Greinar / 16. október 2023

Samfélag fyrir hverja?

Verðbólga, hagvöxtur, fjármunamyndun. Gengisvísitala, stýrivextir, viðskiptajöfnuður.

Hugtök sem þessi eru áberandi í fjölmiðlum og hagtölur stýra að talsverðu leyti aðgerðum stjórnvalda. Að baki ákvörðunum stjórnmálamanna liggur gjarnan sterk röksemdafærsla byggð á hagfræðilegum staðreyndum. Vandinn er bara sá að ef við tökum ákvarðanir byggðar á hagstærðum verða áhrifin af þeim líka fyrst og fremst á hinar sömu hagstærðir. Þannig getur orðið til hringrás sem missir sjónar á grundvallarspurningunni: Fyrir hverja erum við að reka þetta samfélag?

Með því hins vegar að snúa röksemdafærslunni við og byrja á að gefa okkur að við séum að reka samfélagið fyrir fólkið í landinu hljótum við fljótt að komast að þeirri niðurstöðu að hagvísarnir einir og sér eru ófullnægjandi stjórntæki. Robert F. Kennedy flutti fræga ræðu í University of Kansas þann 18. mars 1968. Eftir að hafa talið upp ótal hluti sem teljast til hagvaxtar – allt frá útköllum sjúkrabíla og eyðingu skóga til byggingar fangelsa og vopnaframleiðslu – sagði hann:

„[Hagvöxturinn] mælir hins vegar ekki heilsu barnanna okkar, gæði menntunar þeirra eða leikgleði. Hann mælir ekki fegurð ljóða okkar eða styrk hjónabanda okkar, innihald þjóðfélagsumræðu eða heilindi kjörinna fulltrúa. Hann mælir hvorki skopskyn okkar né hugrekki, hvorki visku okkar né lærdóm, hvorki samkennd okkar né hollustu við land og þjóð, í stuttu máli mælir [hagvöxturinn] allt annað en það sem gerir lífið þess virði að lifa því.“

Það gefur augaleið að þörf er fleiri mælikvörðum en hinum hagrænu ef takast á að stýra landinu með vellíðan fólksins að markmiði. Því er það fagnaðarefni að Hagstofa Íslands er farin að halda utan um safn mælikvarða um hagsæld og lífsgæði sem einu nafni nefnast velsældarvísar og innihalda félagslega, efnahagslega og umhverfislega mælikvarða (https://visar.hagstofa.is/velsaeld/).

Velsældarvísarnir eru góð byrjun en til að þeir virki sem hjálpartæki við ákvarðanatöku þarf að innleiða formleg ferli þar sem lagt er mat á áhrif stjórnvaldsákvarðana og lagasetninga á bæði velsæld og lýðheilsu. Nú þegar er lagaskylda að gera kostnaðarmat á stjórnarfrumvörpum og frumvörpum, stefnumótun eða ákvörðunum sem líkleg eru til þess að hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Í yfir tuttugu ár hafa gilt lög um mat á umhverfisáhrifum.

Það er kominn tími til að innleiða með formlegum hætti mat á áhrifum lagasetninga og stjórnvaldsákvarðana á lýðheilsu og velsæld fólksins í landinu.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum