Bætt lýðheilsa felur í sér heilsueflandi aðgerðir sem ná til samfélagsins alls en eru ekki alltaf augljósar. Forvarnamótsögnin svokallaða vísar einmitt til þess þegar fleiri sjúkdómstilfelli koma úr hópum í lágri áhættu heldur en í hárri áhættu, einfaldlega vegna þess að fyrrnefndi hópurinn er miklu stærri.
Til að hægt sé að forgangsraða takmörkuðum fjármunum til heilbrigðismála er nauðsynlegt að byrja á því að kortleggja umfang sjúkdómsbyrðinnar. Þegar um er að ræða aðgerðir á sviði forvarna er líka nauðsynlegt að kortleggja helstu áhættuþætti svo sem mataræði, hreyfingu, svefn, streitu og áhættuhegðun.
Mælikvarðinn „glötuð góð æviár“ (Disability Adjusted Life Years, DALY) segir til um uppsöfnuð áhrif heilsubrests í samfélaginu þar sem lögð eru saman vegin áhrif sjúkdóma og skerðinga, áverka og ótímabærs dauða. Á Íslandi voru glötuð góð æviár 84 þúsund árið 2021 skv. skýrsluröðinni Global Burden of Disease. Til að meta sjúkdómsbyrðina í krónum er hægt að margfalda glötuð góð æviár með vergri landsframleiðslu á mann, sem nam um 12,3 milljónum króna árið 2023. Margfaldað með 84 þúsund glötuðum góðum æviárum gera þetta árlega ríflega þúsund milljarða króna. Þetta ber að endurtaka: Umfang sjúkdómsbyrðinnar er yfir þúsund milljarðar króna á ári.
Auðvitað verður seint hægt að útrýma öllum sjúkdómum, skerðingum, slysum og ótímabærum dauða. Fjárhæðirnar eru hins vegar slíkar að jafnvel 1% fækkun glataðra góðra æviára samsvarar 10 milljarða króna landsframleiðslu. Það er vel raunhæft að ná slíkum árangri með vel heppnuðum lýðheilsumiðuðum aðgerðum.
Á forvarnarsviðinu hafa tvö risastór lýðheilsumál verið vanrækt hér á landi: Annars vegar aðgerðir til að bæta mataræði, sem stærsti einstaki áhættuþáttur heilsu (áætlað 10–20% af sjúkdómsbyrði), og hins vegar aðgerðir til að bæta svefn (áætlað 5–10% af sjúkdómsbyrði).
Stærsti einstaki áhættuþátturinn í mataræði tengist of mikilli sykurneyslu. Erlend dæmi sýna að sykurneysla minnkar prósent fyrir prósentu með álagningu sykurskatts. Þetta mætti útvíkka til að ná til gjörunninnar matvöru um leið og niðurgreiða mætti grænmeti og ávexti. Áhrifin af 20% skatti á sykraða drykki eina og sér hafa verið metin til jafns við allt að 3% lækkun á tíðni offitu í meistararitgerð Lindu Bjargar Árnadóttur lýðheilsufræðings sem vitnað er til í úttekt rannsókna- og upplýsingasviðs Alþingis um sykurskatt frá 2019.
Hvað svefninn varðar kemur fram í grein Bryndísar Benediktsdóttur o.fl. í Læknablaðinu 4. tbl. 2022 að í alþjóðlegum samanburði fara Íslendingar seint að sofa. Þá má sjá á lýðheilsuvísum Embættis landlæknis að fólk á Austurlandi sefur lengur, en Egilsstaðir liggja um 30 mínútum nær réttu tímabelti en Reykjavík. (Algengur misskilningur er að seinkun klukku hafi áhrif á útivistarfólk eða atvinnustarfsemi. Fólk getur áfram sinnt útivist fram í myrkur og fyrirtæki geta haldið óbreyttum takti óháð því hvað stendur á klukkuskífunni.)
Sykurskattur eða skattur á gjörunnin matvæli ásamt seinkun staðartíma á Íslandi eru dæmi um einfaldar lýðheilsuaðgerðir sem líklegar eru til að skila samfélaginu andvirði tuga milljarða á ári hverju í bættri heilsu.