
Í góðri heilsu felast mikil lífsgæði, það vita landsmenn en 80% þeirra meta heilsu það mikilvægasta þegar kemur að eigin lífsgæðum. Íslenskt heilbrigðiskerfi er í grunninn gott, þökk sé framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólki. Það er þó margt sem betur má fara og eru heilbrigðis- og velferðarmál meðal áhersluatriða ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Fyrst af öllu er þó að ná stjórn og stöðugleika í efnahagsmálum landsins og að vinna að aukinni verðmætasköpun; það eru forsendur þess að við getum fjárfest enn frekar í velferð.
Áskoranir í heilbrigðisþjónustu
Heilbrigðisþjónustan stendur frammi fyrir miklum áskorunum: eftirspurn og kostnaður vex í takti við öldrun þjóðar og aukningar langvinnra sjúkdóma eins og geðsjúkdóma, krabbameina, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, offitu og heilabilunar. Samhliða skortir fagmenntað starfsfólk og kerfið er aðþrengt fjárhagslega. Þá horfumst við í augu við risavaxnar áskoranir sem eru sýklalyfjaónæmi og áhrif loftslagsbreytinga á heilsu. Heilbrigðiskerfið er því að óbreyttu ekki sjálfbært og við verðum að nálgast það með nýjum hætti. Við getum ekki leyft okkur að gera bara meira af því sama.
Áskoranir er varða lýðheilsu
Hér að ofan var minnst á langvinna sjúkdóma en þar eru margir áhættuþættir þekktir; kyrrseta, óholl næring, ónógur svefn, slæm andleg líðan, áfengi, tóbak og skortur á félagslegum tengslum.
Að auki bætast við nýjar áskoranir sem snúa ekki síst að börnum og endurspeglast í vaxandi vanlíðan þeirra; óhófleg notkun skjátækja og samfélagsmiðla, falsfréttir, upplýsingaóreiða, markaðssetning óhollustu, nýjar nikótínvörur, orkudrykkir, útlitsdýrkun, ofbeldismenning og fleira. Nú stendur fyrir dyrum að kortleggja þessar áskoranir og leiðir til að bregðast við.
Nýtum bjargir með sem bestum hætti
Í ljósi þess að heilbrigðiskerfið er að óbreyttu ekki sjálfbært þarf að bregðast við. Viðbrögðum má skipta í tvennt og eru hvoru tveggja risastór og margslungin verkefni; annars vegar að nýta heilbrigðiskerfið sem best og hins vegar að efla lýðheilsu með heilsueflingu og forvörnum.
Við þurfum að nýta heilbrigðiskerfið með sem skilvirkustum hætti og hámarka jákvæð áhrif þess á heilsu fólks. Með öðrum orðum þurfum við að hámarka virði þjónustunnar (virði =árangur/kostnaður eða virði = gæði/sóun). Hér er gríðarlega margt undir. Mestu skiptir að meðferð fari fram á réttum tíma, á réttu þjónustustigi og með réttum hætti þannig að notuð séu gagnreynd úrræði og þau sem byggð eru á bestu þekkingu og reynslu. Því þarf þjónustan að vera samhæfð og brýnt að hvorki sé verið að of- né vannýta úrræði og meðferð. Þá ætti hver heilbrigðisstarfsmaður að sinna verkum þannig að þekking hans nýtist sem best, það eru án efa tækifæri í að færa til verkefni milli starfsstétta.
Öll ættum við stöðugt að spyrja okkur tveggja spurninga: Erum við að gera eitthvað sem við ættum ekki að vera að gera og erum við ekki að gera eitthvað sem við ættum að vera að gera? Markvisst þarf að efla gæði og öryggi þjónustunnar því góð og örugg þjónusta er ódýrari til lengri tíma litið. Síðast en alls ekki síst þarf að efla hvers kyns nýsköpun og tæknilausnir, ekki síst þær sem einfalda veitingu heilbrigðisþjónustu og/eða létta undir með starfsfólki.
Ljóst er að rýna þarf ferla, verkaskiptingu og skipulag milli heilbrigðisstarfsmanna og milli stofnana, til að samhæfa kerfið og hámarka skilvirkni. Stöðugt þarf að huga að umbótum og líta heildstætt á heilbrigðiskerfið frekar en að verja peningum í að leysa stök verkefni sem getur aukið á kostnað annars staðar í kerfinu á meðan grunnvandinn er óleystur.
Heilsuefling og forvarnir
Það eru mikil tækifæri fólgin í því að efla lýðheilsu, með heilsueflingu og forvörnum, og freista þess að minnka eða fresta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu. Það gerum við annars vegar með því að fara í grunninn og huga að áhrifaþáttum heilsu sem lúta að einstaklingnum, eins og hreyfingu, næringu, svefni, geðrækt og lágmörkun neyslu áfengis og tóbaks sem eru sameiginlegir áhættuþættir fjölmargra langvinnra sjúkdóma. Hins vegar með því að horfa til framtíðar og nýta nýja þekkingu eins og atferlisfræði sem og tækninýjungar eins og gervigreind og erfðaupplýsingar. Þá þarf að efla heilsulæsi almennings og tengja betur forvarnir, heilsueflingu og heilbrigðisþjónustu.
Það er mikilvægt að við skiljum að lýðheilsa snertir samfélagið allt. Þannig skipta lifnaðarhættir, auk menntunar m.a. atvinna, samgöngur, húsnæði, öryggi, félagsleg tengsl og fjölmargar stefnur og ákvarðanir ríkis og sveitarfélaga máli í þessu samhengi. Því ætti að huga að lýðheilsu við fjölmargar ákvarðanir sem teknar eru og setja „heilsu í allar stefnur“ (e. health in all policies) og framkvæma lýðheilsumat þegar við á, samanber umhverfismat.

Áherslumál ríkisstjórnar
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur segir m.a. um helstu atriði ríkisstjórnar til að ná markmiðum sínum varðandi heilbrigðisþjónustu: „Með fjárfestingu sem styrkir stoðir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu um land allt. Ríkisstjórnin mun leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, m.a. fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimahjúkrun, og vinna að þjóðarmarkmiði um fastan heimilislækni fyrir alla landsmenn. Sérstök áhersla verður lögð á að stytta biðlista barna, auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjármagna meðferðarúrræði vegna fíknivanda. Skipulega verður dregið úr skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu með hagnýtingu tækni og nýsköpunar. Áfram verður stuðst við fjölbreytt rekstrarform þó að þungamiðja þjónustunnar verði í opinberum rekstri”.
Þegar stefnuyfirlýsingin er lesin í heild sinni er ljóst að málefni sem varða lýðheilsu eru þar rauður þráður; bætt kjör og staða þeirra sem verst standa, að húsnæði verði heimili, lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sókn í menntamálum, bætt afkomuöryggi fjölskyldna, atvinnustefna sem stuðlar að heilbrigðum vinnumarkaði, loftslagsaðgerðir og aukið öryggi almennings svo dæmi séu tekin.
Þjóðarátak í umönnun eldra fólks
Það er lykilatriði fyrir framtíð heilbrigðiskerfisins að efla og samhæfa þjónustu við eldra fólk. Skortur á viðeigandi úrræðum fyrir þennan hóp leiðir t.d. til þess að eldra fólk er inniliggjandi á spítala mun lengur en nauðsynlegt er. Það leiðir til eru lakari þjónustu og verri lífsgæða þeim til handa, sóunar á almannafé auk þess sem það truflar sjúkrahúsin við að sinna sérhæfðri þjónustu. Þá myndast líka flöskuháls í kerfinu en skortur á hjúkrunarrýmum er einn stærsti hnúturinn auk þess sem efla þarf hvers kyns heimaþjónustu svo útskrift heim verði raunhæfur kostur. Þá eru mikil tækifæri fólgin í heilsueflingu eldri borgara, ekki síst hreyfingu, styrkingu vöðva og jafnvægisæfingum, til að tryggja lífsgæði og lengri sjálfstæða búsetu. Til marks um áherslu ríkisstjórnar á málefni eldra fólks verður starfandi sérstök ráðherranefnd þar um.
Styrking heilsugæslu og bætt aðgengi að þjónustu
Fólk kallar eftir að hafa fastan heimilislækni/-teymi. Rannsóknir sýna að það bætir lífsgæði og árangur þjónustu að notendur hennar hafi fastan tengilið í heilbrigðiskerfinu. Heimilislæknar eru of fáir og ljóst er að bæta þarf úr; samhliða því að mennta fleiri þarf að nýta betur krafta annarra starfsstétta. Þá þarf almennt að bæta starfsaðstæður heilbrigðisstarfsmanna þannig að starfsfólk fái meiri tíma með sjúklingunum. Huga þarf að framtíðarskipan og þróun rafrænna kerfa og tæknilausna. Þarna undir eru einnig ýmis viðvik eins og að minnka vottorðagerð og tilvísanaskrif.
Tryggja þarf aðgengi að þjónustu um allt land en þar hallar verulega á landsbyggðina. Fyrir utan bætt aðgengi að heimilislæknum þarf að skoða hvort sérfræðingar geti ekki heimsótt landsbyggðina í ríkari mæli og styrkja þarf sjúkraflutninga. Auk þess þarf að efla fjarþjónustu og -ráðgjöf. Loks þarf að muna að samgöngumál eru heilbrigðismál en þar hyggst ríkisstjórnin láta til sín taka.
Þjónusta við börn
Sérstök áhersla verður lögð á að stytta biðtíma barna eftir greiningum og meðferð. Þar er brýnt að taka heildstætt á málum enda börnin okkar dýrmætustu djásn. Þar að auki benti hagfræðingurinn James Heckman á að ekkert er eins arðbært fyrir samfélag og að hugsa vel um börn. Flestar geðraskanir koma fram í æsku og með snemmtækri íhlutun er hægt að koma í veg fyrir að vandi fylgi börnum og unglingum inn á fullorðinsárin.
Þegar bjátar á hjá barni þarf að bregðast við hið fyrsta, skoða umhverfi og aðstæður bæði hjá barni og fjölskyldu auk félagstengsla og aðstæðna í skóla. Kannski er barnið vansælt vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á heimili eða skóla.
Meta þarf lifnaðarhætti barns og fjölskyldu; svefn, hreyfingu, næringu, notkun orkudrykkja, skjánotkun og tengsl. Styðja þarf foreldra og fjölskyldur eftir þörfum því uppeldishlutverkið getur jú verið krefjandi. Þá kann að þurfa að styrkja bjargráð í skólum til að börnunum verði sem best sinnt.
Á næstunni verður unnið að ferlagreiningu geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna þannig að hlutverk og verkefni mismunandi þjónustuveitenda séu skýr. Það er forsenda þess að skapa samfellu í þjónustu og að samvinna verði eins og best er á kosið. Þá þarf að þróa frekar samstarf við skóla og skólaheilsugæslu sem og að byggja undir lágþröskuldaúrræði sem gefist hafa vel. Ljóst er að það skortir á úrræði fyrir þau ungmenni sem eru í hvað mestum vanda og brýnt að bæta úr en málefni barna snerta nokkur ráðuneyti. Það endurspeglar mikilvægi málaflokksins að starfandi verður ráðherranefnd um málefni barna.

Geðheilbrigðisþjónusta
Auka þarf aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Í geðheilbrigðismálum er unnið að samþykktri stefnu þar sem megnimarkmiðin eru fjögur: að geðrækt, forvarnir og snemmbær úrræði verði í forgrunni, að geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu þekkingu, að notendasamráð verði virkt og að nýsköpun, vísindi og þróun verði í hávegi. Öll þessi markmið eru í góðu samræmi við það sem áður hefur verið nefnt.
Þegar er unnið að margvíslegum verkefnum til að ná þessum markmiðum. Unnið verður að ferlagreiningu og skipulagi geðheilbrigðisþjónustu þannig að hlutverk og verkefni mismunandi veitenda séu skýr. Þá þarf að kortleggja þörf fyrir mönnun og menntun fagfólks og tryggja uppbyggingu geðheilbrigðisfræða. Áfram þarf að efla heilsugæslu til að takast á við annars stigs þjónustu, m.a. að efla aðgengi að sálfræðimeðferð. Þá er unnið að styrkingu geðheilbrigðisþjónustu fanga og fleiri verkefni mætti nefna. Loks má nefna það mikla verkefni að byggja nýtt húsnæði fyrir geðþjónustu Landspítalans sem mætir þörfum samtímans.
Það er mikil samstaða meðal ríkisstjórnarflokka um að gera þurfi betur þegar kemur að meðferð fíknisjúkdóma. Tekin hefur verið ákvörðun um að fjármagna betur meðferðarúrræði til að koma í veg fyrir sumarlokanir á þjónustu. Þá verða úrræði er varða bráðameðferð bætt og hugað að þeim skaðaminnkandi úrræðum sem byggð eru á gagnreyndri þekkingu.
Hagnýting tækni og nýsköpunar
Eins og fjallað hefur verið um hér að ofan er hvers kyns nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu lykilatriði til framtíðar, hvort sem lýtur að bestun ferla, rafrænum kerfum eða tæknilausnum og hafa mörg dæmi verið nefnd. Þar er áfram mikilvægt að virði þeirrar þjónustu sé í öndvegi. Undirrituð hyggst beita sér í þessum málaflokki hvar sem við verður komið. Meðal annars hyggjast ráðherrar heilbrigðismála og nýsköpunar halda árlega Nýsköpunarmessu þar sem fræðimenn á því sviði; frumrannsakendur, vísindamenn, frumkvöðlar, opinberir aðilar og einkaaðilar koma saman og berasaman bækur. Slíkt samstarf er nauðsynlegt svo nýsköpun nái fótfestu í heilbrigðisþjónustu.

Önnur mikilvæg mál
Það að mönnun sé við hæfi er alfa og omega í heilbrigðisþjónustu. Áfram verður unnið með öllum ráðum að því að svo megi verða. Þótt styrking heilsugæslu sé forgangsmál þarf sömuleiðis að vaka yfir biðtíma eftir margs konar þjónustu og skurðaðgerðum og bregðast við til samræmis. Þá þarf að huga betur að því að lyf séu notuð með skynsamlegum hætti en notkun fjölmargra lyfjategunda er mun meiri hér en í nágrannalöndunum. Þá er líklegt að fyrstu skrefin er varða einstaklingsmiðaða heilbrigðisþjónustu sem byggir á notkun erfðaupplýsinga, verði stigin áður en langt um líður. Rafræn kerfi eru mörg hver börn síns tíma og þarf að taka ákvarðanir hvernig áfram verður unnið með þau. Huga þarf að netöryggi heilbrigðisþjónustu og að heilbrigðisviðbúnaði hvers konar, m.a. lyfjaöryggi en þar þurfum við að efla samstarf við nágrannaþjóðir okkar. Loks ber að nefna það risa verkefni sem uppbygging Landspítala við Hringbraut er samhliða því að líta þarf til enn lengri framtíðar. Einnig er fyrirhugað að skilgreina hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri sem varasjúkrahúss og haga uppbyggingu til samræmis. Áfram verður stuðst við fjölbreytt rekstrarform þó að þungamiðja þjónustunnar verði í opinberum rekstri. Ríkisstjórnin skilur kostina við blandað heilbrigðiskerfi, ekki er ætlunin að breyta því, þótt grunnurinn eigi ávallt að vera sterkt opinbert kerfi. Útvistun þjónustu skal ætíð gerð út frá hagsmunum almennings.
Að lokum
Hér að ofan hefur einungis verið stiklað á stóru í þessum víðfeðma málaflokki og margt fleira mætti fjalla um. Flest þau verkefni sem vinna þarf til að bæta heilbrigðiskerfið munu krefjast tíma og fjármuna. Því þarf alltaf að forgangsraða og ljóst að ekki er hægt að gera allt á sama tíma. Þegar hafa þó verið tekin ákveðin skref í þeim verkefnum sem að ofan eru nefnd. Lykilatriði er að gera sér grein fyrir að sjálfbærni heilbrigðisþjónustu verður ekki tryggð nema með bættri lýðheilsu og breytingum á veitingu heilbrigðisþjónustu.
Kæru lesendur. Góð heilsa er undirstaða lífsgæða einstaklings, velsældar og velgengni samfélags. Setjum okkur það markmið að heilbrigðisþjónusta og lýðheilsa verði hér eins og best þekkist í heiminum og vinnum markvisst í þá átt. Við eigum alla möguleika á að ná því marki; við erum rík og enn tiltölulega ung þjóð, búum við góðar aðstæður hvað lýðheilsu varðar, erum dugleg, vel upplýst og eigum frábærlega menntað starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu. Ef við getum ekki skapað aðstæður fyrir góða heilsu og heilbrigðisþjónustu – hver þá?!