Gjörunnin matvara spilar á bragðlaukana með ómótstæðilegum en ónáttúrulegum samsetningum af sykri, fitu og salti. Gjörunnin matvara hleður slíku magni af hitaeiningum inn í hvern munnbita að náttúruleg fæða kemst varla í hálfkvisti þar við. Gjörunnin matvara spilar jafnvel á önnur skynfæri en bragð og lykt eins og við þekkjum þegar erfitt reynist að hætta að borða brakandi snakk.
Gjörunnin matvara villir líka á sér heimildir sem hollustuvara: Hverjum dettur í hug að ef til vill séu hollustuhillur matvöruverslana hlaðnar orkustykkjum, duftblöndum, drykkjum og svokölluðum fæðubótarefnum sem flest eiga það sameiginlegt að vera ónáttúruleg og óholl í einhverju magni? Svo má ekki gleyma öllum íblöndunarefnunum sem gerð eru til að auka geymsluþol eða breyta eiginleikum hráefnanna svo þau blandist betur eða haldi forminu. Sum þessara efna eru í raun svo skaðleg að þau liggja undir grun að vera krabbameinsvaldandi eða hættuleg þarmaslímhúðum og bólguvekjandi, auk þess sem hormónalík efni sem trufla líkamsþroskann geta komið við sögu bæði í umbúðum og innihaldi.
Því miður vinna markaðsaðstæður með gjörunnu matvörunum á kostnað heilnæmrar fæðu. Gjörunnar matvörur eru gjarnan framleiddar í afkastamiklum verksmiðjum úr ódýru iðnaðarhráefni sem er komið óralangt frá upprunanum með útlitseiginleika og geymsluþol tryggt af fjölmörgum íblöndunarefnum. Þetta stuðlar að meiri hagnaði af sölu gjörunninna matvara en einfaldra, hreinna matvæla á borð við heilkorn, spergilkál eða epli. Það má jafnvel ganga svo langt að segja að ef það borgar sig að auglýsa vöruna þá ættum við að skoða vandlega hvort þar sé gjörunnin matvara á ferð.
Of mikil neysla á gjörunninni matvöru hefur verið tengd við offitu, krabbamein, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma svo fátt eitt sé nefnt. Hlutfall gjörunninna matvæla fer vaxandi í neyslumynstri þjóðarinnar og þar er unga fólkinu mest hætta búin.
Hvað er til ráða í þessum ójafna leik? Líkaminn okkar er mörg hundruð þúsund ára gömul hönnun sem gerður er til að borða hreint plöntufæði í bland við hóflega skammta af ferskum dýraafurðum. Ef við reynum að bæta inn í mataræðið náttúrulegri fæðu á hverjum degi minnkar sjálfkrafa plássið fyrir gjörunna matarlíkið.
Stjórnvöld geta hjálpað til með því að gera skylt að merkja gjörunnar matvörur sérstaklega og skattleggja þær. Rétt eins og áfengisgjald og tóbaksgjald er innheimt til að koma til móts við skaða samfélagsins af neyslu þessara vara er sjálfsagt mál að hið opinbera búi þannig um hnútana að gjörunnar matvörur verði dýrari og minna aðgengilegar en hollari matvörur.
Hið ótrúlega er nú að gerast að meðalævi er hætt að lengjast og jafnvel farin að styttast í sumum vestrænum löndum þrátt fyrir framfarir í læknavísindum. Ekki verður annað séð af tölum Hagstofunnar en að slíkt geti einnig verið yfirvofandi hér á landi. Langvinnum, lífsstílstengdum sjúkdómum er að mestu um að kenna og þar er mataræði stærsti einstaki áhættuþátturinn.