Greinar / 14. október 2024

Hvers vegna borðum við það sem við borðum?

Hvað borðaðir þú í gær? Á hvaða tíma? Með hverjum? Og hvað stýrði vali þínu á mat og drykk? Flókið samspil margra ólíkra þátta, sem sumir tengjast innbyrðis, hefur áhrif á það hvað við veljum að borða og drekka. Í þessu blaði er sjónum beint að fæðuumhverfinu sem samanstendur bæði af áþreifanlegum en ekki síður óáþreifanlegum þáttum sem móta ákvarðanir okkar um fæðuval.

Þessir þættir geta snúið að einstaklingnum, og er einfaldast að horfa til þess að munur er á fæðuvali eftir bæði aldri og kyni. Þá hefur daglegt líf með öllum þeim verkefnum og fólki sem því fylgja, fjölskyldu, vinum, skóla- eða vinnufélögum mikil áhrif, auk þess sem hreyfing, svefn og aðrir lífsstílsþættir móta fæðuval að einhverju leyti líka. Annað sem mikið hefur verið horft til á síðustu árum er hvernig viðhorf okkar og gildi hafa áhrif á fæðuval, en stundum virðist sjálfsmynd okkar speglast í matnum. Þá hefur þekking okkar á mataræði og næringu og færni til að skipuleggja og elda mat heilmikil áhrif, en mataræði getur líka endurspeglað viðhorf okkar og gildi. Minningar okkar um mat og tengingar við gamla góða tíma og fólk sem okkur þykir vænt um hafa líka áhrif.

Aðrir þættir eru að minnsta kosti á yfirborðinu svipaðir hjá okkur sem búum í sama samfélagi. Þar má nefna menningar- og efnahagstengda þætti og viðmið, þó að sjálfsögðu sé samfélagið fjölbreytt og fæðuumhverfið því sömuleiðis. Hið byggða fæðuumhverfi samanstendur svo af þáttum eins og mötuneyti í skólum og á vinnustöðum, matvöruverslunum og öllum öðrum stöðum þar sem við borðum eða kaupum mat og drykk. Þessu umhverfi er hægt er að breyta eða jafnvel hanna upp á nýtt með fæðuval í huga. Enn einn áhrifavaldur er svo stefnumótun stjórnvalda sem hefur meiri áhrif á fæðuval en margir halda, svo sem í gegnum verðlag.

Allir þessir hlutar fæðuumhverfisins hafa ólík áhrif á okkur enda erum við mismikið útsett fyrir og meðvituð um ólíka þætti. En skýrasta birtingarmynd þess er kannski hvernig auglýsingar um mat og drykk á samfélagsmiðlum og netinu eru í síauknum mæli að laga sig betur að því sem Algrímur (e. algorithm) telur að muni hafa mest áhrif á okkur.

Fæðuumhverfið hefur þannig mikil áhrif á fæðuval og þar með næringarástand okkar og vellíðan frá degi til dags og heilsu til skamms og langs tíma. Þess vegna skiptir máli að það bjóði upp á fjölbreytt úrval af lítið unnum, næringarríkum matvörum sem gera okkur gott. Einstaklingar geta gert margt til að hafa áhrif á fæðuumhverfi sitt en annað er á ábyrgð stjórnvalda og stjórnenda mötuneyta, verslana og annarra staða sem selja mat og drykk. Við sem einstaklingar getum þó alltaf gert kröfu til þessara aðila að gera sitt besta. Saman getum við mótað heilsusamlegt fæðuumhverfi.

Birna Þórisdóttir

Lektor í næringarfræði HÍ

Bryndís Eva Birgisdóttir

Prófessor í næringarfræði HÍ
Nýtt á vefnum