Greinar / 15. febrúar 2022

Sykur og sykursýki

Þar sem orðið sykur kemur fram í sjúkdómsheitinu á sykursýki virðist rökrétt að gera ráð fyrir því að of mikil sykurneysla sé orsök sjúkdómsins eða jafnvel að þeir sem séu með sjúkdóminn séu sérstaklega sólgnir í sykur. Sannleikurinn er hins vegar sá að nafnið sykursýki hefur ekkert með sykur sem við innbyrðum að gera heldur er dregið af helsta einkenni sjúkdómsins sem er of hár blóðsykur.

En hvað er blóðsykur og hvernig tengist það sykrinum sem við borðum?

Kolvetni

Matur er samsettur úr ýmsum efnum og eru grunnorkuefnin kolvetni, fita og prótein. Kolvetni eru fjölbreyttur flokkur efna og þar undir fellur til dæmis sykur af ýmsu tagi, þar á meðal þessi venjulegi hvíti sykur sem við kaupum í næstu verslun og notum í matargerð og bakstri, en einnig sykur sem finnst í matvörum frá náttúrunnar hendi, svo sem ávaxtasykur í ávöxtum og mjólkursykur í mjólk. Til kolvetna teljast auk þess ýmis önnur efni, svo sem sterkja sem finnst til dæmis í kornvörum eins og hveiti, trefjar sem finnast í ávöxtum, grænmeti, baunum og heilkorni og fleiri.

Öll kolvetni eru í raun mislangar keðjur af sykureiningum sem meltast mishratt og mismikið í meltingarvegi mannsins. Þegar við borðum kolvetni brýtur líkaminn þessar keðjur niður í smærri einingar í meltingarveginum. Úr meltingarveginum fara sykureiningarnar svo inn í blóðrásina og kallast þá blóðsykur. Undantekningin eru reyndar trefjar, en líkaminn hefur ekki getu til að brjóta þær niður í sykureiningar svo hægt sé að flytja þær yfir í blóðrásina. Trefjar hafa því ekki sömu áhrif á blóðsykur og önnur kolvetni og raunar geta þær hægt á upptöku annarra kolvetna úr meltingarveginum þannig að blóðsykur hækkar ekki eins hratt eftir máltíð.

Insúlín

Insúlín er hormón sem brisið framleiðir. Insúlín hjálpar blóðsykrinum að flytjast úr blóðrásinni og inn í frumur líkamans þar sem hann er notaður sem orka. Umframmagni af blóðsykri er svo komið fyrir í geymslum í líkamanum, ýmist í vöðvum og lifur þar sem hægt er að grípa til orkunnar á skömmum tíma ef þess þarf, og svo er því sem eftir er umbreytt í fitu og geymt í fituvef. Líkamanum er nefnilega mjög mikilvægt að halda ákveðnum styrk af sykri í blóði, hann má hvorki vera of hár eða of lágur.

Þegar við borðum kolvetni hækkar blóðsykurinn en líkaminn fer strax í það verkefni að framleiða insúlín til að ná aftur æskilegu blóðsykurgildi. Komi til þess að blóðsykur fari að lækka höfum við annað hormón, glúkagon, sem stuðlar að því að blóðsykur hækkar aftur, til dæmis með að losa sykur úr lifur. Þessi samvinna insúlíns og glúkagons tryggir, ef allt er eðlilegt, að frumur líkamans fái næga orku og blóðsykurgildi fara hvorki of lágt né of hátt yfir langan tíma.

Í sykursýki bregst þessi blóðsykurstjórn. Hjá einstaklingum sem eru með sykursýki er ýmist skortur á hormóninu insúlín eða líkaminn hefur einhverra hluta vegna takmarkaða getu til að nýta það insúlín sem hann þó framleiðir. Við það kemst blóðsykurinn ekki úr blóðrásinni inn í frumur líkamans og blóðsykur hækkar.

Sykursýki 1 og 2

Sykursýki er skipt gróflega í tvær tegundir sem eru kallaðar sykursýki tegund 1 og sykursýki tegund 2. Sameiginlegt einkenni beggja tegunda er hár blóðsykur en orsökin er ekki sú sama. Sykursýki tegund 1 er um 10% tilfella sykursýki og greinist yfirleitt hjá yngri einstaklingum, þó hún geti komið fram á öllum aldri.

Sykursýki tegund 1 er í raun sjálfsónæmissjúkdómur þar sem frumurnar sem framleiða insúlín eyðileggjast. Við það stöðvast insúlínframleiðsla líkamans og þurfa einstaklingar með sykursýki tegund 1 að fá utanaðkomandi insúlín, með insúlínpenna eða insúlíndælu, það sem eftir er ævinnar. Af hverju fólk fær sykursýki tegund 1 er oftast óljóst, en fáar rannsóknir hafa tengt það mataræði.

Sykursýki tegund 2 er mun algengari en sykursýki tegund 1 og telur nú í kringum 90% tilfella sykursýki. Í flestum tilfellum framleiða þessir einstaklingar nóg af insúlíni, en það virkar ekki sem skyldi, en einnig getur verið um insúlínskort að ræða. Orsökin er samspil margra mismunandi þátta þar sem erfðir spila stórt hlutverk en einnig vissulega mataræði sem og hækkandi aldur, hreyfingarleysi, lélegur svefn, ákveðin lyf og aukin líkamsþyngd svo eitthvað sé nefnt. Að tengja sykursýki hins vegar eingöngu við of mikla sykurneyslu er í besta falli mikil einföldun.

Glúkósi og frúktósi

Það sem við þekkjum í daglegu tali undir nafninu sykur er í raun tvísykra sem er samsett úr tveimur sykureiningum, glúkósa og frúktósa. Orðin viðbættur sykur eru svo notuð yfir allar gerðir af sykri sem bætt er í matvörur í framleiðslu, hvort sem hann heitir hvítur sykur, hrásykur, púðursykur, síróp, agavesíróp, ávaxtasykur eða hunang svo eitthvað sé nefnt. Almennt er það svo að það skiptir ekki máli hvaða tegund af sykri um er að ræða. Ekki er hollara að bæta einni tegund af sykri í fæðutegund fremur en annarri, það er viðbótin sem slík sem skiptir máli. Bragðið af sykri er hins vegar sætt og höfðar til margra. Það hefur leitt til framleiðslu og sölu á fjölda afurða sem innihalda mikið af viðbættum sykri, til dæmis gosdrykkja, sælgætis, íss, sætabrauðs, kex og svo framvegis.

Sykurneyslan

Mikil neysla á sykurríkum vörum hefur í rannsóknum verið tengd við þyngdaraukningu, sem er einn af áhættuþáttum sykursýki tegundar 2. Einnig eru vísbendingar um að sykurneysla tengist beint áhættu á sykursýki en ekki hefur verið hægt að sýna fram á sterk orsakatengsl í rannsóknum. Það þýðir þó ekki endilega að þessi orsakatengsl séu ekki til staðar.

Sem dæmi um rannsóknir má nefna viðamikla rannsókn með gögnum frá 175 löndum sem sýndi að því meiri sykur í mataræði landsmanna því algengari var sykursýki í landinu. Þetta mynstur sást jafnvel þó vísindamenn leiðréttu fyrir öðrum þáttum sem tengdust sykursýki, svo sem offitu, hreyfingu og heildarneyslu. Þetta gefur vissulega vísbendingar um að sykurneysla geti haft áhrif á áhættu á sykursýki, að minnsta kosti þegar við skoðum stóra hópa, en enn er ekki hægt að fullyrða um slíkt. Ef við skoðum hins vegar drykki sérstaklega þá hafa rannsóknir sannarlega sýnt að mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum er tengd auknum líkum á sykursýki tegund 2, sem og þyngdaraukningu.

Mikil neysla á sykurríkum vörum, sem gjarnan eru mikið unnar, næringarsnauðar og orkuríkar, getur dregið úr fjölbreytni í mataræði. Þá geta þær vörur „tekið pláss“ frá öðrum fæðutegundum, jafnvel þeim sem taldar eru verndandi fyrir áhættu á sykursýki tegund 2, og þannig aukið áhættu á að fá sjúkdóminn. Í almennum ráðleggingum um mataræði er því mælt með því að draga úr neyslu á viðbættum sykri, gæta hófs í sælgæti, kökum, kexi og ís og drekka lítið eða helst ekkert af gos- og svaladrykkjum sem forvörn fyrir ýmsa sjúkdóma, þar á meðal sykursýki. Þess í stað er ráðlagt að borða fjölbreyttan, lítið unnin og næringarríkan mat og að kolvetnin í mataræðinu komi heldur úr lítið unnum, trefjaríkum fæðutegundum svo sem grænmeti, ávöxtum, heilkorni, baunum og hnetum.

Eftir greiningu sykursýki

En hvað gerist svo, þegar blóðsykurstjórn brestur og einstaklingur greinist með sykursýki? Mega þeir sem eru með sykursýki borða sykur?

Hvað sykursýki tegund 1 varðar er lykilatriði að stilla magn máltíðarinsúlíns við kolvetnamagn sem ætlunin er að borða, hvort sem þau kolvetni koma úr sykri, sterkju eða öðru. Að öðru leyti gilda sömu ráðleggingar og til allra annarra um hófsemi í sykurneyslu.

Varðandi sykur og einstaklinga með sykursýki tegund 2 eru svipaðar ráðleggingar og settar eru fram í forvarnarskyni, þ.e. að gæta hófs í neyslu á sykurríkum vörum og að forðast sykraða gos- og svaladrykki, en þeir hækka blóðsykur hratt og auka einnig líkur á ýmsum fylgikvillum sykursýkinnar.

Almennt er best fyrir þá sem eru með sykursýki að velja lítið unninn, trefja- og næringarríkan mat sem er alger andstæða sykurs og sætinda sem eru næringarsnauðar og mikið unnar vörur. Í mörgum tilfellum getur verið gagnlegt fyrir einstaklinga með sykursýki tegund 2 að takmarka einnig að einhverju eða öllu leyti önnur fínunnin kolvetni en sykur, til dæmis hvítt hveiti, hvítt pasta og hvít hrísgrjón svo eitthvað sé nefnt, jafnvel að einhverju leyti mikið unnar heilkornavörur eins og fínunna hafra og heilhveitibrauð. Þetta er þó mjög einstaklingsbundið. Sem kolvetnagjafa er mælt með heilkorni og heilkornavörum, grænmeti, ávöxtum og baunum, líkt og ráðlagt er í forvarnarskyni.

Til að taka þetta saman þá má líklega orða þetta svona, hvort sem um ræðir forvörn eða næringarmeðferð við sykursýki af tegund 2.

Kolvetnaríkra matvæla ætti að njóta sem næst sínu náttúrulega formi en ekki eftir að búið er að vinna þau og fjarlægja lykilnæringarefni, eins og trefjar, úr vörunum. Sem dæmi má nefna ávexti, grænmeti, baunir og heilkorn. Sykur, og önnur mikið unnin kolvetni ætti að fara afar sparlega með, neyta þeirra í litlum skömmtum og sjaldan, þá er hægt að njóta þeirra þeim mun betur. Kolvetni á fljótandi formi, svo sem sykraða gos- og svaladrykki er líklega best að láta alveg eiga sig.

Óla Kallý Magnúsdóttir

Næringarfræðingur

Nýtt á vefnum