Við Íslendingar erum á heildina litið stolt af heilbrigðiskerfinu okkar, og ekki að ástæðulausu – það er margt við kerfið okkar sem við getum með sanni verið hreykin af. Við höfum hannað og byggt upp kerfi að norrænni fyrirmynd sem leggur megináherslu á að samfélagið allt hafi greiðan aðgang að framúrskarandi heilbrigðisþjónustu. Við vinnum út frá samtryggingu, sameiginlegri ábyrgð allra þjóðfélagsþegna okkar og miðum að því að hámarka heilsu og velferð allra. Samfélagið dafnar þegar flest okkar eru heilbrigð og spræk, og við njótum öll góðs af því.
Óásættanlegar brotalamir
Þrátt fyrir það má finna ýmsar brotalamir í kerfinu. Mikið álag á bráðamóttöku sem og á heilsugæslum á landsbyggðinni, furðulega langir biðtímar, mannekla og fleira gera það að verkum að mörgum þykir okkur sem kerfið þoli ekki mikið meira, ekki mikið lengur. Við finnum öll fyrir því að kerfið hefur mátt muna fífil sinn fegurri.
Ástandið virðist sérstaklega óásættanlegt í ljósi þess að við lifum á tímum sannkallaðrar upplýsingabyltingar og búum við tæknilega getu og færni sem á engan sinn líka í gervallri mannkynssögunni. Með hjálp nýrra aðferða, tæknilegrar sjálfvirkni og annarra stafrænna verkfæra verður okkur kleift að safna ómældu magni gagna og nýta þau til þess að framkvæma greiningar, spá fyrir um framtíðina með þokkalegri vissu og nota þessa þekkingu til þess að taka réttar ákvarðanir að hverju sinni.
Með öllum þessum undraverðu tækninýjungum ætti okkur að vera fært að létta á álaginu sem heilbrigðisstarfsfólk glímir við – en okkur hefur ekki tekist það hingað til. Hvers vegna? Leiða má að því rök að misskilnings gæti um af hverju vandamálið, eða sjúkdómurinn, sem plagar heilbrigðiskerfið okkar samanstendur. Álagið sem slíkt er nefnilega ekki sjúkdómurinn, og ekki heldur skortur á tækjum og tólum. Þetta eru mun fremur einkenni hins raunverulega meins, sem leynist í grunninnviðum heilbrigðiskerfisins.

Þegar allt kemur til alls snýst heilbrigðisþjónusta fyrst og fremst um upplýsingar. Upplýsingar eru helsta og áhrifaríkasta vopn lækna og hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og sjúkraþjálfara – því án fullnægjandi upplýsinga um sjúkrasögu einstaklings, aðstæður hans, líkamlegt ástand og lífsviðurværi er ómögulegt að greina orsök heilsubrestsins sem knýr einstaklinginn til þess að leita sér hjálpar. Án stöðugs og samhæfðs upplýsingaflæðis í gegnum kerfið allt verður heilbrigðiskerfið svifaseint, ónákvæmt og beinlínis hættulegt sjúklingum.
Ég tel að umbætur á heilbrigðiskerfinu til framtíðar krefjist þess að upplýsingainnviðirnir okkar verði teknir til rækilegrar endurskoðunar og uppfærslu – og að raunverulegar framfarir hefjist aðeins með samvinnu þvert á geira, stofnanir, nýsköpunarfyrirtæki og samtök.
Innviðir fúna

Þótt heilbrigðiskerfið sé, eins og áður segir, sterkt og heilsteypt í grófum dráttum, þá hefur það verið byggt á stafrænum gagnagrunni sem hefur ekki haldið í við tækniframþróun síðustu áratuga. Rafræna sjúkraskrárkerfið SAGA var fyrst hannað og útfært síðla á níunda áratugnum, og þótt það hafi vitaskuld fengið uppfærslur í gegnum tíðina er það ekki í stakk búið til þess að miðla og hagnýta upplýsingar á eins skilvirkan hátt og hægt er.
Meginvandamálið er sundrung – uppbrot og dreifing gagna. Þegar gögnum er ekki deilt í gegnum allt kerfið myndast gagnasíló sem hindrar aðgengi fagaðila að öllum fyrirliggjandi heilbrigðisgögnum um tiltekinn sjúkling. Þegar sjúkraskrárkerfi tala ekki saman sín á milli neyðast læknar og hjúkrunarfræðingar til þess að vinna annað hvort út frá ófullkomnum forsendum – eða, eins og er blessunarlega algengara, að þau neyðast til þess að vinna mun hægar. Þannig eykst hættan á því að mistök séu gerð í greiningarferlinu og á því að fólk fái hjálp í tæka tíð áður en skaðinn er skeður.
Vandamálið er þó í raun dýpra; þar eð sjúkraskrárkerfið okkar skortir enn að miklu leyti sveigjanleikann og samhæfinguna sem til þarf til þess að geta tengst og innvinklað nýstárlega tækni á við gervigreind, nútímaleg forspárlíkön og fjarlækningar. Flestar þessar nýjungar byggja á stöðugu flæði rauntímaupplýsinga, en grunninnviðir og skipulag kerfisins okkar hindra að slíkar nýjungar séu teknar í gagnið – sem er að endingu heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum til miska.
Þetta er nefnilega ekki bara tæknilegt vandamál, heldur raunverulegt samfélagslegt vandamál. Þetta veldur lengri biðtímum, tvíteknum greiningum, tilvísunum, prufum og rannsóknum, hægari verkferlum og auknum kostnaði í heilbrigðiskerfinu sem heild.
Lausnin ætti þó að vera tiltölulega skýr. Við þurfum að ráðast í nútímavæðingu og endurhönnun grunninnviða tæknilega hluta heilbrigðiskerfisins okkar. Það þýðir að við þurfum að uppfæra gagnagrunna og sjúkraskrárkerfin okkar og sjá til þess að þau tali saman, svo gagnaflæði sé tryggt um kerfið allt á skilvirkan máta. Greiningar yrðu þannig skjótari og nákvæmari, meðferð yrði markvissari og ákvarðanir yrðu í auknum mæli teknar út frá traustari forsendum. Það er enginn vafi á því að slíkt myndi bjarga mannslífum.
Gögn til að nota tækin rétt
Umræðan um umbætur á heilbrigðiskerfinu gengur langtum of oft út frá því sem gefnu að lausnin á vandamálum okkar sé einfaldlega sú að kerfið þurfi að eignast betri græjur og tæki, kaupa fleiri hátækniskanna og fullkomnari greiningarbúnað – en þá er þó ekki öll sagan sögð. Þótt þessi tæki skili óneitanlega góðum árangri eru þau þó bara ekki nóg ef heilbrigðisstarfsfólk hefur ekki tímann til þess að hagnýta þau í tæka tíð.
Sjúkrahús getur fjárfest í nýjustu segulómunartækni fyrir milljónir, en ef sjúkrasaga sjúklings er ófullnægjandi, ef henni hefur verið dreift á milli ólíkra kerfa og hún er ekki aðgengileg læknum í rauntíma, þá glatast stór hluti af þeim mögulega ávinningi sem tækið býður upp á. Án þessara þátta verða ákvarðanir hægari, fleiri óþarfa rannsóknir eru gerðar og mikilvæg innsýn – svo sem mynstur í einkennum sjúklinga eða árangur meðferða – tapast í sundruðum kerfum. Tækni er jú aðeins jafn nytsamleg og gögnin sem við byggjum á við notkun hennar.
Upplýsingaskortur leiðir einnig til óþarfa kostnaðar og sóunar á auðlindum. Hversu margar sjúkrahúsinnlagnir gætum við fyrirbyggt ef heilsugæslan hefði yfir betri forspárgögnum að ráða? Hversu oft er lyfjum ávísað óþarflega vegna þess að læknar hafa ekki greiðan aðgang að heildrænum sjúkrasögum? Það eru þessar spurningar sem ættu að vera í forgrunni umræðunnar. Við þurfum að forgangsraða upp á nýtt. Í stað þess að spyrja okkur að því hvaða nýju tæki og tól við þurfum að kaupa ættum við að spyrja okkur að því hvernig okkur sé kleift að nýta upplýsingarnar sem við búum yfir og söfnum á degi hverjum á betri og skilvirkari hátt. Okkur sárvantar að yfirvöld séu með mikla þekkingu á gagnagrunnum í heilbrigðisvísindum sem leggur línurnar. Við þurfum að fjárfesta í öruggum gagnagrunnum sem tryggja að heilbrigðisyfirvöld eigi öll sjúkraskrárgögn, nútímalegum sjúkraskrám sem tengjast öðrum tæknilausnum, rauntímagagnavinnslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og greiningarkerfum sem hjálpa til við að spá fyrir um og fyrirbyggja sjúkdóma í stað þess að einblína eingöngu á meðhöndlun þeirra eftir á að hyggja.
Gagnsæi og samvinna
Ein stærsta hindrunin sem stendur í vegi framfara er hins vegar sú að tilteknir lykilaðilar fá ekki sæti við borðið. Hið opinbera, sem hefur eðlilega yfirumsjón með heilbrigðisþjónustunni, hefur verið tregt til að vinna með einkageiranum og sprotafyrirtækjum – sérstaklega þegar kemur að stafrænni nýsköpun. Þó svo að áhyggjur af friðhelgi einkalífs og hagsmunum einkafyrirtækja séu skiljanlegar hefur slík tortryggni almennt verið skaðlegri en ella.
Ísland er lítið land og býr yfir takmarkaðri stærðarhagkvæmni, sem þýðir að heilbrigðiskerfið hefur ekki nema takmarkað bolmagn til þess að ráðast í mikla nýsköpun innanhúss. Þetta gerir það að verkum að án þess að eiga í stefnumótandi samstarfi við íslensk heilbrigðistæknifyrirtæki, gervigreindarsérfræðinga og hugbúnaðarsérfræðinga sé hætt við að verða eftirbátur nágrannaþjóða okkar á sviði sjálfvirknivæðingar, gagnadrifinnar ákvarðanatöku og snjallra heilbrigðislausna sem gætu skilað verulegum árangri.
Það að opna fyrir samvinnu við einkafyrirtæki og sprota þýðir ekki að hið opinbera missi taumana á heilbrigðiskerfinu eða að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu. Það þýðir einfaldlega að við hagnýtum þá sérfræðiþekkingu sem er nú þegar til staðar innan íslenska hugbúnaðar- og nýsköpunargeirans. Nýsköpun í heilbrigðisgeiranum er komin til að vera – en hana skortir aðgang að kerfinu ef hún á að fá að gera gagn.
Í stað þess að nálgast hlutina af tortryggni ætti opinberi geirinn að setja nýjar og skýrari reglur um samvinnu milli stofnana og fyrirtækja. Þetta gætu verið reglur um tilraunaverkefni fyrir nýjar tæknilausnir, samstarf milli hins opinbera og einkafyrirtækja eða miðlægan nýsköpunarvettvang, hraðal eða álíka sem gerir fyrirtækjum kleift að vinna beint með sjúkrahúsum eða heilsugæslum í átt að þróun nýrra lausna.
Á bjargi byggir hygginn maður hús
Við höfum alla burði til þess að starfrækja eitt besta heilbrigðiskerfi heims – en til þess að takast það þurfum við að viðurkenna þörfina á að uppfæra grunninnviði okkar, stórbæta upplýsingaflæði og auka við gagnsætt, farsælt samstarf milli geira, stofnana og fyrirtækja.
Þetta krefst þess að við ráðumst í talsverðar fjárfestingar og endurhugsum hvernig við nálgumst heilbrigðiskerfið – en það er auðvelt að réttlæta slíkar breytingar þegar það skilar sér í betri heilsu, aukinni vellíðan og fleiri mannslífum sem bjargast. Því lengur sem við bíðum með að grípa til aðgerða, þeim mun dýrkeyptari verður fórnarkostnaðurinn.
Það er kominn tími til að gera breytingar til hins betra. Saman. Framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins ræðst af því hversu vel við skipuleggjum okkur, hversu skilvirkt upplýsingaflæði við tryggjum milli stofnana og hversu vel við getum unnið í sameiningu að umbótum.