Greinar / 7. júní 2021

Tækifærin liggja í heimaþjónustu

Með hækkandi lífaldri þjóðfélagsþegna og hraðara gegnumstreymi á sjúkrahúsum, útskrifast einstaklingar veikari heim af sjúkrahúsum með fjölþætta sjúkdóma og flóknari þarfir. Það kallar á breyttar áherslur í heimaþjónustu, aukna þekkingu starfsfólks og færni til að takast á við flókin heilsufarsvandamál. Áhersla er lögð á að koma til móts við grunnþarfir einstaklinga sem misst hafa færni í að sjá um sig sjálfir og gera þeim þannig kleift að búa lengur heima með reisn.

Meginmunur á umönnun fólks í heimahúsi og á sjúkrastofnunum er að inni á heimilinu er einstaklingnum mætt í hans eigin umhverfi þar sem hann gjarnan upplifir aukið öryggi, hefur sterkari sjálfsmynd, er sjálfstæðari í hugsun og sýnir aukna sjálfsbjargarviðleitni í athöfnum daglegs lífs. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að inni á eigin heimili upplifir einstaklingur minni verki, hefur betri matarlyst og hvílist betur. Starfsfólk heimaþjónustu sem koma inn á heimili eru alltaf háð vilja, óskum og samvinnu þeirra sem þjónustuna þiggja.

Þjónusta sem veitt er í heimahúsum byggir á víðtækri þekkingu og gerir kröfu um sjálfstæð vinnubrögð starfsfólks. Starfsmenn koma yfirleitt einir í vitjun til skjólstæðinga sinna og samstarfsmenn ekki í kallfæri líkt og á sjúkrastofnunum. Ábyrgð hvers starfsmanns til mats og meðferðar er því meiri en ella. Að meta ástand, einkenni, framför eða afturför á heilsu og líðan einstaklinga og hvenær sé tímabært að leita frekari ráðgjafar eða meðferðar byggir á klínískri færni og öryggi í vinnubrögðum starfsmanna. Fyrir hjúkrunarfræðing í heimahjúkrun er þetta mikil fagleg áskorun en jafnframt það sem gerir starfið heillandi.

Árlega fá um 2300 einstaklingar aðstoð heimahjúkrunar í Reykjavík. Hver teymisstjóri hjúkrunar ber ábyrgð á um 50-80 skjólstæðingum hverju sinni, misjafnt eftir hverfum borgarinnar. Hlutverk hjúkrunarfræðings að halda utan um alla þræði umönnunar hvers einstaklings er krefjandi. Meta þarf og leggja upp meðferð á hverjum tímapunkti, bregðast við breytingum á líðan og vita hvert á að leita eftir sérfræðiráðgjöf. Hjúkrunarfræðingar í heimahjúkrun þurfa að vera í náinni samvinnu við aðra heilbrigðisstarfsmenn á spítala, göngudeildum, heilsugæslu eða sérfræðistofum. Þeir veita sérhæfða hjúkrunarmeðferð í heimahúsum ásamt því að stýra og leiðbeina öðru starfsfólki með umönnunarverkefni.

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar bera uppi þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er í heimahúsum í náinni samvinnu við félagslega heimaþjónustu en í Reykjavík er heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta sameinuð. Verkefni flæða á milli þjónustustiga hjúkrunar og félagsþjónustu eftir því hver þörfin er á hverjum tíma. Útskriftir veikari einstaklinga af sjúkrahúsi og seinkun á flutningi yfir á hjúkrunarheimili spilar þar stórt hlutverk. Einstaklingar þurfa umfangsmeiri umönnun og flóknari meðferðir á heimilum sínum. Illviðráðanlegir verkir, sýkingar, flókin hjálpartæki, næringarvandamál og skert hreyfigeta eru dagleg verkefni á herðum starfsmanna heimaþjónustu. Flóknir sjúkdómar á borð við hjartabilun, taugahrörnum, sykursýki og heilabilun eru algengir og mikilvægt að starfsfólk hafi víðtæka þekkingu á þeim og kunni að bregðast við breytingum á ástandi.

Flóknari aðstæður krefjast meiri kunnáttu og meiri tíma til að sinna verkefnum. Aukinn fjöldi hrumra aldraðra í heimahúsum felur í sér þörf á enn meiri sérhæfingu í nálgun starfsfólks heimahjúkrunar.

SELMA

Til að bregðast við þörf á sérhæfðari nálgun aukins fjölda hrumra aldraðra í heimahúsi setti Reykjavíkurborg, að beiðni Sjúkratrygginga Íslands, á laggirnar þann 16. nóvember 2020, sérhæft heimateymi sem fékk nafnið SELMA.

SELMA er þverfaglegt teymi hjúkrunarfræðinga af velferðarsviði Reykjavíkurborgar og lækna af Læknavaktinni. Teyminu er ætlað að vera markviss styrking og ráðgefandi bakland fyrir þjónustu heimahjúkrunar svo mögulegt sé að sinna fleirum og veikari einstaklingum í heimahúsi.

SELMA er ómþýtt nafn og hlýlegt en hefur einnig skírskotun og er skammstöfun í mikilvæg lykilorð sem þjónustan vill standa undir; Samþætt samvinna, Endurmat, Læknisþjónusta, Meðferð og Aðhlynning. Teymið sinnir vitjunum og ráðgjöf á dagvinnutíma með það markmið að auka heilbrigðisþjónustu til skjólstæðinga heimahjúkrunar sem ekki komast til mats og meðferðar á heilsugæslu eða göngudeild.

Við uppbyggingu SELMU var stuðst við röksemdir úr skýrslu átakshóps sem settur var saman vegna vanda bráðamóttöku Landspítala 2020, hún sýndi svart á hvítu þörf og ávinning af aukinni heilbrigðisþjónustu í heimahúsum. Einnig var horft til útfærslu, “Skaraborgsmodellen” sem Eydís Ósk Hafþórsdóttir öldrunarlæknir í Ängelholm í Svíþjóð hefur unnið að um árabil. Þar er módelið byggt upp með sjúkrahúslæknum. Hjá SELMU er farin sú leið að mynda teymi til heimavitjana með heilsugæslulæknum sem í eðli sínu er önnur nálgun. Fyrir vikið skapast aukið rými til að styrkja enn frekar tengsl milli heimahjúkrunar og heilsugæslu í Reykjavík.

Þjónusta SELMU er opin alla virka daga milli kl. 9-17. Hjúkrunarfræðingur er þá með opinn vaktsíma, sinnir símsvörun, ráðgjöf og skipulagningu á vitjunum. Teymið sinnir svo vitjunum frá kl. 13-17 á bíl Læknavaktarinnar, með einn hjúkrunarfræðing og einn lækni á vaktinni hverju sinni.

Áhersla er lögð á bætta þjónustu við aldraða í heimahúsi með aðkomu SELMU enda stærstur hluti einstaklinga með heimahjúkrun 67 ára og eldri. Heimahjúkrun þjónustar þó einnig viðkvæman hóp yngri einstaklinga sem eiga ítrekaðar komur á bráðamóttöku. Til að mæta því markmiði að styrkja almennt heimahjúkrun í sinni þjónustu var ákveðið að útiloka ekki aðkomu SELMU til yngri einstaklinga. Á fyrstu mánuðum þjónustunnar kom fljótt í ljós að umfang þungra og flókinna mála á borðum heimahjúkrunar væri töluvert og augljós þörf fyrir aukinn stuðning við starfsfólk heimahjúkrunar í þeim málum. Í þeim tilvikum hefur SELMA starfað sem samræmingaraðili og kallað að borðinu þá meðferðaraðila sem þörf er á hverju sinni. Með auknu og markvissara samtali hlutaðeigandi hefur verið hægt að stilla saman strengi þjónustuaðila, skilgreina betur markmið í hverju tilfelli og leggja upp sameiginlegt plan til að nálgast þau markmið sem sett eru fram.

SELMA hefur að leiðarljósi að auka við bjargráð heimahjúkrunar og gera henni kleift að stíga sterkar inn í mat og meðferð sinna skjólstæðinga. Unnið er að því að starfsfólk og skjólstæðingar finni enn frekar að heimahjúkrun sé hluti af samfelldri þjónustukeðju. Innan heilsugæslu er góð yfirsýn á þróun heilsufars og aðstæður skjólstæðinga og oft löng saga um virkt meðferðarsamband milli einstaklings og starfsfólks heilsugæslu. Þegar einstaklingur er kominn í þjónustu heimahjúkrunar bætist svo við mikilvæg innsýn í samspil umhverfis og aðstæðna við heilsufarsáskoranir skjólstæðinganna.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar lítur á SELMU sem mikilvægan lið í því að auka samvinnu og samþættingu milli kerfa ásamt því að ýta betur undir forsendur heimahjúkrunar til að horfa á og meðhöndla einstaklinginn í samhengi við aðstæður hans og umhverfi.

Velferðartækni í heimaþjónustu

Framtíð heimahjúkrunar er spennandi í ljósi þeirra áskorana sem við okkur blasa. Við vitum að þeim sem þurfa þjónustu mun fjölga og á sama tíma horfum við fram á skort á starfsfólki í velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Því þurfum við að búa okkur undir komandi ár og horfa til nýrra leiða í veittri þjónustu. Nýjar þjónustuleiðir þar sem við nýtum okkur tæknina, aukum þjónustuframboð, valdeflum skjólstæðinga og gerum þá virkari þátttakendur í allri sinni meðferð er það sem koma skal sem viðbót við þá vettvangsþjónustu sem þegar er veitt. Allt þetta miðar að umbótastarfi þar sem markmiðið er skilvirkari þjónusta og val um fleiri þjónustuleiðir með gæði og öryggi skjólstæðinga og starfsmanna að leiðarljósi.

Heimaþjónusta sem Reykjavíkurborg veitir nýtir nú þegar velferðartækni á öllum stigum þjónustu sinnar til að styðja betur við aldraða og gera þeim kleift að búa heima þrátt fyrir veikindi eða færniskerðingu. Velferðartækni er í raun hvaða snjalltæki eða stoðtækni sem er sem auðveldar einstaklingum að búa lengur á eigin heimili eða styður við athafnir daglegs lífs hvar svo sem búsetan er. Dæmi eru öryggishnappar, skynjarar, spjaldtölvur, rafrænir lyfjaskammtarar og fjarheilsufarsmælingar.

Í fyrstu bylgju Covid-19 hóf heimaþjónusta í Reykjavík að veita skjáheimsóknir eða myndsamtöl til skjólstæðinga sinna en skjáheimsóknir er fyrsti vísir að innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu í heimaþjónustu Reykjavíkurborgar. Í upphafi var horft sérstaklega til þeirra einstaklinga sem höfðu afþakkað þjónustu vegna Covid 19, höfðu lítið stuðningsnet í sínu nánasta umhverfi og voru því metnir í meiri áhættu en aðrir á að einangrast, upplifa einmanaleika og andlega vanlíðan á sama tíma og leitað yrði leiða til að koma í veg fyrir að smit bærust á milli starfsmanna og notenda ef slíkt kæmi upp. Sérstök áhersla var lögð á að búnaðurinn væri einfaldur og notendavænn með þarfir skjólstæðinga að leiðarljósi. Hinn íslenski hugbúnaður Memaxi varð fyrir valinu og öllum kröfum um gæði og öryggi fylgt í hvívetna.

Samskipti eru að breytast, í dag þykir mörgum það jafn persónulegt að hittast á skjá eins og í raunheimum. Skjáheimsókn gerir skjólstæðingi kleift að fá til sín heimsókn á rafrænan máta í gegnum spjaldtölvu. Með tækninni fær starfsfólk heimaþjónustunnar myndræna upplifun af ástandi og líðan skjólstæðinga og þannig fæst nákvæmara og betra mat á líðan skjólstæðinga en með venjulegum símtölum. Skjólstæðingur fær spjaldtölvu til afnota sér að kostnaðarlausu og alla kennslu og stuðning til notkunar búnaðarins frá starfsfólki heimaþjónustu. Jafnframt geta aðstandendur tengst Memaxi og verið þannig í góðu skjásambandi við sína ástvini.

Heimaþjónusta borgarinnar hefur góða reynslu af því að nýta skjáinn til hvatningar til athafna daglegs lífs og eftirlits með t.d lyfjainntöku, blóðsykursgildum, insúlíngjöfum og næringu. Einnig hefur heimaþjónustan undanfarin misseri veitt einstaklingum með hjartabilun sérstakt skjáeftirlit þar sem hvatt er til að einstaklingar meti sjálfir einkenni síns sjúkdóms með stuðningi fagfólks á skjánum. Rannsóknir hafa sýnt að skjáheimsóknir geta nýst vel hjá þeim sem búa við langvinna ólæknandi sjúkdóma meðal annars til aukinnar meðferðarheldni, valdeflingar, aukins sjálfstæðis, betri lífsgæða og getur sparað innlagnir á sjúkrastofnun.

Heimahjúkrun.jpg

Nýverið var gerð könnun á viðhorfum og upplifun notenda, aðstandenda og starfsfólks á því að boðið sé upp á skjáheimsóknir í heimaþjónustu. Niðurstöður könnunarinnar sýna að 90 prósent notenda finnst hjálplegt að hafa skjáinn á heimilinu og 70 prósent notenda segjast finna fyrir auknu öryggi. Þetta er í samræmi við okkar tilfinningu, því skjólstæðingar hafa sagt okkur að þeim þyki notalegt að sjá bjarmann af skjánum á nóttunni og að þeir upplifi meira öryggi. Skjáheimsóknir verða án efa hluti af heimaþjónustu framtíðarinnar.

Rafrænir lyfjaskammtarar eða sjálfvirk lyfjaskömmtun

Á komandi mánuðum munu hefjast prófanir á rafrænum lyfjaskömmturum inni á heimilum einstaklinga. Rafrænir lyfjaskammtarar henta vel þeim skjólstæðingum sem þurfa daglega eða oft á dag aðstoð og eftirfylgni vegna lyfjainntöku og ná ekki, sökum skerts heilsufars eða annarra aðstæðna, að halda utan um lyfjagjafir sínar. Sérpakkaðar lyfjarúllur eru settar í lyfjaskammtarann sem sér svo um að skammta lyfin, hvern skammt fyrir sig, á réttum tíma. Skammtarinn minnir á lyfjatíma með því að gefa frá sér hljóð eða með raddskilaboðum.

Hann er svo tengdur hugbúnaði sem starfsfólk heimaþjónustu vaktar á sinni starfsstöð. Ef lyf eru ekki tekin eða bilun verður í skammtara fær starfsfólk strax tilkynningu um það og getur brugðist við.

Með þessari þróun er sköpuð öruggari umgjörð utan um lyfjagjafir og um leið tryggt betur að lyf séu tekin á réttum tíma. Starfsfólk heimaþjónustunnar þarf þá síður að keyra um bæinn og heimsækja hvern og einn eingöngu í þeim tilgangi að gefa lyf. Miklir álagstímar geta skapast í heimaþjónustu á lyfjagjafatímum og flókið að vera á réttum tíma hjá öllum skjólstæðingum samtímis. Horft er björtum augum á þessa nýjung í heimaþjónustu, ekki síst þar sem reynsla norðurlanda sýnir skjólstæðinga upplifa aukið öryggi og aukið sjálfstæði með aðstoð lyfjaskammtara.

Heimahjúkrun 21. aldarinnar – áskoranir og tækifæri

Til að mæta þörf og kröfu um aukna heilbrigðisþjónustu inni á heimilum einstaklinga verður þjónusta heimahjúkrunar sífellt umfangsmeiri og sérhæfðari. Fólk lifir lengur og býr heima með langvinna og flókna sjúkdóma. Með auknum fjölbreytileika í heimaþjónustu felast þó mikil tækifæri til umbóta og árangurs. Heimaþjónustan býr að úrvals starfsmannahópi sem annast skjólstæðinga af natni og lipurð. Framlag og fagmennska starfsmanna er lykilatriði sem hlúa þarf stöðugt vel að. Mannauður heilbrigðisþjónustu er þó takmörkuð auðlind sem þegar er skortur á og útlit fyrir að sá skortur muni bara aukast. Aldrei hefur því verið jafn mikilvægt að við tryggjum gott aðgengi að nauðsynlegum hjálpartækjum sem styðja við sjálfstæða búsetu og nýting tæknilausna verður sífellt meira áberandi innan þjónustunnar, t.d. í formi fjarsamskipta, fjarvöktunar og róbótanotkunar.

Heimaþjónusta í Reykjavík leggur áherslu á persónumiðaða þjónustu með það að leiðarsljósi að auka sjálfstæði einstaklinga. Horft er til aukinnar teymisvinnu, sérhæfingar og innleiðingar nýrrar tækni í þeim efnum. Jafnframt verður lögð enn meiri áhersla á samvinnu milli stofnana og þjónustuaðila í því skyni að veita ávallt rétta þjónustu á réttu þjónustustigi. Umbætur á heimaþjónustu með stafrænum breytingum, sjálfvirknivæðingu, nýsköpun og þróun verður þar í forgrunni með áherslu á gæði, öryggi og árangur í þjónustu.

Það er óhætt að segja að framtíðin sé björt og tækifærin mörg í heimaþjónustu. Við getum látið okkur hlakka til framtíðar, með markvissari samvinnu stofnanna og samfelldari þjónustukeðju um leið og við undirbúum okkur fyrir aukna nýtingu á tækni í allri þjónustunni.

Þannig gerum við skjólstæðingum heimahjúkrunar, sem þess óska, kleift að dvelja lengur heima með reisn og lifa eins sjálfstæðu lífi og mögulegt er. Um leið veitum við metnaðarfullu starfsfólki þjónustunnar tækifæri til að þróast enn frekar í krefjandi starfi í bættu starfsumhverfi heimaþjónustunnar í Reykjavík.

Berglind Víðisdóttir

Hjúkrunarfræðingur og fagstjóri heimahjúkrunar á velferðarsviði Reykjavíkurborgar

Margrét Guðnadóttir

Hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar

Nýtt á vefnum