Greinar / 20. júní 2024

Sérhæfð meðferð við offitu

Meðferð við offitu hefur fleygt fram síðastliðin ár. Mikilvægt er að þessi meðferð sé byggð á faglegum grunni og veitt af einstaklingum með þekkingu á offitusjúkdómnum. Óháð því hvaða meðferðarúrræði er valið skiptir mestu máli hvort einstaklingurinn hafi áhuga á meðferð og sé tilbúinn til að gera breytingar. Að reyna að þvinga einstakling með offitu til þess að taka þátt í meðferð getur haft skaðleg áhrif. Mikilvægt er að meðferðin sé einstaklingsmiðuð og að raunhæf markmið séu sett í upphafi.

Þverfagleg nálgun

HildurMynd1.jpg

Orsakir offitu eru margþættar og meðferðin á efnaskipta- og offitusviðinu á Reykjalundi byggir þess vegna á breiðum grunni. Nálgunin er þverfagleg og í teyminu eru læknar, hjúkrunarfræðingar, næringarfræðingar, iðjuþjálfi, íþróttafræðingur, sjúkraþjálfarar, félagsráðgjafi og ritari. Fræðsla og þjálfun fara fram í hópum en einnig er bætt við einstaklingsviðtölum hjá mismunandi fagaðilum eftir þörfum. Einstaklingum sem teknir eru til meðferðar hjá teyminu er fylgt eftir í 8-10 mánuði og kynnist teymið þannig hverjum og einum skjólstæðingi vel. Á Reykjalundi eru einnig önnur sérhæfð teymi sem leitað er til eftir þörfum til dæmis við uppvinnslu og greiningu hjartaog æðasjúkdóma, háþrýstings og lungnasjúkdóma svo sem kæfisvefns.

Jafnvægi komið á

Sérhæfð meðferð við offitu er veitt til þess að koma jafnvægi á efnaskipti og þyngdarstjórnun. Þessi meðferð er viðbót við Þyngdartap af lyfjunum er einstaklingsbundið en getur orðið 10-15% og jafnvel meira. Slíkt þyngdartap hefur áhrif á marga aðra sjúkdóma sem fylgja offitusjúkdómnum og jákvæð áhrif á líðan einstaklinga. Í dag er stungulyfið Wegovy (semaglutide) helst notað í meðferð við offitu en áður var lyfið Saxenda (liraglutide) meira notað. Auk áhrifa á þyngd hafa rannsóknir einnig sýnt fram á jákvæð áhrif á áhættu hjarta- og æðaáfalla og lengri lifun hjá einstaklingum með offitu og hjarta- og æðasjúkdóma.

Búast má við því að fjölbreytileiki í lyfjameðferð við offitu á Íslandi muni aukast á næstu árum vegna þess hversu mörg lyf eru komin langt í þróun. Stefnt er að því að markaðsetja lyfið Qsiva (phentermine/topiramat) á næstu mánuðum á Íslandi en lyfið dregur úr matarlyst. Lyfjameðferð við offitu er notuð til að koma betra jafnvægi á efnaskipti og þyngdarstjórnun. Offitulyf eru ekki megrunarlyf.

Efnaskiptaaðgerðir

Annar meðferðarmöguleiki sem hægt er að bæta við eru efnaskiptaaðgerðir. Þær efnaskiptaaðgerðir sem notaðar eru í dag og hafa skilað bestum langtímaárangri eru magahjáveita (gastric bypass) og magaermi (gastric sleeve). Aðgerðirnar hafa góð áhrif á þyngd, blóðsykur, blóðfitur, blóðþrýsting og kæfisvefn til lengri tíma. Einnig finnur hluti þeirra sem fara í aðgerð fyrir minni stoðkerfisverkjum eftir hana. Mikilvægt er að einstaklingar sem hafa áhuga á aðgerð fái góðan undirbúning og séu tilbúnir til að gera breytingar í tengslum við hana til lengri tíma.

Efnaskiptaðgerðir hafa áhrif á framleiðslu þyngdarstjórnunarhormóna. Fyrir utan góð áhrif sem aðgerðirnar geta haft geta þeim einnig fylgt ýmsir fylgikvillar. Má þar helst nefna næringarvandamál tengd skertri upptöku á vítamínum og steinefnum, meltingarfæraóþægindi, hættu á misnotkun áfengis, þunglyndiseinkenni, blóðsykursfall og sjálfsvígshugsarnir. Mikilvægt er að sinna eftirliti, inntöku vítamína og bætiefna sem og næringarmálum eftir aðgerð til þess að hún skili sem bestum árangri. Einnig er mikilvægt að átta sig á því að skurðaðgerðir við offitu lækna í grunninn ekki sjúkdóminn. Þyngdaraukning eftir aðgerð er möguleg.

Stigskipt þjónusta

HildurMynd2.jpg

Offita er flókin og langvinnur sjúkdómur. Hann veldur mismiklum einkennum og áhrifum á heilsu. Einnig má gera ráð fyrir því að sjúkdómurinn sé stöðugur á köflum og ekki sé þörf fyrir sérhæfða eða flóknari meðferð en á sama tíma geta ýmsir þættir valdið versnun og þörf á meðferð sérhæfðs teymis.

Skipta má meðferð við offitu í fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu. Á fyrsta stiginu er litið er til þess að styðja einstaklinginn til heilbrigðra lífshátta. Slík þjónusta er veitt innan heilsugæslunnar, til dæmis á heilsueflandi móttökum.

Sumir þurfa meiri stuðning eða meiri vinnu með grunnþætti en heilsugæslan getur veitt. Þá koma meðferðarstöðvar á öðru og þriðja stigi heilbrigðisþjónustu til sögunnar og veita sérhæfðari meðferð. Sú meðferð felst í ítarlegri greiningu á orsakaþáttum offitusjúkdómsins, annarra sjúkdóma sem koma í kjölfarið og síðan meðferð og stuðningi. Í dag er talsverður skortur á annars stigs þjónustu á Íslandi en hægt er að sækja hana til dæmis hjá Mín besta heilsa í Mjóddinni.

Þriðja stigs þjónusta felur í sér sérhæfða þjónustu á Reykjalundi, í Kristnesi og/eða efnaskiptaaðgerð á vegum skurðlækna. Mikilvægt er að fagfólk sem sinnir fyrsta stigs þjónstu vísi fólki áfram á næstu stig við versnun sjúkdómsins eða þróun fylgisjúkdóma sem þurfa sérhæfða meðferð.

Hildur Thors

Yfirlæknir offituteymis Reykjalundar

Guðrún Þuríður Höskuldsdóttir

Læknir á Reykjalundi
Nýtt á vefnum