Greinar / 15. júlí 2019

Tengsl streitu og áfalla við hjarta- og æðasjúkdóma

Í dag er flestum ljóst að lífsstíll sá er við tileinkum okkur hefur mótandi áhrif á heilsu okkar og lífsgæði. Þannig höfum við sjálf ótal tækifæri til að auka vellíðan og draga úr líkum á sjúkdómum.

Það er að mestu í okkar höndum hvernig við borðum, hvort við hreyfum okkur, hvort við reykjum, og hvort og hvernig við notum áfengi. Ýmsum öðrum lífsstílsþáttum er þó erfiðara að stýra. Gott dæmi um þetta er streita. Þegar kemur að lýðheilsu er þetta áhyggjuefni því streita hefur sennilega meiri áhrif á líf okkar og heilsu en við gerum okkur grein fyrir.

Margar rannsóknir benda til þess að tilfinningaleg streita geti aukið líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum. Langvinn streita hækkar gjarnan blóðþrýsting og getur haft neikvæð áhrif á blóðfitur. Streita ýtir undir æðasamdrátt, hvetur til bólgusvörunar í æðakerfinu, eykur hættuna á blóðsegamyndun, hjartaáföllum og skyndidauða.

Fyrsta skrefið í baráttunni við streituna er að skilja eðli hennar og áhrif á heilsu okkar og lífsgæði. Það er forsenda þess að við getum tekist á við vandann.

Streita, streituvaldar og streituviðbrögð

Einkenni sem rekja má til streitu eru ein algengasta ástæða þess að fólk leitar læknis. Hluti vandans er hins vegar að hugtökin „streita“ eða „stress“ eru notuð á marga mismunandi vegu. Þetta leiðir oft á tíðum til misskilnings.

Það er ekki einfalt að að skilgreina streitu og næstum ómögulegt er að setja á hana tölulegan mælikvarða. Þar að auki er oft tímafrekt og flókið að takast á við hana. Þetta eykur líkurnar á að við horfum framhjá vandamálinu og jafnvel afneitum því. Við lítum oft á streitu sem eitthvað ósýnilegt eða óáþreifanlegt, eitthvað sem kemur utan frá og við getum ekki brugðist við.

Til þess að skilja eðli og umfang streitu þurfum við að gera greinarmun á „streituvaldinum“ sem má líta á sem kveikjuna að streitunni og streituviðbrögðunum sem eru svar líkamans við hinu tiltekna áreiti.

Streituvaldurinn er oftast utanaðkomandi þáttur sem kemur okkur úr jafnvægi. Þetta getur verið bein aðsteðjandi hætta eins og bíll sem nálgast á mikilli ferð þegar við erum að fara yfir götu. Streituvaldurinn getur líka verið allt annars eðlis, t.d. miklar annir í vinnu, hjónabandserfiðleikar eða ástvinamissir. Svörun líkamans eða streituviðbrögðin eru hins vegar nokkuð svipuð, hver sem streituvaldurinn er.

Þegar streituvaldur kemur okkur úr jafnvægi ræsast ýmis varnarkerfi líkamans. Virkni „sympatiska“ hluta ósjálfráða taugakerfisns eykst og nýrnahetturnar framleiða meira af streituhormónum eins og adrenalíni og kortisóli. Við getum ímyndað okkar aðstæður þar sem við mætum grimmu villdýri. Við þessar aðstæður eru streituviðbrögðin fullkomlega eðlileg og geta bjargað lífi okkar. Villidýrið er streituvaldurinn, svar líkamans eru streituviðbrögðin. Kortisól og adrenalín streyma út í blóðið. Hjartsláttarhraði eykst og blóðþrýstingur hækkar. Sykurmagn í blóði hækkar því við þurfum á einfaldri orku að halda. Öndun verður hraðari því vefir líkamans kalla á meira súrefni. Vöðvaspenna eykst. Öll skilningarvit eru fullvirkjuð. Við erum tilbúin til að flýja eða berjast til að bjarga lífi okkar.

Af þessu er augljóst að streituviðbrögðin eru mikilvægur hluti varnarkerfis líkamans og gera okkur kleift að bregðast við aðsteðjandi hættu. Við verðum einbeitt, orkumikil og á varðbergi.

Sömu líkamlegu viðbrögð geta einnig verið hjálpleg við aðrar kringumstæður. Þau koma að gagni við krefjandi aðstæður í vinnu þar sem leysa þarf erfið verkefni. Þau hjálpa ræðumanninum í pontunni, leikaranum á sviðinu, lækninum í skurðaðgerðinni og íþróttamanninum á hlaupabrautinni.

Hins vegar kemur oft að tímapunkti þar sem streituviðbrögðin verða svo mikil eða langdregin að þau fara að hafa skaðleg áhrif á heilsu okkar. Við þessar kringumstæður getur streitan dregið úr virkni okkar og valdið vanlíðan. Lífsgæði versna og hættan eykst á ýmsum sjúkdómum svo sem hjarta og æðasjúkdómum.

Hvernig upplifum við streitu?

Hvað á fólk við þegar það telur sig þjást af streitu?

Stundum kvörtum við yfir sjálfum streituvaldinum. Við tölum um persónuleg áföll, fjármálavanda, erfiðleika í hjónabandi eða slæmt vinnuumhverfi.

Mikilvægt er að átta sig á því að streituvaldar sem eru i eðli sínu jákvæðir geta einnig valdið streituviðbrögðum. Kannski erum við að skipuleggja fermingarveislu eða stórafmæli. Kannski ertu að fara í sjónvarpsviðtal vegna áfanga sem þú hefur náð. Þótt þetta séu jákvæðir hlutir geta þeir verið streituvaldar. Við getum upplifað streitueinkenni eins og einbeitingarörðugleika, svitamyndun, hraðan hjartslátt og svefnörðugleika.

Stundum tengjum við hins vegar kvartanir okkar alls ekki við streitu. Í staðinn kvörtum við um líkamleg einkenni eins og hjartsláttartruflanir, kviðverki, ógleði, niðurgang, öndunarerfiðleika og svefntruflanir.

Það er mikilvægt að gera greinarmun á bráðum og langvinnum streituvöldum. Dæmi um bráða streituvalda eru náttúruhamfarir eins og jarðskjálftar og snjóflóð, skyndilegur ástvinamissir, brottrekstur úr vinnu eða skyndileg fjárhagsleg áföll. Dæmi um langvinna streituvalda eru mikið vinnuálag, óhamingja í hjónabandi og langvinnir fjárhagserfiðleikar.

Viðbrögð við mismunandi streituvöldum eru ólík og einstaklingsbundin. Við erum einnig misvel í stakk búin til að takast á við streituvaldinn. Einstaklingi sem hefur sterk fjölskyldu- eða vinatengsl gengur oft betur að takast á við streituvalda en þeim sem er félagslega einangraður. Þannig er félagsleg einangrun þekktur áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma.

Tengsl streitu og hjarta- og æðasjúkdóma

Faraldsfræðilegar rannsóknir bentu á sínum tíma til þessa að hegðunarmynstur sem kallað er tegund A tengdist aukinni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Einstaklingar með slíkt hegðunarmynstur hafa oft á tíðum tilhneigingu til að gera of mikið á of stuttum tíma og hegðun þeirra einkennist gjarnan af miklum ákafa en stundum líka óþolinmæði og gremju. Þessar rannsóknir hafa þó verið umdeildar og hugsanlegt er að aðrir þættir í fari þessara einstaklinga hafi villt um fyrir rannsakendunum.

Sterkari vísbendingar eru hins vegar um að fylgni sé á milli sálfélagsfræðilegra þátta eins og félagslegrar einangrunar, ástvinamissis og þunglyndis annars vegar og hættunnar á hjartaáföllum og skyndidauða hins vegar.

Dýrarannsóknir

Dýrarannsóknir hafa gefið talsverðar vísbendingar um þátt tilfinningalegrar streitu í tilurð hjarta- og æðasjúkdóma. Árið 1991 voru birtar niðurstöður athyglisverðrar rannsóknar á öpum. Helmingur apanna var látinn dvelja í sama umhverfi með öpum sem þeir þekktu. Hinn helmingurinn var færður á milli apahópa með reglulegu millibili í því skyni að skapa streitu. Síðarnefndi hópurinn sýndi mun meiri merki um æðasjúkdóm í lok rannsóknarinnar.

Tengsl streitu og hjarta- og æðasjúkdóma hafa síðan verið staðfest í fjölmörgum dýrarannsóknum.

Rannsóknir á mönnum

Faraldsfræðilegar rannsóknir benda til þess að tengsl séu á milli tilfinningalegrar streitu og hættunnar á hjarta- og æðasjúkdómum hjá mönnum. Oft er þó erfitt að sanna orsakasamband í slíkum rannsóknum.

Allmargar rannsóknir benda til þess að einstaklingar með þunglyndi eða tilhneigingu til félagslegra yfirráða og reiði séu í aukinni hættu á að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma.

Rannsóknir benda til að eftirtaldir sálfélagsfæðilegir þættir tengist aukinni hættu á hjarta- og æðaáföllum: þunglyndi, kvíði, félagsleg einangrun og bráð eða langvinn streita.

Tengslin geta tengst beinum og óbeinum áhrifum þessara þátta. Til dæmis er vel þekkt að reykingamenn auka reykingar þegar tilfinningalegt álag er til staðar. Þá getur streita einnig haft neikvæð áhrif á blóðfitur.

Bráðir streituvaldar

Rannsóknir hafa sýnt að mestar líkur eru á hjartaáföllum og skyndidauða milli klukkan sex að morgni og fram að hádegi. Talið er að þetta tengist aukinni virkni sympatíska hluta ósjálfráða taugakerfisins á þessum tíma sólarhringsins en þá er framleiðsla streituhormóna hvað mest.

Athyglisvert er að á þessum tíma sólarhings, þegar við erum tiltölulega nýkomin á fætur, er blóðþrýstingur gjarnan hæstur og púls hraðastur.

Svokölluð INTERHEART rannsókn sýndi að streitutengd áföll af ýmsu tagi eru algengur undanfari hjartaáfalla. Dæmi um slík áföll eru ástvinamissir, skilnaður, fjölskylduerjur, starfsmissir og áföll í viðskiptum.

Þekkt sænsk rannsókn sýndi að sjúklingar sem nýlega höfðu greinst með krabbamein voru í sexfalt meiri hættu en aðrir á að fá hjartaáfall næstu mánuði á eftir.

Tíðni hjarta- og æðaáfalla jókst marktækt í nágrenni Los Angeles í kjölfar harðra jarðskjálfta sem urðu þar árið 1994. Sama mynstur sást í nágrenni New York í kjölfar árásarinnar á tvíburaturnana 2001.

Fylgni virðist á milli reiðiviðbragða í kjölfar streitu og hættunnar á hjarta- og æðaáföllum. Rannsókn á þúsund læknanemum sýndi að þeir sem höfðu sýnt merki um slík viðbrögð voru í aukinni hættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma fyrir 55 ára aldur.

Langvinnir streituvaldar

INTERHEART rannsóknin skilgreindi þrjár tegundir langvinnrar streitu, streitu tengda heimilisaðstæðum, streitu tengda vinnuaðstæðum og streita tengda fjármálum. Allar þessar tegundir streitu reyndust algengari meðal einstaklinga sem fengu hjarta- og æðaáföll.

streita2

Svokölluð Whitehall II rannsókn sýndi að karlmenn sem upplifðu misræmi á milli vinnuframlags og árangurs í starfi höfðu rúmlega tvöfalt meiri líkur á að greinast með kransæðasjúkdóm en aðrir.

Sænsk rannsókn sýndi fyrir nokkrum árum að konur sem upplifað höfðu hjónabandsörðugelika voru í næstum þrefalt meiri hættu á að greinast með kransæðasjúkdóm á næstu fimm árum borið saman við aðrar konur.

Oft er vitnað í myrk orð hollenska læknisins Joel E Dimsdale sem sagði: „Hvað getur einstaklingur gert sem er óhamingjusamur í hjónabandi og starfi? Hvert getur hann annað farið en í snemmbúna gröf?“

Sigmund Freud sagði oft að forsenda hamingjunnar væri eiginleikinn til að elska og vinna, að fjárfesta í einhverju öðru en sjálfum sér.

Harmslegill

Tilfinningaleg áföll af ýmsu tagi geta leitt til brjóstverkja og skyndilegrar hjartabilunar. Fólk getur jafnvel dáið úr harmi án þess að vera með undirliggjandi hjartasjúkdóm.

Japanskir læknar voru fyrstir til að lýsa þessu fyrirbæri sem oft er kallað Takotsubo, í höfuðið á gildru sem notuð er til þess að veiða kolkrabba. Þetta fyrirbæri er mun algengara hjá konum en körlum.

Einkennunum svipar til hjartaáfalls þótt kransæðar séu ekki stíflaðar. Brjóstverkur og andnauð eru algengustu kvartanirnar. Á ensku er þetta sjúkdómsfyrirbæri oft kallað „Broken Heart Syndrome“ en á íslensku hefur það fengið nafnið harmslegill.

Hvað er til ráða?

Þrátt fyrir að tilfinningaleg streita hafi neikvæð áhrif á tilurð hjarta- og æðasjúkdóma er hæpið að segja að hún sé orsök þessara sjúkdóma. Margir aðrir þættir koma þar við sögu. Hins vegar er ljóst að streita er einn af stærstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.

Flest okkar þurfa einhvern tímann að glíma við bráða streituvalda eins og slys, veikindi, ástvinamissi, starfsmissi eða fjárhagsleg áföll. Langvinn streita vegna erfiðleika heima fyrir eða á vinnustað er algengt vandamál í nútíma samfélagi. Við þessar aðstæður er oft erfitt að draga úr áhrifum streitu á heilsu og lífsgæði.

Fyrsta skrefið er að skilgreina streituvaldinn og reyna að hafa áhrif á hann. Hins vegar er ljóst að nánast ómögulegt er að forðast hann alfarið. Stóra spurningin er því hvernig við tökumst á við streituvaldinn. Mikilvægt er að huga vel að fjölskyldu- og vinaböndum. Ef við erum félagslega einangruð erum við berskjölduð og mun verr í stakk búin til að takast á við streitu. Félagsleg einangrun er einn af sterkustu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.

Ýmsar leiðir má nota til slökunar og minnka þar með áhrif streitvaldanna á heilsu okkar. Líkamsrækt, göngur, skokk, sund, bókalestur, tónlist, hugleiðsla, jóga. Allt eru þetta leiðir sem geta hjálpað.

Mikilvægt er að taka stjórnina í sínar hendur og reyna að beina hugsunum og tilfinningum í réttan farveg. Gott skipulag á verkum dagsins, reglusemi og vanafesta skapar oftast aukið öryggi. Góður svefn, heilbrigt mataræði og reglubundin hreyfing eru lykilatriði.

Að lokum er rétt að muna að í okkar heilbrigðiskerfi er fjöldi fagfólks sem getur hjálpað okkur í glímunni við streitu og streituvalda. Að leita sér hjálpar getur skipt sköpum.

Brostiðhjarta2.JPG

Axel F. Sigurðsson

Hjartalæknir

Nýtt á vefnum