Greinar / 18. október 2021

Næsti bær við himnaríki

" Næsti bær við himnaríki" segir hinn landsþekkti skemmtikraftur Jóhannes Kristjánsson um reynslu sína af endurhæfingarstarfi Reykjalundar. Í fyrsta sinn árið 1999 er hann dvaldi þar í fjórar vikur eftir hjartaáfall og í annað sinn fyrir rúmum áratug þegar hann dvaldi þar í sex mánuði í kjölfar hjartaígræðslu. Auk þess hefur Jóhannes af og til nýtt sér aðstöðuna á Reykjalundi til styrktaræfinga án þess að leggjast inn.

Borðaðu banana og drekktu mjólk!

Jóhannes var aðeins 43 ára gamall þegar fyrsta hjartaáfallið dundi yfir. „Ég vissi ekkert hvað var að gerast með mig,“ segir hann um viðbrögð sín á þeim tíma. „Mér leið bara öllum mjög undarlega, var máttlaus og ólíkur því sem ég átti að mér að vera. Ég hringdi í Læknavaktina sem sagði mér að borða banana og drekka mjólk, því þetta væri ábyggilega bara brjóstsviði! Það gerði mér þó ekkert gagn, mér leið bara sífellt verr og hringdi aftur í Læknavaktina sem tók enn ekkert mark á mér og það endaði með því að ég hringdi þangað fjórum sinnum út af líðan minni án þess að vera tekinn alvarlega. Eitthvað var nú bogið við slíka afgreiðslu þótti mér. Ég var líka farinn að kasta upp og ákvað þvi að fara bara sjálfur á heilsugæslustöð. Þar var ég settur í hjartalínurit og læknirinn sem skoðaði mig sagði aðstoðarmanneskju sinni að hringja á sjúkrabíl. Hann þyrfti þó ekki að flýta sér, þetta væri ekkert svo alvarlegt með mig. Sjúkrabíllinn kom og mér var ekið í rólegheitum á Landspítalann en þegar þangað var komið missti ég meðvitund. Læknirinn sem tók þar á móti mér þekkti hins vegar til mín og gat því kallað eftir gögnum um mig. Það tókst að halda mér á lífi og eftir frekar stutta innlögn á Landspítalanum fór ég í endurhæfingu á Reykjalundi. Var þar í um það bil einn mánuð og var nokkuð fljótur að ná mér aftur á strik.

En svo fæ ég annað og alvarlegra hjartaáfall níu árum síðar. Þetta var á Sjómannadeginum, ég var staddur heima hjá mér, konan mín var lasin og líka heima, annars hefði ég verið einn. Og skyndilega datt ég út, var eiginlega bara dauður, og konan hringdi á sjúkrabíl. Svo vel vildi til að lögreglumenn voru við hraðamælingar á götunni fyrir utan húsið okkar. Einn þeirra stökk strax inn til mín, hann var sérfræðingur í hjartahnoði og gerði það svo vel að hann braut í mér þrjú rif. Ég þakkaði honum alveg kærlega vel fyrir það seinna, en hann hélt í mér tórunni og ég var fluttur á spítalann og var þá eiginlega alveg að fjara út. Það var hringt til Svíþjóðar og ákveðið að fljúga mér út á Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg, þar sem sett var í mig hjartadæla. Ég var síðan sendur aftur heim með dæluna, var með hana í um það bil tvo mánuði og lá þann tíma mest á Landspítalanum. Svo kom símhringing frá Gautaborg og tilkynnt að þar væri komið fyrir mig hjarta. Mér var í skyndingu flogið þangað aftur út og grætt í mig þetta hjarta, sem var út tvítugum einstaklingi. Þetta var mjög stuttur biðtími, sem helgaðist meðal annars af því að ég gat tekið við hjarta úr tveimur blóðflokkum. Og svo heppni auðvitað líka.“

Á Reykjalundi

Jóhannes fór í hjartaígræðsluna í október 2009. Eftir heimkomuna dvaldi hann til að byrja með á Landspítalanum, en síðan lá leiðin enn á ný í endurhæfingu á Reykjalundi.

„Já, ég segi það oft, bæði í gamni og alvöru, að Reykjalundur sé næsti bær við himnaríki. Meðferðin þar var svo frábær, bæði líkamlega og andlega. Allir sem komu að meðferðinni vissu allt um mann, líka það sem hinir vissu, ég þurfti ekkert að endurtaka hluti þegar ég fór á milli sérfræðinganna. Samhæfing starfsfólksins var þannig alveg einstök. Það var aldrei að sjá að einhver væri þreyttur eða pirraður á manni, heldur mættu manni ávallt elskulegheit og virðing sýnd í hvívetna. Jákvæðin ríkjandi og starfsfólkið hafði tíma til að ræða við mann. Þetta er það sem mér fannst ég heyra á öllum skjólstæðingum þarna. Ég tel að allir hefðu gott af að kynnast starfsháttum á Reykjalundi til að læra hvernig á að koma fram við fólk.

Allt starfið byggir á þverfaglegri heildrænni meðferð. Fræðslan skiptir líka miklu máli og fyrirlestrarnir bæði upplýsandi og skemmtilegir. Það er boðið upp á hugræna atferlismeðferð, leikfimi, gönguferðir, sund og mataræðið tekið rækilega í gegn. Ég hef búið vel að þessu síðan. Og ég hef hugsað mikið um hvernig þetta endurhæfingarstarf nær að skila mörgu fólki aftur til samfélagsins og þar með líka miklum fjármunum. Að koma fólki til sjálfsbjargar, það má reikna mikinn samfélagslegan hagnað út úr því. Ég held að fólk almennt viti ekki af því hvað starfið þarna er gríðarlega mikilvægt.“

Hugsun ræður líðan

Frá hjartaígræðslunni og eftir endurhæfinguna kveðst Jóhannes varla hafa fengið kvef. „Heilsan hefur verið afar góð og ég er alltaf í reglulegu eftirliti. Sem dæmi um hversu vel tókst með endurhæfingu má nefna að eftir fáeina mánuði frá útskriftinni á Reykjalundi fór ég í fjallgöngu með fólki á Snæfellsnesi. Fjallið var 2-300 metra hátt og ég komst á toppinn korteri á undan næstu mönnum. Ég hafði áður verið mikið í fjallgöngum og má kallast nokkuð reyndur á því sviði – en þarna var ég orðinn þetta góður.“

Hvað finnst þér þú helst hafa lært á því að ganga í gegnum þetta allt saman?

„Það er mikilvægi þess að tileinka sér jákvætt og umburðarlynt viðhorf til lífsins – og mannfólksins. Það þykir mér mikilvægast af því sem ég fékk út úr dvölinni á Reykjalundi þegar upp er staðið. Móttó mitt hefur nú um langt skeið verið: Hugsun ræður líðan. Staldraðu við, hlustaðu, hugsaðu, og þá tekur heilbrigð skynsemin við. Það tók vissulega sinn tíma að tileinka sér þetta viðhorf. Auðvitað leið mér oft illa, ekki síst á spítalanum, en jákvæðnin hjá læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum sérfræðingum bæði á Landspítalanum og Reykjalundi kom mér í gegnum þetta. Ég man þegar ég vaknaði eftir hjartaígræðsluna og fann hvernig blóðstreymið var orðið betra í öllum líkamanum, ég var ekki lengur með bláar kaldar varir. Ég var vissulega aumur lengi á eftir, hafði til dæmis misst kraft í fótunum af langri legu á sjúkrahúsi. En ég fylltist af svo miklu þakklæti út í allan heiminn að mig langaði mest til að rjúka út á götu og taka í hendina á öllum sem ég mætti og þakka fyrir mig ... Þakka fyrir lífið!“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum