Greinar / 11. október 2021

Tæknilausnir fyrir lestur og ritun

Í nútímasamfélagi eru miklar kröfur gerðar um málfærni einstaklinga, bæði á tjáningu og skilning, og ekki síður á lestur og ritun. Starfsumhverfi nútímans byggir mikið á samvinnu og samskiptum við mismunandi hópa og því er góð færni í tjáningu og samskiptum eiginleiki sem mjög oft er nefndur í atvinnuauglýsingum. Ýmislegt getur haft neikvæð áhrif á málfærni einstaklinga sem veldur því að þeim sé vísað til talmeinafræðinga. Sjúkdómar og slys geta til að mynda valdið því að einstaklingur missir færni sem hann hafði áður. Eins getur krónískur vandi sem lengi hefur verið til staðar líkt og lesblinda, málþroskaröskun, stam og raddvandi haft hamlandi áhrif í starfi, námi og annarri samfélagsþátttöku. Þó svo að dregið hafi úr bóklestri síðastliðna áratugi liggur lykillinn að samfélaginu ennþá að miklu leyti í gegnum upplýsingar á rituðu formi. Kröfur um handskrift hafa minnkað verulega með tilkomu snjalltækja. Ritun í tölvu er orðinn mikilvægur þáttur fyrir marga, bæði í starfi og einkalífi. Einnig hafa samskipti við vini og ættingja að miklu leyti færst yfir á rituð eða töluð skilaboð í gegnum snjalltæki.

Fleiri og betri lausnir

Á Reykjalundi starfa tveir talmeinafræðingar við mat og íhlutun á tjáskipta- og lestrarvanda og kyngingartregðu. Talmeinafræðingar starfa mest innan taugateymis en sinna einnig tilvísunum frá öðrum teymum stofnunarinnar. Hlutverk talmeinafræðinga í þverfaglegri endurhæfingu er að meta tjáskiptafærni, þar með talið lestur og ritun, og setja fram þjálfunarmarkmið sem styðja við lokamarkmið endurhæfingarinnar. Nánari greining á lestrarvanda og fræðsla og þjálfun í notkun hjálparaðferða getur gert einstaklingnum kleift að sinna betur hlutverkum sínum og styrkt stöðu hans og sjálfstæði á vinnumarkaði og í einkalífi.

Staða einstaklinga með tjáskipta-, lestrar og ritunarvanda hefur batnað umtalsvert með auknu framboði á aðgengilegum tækni- og tölvulausnum. Hér á eftir verða kynntar ýmsar leiðir sem geta stutt við einstaklinga með lestrar- og ritunarvanda.

210920 - SÍBS blaðið - Tæknilausnir fyrir lestur og ritun - mynd 2.jpg

Hljóðbækur: Þeir sem ekki geta nýtt sér ritað mál vegna sjónskerðingar, leshömlunar eða annarrar fötlunar geta sótt um aðgang að Hljóðbókasafninu og nálgast þar ýmsar bækur, þar með talið ýmsar námsbækur. Síðustu ár hafa einnig sprottið fram margar aðrar vefsíður með íslenskum og erlendum hljóðbókum svo sem Storytel, rafbókasafnið, hljodbok.is og hlusta.is. Margir eiga auðveldara með að tileinka sér innihaldið þegar þeir hlusta á hljóðbækur eða ef þeir bæði hlusta og fylgjast með í bókinni samhliða.

Rafbækur og lestur í snjalltækjum: Útgáfa íslenskra bóka á formi rafbóka hefur verið að sækja í sig veðrið síðastliðin ár. Rafbækur geta hjálpað þeim sem eiga við lestrarvanda að stríða sökum þess hve auðvelt er að breyta stærð og gerð leturs og lit bakgrunns, svo eitthvað sé nefnt, en þessir þættir skipta oft máli. Yfirleitt þykir einstaklingum með lesblindu erfiðara að lesa letur sem flokkast sem fótskrift (dæmi: Times New Roman og Garamond) heldur en steinskrift (dæmi: Arial og Calibri). Þá hafa verið þróaðar leturgerðir fyrir fólk með lesblindu, til dæmis Opendyslexic og Dyslexie en rannsóknir hafa þó ekki getað sýnt fram á yfirburði þeirra fram yfir steinskrift. Þá eru í sumum forritum möguleikar á að fletta upp merkingu orða sem lesarinn vill fá betri skýringu á og að forritið lesi upphátt orð eða setningar.

Talgervill: Talgervill vísar til tölvuraddar sem getur lesið upphátt texta (e. text to speech). Blindrafélagið var í forsvari fyrir þróun á íslensku röddunum Karli og Dóru sem hafa reynst mjög vel. Þessar raddir vinna með forritum eins og IVONA eða Natural Reader og geta lesið upp texta úr textaskjölum og beint af vefsíðum. Þá er hægt að nota raddirnar til að lesa upp þann texta samhliða því að textinn er skrifaður svo auðveldara sé að bera kennsl á mögulegar villur. Raddirnar virka einnig með smáforritum í spjaldtölvum og snjallsímum.

Vefþulan: Þó nokkrar vefsíður stofnana og fyrirtækja, þar á meðal vefsíða Reykjalundar og Ríkisútvarpsins, bjóða upp á vefþulu í gegnum svokallaðan “Hlusta-hnapp”, en með því að smella á hann er hægt að fá upplestur talgervilsins á texta vefsíðunnar.

Talgreinir: Talgreinir er hugbúnaður sem gerir tölvu kleift að taka viðtal og breyta í texta. Íslenskur talgreinir hefur verið í þróun hjá Háskóla Reykjavíkur og hafa allir aðgengi að honum í vafra á vefsíðunni tal.ru.is. Þar er hægt að taka upp frásögn og afrita síðan textann í skjal að eigin vali. Einnig er hægt er að nota íslenskan talgreini sem Google hefur þróað ef skrifað er í skjöl á Google Docs. Enn sem komið er eru þó íslenskir talgreinar takmarkaðir og of óáreiðanlegir til að nýtast fólki með alvarlegan lestrarvanda til að skrifa langan texta. Talgreinirinn getur einnig átt erfitt með að taka rétt niður textann ef tal er óskýrt.

Villuleit: Þegar ritaður er texti sem senda skal frá sér vill fólk oft geta gengið úr skugga um að ekki leynist þar miklar stafsetningar-, innsláttar- eða málfræðivillur. Ritvinnsluforritin Word og Google Docs hafa innbyggða villuleit og geta leitað á íslensku ef passað er að íslenska sé skilgreint sem tungumál forritsins. Auk þessarar innbyggðu villuleitar í ritvinnsluforritum eru einnig til vefsíður sem yfirfara texta og koma með leiðréttingar eða ábendingar. Þar má nefna skrambi.arnastofnun.is og yfirlestur.is, en þar er einnig tekið tillit til málfræði og samhengis upp að ákveðnu marki.

Orðabækur: Oft er gott að hafa orðabók við hendina og í rafrænum heimi taka orðabækur bæði lítið pláss og mjög fljótlegt er að leita í þeim. Á vefsíðunni malid.is er hægt að leita samhliða í mörgum orðasöfnum á vegum Árnastofnunar, þar á meðal í Stafsetningarorðabók, Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og Íslenskri nútímaorðabók. Þannig er hægt að nálgast góðar upplýsingar um íslensk orð, stafsetningu og beygingarmyndir. Þá er einnig mjög gott safn orða- og handbóka á vefsíðunni snara.is en þar þarf að greiða fyrir aðgang.

Vélþýðing: Til eru ýmis þýðingarforrit, misgóð, þar á meðal hið fræga Google translate. Á vefsíðunni velthyding.is er einnig hægt að hlaða upp texta til að þýða yfir á íslensku. Svona vélþýðingar eru alltaf nokkuð takmarkaðar, stundum jafnvel skondnar, því eins og flestir vita þá dugar sjaldan að beinþýða texta frá orði til orðs. Hins vegar getur vélþýðing vissulega hjálpað í mörgum tilvikum.

Eins og sjá má af þessari upptalningu hér þá eru til ýmsar tæknilausnir sem geta stutt við lestur og ritun hjá þeim sem eiga í vanda á þeim sviðum. Á síðustu árum hefur mikið gerst í rannsóknum og þróun á íslenskri máltækni. Mjög mikilvægt er að sú vinna haldi áfram og að Íslendingar hafi tækifæri til að nota íslenskuna í rafrænum lausnum framtíðarinnar.

Þórunn Hanna Halldórsdóttir

Talmeinafræðingur

Nýtt á vefnum