Trausti Valdimarsson meltingarlæknir er 56 ára. Líkt og svo margir jafnaldrar byrjaði hann að fikta við reykingar á unglingsárunum.
„Ég fór þrettán ára í sveit og þar reyktu nánast allir. Ég vissi alveg að þetta væri ekki það hollasta sem maður gerði. Pabbi reykti til dæmis aldrei og var alveg á móti þessu. Maður þorði ekki að reykja fyrir framan hann. En ég átti marga frændur og frænkur sem reyktu, enda þótti það rosalega töff á þessum árum og bara aumingjar sem gátu ekki reykt. Það var líka alls staðar reykt, til dæmis þótti allt í lagi að reykja með smábörn í bílnum, í bíó og strætó og öllum opinberum stofnunum, já meira að segja á læknabiðstofum.
Ég held ég hafi þó aldrei verið pakkamaður, kannski farið í 10 – 15 sígarettur á dag eftir því hvar ég vann hverju sinni. Þegar ég var fimmtán ára í uppskipun á eyrinni voru reykpásur fastar í vinnusamningnum. Maður fékk að minnsta kosti eina eða tvær rettur á klukkutímann, og það voru filterslausar Camel, það var mest töff.“
Trausti segir viðhorf sitt til reykinga fyrst verulega breytast þegar hann fór að starfa sem unglæknir á Akureyri á árunum 1984 til ´85. „Þá voru það sérstaklega hjarta- og lungnalæknarnir sem komu úr sérnámi frá útlöndum sem mæltu mjög gegn reykingum. Á þessum tíma var hins vegar enn þá alls staðar reykt, á fundum, í morgunrapporti með hjúkkunum, það voru öskubakkar á öllum borðum, hinir hörðustu reyktu á meðgöngudeildinni. Svo fór ég í sérnám til Svíþjóðar 1986 og þar var þá farið að banna reykingar á ýmsum stöðum. Það var ansi erfitt, maður var alltaf með löngunina og í hálfgerðu nikótínsvelti yfir daginn, komst kannski út í smók í hádeginu, en svo gat maður reykt eftir vinnu.
Svo gerðist það að einn vinur minn skellti sér í Gautaborgarhlaupið, sem er hálft maraþon og mjög vinsæll viðburður á vorfagnaði í maímánuði þar í borg. Ég hristi fyrst hausinn yfir því hvað hann væri vitlaus, því hann var að drepast úr harðsperrum á eftir og gat varla gengið upp nokkrar tröppur. Árið eftir var ég svo áhorfandi að þessu hlaupi og þátttakandi árið þar á eftir. Þá var ég sem sé byrjaður að stunda hlaup og fann hvað það var gott og gaman og þá fór maður að losna við reyklöngunina. Á þessum tíma var mig líka farið að langa til að hætta alveg að reykja, og las allt sem ég komst yfir sem gat veitt mér meiri hvatningu til þess. Eitt af því sem ég ákvað var að gera eitthvað þar sem ég gæti ekki reykt á meðan, til dæmis að fara í sturtu, það er mjög erfitt að reykja í sturtu. Og svo náttúrlega að fara út að hlaupa og pústa vel úr lungunum, hreinsa „öskubakkann“ eins og það var kallað.“
Gekk þér þá hratt og vel að hætta?
„Nei, eins og flestir þurfti ég nokkrar atrennur að því. Fyrst hætti ég að reykja í undirbúningi fyrir eitthvert hlaupið, svo byrjaði maður aftur þegar það var að baki til að umbuna sér, verðlauna sig. Fá sér rettu yfir einum bjór eða kaffibolla á veröndinni, og svoleiðis. Það urðu síðan tímamót þegar ég flutti til Linköping, sem er bær fyrir sunnan Stokkhólm, og hitti fólk sem var að æfa fyrir maraþon í Stokkhólmi. Ég slóst í hópinn og byrjaði þar með að stíga stærri skref og hugsa um að ná betri tímum í hlaupunum. Ég hætti þá að reykja í lengri tíma en áður, og svo þegar hlaupunum fjölgaði byrjuðu þessi tímabil að ná saman og reyklöngunin tók að dofna.“
Þannig að þú þakkar hlaupunum mikið til fyrir það að þér tókst að hætta að reykja?
„Þau hjálpuðu allavega mikið til í því sambandi og komu í rauninni í staðinn fyrir reykingarnar. Margir sem stunda langhlaup hafa verið haldnir einhverri fíkn, hvort sem það hafa verið reykingar eða áfengi eða eitthvað annað, og hlaupin reynst þeim góður staðgengill fíknarinnar. Hlaupin framkalla vissa vellíðan og stundum er talað um „runners high“ eða „hlaupa-alsælu“ eins og ég hef kallað það. Hana hef ég oft upplifað, sérstaklega þegar maður hleypur utan við malbikið, einhvers staðar úti í náttúrunni, til dæmis í hinu velþekkta Laugavegshlaupi.“
Liggur ekki beint við að læknar, sem eru í daglegri umgengni við fólk sem beðið hefur skaða af reykingum, hætti sjálfir að reykja?
„Jú, það er mjög gott til að fæla fólk frá reykingum að sjá annað fólk sem er með lungnakrabbamein, langvinna lungnateppu, bronkítis og marga aðra sjúkdóma sem reykingar eiga stóran þátt í að skapa. Listinn yfir þá sjúkdóma, sem eru miklu algengari og verri hjá þeim sem reykja, er nánast óendanlegur. Það eru að minnsta kosti 2000 þekkt efni í tókbaksreyk sem hafa líka alls konar áhrif á ónæmiskerfið og flest líffæri.“
Hvað tók þig langan tíma að losna alveg við tóbakslöngunina?
„Það tók nokkur ár að trappa reykingarnar niður og hætta svo alveg. Ég hætti margoft í nokkrar vikur eða mánuði og byrjaði svo aftur, aðallega í samkvæmisreykingum. En svo kom að því að ég missti alveg áhugann á þessu, aðallega vegna hlaupanna. Mér leið einfaldlega miklu betur og fékk meira kikk út úr því að hlaupa en að reykja. Þetta snýst því þannig fyrst og fremst um að það sem kemur í staðinn fyrir reykingarnar sé miklu betra, að maður skynji það og líði þannig. Auðvitað er ég svo mjög þakklátur fyrir þetta núna þegar ég er orðinn 56 ára og hætti að reykja upp úr þrítugu, því hefði ég ekki hætt væri ég líklega kominn með einhverja sjúkdóma eða kvilla vegna reykinganna, svo sem lungnaþembu og jafnvel einhverja kransæðasjúkdóma – eða mjög farinn að nálgast það.“
En almennt viðhorf til reykinga hefur reyndar breyst mjög mikið á undanförnum árum, ekki satt? „Jú, það er alveg rétt. Maður trúði því varla sjálfur að hægt væri að banna til dæmis reykingar á börum og síðan ánægjulegt að sjá hvað allir eru orðnir ánægðir með þá ráðstöfun, líka margir þeirra sem enn reykja. Ég man bara sjálfur þegar ég reykti og fór í flug til nágrannalandanna, þá var erfitt að lifa af þessa tvo til þrjá klukkutíma án þess að reykja. Og enn er verið að tilkynna farþegum við brottför að ekki megi reykja í fluginu, sem er farið að virka dálítíð ankannalegt.“ Hvernig hreyfingu stundarðu í dag? „Ég stunda mikla hreyfingu flesta daga, hjóla, hleyp og syndi. Ég get alveg sleppt þessu í nokkra daga en þá fer mér einfaldlega að líða verr. Það er reyndar mjög langt síðan ég hef sleppt úr mörgum dögum í röð. Ég fer til dæmis flestra minna ferða innanbæjar hjólandi; hjóla oftast til og frá vinnu, sem gerir um hálftíma á dag. Svo reyni ég að komast í sund eða ræktina og út að hlaupa. Auk þess iðka ég talsvert jóga, sem er mjög gott til að halda sér liðugum og læra að slaka á.“