
Heilsugæslan er mikilvæg grunnstoð heilbrigðiskerfisins og er jafnan fyrsti viðkomustaður notanda þegar þeir þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Mikil breyting hefur orðið á heilsugæsluþjónustu síðustu ár. Þverfagleg teymisvinna er orðin mun meiri, fleiri heilbrigðisstéttir taka þátt í daglegri starfsemi og aukin áhersla lögð á geðheilbrigðisþjónustu og fleira sem áður var lítil áhersla á í heilsugæslunni.
Þverfaglegt samstarf
Því miður eru heimilislæknar ekki nógu margir til að allir landsmenn geti átt sinn heimilislækni. Unnið er í því að reyna að fjölga heimilislæknum en betur má ef duga skal. Við þessar aðstæður er mikilvægt að rýna í öll verkefni og allt verklag innan heilsugæslustöðva og leggja áherslu á að læknar hafi svigrúm til að sinna þeim verkum sem þeir einir geta sinnt. Á móti þurfa fleiri fagstéttir að koma til starfa í heilsugæslunni og taka að sér verkefni í þverfaglegu samstarfi með heimilislæknunum. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur því fjölgað fagstéttum og bætt við lyfjafræðingum, félagsráðgjöfum, næringarfræðingum, sálfræðingum, sjúkraþjálfurum og fleirum.
Kveikjan að þessum breytingum er vissulega skortur á heimilislæknum en það þýðir ekki að breytingarnar hafi neikvæð áhrif á þjónustu við okkar skjólstæðinga. Þvert á móti sýnir reynslan okkur að þessar breyttu áherslur í þjónustu geta verið til bóta fyrir þá sem til okkar leita. En breytingarnar krefjast vissulega meiri samskipta milli starfsfólks og betri tæknilegra lausna til að tryggja flæði upplýsinga milli skjólstæðinga og fagfólks.
Ef erindið þolir ekki bið
Þegar fólk lendir í bráðum veikindum eða minniháttar óhöppum sem það telur að ekki geti beðið er því bent á að hafa samband við Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í síma 1700 eða í netspjallinu á heilsuvera.is. Í mars 2024 tók Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins alfarið við 1700 símanum. Áður hafði 1700 síminn nær eingöngu sinnt vegvísun um heilbrigðiskerfið utan dagvinnutíma og lítið um símtöl á dagvinnutíma. Með yfirfærslu á Upplýsingamiðstöð var forgangsröðun bráðra erinda efld og ráðgjöf hjúkrunarfræðinga í gegnum síma stórefld.
Auk þess var þróað vefbókunarkerfi sem getur tengst öllum tímabókunarkerfum heilsugæslunnar. Við það skapast möguleiki á að bóka erindi beint inn á heilsugæslustöðvar hvar sem er á landinu ef heilsugæslustöðvar tengjast viðkomandi vefbókunarkerfi. Jafnframt hófst samstarf við margar heilsugæslustöðvar bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni um að forgangsraða bráðum erindum til heilsugæslustöðvanna. Innleiðingin átti sér stað í áföngum og nú í febrúar náðist langþráður áfangi þegar allar fimmtán heilsugæslustöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins voru komnar í samstarf við Upplýsingamiðstöðina um slíka forflokkun.
Mikil markaðssetning hefur átt sér stað í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum á 1700 númerinu. Erindum fjölgaði enda hratt allt síðasta ár og eru nú að jafnaði á bilinu 1.500-2.000 á dag. Almenningur er fljótur að tileinka sér nýjungar og mikilvægt að bjóða upp á einfaldar og skýrar leiðir til að þjónustan við fólk sem er með bráð erindi sé sem best. Það hefur að okkar mati tekist afar vel með þessari frábæru þjónustu Upplýsingamiðstöðvarinnar.

Geðheilbrigðisþjónustan
Á síðasta áratug hefur geðheilbrigðisþjónustan hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verið efld verulega, bæði á heilsugæslustöðvunum og í sérhæfðum geðheilsuteymum sem rekin eru af stofnuninni. Sum teymanna eru staðbundin og starfa með heilsugæslustöðvum á þeirra svæði á höfuðborgarsvæðinu. Önnur starfa á landsvísu og eiga í samstarfi við heilbrigðisstofnanir um allt land.
Geðheilbrigðisþjónusta heilsugæslunnar er bæði fyrir börn og fullorðna þar sem áhersla er lögð á að meta vandann og setja upp meðferðaráætlun. Bæði er boðið upp á einstaklings- og hópmeðferðir eftir því sem við á hverju sinni. Áhersla er lögð á meðferð við þunglyndi, kvíða og áföllum þar sem vandinn er vægur eða miðlungs alvarlegur.

Forvarnir og heilsuvernd
Forvarnir og heilsuvernd eiga sér langa og farsæla sögu hér á landi. Þessi þjónusta hefur verið í boði allt frá byrjun 20. aldar og þegar fyrstu heilsugæslustöðvarnar opnuðu á áttunda áratug síðustu aldar færðist þessi þjónusta þangað. Á öllum heilsugæslustöðvum er boðið upp á ýmiskonar forvarnar- og heilsuvernd. Þar má til að mynda nefna:
- Meðgönguvernd, sem hefur það hlutverk að stuðla að heilbrigði mæðra og barna með faglegri umönnun, stuðningi og ráðgjöf ásamt því að greina áhættuþætti og bregðast við þeim. Einnig er stuðlað að öryggi og vellíðan foreldra og þau undirbúin undir foreldrahlutverkið.
- Ung- og smábarnavernd, sem hefur það hlutverk að efla heilsu, vellíðan og þroska ungra barna með reglulegum heilsufarsskoðunum ásamt stuðningi og fræðslu til fjölskyldna þeirra.
- Heilsuvernd skólabarna, sem hefur það hlutverk að efla heilbrigði grunnskólabarna og stuðla að vellíðan þeirra. Náin samvinna er þá við skólayfirvöld, foreldra og aðra fagaðila sem koma að málefnum barna.
Þjónusta við langveika og aldraða
Heilsueflandi móttökur eru nú starfræktar á öllum heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar er einstaklingum með fjölþættan og/eða langvinnan heilsuvanda veitt heildræn og þverfagleg þjónusta. Áhersla er lögð á styrkleika einstaklings og fjölskyldu til að virkja áhuga til lífsstílsbreytinga og sjálfshjálpar í átt að betri lífsgæðum.
Við erum einnig að vinna að því að styrkja heilsuvernd eldra fólks á okkar heilsugæslustöðvunum. Þessi þjónusta á að auðvelda eldra fólki aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem sniðin er að þörfum þess. Við viljum styðja og styrkja eldra fólk til sjálfshjálpar og viðhalda þannig andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Einnig að samhæfa þjónustu og auðvelda samskipti einstaklinga, þjónustuaðila og fjölskyldna til að tryggja sem besta samfellu í þjónustu.
Heilbrigðisskoðun innflytjenda
Í upphafi árs 2022 í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu opnaði Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nýja einingu að ósk heilbrigðisráðuneytisins sem fékk nafnið Heilbrigðisskoðun innflytjenda. Einingin er staðsett í Móttökumiðstöð umsækjenda um alþjóðlega vernd í Domus Medica ásamt lögreglu, Útlendingastofnun og fleiri stofnunum. Megin verkefn Heilbrigðisskoðunar innflytjenda er að veita flóttamönnum, hælisleitendum og öðrum innflytjendum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins heilbrigðisskoðun eftir komuna til landsins.
Skimanir fyrir krabbameinum
Skimanir fyrir krabbameini eru mikilvægur þáttur í starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Leghálsskimanir fluttust frá Krabbameinsfélagi Íslands til heilsugæslustöðva árið 2021. Konur jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem landsbyggðinni sem hafa fengið boðsbréf geta pantað tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini á þeirri heilsugæslustöð sem hentar best. Miðað er við að konum sé boðin skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti á aldursbilinu 23 til 29 ára og á fimm ára fresti á aldursbilinu 30 til 64 ára.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tók jafnframt við því verkefni að skipuleggja skimun fyrir brjóstakrabbameini þó skimunin sjálf sé gerð af Brjóstamiðstöð Landspítalans. Þá er undirbúningur fyrir því að hefja skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi á lokastigi. Prófunarfasi þar sem litlum hópi verður boðið upp á skimun er að hefjast, en tilgangurinn með honum er að kanna hvort öll kerfi sem notuð eru tengt skimuninni virki eins og þau eiga að gera. Þegar það hefur verið prófað með fullnægjandi hætti munu almennar skimanir hefjast.
Eitt púsl í stóru myndinni
Heilsugæslan er í miklu samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir eins og Landspítalann og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Unnið er markvisst að því að flæði milli kerfa verði sem best fyrir skjólstæðinga og samfella í þjónustu sé tryggð. Samstarf með félagsþjónustunni er einnig mikilvægt sér í lagi milli heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu.
Verkefnið „Gott að eldast“ er frábært dæmi um slíkt samstarf. Þar er félags- og heilbrigðisþjónusta sem veitt er eldra fólki í heimahúsi samþætt, undir sameiginlegri mannafla- og fjármálastjórn. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tekur þátt í þessu verkefni á svæði Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósar.

Horft til framtíðar
Ljóst er að fjölgun aldraðra og langveikra á komandi árum verður áskorun í öllu heilbrigðiskerfinu, ekki bara heilsugæslunni. Í dag vitum við að eftirspurnin er meiri en svo að við getum annað henni með þeirri þjónustu sem við getum veitt og við sjáum ekki fram á að það muni breytast. Mikilvægt er fyrir allar heilbrigðisstofnanir að rýna vel í starfsemina og meta mikilvægi allra verka. Þegar mannauður er af skornum skammti þarf að horfa til annarra þátta sem geta aukið og bætt þá þjónustu sem starfsfólkið veitir.
Í því samhengi er nauðsynlegt að ráðast í uppbyggingu ýmiskonar rafrænna lausna sem geta bæði aukið skilvirkni en einnig tryggt betra öryggi í þjónustunni. Einnig eru húsakostur, aðbúnaður og tækjakostur mikilvægir þættir sem leggja verður mikla áherslu á. Heilsugæslustöðvarnar í dag eru margar hverjar í upprunalegu húsnæði sem tekur mið af starfsemi sem var þá. Nauðsynlegt er að vinna jafnt og þétt af því að koma þeim í húsnæði sem gefur okkur kost á að veita sem besta þjónustu við alla sem til okkar leita.
Eins og öll önnur heilbrigðisþjónusta eru verkefni heilsugæslunnar í sífelldri þróun. Okkar markmið er alltaf að veita sem allra besta þjónustu fyrir okkar skjólstæðinga. Því markmiði náum við aðeins með því að hlúa sem best að okkar góða starfsfólki, enda er heilsugæsla ekkert annað en það fólk sem þar vinnur. Við erum öll að vinna að sama markmiði og þurfum að tileinka okkur sveigjanleika og lausnamiðað viðhorf til að ná sem bestum árangri áfram.