Greinar / 19. júní 2023

Kynlöngun og andleg líðan á breytingaskeiði

Screenshot 2023-06-22 122908.jpg

Kynlíf spilar stórt hlutverk í lífi flestra og nánd og kynferðislegur unaður eykur flæði dópamíns og oxytocins í heila og eykur þar með almenna vellíðan. Stór hluti kvenna upplifir minnkaða löngun í kynlíf og minni unað í kynlífi þegar þær koma á breytingaskeiðið. Því miður er kynlíf og kynlöngun ennþá erfitt umræðuefni fyrir marga og því margar konur sem þjást í hljóði og þora ekki að ræða þetta. Það er mikilvægt að losa okkur við alla skömm þegar kemur að kynlífi og unaði og opna umræðuna um kynlöngun á breytingaskeiði.

Í sumum tilfellum er líkt og áhuginn sé bara ekki til staðar og sumar konur sjá fyrir sér að geta alveg lifað án kynlífs út lífið. Það getur haft mikil áhrif á sálræna líðan en fyrir aðrar skiptir það minna máli. Ef kyndeyfð er að hafa áhrif á lífsgæði þá mæli ég með því að þú leitir þér aðstoðar. Fyrir þessu geta verið ýmsar ástæður enda er kynlöngun kvenna mörgum þáttum háð og það er hjálp að fá.

Estrógen lækkar

Hormónið estrógen er mikilvægt fyrir heilbrigði slímhúðar í leggöngum, ytri kynfærum og þvagfærum. Það viðheldur raka og teygjanleika og stuðlar auk þess að eðlilegri leggangaflóru og verndar gegn ýmsum sýkingum. Á breytingaskeiði og eftir tíðahvörf, þegar estrógen gildin lækka, geta komið fram ýmis óþægindi frá leggöngum og þvagrás. Þessi einkenni geta versnað með tímanum og valda konum oft miklum óþægindum eftir tíðahvörf. Slímhúðir þynnast og verða þurrari og viðkvæmari. Þetta gerist einnig í slímhúðum í þvagrás og þvagblöðru og margar konur fara að finna fyrir óþægindum við þvaglát, tíð þvaglát og jafnvel þvagleka og verða móttækilegri fyrir þvagfærasýkingum. Einkenni geta verið sviði, kláði, verkir við samfarir, roði og erting. Í slæmum tilfellum geta konur átt erfitt með að vera í þröngum buxum vegna óþæginda. Góðu fréttirnar eru samt þær að það er til áhrifarík meðferð við þessu.

Estrógenmeðferð

ashton-bingham-11t2lFH4y-Y-unsplash (1).jpg

Staðbundin estrógenmeðferð er mjög áhrifarík við slímhúðarþurrki í leggöngum og þvagrásarkerfi. Þessi meðferð er mjög örugg, eykur ekki hættu á krabbameini eða blóðtappa og óhætt að halda meðferð áfram svo lengi sem hver kona vill og hefur ávinning af meðferðinni. Hægt er að nota hana samhliða hormónauppbótarmeðferð eða eina og sér. Þessi meðferð er lyfseðilsskyld og fæst í gegnum lækni, til dæmis heimilislækni eða kvensjúkdómalækni. Hægt er að fá töflur sem heita vagifem, sem settar eru upp í leggöng á hverjum degi fyrstu 14 dagana og eftir það 2-3 sinnum í viku. Einnig er hægt að fá mjúkan silikonhring, sem hér heitir estring, sem settur er upp í leggöng og gefur þar frá sér estrógen í 90 daga og því þarf að fjarlægja hann og setja nýjan á þriggja mánaða fresti. Ef kona treystir sér ekki til að skipta sjálf er hægt að fá lækni eða hjúkrunarfræðing á heilsugæslunni til að fjarlægja þann gamla og setja nýjan hring upp. Það er óhætt að hafa hringinn á sínum stað meðan á samförum stendur en sumum finnst betra að taka hann úr á meðan, þá er bara mikilvægt að muna að setja hann upp aftur að loknum samförum. Auk þessa eru til estrógenkrem sem hægt er að bera á sig, til dæmis ovestin. Einnig geta góð rakakrem og sleipiefni gert gæfumuninn. Það eru til ýmis krem sem eru framleidd sérstaklega fyrir slímhúð og viðkvæm svæði sem fást án lyfseðils.

Testósterón líka í konum

Hormónið testósterón er ekki bara karlhormón heldur framleiða eggjastokkar kvenna talsvert magn af testósteróni en framleiðslan fer minnkandi með aldrinum. Testósterón hefur áhrif á frumur í flestum kerfum líkamans og gegnir mikilvægu hlutverkum, ekki síst í heilanum, þar sem það hefur meðal annars áhrif á heilastöðvar sem stýra andlegri vellíðan, skerpu, einbeitingu og athygli, og hefur jákvæð áhrif á kynlöngun og unað í kynlíf.

Svefnvenjur og streita

Rannsóknir hafa sýnt að svefnleysi hefur neikvæð áhrif á kynlöngun. Ef þú ert að upplifa svefntruflanir þá er ekki skrítið að kynlíf sé ekki efst á forgangslistanum. Góðar svefnvenjur og bættur svefn geta því aukið kynlöngun. Streita getur einnig haft neikvæð áhrif á kynlöngun. Reyndu að minnka neikvæða steitu í lífinu, gefðu þér tíma til að rækta sjálfa þig og það sem þú nýtur að gera. Hugleiðsla og núvitund eru góðar aðferðir til steitustjórnunar. Ef þú átt maka þá er mikilvægt að ræða þessi mál opinskátt. Ræðið um hvað þið getið gert saman og í sitthvoru lagi til að auka nándina á milli ykkar, ræðið langanir og þrár. Sjálf getur þú reynt að kveikja löngun með því að lesa erótískar sögur, búa til aðstæður þar sem þú getur verið ein með makanum þínum, jafnvel legið nakin saman, nuddað hvort annað. Þessar aðstæður, líkt og kynlíf, auka vellíðunarhormónið dópamín í heila og við það gæti löngunin aukist.

allef-vinicius-onGipw1rkPU-unsplash.jpg

Þyngdarstjórnun

Erfiðleikar með þyngdarstjórnun og breyting á líkamssamsetningu og fitudreifingu er algengt umkvörtunarefni kvenna á miðju aldri. Ef þér líður ekki vel með líkamann þinn þá er skiljanlegt að kynlíf sé þér ekki efst í huga.

Hreyfing er alltaf mikilvæg en ekki síst þegar kemur að því að líða vel í eigin líkama. Við hreyfingu eykst framleiðsla dópamíns í heila en það er vellíðurnarhormón líkamans og einskonar „verðlaun“ fyrir heilann.

Þjálfun, sérstaklega styrktaræfingar með þyngdum eykur einnig testósterón sem er mikilvægt hormón fyrir kynlöngun. Ekki er verra ef þú tekur makann þinn með á æfingu, það eykur nánd, gefur ykkur sameiginlega upplifun, auk þess sem sameiginleg æfing getur boðið upp á ýmsar snertingar og stellingar sem gætu mögulega kveikt einhverja löngun í frekari nánd þegar heim er komið.

Einstaklingsbundin upplifun

Upplifun kvenna af breytingaskeiðinu er mjög einstaklingsbundin. Stór hluti af konum upplifir einkenni sem hafa neikvæð áhrif á þær, bæði í einkalífi og starfi.

Flestir tengja breytingaskeiðið við hita- og svitakóf en þetta eru yfirleitt ekki þau einkenni sem eru mest truflandi fyrir konur. Það eru einkennin sem aðrir sjá ekki eins og andleg vanlíðan og heilaþoka sem reynast konum hvað erfiðust.

Depurð og einkenni þunglyndis geta verið algeng einkenni á breytingaskeiði og í kringum tíðahvörf. Önnur sálræn einkenni geta komið fram eins og minnkað sjálfstraust, minni drifkraftur, kvíði, pirringur, kvíðaköst, einbeitingarskortur, almennt orkuleysi og jafnvel sjálfsvígshugsanir. Þessi einkenni eru oft misgreind sem þunglyndi og fá konur gjarnan ranglega uppáskrifuð þunglyndislyf.

Ef þú hefur upplifað fæðingarþunglyndi eða hefur sögu um fyrirtíðarspennu þá er líklegra að þú upplifir andlega vanlíðan á breytingaskeiðinu. Ástæðan fyrir því er sú að líkami þinn er viðkvæmari fyrir hormónasveiflum.

Áhrifaríkasta meðferðin

Hormónauppbótarmeðferð (HRT) er áhrifaríkasta meðferðin við breytingaskeiðseinkennum. Konur finna oft að ef þær taka réttan skammt af estrógeni hefur það jákvæð áhrif á andlega líðan og önnur einkenni tengd breytingaskeiðinu. Konur finna oft fyrir meiri innri ró, hafa meiri orku, eru áhugasamari og líður almennt betur þegar þær taka HRT. Konur sem eru með leg þurfa líka að fá prógesterón.

Sumar konur þurfa líka að taka hormónið testósterón sem er gefið sem gel.

Hormónauppbótarmeðferð hefur sýnt sig að bæta almenna vellíðan kvenna og bæta þar með lífsgæði. Þar að auki eru minni líkur á beinþynningu, hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki og ákveðnum tegundum af krabbameini ef þú tekur hormónauppbótarmeðferð. Það má því líta svo á með þessu sé verið að fjárfesta í framtíðinni og bæta heilsu og líðan kvenna á efri árum.

Hanna Lilja Oddgeirsdóttir

Læknir og eigandi GynaMEDICA

Nýtt á vefnum