Greinar / 26. febrúar 2025

Mönnun háskólakennara í heilbrigðisvísindum

Screenshot 2025-02-28 162041.jpg

Ein grunnstoð mönnunar heilbrigðisstétta á Íslandi er skipulag háskólamenntunar sem veitir starfsréttindi í heilbrigðistengdum greinum. Á undanförnum árum hefur Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands leitast við að svara ákalli stjórnvalda um fjölgun nemenda í heilbrigðistengdum greinum, þar á meðal í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sjúkraþjálfun, og notið sértæks stuðnings stjórnvalda í því verkefni. Þannig hefur Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild undanfarið fjölgað nemendum í hjúkrunarfræði úr 120 í 140 en hefur það að markmiði að þau verði 150 árið 2027. Læknadeild hefur nú þegar fjölgað námsplássum í læknisfræði úr 60 í 75, og hefur það að markmiði að fjölga þeim í 90 árið 2027. Þá stendur til að fjölga námsplássum í sjúkraþjálfun á næstu árum úr 35 í 50.

Fjölgun háskólakennara

Ljóst er að fjölgun nemenda í ofangreindum greinum um 20-33% kallar á fjölgun háskólakennara og eflingu innviða, m.a. aukin útbúnað til kennslu, tækja og húsnæðis sem uppfyllir kröfur svo að hægt sé veita öfluga menntun. Jafnframt þarf heildarendurskoðun náms og kennsluaðferða til að tryggja að gæði náms séu áfram sambærileg með auknum fjölda. Þessa vinnu hafa ofangreindar deildir Háskóla Íslands ásamt samstarfsstofnunum (þar á meðal Landspítala, Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar, og fjölda annarra stofnanna á vegum hins opinbera og í einkageiranum) einhent sér í - en það verkefni hefur ekki verið án áskorana.

Húsnæðisvandinn

Fyrst ber að nefna húsnæðisvanda Heilbrigðisvísindasviðs og Landspítala, en ljóst er að fjölgun nemenda í heilbrigðistengdum greinum kallar á aukið húsnæði til kennslu og klínískrar þjálfunar nemenda sem er jafnan samofin náminu. En eins og staðan er núna fer kennsla á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands fram á níu stöðum á höfuðborgarsvæðinu og mun fleiri stöðum þegar vettvangur klínískrar þjálfunar er meðtalinn. Húsnæði á Landspítalasvæðinu – Landspítalinn sjálfur, Læknagarður og Eirberg, eru gamlar byggingar með aðstöðu sem ekki mætir nútímakröfum háskólakennslu og enn síður þeim fjölda nemenda í heilbrigðistengdum greinum sem áform eru uppi um að muni stunda þar nám til starfsréttinda. Nýr Landspítali og nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands sem nú rísa á sama reit munu gjörbreyta aðstöðu til kennslu og klínískrar þjálfunar – þegar þær byggingar eru fullbúnar og tilbúnar í notkun sem samkvæmt áætlun er ekki fyrr en 2028-29. Ljóst er að fram að þeim tíma verður mikil áskorun að ná fyrrnefndum markmiðum um fjölgun nemenda í heilbrigðistengdum greinum og mikil þörf á að stjórnvöld styðji vel við samvinnustofnanir Háskóla Íslands svo þær geti tekið á móti nemendum í klíníska þjálfun.

Bls23_Nyr Landspitali.jpeg

Fjölgun nemenda

Mönnun háskólakennara er önnur mikilvæg áskorun í fjölgun nemenda í heilbrigðistengdum greinum. Á undanförnum áratug hefur í um helmingi tilfella um auglýst störf háskólakennara í heilbrigðistengdum greinum einungis einn eða enginn umsækjandi sótt um starfið og því reynst afar erfitt er að manna kennarastöður í sumum mikilvægum klínískum greinum. Vert er að velta fyrir sér hvernig á þessu standi. Ástæður þessa eru margþættar en þær augljósustu snúa að slökum kjörum og starfsskilyrðum háskólakennara, og þeirra sem stunda rannsóknatengt nám.

Launamálin

Hafa verður í huga að háskólakennarar í heilbrigðistengdum greinum hafa eftir starfsréttindanám oftast lokið 3-8 ára klínísku sérnámi, og þar til viðbótar rannsóknartengdu doktorsnámi. Það að fara í doktorsnám eða sambærilega þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum, sem eru grunnhæfniskröfur til háskólakennara, er ávísun á lág doktorsnemalaun á þeim aldri þegar fólk er oft að stofna fjölskyldur og festa kaup á sínu fyrsta húsnæði. Hæfir umsækjendur um lektorsstöður sem hafa þó kosið að fara þessa leið eru oft á bilinu 35 til 40 ára með fjölskyldur og mikil húsnæðis- og námslán á bakinu. Við þeim blasir að laun háskólakennara eru alls ekki samkeppnishæf við þau laun sem þeim býðst í klínísku starfi, hvorki hjá hinu opinbera né í einkageiranum, né öðrum störfum á íslenskum markaði hvað þá á sambærilegum starfsvettvangi erlendis þar sem mörg hafa menntað sig. Það er því ljóst að starfsval þeirra sem hafa tilskilin réttindi og myndu vilja helga sig kennslu heilbrigðistétta er ekki einfalt.

Traustari forsendur

Af ofangreindu má vera ljóst að bætt aðstaða til kennslu og mönnun háskólakennara í heilbrigðisvísindum er nauðsynleg forsenda mönnunar heilbrigðisstétta á Íslandi. Það er mikilvægt að stjórnvöld átti sig á þessu samhengi og auki verulega stuðning til grunnrannsókna í heilbrigðisvísindum, og bæti jafnframt aðbúnað og kjör nemenda í rannsóknartengdu námi sem og þeirra sem vilja helga sig háskólakennslu í þessum greinum. Á þetta hefur verið bent í nýlegum opinberum skýrslum og mikilvægt að þeim verið fylgt eftir af núverandi stjórnvöldum. Þá fyrst mun þetta mikilvæga verkefni um mönnun heilbrigðisstétta á Íslandi hafa forsendur til að takast vel.

Heimildir

Nýlegar opinberar skýrslur um mönnun og menntun í heilbrigðisvísindagreinum:

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Till%C3%B6gur%20til%20fj%C3%B6lgunar%20%C3%BAtskrifa%C3%B0ra%20hj%C3%BAkrunarfr%C3%A6%C3%B0inga.pdf

https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2020/05/20/Serfraedinam-laekna-og-framtidarmonnun-Skyrsla-starfshops/

Unnur Anna Valdimarsdóttir

Prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands

Helga Bragadóttir

Prófessor og forseti Hjúkrunarog ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands

Sólveig Ása Árnadóttir

Prófessor og formaður námsbrautar í sjúkraþjálfun við Læknadeild Háskóla Íslands

Þórarinn Guðjónsson

Prófessor og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands
Nýtt á vefnum