal barna og unglinga, fullorðinna, sem og aldraðra. Fjölmargar rannsóknir, m.a. vísindamanna við Háskóla Íslands, á undanförnum árum hafa sýnt að heilsufarsvandamálum sem tengjast nútíma lifnaðarháttum hefur fjölgað og er þetta samþætt og flókið vandamál. Ofþyngd, hreyfingarleysi, og óhollt mataræði eiga þar sennilega stærstan þátt. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða hvernig lifnaðarhættir fólks voru fyrir u.þ.b. 20 til 30 árum og þá einkum að skoða hvernig þjóðfélagið í „gamla daga“ var uppbyggt og skipulagt.
Á sjöunda áratug síðustu aldar var það nokkuð algengt að móðirin vann ekki utan heimilis, í það minnsta ekki á meðan börnin voru lítil og þurftu umhyggju. Móðirin sá um matargerð, hugsaði um börnin, sá um flesta þætti heimilisins og samverustundir fjölskyldunnar voru virkar og reglulegar. Umhverfi barnanna í „gamla daga“ var aðgengilegt og einfalt. Á þessum tímum léku flest börn sér úti í náttúrunni og nánasta umhverfi heimilisins, kyrrsetuhvetjandi þættir eins og sjónvarp og tölvur voru ekki til staðar og má í þessu sambandi nefna að ekki voru sjónvarpsútsendingar í júlí og aldrei á fimmtudögum allt árið um kring. Hreyfingarleysi barna þekktist varla og mjög fá börn voru of þung, hvað þá of feit. Almennt séð voru efnishyggja og lífsgæðakapphlaup sennilega ekki eins ríkjandi þættir í lífi fólks og raunin er í dag.
Á Íslandi og í hinu vestræna þjóðfélagi hefur á undanförnum árum þróast lífsstíll sem einkennist af aukinni efnishyggju þar sem aukið álag og meiri kröfur eru gerðar til flestra þjóðfélagsþegna. Krafan um að ná árangri og frama í starfi og á sama tíma að eiga börn og fjölskyldu er hávær, og mikill hraði ríkir í frekar flóknu og stressuðu þjóðfélagi. Flestir grunnþættir í lífi fjölskyldunnar eins og matargerð eru að stórum hluta í höndum annarra en foreldra, virkum og reglubundnum samverustundum fjölskyldunnar hefur fækkað og kynslóðir eiga minna sameiginlegt en áður tíðkaðist. Í hinu tæknivædda þjóð- félagi okkar eru kyrrsetuþættir mjög ríkjandi í lífi fólks og lífsmunstur fólks einkennist oft af miklu sjónvarpsáhorfi og löngum setum við tölvur, ýmist til að leika sér, vafra um á netinu eða nota samskiptavefi. Hið manngerða umhverfi sem við lifum í gerir það einnig að verkum að fólk þarf að nota farartæki til að komast leiðar sinnar, því skipulag margra íbúahverfa er þannig að ekki er hægt að komast leiðar sinnar á annan hátt nema á bíl. Það að stunda líkamsrækt og hreyfa sig er því ekki alltaf svo auðvelt í erilsömu nútíma þjóðfélagi og það krefst oft á tíðum mikillar skipulagningar og getur á stundum verið flókin og umfangsmikil aðgerð.
Vísindalegar staðreyndir
Afleiðingar neikvæðra breytinga á lifnaðarhætti fólks í hinum vestræna heimi eru skýrar en talið er að rúmlega þriðjungur íbúa heims nái ekki ráðlögðu lágmarki daglegrar hreyfingar. Á Íslandi vantar einnig nokkuð upp á að þessum lágmörkum sé náð en lágmarkið er hreyfing í 30 mínútur á dag. Íslenskar rannsóknir sýna að um 15 mínútur á dag vantar upp á til að Íslendingar nái alþjóðlegum ráðleggingum. Árið 2009 var talið að fimmti hver jarðarbúi hreyfði sig ekki nægilega mikið. Þrátt fyrir að mikil þekking sé til staðar um jákvæð áhrif af reglubundinni hreyfingu fer hún minnkandi. Aukið hreyfingarleysi fólks hefur í för með sér aukna tíðni ofþyngdar og offitu og á það ekki síst við um börn og unglinga, en einnig fullorðna og eldri borgara. Fjölmargar erlendar rannsóknir sem og rannsóknir unnar af vísindamönnum Háskóla Íslands hafa á undanförnum árum sýnt að líkamleg hreyfing barna fer minnkandi strax við 6 til 8 ára aldur og þessi neikvæða þróun heldur síðan áfram fram eftir öllum aldri ef ekki er spyrnt við fótum.
Hreyfing eldri unglinga og ungs fólks sem er rétt komið yfir tvítugt er verulegt áhyggjuefni, en íslenskar rannsóknir sýna að einungis þriðji hver 18 ára unglingur uppfyllir ráðleggingar um daglega hreyfingu. Nýleg íslensk langtímarannsókn hefur einnig sýnt að bæði líkamlegt þrek og hreyfing ungmenna yfir átta ára tímabil (frá 15 til 23 ára) minnkaði um allt að 50%. Í þessari rannsókn kom einnig í ljós að við 23 ára aldur var hreyfing í raun svo lítil að hana mátti bera saman við hreyfingu einstaklinga sem voru komnir hátt á áttræðisaldur. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að gefa því gaum að hreyfimynstur og þrek kynjanna er ólíkt og er það ekki tengt neinu ákveðnu aldursskeiði. Karlar hreyfa sig yfirleitt meira og eru með betra líkamlegt þrek en konur, en þær stunda yfirleitt hreyfingu með minni ákefð í meira mæli en karlar.
Langtímarannsóknir sem hafa skoðað þróun og breytingar á ólíkum heilsufarsþáttum hjá einstaklingum hafa sýnt mikil tengsl á milli fyrri lifnaðarhátta fólks og líkunum á mismunandi heilsufarsvandamálum seinna á lífsleiðinni. Í rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið við Háskóla Íslands hefur verið sýnt fram á að þeir einstaklingar sem strax á unga aldri eru of þungir eða of feitir, eru í meiri hættu á að lenda í erfiðleikum með líkamsþyngd og/eða holdarfar seinna á lífsleiðinni. Sama má segja um einstaklinga sem hreyfa sig mikið sem börn og/eða unglingar, þeir einstaklingar eru líklegri til að stunda reglulega hreyfingu seinna í lífinu. Nýlegar rannsóknir sýna einnig að það fólk sem notaði mikinn tíma á unga aldri í að horfa á sjónvarp eða vera í tölvuleikjum er líklegra til að nota mikinn tíma í sambærilegi hluti seinna í lífinu.
Í þessu samhengi skiptir einnig umhverfið, fjölskyldan og vinir máli því þeir einstaklingar sem eiga foreldra sem eru duglegir að hreyfa sig eru líklegri til að hreyfa sig en þeir einstaklingar sem eiga foreldra sem eru kyrrsetufólk. Þessi lýsing undirstrikar svo ekki verður um villst að ákveðnir lifnaðarhættir fólks strax á barns aldri geta haft umtalsverða þýðingu fyrir viðkomandi einstakling seinna í lífinu. Því er mjög mikilvægt að einblína á jákvæða heilsuhegðun strax á fyrstu árum lífsins og viðhalda henni allt lífið til að fyrirbyggja neikvæða þróun heilsufars. Á þann hátt eykst heilsulæsi fólks sem þýðir að við erum meðvitaðri um hvað er hollt og heilsusamlegt og tökum ákvarðanir út frá þeim forsendum. Í þessu samhengi er mikilvægt að draga ekki of sterkar ályktanir út frá einstökum lífsstílsþáttum og nauðsynlegt er að skoða fleiri heilsufarsþætti samtímis. Almennt er viðurkennt að neikvæðum lifnaðarháttum fólks, t.d. hreyfingarleysi, fylgja ýmsir áhættuþættir og lífsstílssjúkdómar sem mikilvægt er að skoða í tengslum við aðra þætti eins og svefnvenjur, félagslega þætti sem og andlega þætti.
Aðgerðarleysi stjórnvalda
Heilbrigðis- og menntayfirvöld um allan heim hafa á undanförnum árum reynt að sporna við þessari neikvæðu þróun með ýmsum aðgerðum, en án árangurs. Fjölmargar aðgerðir, sem miða að því að lækna eða meðhöndla neikvæðan lífsstíl fólks, sýna miðlungsárangur og oft verri langtímaárangur. Flestar þessara aðgerða eru skammtíma aðgerðir, herferðir eða áróður, þar sem reynt er að hafa áhrif á hegðun fólks. Rannsóknir hafa á síðustu árum sýnt að aðaláherslan eigi að vera á langtíma og vel skipulagðar forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir frekar en að nota ákveðin meðferðarúrræði. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að einblína á breytingar á hinum offitustuðlandi og hreyfihamlandi þáttum í þjóðfélaginu og umhverfi okkar, samhliða því að stuðla að markvissum breytingum á atferli og hegðun einstaklingsins. Lykilatriðið er að reyna að hafa bein áhrif á umhverfi, hreyfivenjur og hegðun fólks meðal annars með því að auka heilsulæsi og þekkingu þess og þá um leið auka líkurnar á að fólk beri meiri ábyrgð á eigin heilsu.
Aðgerðir mennta- og heilbrigðisyfirvalda á Íslandi til að sporna við auknu hreyfingarleysi hafa flestar verið ómarkvissar og tilviljunarkenndar. Tilfinnanlegur er skortur á skýrri aðgerðaáætlun og framtíðarsýn. Fjölmargar rannsóknir, bæði þverrsniðsrannsóknir og íhlutunarrannsóknir, hafa verið framkvæmdar við Háskóla Íslands sem og aðra háskóla, sem hafa sýnt fram á með vísindalegum vinnubrögðum hvað þarf að gera til að sporna við auknu hreyfingarleysi. Þrátt fyrir að vísindalegar staðreyndir liggi fyrir þá hafa ráðherr
ar kappkostað – og það hefur í raun verið „í tísku“ hjá stjórnmálamönnum – að skipa starfshópa og ófáar skýrslur hafa verið skrifaðar þar sem stöðu mála er lýst og settar eru fram tillögur um aðgerðir, en hægt miðar og fáar markvissar aðgerðir hafa litið dagsins ljós. Þrátt fyrir aðgerðaleysi stjórnvalda þá hefur ýmislegt áunnist á undanförnum árum og í því samhengi er áhugavert að velta fyrir sér hvað hefur gerst og hvað þarf að gera t.d. í grunn- og framhaldsskólum, hjá almenningi og meðal eldri aldurshópa.
Grunnskólinn
Rannsóknir hafa sýnt að flest þau börn og unglingar sem uppfylla ráðleggingar um daglega og reglubundna hreyfingu hreyfa sig bæði á vikum dögum og um helgar. Þau börn sem hreyfa sig lítið eða ekki nægilega mikið hreyfa sig oftast eingöngu í skólanum og ekkert um helgar. Þetta undirstrikar að flestir grunnskólar og kennarar passa upp á að börnin fái þá hreyfingu sem lagt er upp með í skólanámskrá. Í ljósi þeirra samfélagsbreytinga sem hafa orðið á undanförnum árum þá er engu að síður mikilvægt að gera enn betur og má í því sambandi nefna að:
- mikilvægt er að fjölga tímum sem tengjast heilsueflingu í skólum
- allir nemendur hreyfi sig 60 mín. á dag
- efla og styrkja þekkingu kennara á heilsuuppeldi og heilsulæsi
- auka vitund, þekkingu og heilsulæsi nemenda
Framhaldsskólinn
Eins og fram hefur komið þá hafa margar rannsóknir sýnt að hreyfing meðal framhaldsskóla nemenda fer hratt minnkandi með hverju árinu sem líður og samhliða versnar líkamlegt þrek þeirra, kyrrseta eykst og vægi annarra neikvæðra áhættuþátta vex. Þessi þróun kemur ekki á óvart í ljósi þeirrar stefnu sem menntaog menningamálaráðuneytið hefur framfylgt undanfarin ár. Stjórnendur framhaldsskóla hafa komist upp með það árum saman að ráða ekki íþróttakennara til að sinna kennslu á sviði íþrótta og heilsuræktar, en þess í stað hefur þessari kennslu verið úthýst og einkaaðilar út í bæ hafa séð um þennan þátt í skólastafinu.
Þetta viðhorf til kennslu á sviði íþrótta og heilsuræktar kemur enn betur í ljós þegar nýlegar tillögur menntaog menningarmálaráðuneytisins eru skoðaðar en þar er lagt til að fækka kennslustundum í líkams- og heilsurækt í framhaldsskólum um 50-70% samfara styttingu náms til stúdentsprófs. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þessar tillögur sem eru algjörlega á skjön við það sem mælt er með, enda munu þær líklega valda umtalsverðu heilsutapi íslensku þjóðarinnar þegar litið er til lengri tíma. Framhaldsskólar eru í lykilhlutverki og geta haft veruleg áhrif á hreyfingu og velferð nemenda og því þarf í raun að fjölga íþrótta- og heilsuræktartímum en ekki fækka þeim.
Í umfjöllun um framlag hins opinbera til heilsueflingar og fyrirbyggjandi aðgerða í grunn- og framhaldsskólum er mikilvægt að benda á framúrskarandi framlag Embættis landlæknis. Embættið hefur lagt mikla áherslu á að auka og styrkja heilsueflingu á þessum skólastigum og meðal annars verið með ákveðin verkefni í gangi eins og Heilsueflandi grunnskóla og Heilsuefland í framhaldsskóla.
Íþrótta og æskulýðsstarf
Félagasamtök eins og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Landsamtök skáta og fleiri standa fyrir afar mikilvægu forvarnar- og lýðheilsustarfi í íslensku samfélagi, bæði meðal barna, ungmenna sem og fullorðinna. Þessir aðilar eru allir að sinna sínum verkefnum vel en því miður þá er stuðningur opinberra aðila mjög lítill og langt frá því sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur oft saman við, eins og Norðurlöndin. Hér þurfa stjórnvöld að auka sitt framlag verulega.
Almenningur
Á síðasta áratug hefur orðið mikil heilsueflingarvakning meðal almennings. Heilsuræktargeirinn hefur vaxið mjög hratt og margir nýta sér þann möguleika til að hreyfa sig og stunda líkamsrækt. Einnig hefur fólk verið duglegt að koma á fót hópum þar sem það getur stundað hreyfingu og um leið notið félagskapar og má í því sambandi nefna mismunandi hlaupahópa og gönguhópa. Með tilkomu bættrar aðstöðu til hjólreiða í mörgum sveitarfélögum þá hefur orðið algjör sprenging í notkun reiðhjóla bæði til og frá vinnu og einnig í frístundum. Þótt margir einstaklingar í okkar nútímasamfélagi hafi tíma og tækifæri til að stunda hreyfingu þá eru á hinn bóginn margir sem ekki hafa getu eða ráðrúm til þess. Þessi hópur á oft á tíðum erfitt uppdráttar því skipulögð og markviss heilsuefling hjá fyrirtækjum og stofnunum er mjög stutt á veg komin á Íslandi, sem þýðir að fáir atvinnurekendur gefa svigrúm til að stunda hreyfingu á vinnutíma eða styrkja hana fjárhagslega. Að vísu á þetta einnig almennt við í heiminum en talið er að eingöngu 7% fyrirtækja í Bandaríkjunum vinni markvisst að heilsueflingu og fyrirbyggjandi aðgerðum meðal sinna starfsmanna.
Aldraðir
Eins og allir vita þá mun eldri einstaklingum fjölga mjög hratt á næstu árum. Því er afar mikilvægt að stjórnvöld og sveitarfélög setji fram sameiginlegar áætlanir um hvernig hægt verði að tryggja daglega hreyfingu þessa aldurshóps. Jafnframt þarf að endurskipuleggja þjónustu fyrir þennan aldurshóp og setja hreyfingu í forgang, og efla félagstengsl með það að markmiði að gefa eldri einstaklingum tækifæri á að taka þátt í fjölbreyttri heilsurækt og þar með auka vellíðan. Markvissar aðgerðir sem miða að því að auka hreyfingu og viðhalda góðri heilsu þessa aldurshóps geta sparað umtalsverða fjármuni í félags- og heilbrigðiskerfinu þegar fram líða stundir.
Að lokum, í ljósi breyttra lifnaðarhátta og hvernig samfélagið er uppbyggt þá er afar mikilvægt að auka vægi heilsuuppeldis í okkar þjóðfélagi, í skólum, á vinnustöðum og á heimilum. Efla þarf ábyrgð, þekkingu og heilsulæsi fólks og þar með koma á meiri SJÁLFBÆRNI á sviði heilbrigðis, en þetta næst m.a. með því að efla vitund og skilning fólks á umhverfisþáttum sem hafa áhrif á heilsu þess.