Greinar / 4. júlí 2022

Úr viðjum vanans

Það getur virst yfirþyrmandi verkefni að takast á við lífsstílinn. Það getur hljómað eins og allir eigi að fara út að hlaupa eða í ræktina og á okkur dynja misvísandi skilaboð um að eitthvað sé ofurfæða og annað eigi að forðast. Svo verðum við auðvitað að sofa nóg og huga að andlegri heilsu.

Jafn óreiðukennd og umræðan getur virst okkur er það þó alveg óumdeilt að lífsstíll hefur gríðarleg áhrif á heilsu. Málið er bara að það eru engar töfralausnir til. Lífsstíll er ekkert annað en samansafn lítilla ákvarðana sem við tökum á hverjum degi. Með því að bæta þessar ákvarðanir mun mikið ávinnast hvað varðar heilsu og líðan.

Þá erum við komin að kjarna málsins: ákvörðunum. Við tökum fleiri ákvarðanir en við gerum okkur grein fyrir yfir daginn, því við erum föst í viðjum vanans. Við setjumst kannski niður, kveikjum á sjónvarpinu, náum í súkkulaði, horfum á einn spennuþátt í viðbót þótt klukkan sé orðin margt og sækjum okkur meira súkkulaði.

Án þess að taka eftir því áttum við þarna mörg tækifæri til að gera þessa kvöldstund hollari og betri fyrir okkur sjálf. Hvað með að reyna að láta sér alltaf detta í hug einhvern hollari valkost og velja svo á milli í stað þess að keyra á sjálfstýringunni? Dæmið hér að ofan gæti þá hljómað svona: Sjónvarp eða göngutúr, súkkulaði eða ávöxtur, spennuþáttur fyrir svefninn eða bara fara beint í háttinn?

Besta hvatningin felst í gleðinni yfir því að stíga fyrstu skrefin. Gerum það fyrir okkur sjálf að gefa okkur hollari valkost og gleðjumst þegar við getum valið hann. Við skulum heldur ekki álasa okkur þegar það mistekst heldur halda áfram að bæta allar litlu ákvarðanirnar sem geta bætt árum við lífið og lífi við árin.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum