Maturinn sem við borðum (eða borðum ekki) hefur mikil áhrif á heilbrigði okkar, bæði andlegt og líkamlegt. Fjölbreytt, næringarríkt fæði líkt og er ráðlagt í opinberum fæðuráðleggingum getur aukið líkamlega og andlega vellíðan ásamt því að minnka líkur á lífsstílstengdum heilsufarskvillum og ótímabærum dauðsföllum. Aftur á móti getur of lítil neysla af ávöxtum, grænmeti, heilkornum, baunum, linsum, hnetum og fisk haft öfug áhrif. Það er því ansi mikilvægt að huga vel að því að næra sig og vanda fæðuvalið til að efla heilbrigði okkar og vellíðan.
Þetta er nú eitthvað sem langflestir vilja stefna að. Flestir vilja borða næringarríkan, fjölbreyttan mat sem stuðlar að heilbrigði og vellíðan. Flestir leggja einnig mikla áherslu á að börnin þeirra séu vel nærð til að stuðla að heilbrigðum þroska og vexti.
Umhverfið stýrir aðgengi
Hvað er það þá sem kemur í veg fyrir að Íslendingar fylgi fæðuráðleggingum Landlæknis sem eru ætlaðar sem heilsueflandi fræðsla? Af hverju borða bara 2% Íslendinga fimm skammta af ávöxtum og grænmeti daglega? Af hverju fer trefjaneysla minnkandi á Íslandi, þegar sýnt hefur verið fram á að trefjaneysla geti dregið úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, sykursýki og fleira?
Oftast er ástæðan samspil margra fjölbreyttra þátta, en það hlýtur að vera skýrt fyrir flestum að umhverfið okkar hefur gríðarleg áhrif hvað varðar fæðuval. Því oftast stýrir umhverfið aðgengi að mat. Ef við skoðum fæðuval hjá börnum sem dæmi. Hafa börn eitthvað um það að segja hvað þau borða? Fá öll börn D-vítamín eða lýsi? Mögulega geta þau valið sér hvað þau borða heima við, en það er þó háð því hvað er til á heimilinu. Sum börn fá D-vítamín heima hjá sér og sum börn fá lýsi í skólanum. En hvað ef hvorugur staðurinn býður upp á það? Börn geta bara borðað það sem aðrir hafa valið að bjóða þeim upp á, enda er það á ábyrgð fullorðinna að næra börn í þeirra umhverfi. Börn fá í nesti það sem foreldri velur eftir því sem til er heima. Börnum er svo boðið upp á hádegismat í skólanum, sem ætti að vera í samræmi við fæðuráðleggingar Landlæknis. Stundum er þeim skammtað en stundum skammta þau sér sjálf. Ef börn fá að velja sjálf, kjósa þau sér oftast þann mat sem þeim finnst góður, enda hafa þau ekki alltaf þroska eða skilning til að velja mat út frá því hvað er gott fyrir þau. Það er á ábyrgð umhverfis þeirra að þau læri það. Í raun hvílir því þessi mikla ábyrgð á höndum allra fullorðinna í umhverfi barna, að sjá til þess að þau hafi aðgengi að næringarríkum fjölbreyttum mat og að kenna þeim af hverju það skiptir máli hvað þau borða.
Skólar
Skólinn er mun meira en lærdómsstaður fyrir börn. Í skólanum borða börn mjög stóran hluta af sinni daglegu fæðu. Skólar spila því stórt hlutverk í að móta og þroska fæðuval, næringarlæsi og í framhaldinu heilsu barna. Þegar börn borða einhæft, næringarsnautt fæði, getur það stuðlað að bæði heilsuskerðingu og síðri frammistöðu í námi. Rannsóknir hafa bent til þess að þau börn sem hafa aðgang að heilsusamlegu fæði í skólanum standa sig betur í námi og að vel samsett mataræði getur bætt einbeitingu, minni og úthald.
Það að bjóða upp á næringarríkar heilsusamlegar máltíðir fyrir börn er ekki alltaf auðvelt. Skólar þurfa að halda sig innan ákveðinnar fjárhæðar við innkaup á hráefnum, sem getur skert úrval og gæði matarins. Auk þess geta ýmsir þættir haft áhrif á hvað börnum þykir gott og oft er erfitt að höfða til allra í einu. Í sumum tilvikum eru börn orðin vön fæðumynstri að heiman, sem gerir það flókið að bjóða upp á mat sem þeim finnst of framandi. Oft getur það reynst áhrifamikið að auka við fræðslu barnanna hvað varðar næringu og mat og jafnvel fjölga tækifærum þeirra til að meðhöndla og matreiða nýjar fæðutegundir.
Stundum geta smávægilegar breytingar haft gríðarlega jákvæð áhrif. Í Rimaskóla var nýlega gerð afar áhrifarík heilsueflingar tilraun. Þar var mælt í nokkra daga hversu mikið skólabörnin borðuðu af grænmeti, sem var borið fram sem blandað salat. Eftir mælinguna fór kennarinn, sem framkvæmdi verkefnið, inn í kennslustofurnar og minnti börnin á mikilvægi þess að borða grænmeti. Hún sagði þeim frá því að það yrði nýtt fyrirkomulag á grænmetinu þar sem þau gætu skammtað sér sjálf og hvatti þau til að smakka fjölbreyttar tegundir. Næst var grænmetið borið fram aðskilið í sér ílátum þar sem börnin gátu skammtað sér sjálf og neysla barnanna mæld á nýjan leik. Eftir þetta litla inngrip jókst sá fjöldi barna sem fékk sér grænmeti úr 19 börnum í 149 börn. Einnig jókst heildarneyslan á grænmeti úr þremur kílóum í rúmlega 47 kíló milli vikna. Það er nefnilega þannig að oft borða börn meira ef þau fá að skammta sér sjálf og ef maturinn er aðgreindur frekar en að vera blandað saman.
En hvernig er hægt að bæta umhverfi barnanna í skólum til að stuðla að því börnin venji sig á heilsusamlegar matarvenjur og velji næringarríkan mat? Í grunninn er aðalatriðið að auka aðgengi að næringarríkum mat og takmarka aðgengi að næringarsnauðum mat.
Sem dæmi væri jákvætt að sleppa sjálfsölum alfarið í skólum, því sjaldnast innihalda þeir næringarríka fæðu og ef börn neyta matvæla úr þeim leiðir það skiljanlega af sér minna pláss fyrir hádegismatinn. Í skólum er hægt að leggja áherslu á það að hafa framboð á grænmeti, ávöxtum og heilkornum fjölbreytt og fallegt. Hægt er að raða þessum fæðutegundum framarlega í matarskömmtun á aðgengilegan hátt. Hægt er að hafa framsetninguna litríka og jafnvel merkja ílátin með þeim mismunandi næringarefnum sem börnin fá úr ólíkri fæðu.
Það er mikilvægt að stuðla að jákvæðri upplifun barna af matmálstímum með því að hafa matmálsumhverfið notalegt og þægilegt. Eins skiptir lengd hádegishlés miklu máli í því samhengi. Það að bíða í röð í 15 mínútur og hafa svo 10-15 mínútur til að háma í sig mat er eitthvað sem fullorðnir myndu ólíklega sætta sig við. Því væri ákjósanlegast ef hægt er að skipuleggja matmálstímann þannig að öll börn fái hæfilegan tíma til að nærast.
Með því að bjóða upp á ræktunaraðstöðu þar sem börnin geta tekið þátt í ræktun, er hægt að stuðla að jákvæðri upplifun og lærdómi barna um grænmeti, ávexti og jurtir. Það að auka næringarfræðslu og auka færni barna í að umgangast og matreiða getur svo styrkt þau enn frekar í heilnæmu fæðuvali. Aukin þekking og færni í meðhöndlun matvæla á ungdómsárum getur stuðlað að heilbrigðari fæðuvenjum allt fram á fullorðinsár.
Heimilin
Heima fyrir er hægt að aðlaga umhverfið með ýmsum hætti líka. Til dæmis með því að hafa heilsusamlega valkostinn sýnilegan og aðgengilegan. Hægt er að setja ávexti og grænmeti í skálar á borð sem aðgengilegan millibita og setja svo restar í ísskápinn við lok dags. Gætið þess að börnin fái D-vítamín, það er mikilvægt næringarefni sem erfitt er að fá einungis úr mat eða sól á Íslandi.
Ákjósanlegast er að takmarka aðgengi að fæðu sem ætti að neyta sjaldan. Hægt er að útbúa snarl fyrirfram og setja í ísskápinn svo auðvelt sé að sækja næringarríkan millibita. Það er líklegra að börnin narti í afganga eða til dæmis soðin egg, samlokur, grænmetisstrimla, ávaxtabita og þess háttar ef það er tilbúið og fyrirhafnarlaust.
Svo er til dæmis hægt að bjóða oftar uppá mat, gjarnan aðskilinn, í nesti og kvöldmat eða jafnvel raða matnum skemmtilega upp. Þá eru börnin líklegri til að borða hann. Leyfið börnum að skammta sér sjálf ef hægt er. Hvetjið þau til að fá sér smá fyrst og svo meira ef þau vilja seinna. Skipuleggið máltíðir fyrirfram og leyfið börnunum að taka þátt í að velja mat og undirbúa hann. Skiljanlega er þetta ekki alltaf hægt í dagsins önn á úlfatíma. En það er þá hægt að velja tíma sem hentar betur og nýta hann í samveru í eldhúsinu með börnunum. Þátttaka og jákvæð upplifun af matreiðslu af og til með foreldrum er betri en engin. Þá má matarumhverfið heima við gjarnan vera notalegt og skjálaust því allir hafa gott af því að aftengja sig og njóta samveru á matmálstímum. Berið matinn fram í og á hæfilegri stærð af matarstellum en stærri glös/diskar/skálar ýta undir að fólk borði og drekki meira magn.
Að lokum má minnast á að matur er byggingarefni líkamans og eldsneyti fyrir hann. Ef við veitum ekki líkamanum þau efni sem hann þarf til að starfa eðlilega þá mun það leiða til þess að hann starfi ekki vel, hvorki andlega né líkamlega. Með því að huga betur að umhverfi og aðgengi að mat er hægt að hafa hvetjandi áhrif á fæðuval og þekkingu barna, sem getur leitt til bættrar heilsu þeirra og aukinnar vellíðunar á fullorðinsárum. Þó að erfiðleikar og áskoranir við að bæta fæðuumhverfi geti reynt á, þá er ávinningurinn af því að bjóða börnum gott aðgengi að næringarríkum mat langvarandi og svo sannarlega þess virði.