Ánægjulegt er að á síðustu tveimur áratugum, frá aldamótum að telja, hefur orðið veruleg vitundarvakning hjá almenningi hér á landi um mikilvægi góðrar hljóðvistar. Rannsóknir hafa sýnt að hljóðvist í umhverfi okkar hefur mikil áhrif á líðan, heilsu sem og afköst í vinnu. Góð hljóðvist stuðlar því með beinum hætti að auknum lífsgæðum. Má þar fyrst nefna lágmörkun á truflun og óþægindum sem fólk verður fyrir sökum hávaða og hljóðbærni. Ekki er þó síður mikilvæg sú staðreynd að talað mál og heyrn eru okkar helstu skyn- og tjáningarfæri. Allur hávaði og hljóð sem til þess eru fallin að draga úr virkni þessara mikilvægu skynfæra hafa því neikvæðar félagslegar afleiðingar í för með sér. Í greinarkorni þessu verða raktir helstu þættir sem hafa áhrif á gæði hljóðvistar á heimilum, í grunn- og leikskólum, á vinnustöðum og í kaffi- og veitingahúsum. Yfirferðin er langt því frá tæmandi en er hugsuð til að veita innsýn í málefnið.
Þegar ráðast þarf í endurbætur vegna hljóðvistar er ráðlegt að þær byggi á hljóðmælingum og vandaðri hljóðráðgjöf og hönnun til þess að tryggja árangur. Það er vert að hafa í huga að almennt kostar ekki nema 1 til 3% af stofnkostnaði að tryggja góða hljóðvist í byggingum sé hugað að henni strax í upphafi. Önugra og kostnaðarsamara er að ráðast í endurbætur eftir á. Því miður er verulegur skortur á hljóðmenntun hér á landi; bæði í stjórnsýslunni og hjá einkaaðilum. Það er almannahagur að styrkja hana og bæta.
Hljóðvist á heimilum
Á heimilum er sérstakt áhyggjuefni að hávaði frá bíla- og flugumferð er stöðugt að aukast. Óvarleg þétting byggðar á höfuðborgarsvæðinu, með nýjar íbúðir alveg við stofnæðar umferðar eykur á vandann. Svefninn er í hættu vegna of mikils næturhávaða í umhverfinu. Í þessum tilvikum er nauðsynlegt að gluggar og útihurðir séu vandaðar og vel hljóðeinangrandi. Þá er einnig mikilvægt að ráðast í mótvægisaðgerðir sem tryggja aðkomu fersks lofts án þess að hleypa hávaðanum inn í svefnherbergið þar sem sofið er. Sum sveitarfélög veita styrki til endurbóta á háværum svæðum sem fólk er hvatt til að kynna sér. Alvara ónógs svefns af völdum umhverfishávaða sést vel í meðfylgjandi töflu:
Það hefur ekki gengið nógu vel að tryggja gæði nýs íbúðarhúsnæðis m.t.t. hljóðvistar. Víða er hljómlengd (ómtími) rýma alltof langur sem er mjög lýjandi. Börn að leik geta valdið ærandi hávaða; samræður eru erfiðar, óþægilegt er að hlýða á sjónvarp og útvarp vegna bjögunar hljóðs í rýminu og svo mætti lengi telja. Veruleg lífsgæði tapast. Hér er hægt að ráðast í hljóðdeyfiaðgerðir í viðkomandi rýmum til þess að bæta ástandið. Mikilvægt er að reikna til þess að tryggja árangur endurbóta.
Í gömlu byggðinni, sem byggð var án þess að nokkrar opinberar hljóðkröfur giltu, er hljóðeinangrun á milli íbúða ekki næg og stenst ekki nútímakröfur. Þar er oft torvelt að ráðast í endurbætur og þær geta verið mjög kostnaðarsamar. Verra er að of oft eru nýju fjölbýlishúsin, þrátt fyrir nútímahljóðkröfur, ekki nógu vel byggð og hönnuð m.t.t. hljóðvistar. Deilur vegna ófullnægjandi hljóðeinangrunar á milli nýrra íbúða rata ósjaldan í kostnaðarsöm mats- og dómsmál. Hér verður að bæta opinbert eftirlit. Það er almannahagur.
Vaknar þá spurningin, hvað getur fólk gert til að tryggja sem best stöðu sína, t.a.m. við kaup á fasteign. Á vefsíðu Umhverfisstofnunar, undir svæðinu – Grænt samfélag – Hollustuhættir – Hávaði og hljóðvist, má finna hávaðakort fyrir stærstu þéttbýliskjarna landsins. Við fasteignakaup er góð regla að kynna sér hvar íbúð stendur á slíku korti. Ef um íbúð í fjölbýlishúsi er að ræða hvetja greinarhöfundar einnig til að fólk kynni sér hvort svonefndri Greinargerð II vegna hljóðvistar hafi verið skilað inn til byggingarfulltrúa. Ef svo er ekki hefur byggingin að líkindum ekki verið sérstaklega hljóðhönnuð. Þá ber að fara varlega. Að lokum má nefna að hús sem einangruð eru að innan, t.d. með álímdri plasteinangrun með múrhúð á steinsteyptan útvegg, leiða hljóð greiðlega um útveggi á milli íbúða. Þau sem viðkvæm eru fyrir hljóðburði milli íbúða ættu því að hugsa sig tvisvar um áður en fjárfest er í fasteign sem byggð er með þeim hætti.
Hljóðvist á vinnustað
Hljóðvist á vinnustað er jafn margþætt viðfangsefni og vinnustaðir eru margir. Á skrifstofum skiptir miklu máli að hljómur sé tempraður og hljóðeinangrun næg. Mikilvægi þess fer stöðugt vaxandi með auknum kröfum nútímans um opin vinnusvæði. Í opnum vinnurýmum er lykilatriði að tryggja gott aðgengi starfsfólks að trúnaðarheldum rýmum til funda og símtala. Þumalputtareglan er sú að eitt fundar- eða símaherbergi sé á hverja 4-8 starfsmenn, eftir eðli starfseminnar. Er það bæði til bóta fyrir starfsfólk sem talar í meira næði en ella, sem og allt annað starfsfólk á opna vinnusvæðinu sem þá ekki verður fyrir truflun við vinnu sína.
Á háværum vinnustöðum er mikilvægt að atvinnurekendur vinni markvisst að því að draga úr hávaða og skapa eins mikið næði fyrir starfsmenn og mögulegt er. Í slíkum tilvikum skal fylgja ákvæðum reglugerðar nr. 912/2006 um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum. Fari jafngildishávaði yfir 80 dB(A) fyrir 8 tíma vinnudag er það á ábyrgð vinnuveitanda að útvega vandaðar heyrnarhlífar fyrir starfsmenn og sjá til þess að þær séu notaðar. Heyrnin er í húfi. Heyrnarfrumur sem deyja vegna of mikils álags endurnýjast ekki. Varanlegur heyrnarskaði hlýst því af of mikilli hávaðaáraun. Heyrnarskerðing gerist á löngum tíma og því erfitt að átta sig á henni fyrr en skaðinn er skeður. Það er því áríðandi að fara varlega.
Miklum árangri má einnig ná með að hljóðdeyfa hávær iðnaðarrými vel. Slíkt temprar hljóm og dregur verulega úr hávaða. Kostnaður við slíkar framkvæmdir er fljótur að skila sér í bættri líðan og aukinni framlegð starfsfólks og færri veikindadögum. Ávallt er þó nauðsynlegt að mæla núverandi ástand og reikna áður en ráðist er í aðgerðir til að hámarka árangur endurbóta.
Grunn- og leikskólar
Í grunn- og leikskólum er mjög mikilvægt að ómtími (hljómlengd rýma) sé jafn yfir tíðnisviðið og hæfilega tempraður í öllum kennslu- og íverurýmum. Of langur og ójafn ómtími dregur úr áheyrileika og skerpu talaðs máls og magnar upp hávaða í bekknum. Ófullnægjandi aðstæður valda þannig nemendum náms- og hegðunarerfiðleikum og starfsfólki heilsutjóni eins og dæmin sanna. Börn eiga að fá að vera börn. Kennslu- og leikskólarými verða að vera hljóðhönnuð m.t.t. þarfa þeirra. Á því er verulegur misbrestur hér á landi. Sveitarfélög hafa með endurbótum í skólahúsnæði verið að leitast við að bæta ástandið. Betur má ef duga skal.
Of algengt er að hljóðeinangrun á milli kennslustofa sé ófullnægjandi sem veldur iðulega truflun í kennslu. Þegar um slíkt er að ræða er ráðlagt að ráðast í endurbætur sem byggja á hljóðmælingum og vandaðri hljóðhönnun endurbóta. Þannig er árangur þeirra best tryggður.
Matsalir skóla og reyndar vinnustaða líka eru víða of hljómmiklir. Þar hittast nemendur og starfsfólk mögulega í eina skiptið yfir daginn og óhindruð tjáskipti, þar sem margir tala í einu, því mikilvæg. Hljóðhönnun matsala þarf að tryggja þessi lífsgæði.
Veitinga- og kaffihús
Mikið hefur verið rætt og ritað um hljóðvist á veitinga- og kaffihúsum. Of algengt er að fólk komi þreytt út af slíkum stöðum sökum óþægilegs glymjanda og hávaða. Býr þar oft að baki sá misskilningur rekstraraðila að með því að tempra hljóm í veitingarýmum sé verið að skaða eftirsóknarverða stemmingu og andrúmsloft staðarins. Með vandaðri hljóðhönnun má tryggja þægilega hljóðvist í þessum rýmum. Þau iða samt af lífi. Sé flinkur arkitekt með í ráðum geta hljóðvistarlausnir einnig stuðlað að fallegu og smekklegu útliti.
Ástæða þess að fólk sækir veitinga- og kaffihús heim er til að njóta samverustunda með vinum og vandamönnum. Til þess að það sé mögulegt þarf að vera hægt að hlýða á og tjá sig við alla sína sessunauta. Kaffi- og veitingahús sem ekki bíður upp á slíkt er ekki að veita viðskiptavinum sínum þá upplifun sem þeir sækjast eftir og greiða fyrir. Til að tryggja árangur þarf að hljóðhanna rýmin, gæta að því að hljóðstig í hljóðkerfi sé ekki of hátt stillt og tryggja viðunandi bil milli aðskilinna borða.
Gaman er að segja frá því að Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) og Íslenska hljóðvistarfélagið (Íshljóð) veittu á síðasta ári 2022 Hljóðvistarverðlaun í fyrsta sinn að sænskri fyrirmynd. Ákveðið var að verðlauna það veitinga- eða kaffihús þar sem hljóðvist þótti skara framúr. Hljóðvistarverðlaunin eru hugsuð sem hvatning til þess að tryggja góða hljóðvist á veitinga- og kaffihúsum öllum til hagsbóta. Veitingastaður Hótels Sigló á Siglufirði hlaut verðlaunin að þessu sinni.
Lokaorð
Í grein þessari hafa höfundar rakið mikilvægi góðrar hljóðvistar til að tryggja góða heilsu, líðan og lífsgæði. Er það von þeirra að það sem hér hefur verið rakið geti orðið einhverjum til fróðleiks og gagns. Líkt og nefnt var í upphafi greinarinnar hefur orðið veruleg vitundarvakning um mikilvægi góðrar hljóðvistar á síðustu árum. Stafar það bæði af því að almenningur er stöðugt að verða meðvitaðri um sitt almenna heilsufar, sem og aukinnar hávaðaáraunar í umhverfi okkar. Á sama hátt og slæm hljóðvist skerðir lífsgæði okkar leiðir góð hljóðvist til verulegra lífsgæða. Það er því mikilvægt fyrir okkur öll að gefa nærumhverfi okkar góðan gaum. Góð hljóðvist er ein af grunnstoðum heilbrigðs og góðs lífs.