Greinar / 12. október 2023

Hamingjan … best af öllu sköpunarverkinu

Hamingjan og leit að hamingjunni hefur verið viðfangsefni mannkyns frá upphafi. Við eigum það sameiginlegt að vilja líða vel og eiga gott og hamingjuríkt líf. Einnig óskum við öllum þeim sem okkur þykir vænt um að þau séu hamingjusöm. En hvað er hamingja, er hægt að leita hana uppi eða er hún afurð annarra þátta?

Í bók sinni um hamingju benda Dalai Lama og Howard Cutler á það að hugmyndin um að öðlast sanna hamingju hafi á Vesturlöndum oft virst illa skilgreind og illskiljanleg. Ein möguleg skýring á því telja þeir vera að enska orðið „happy“ sé dregið af íslenska orðinu happ, sem þýðir heppni eða tækifæri. Ef við gefum okkur það að hamingja sé bara heppni þá höfum við lítið að segja um það sjálf hvort við upplifum hamingju eða ekki. Rannsóknir síðustu áratuga á hamingju sýna að svo er ekki. Við höfum sjálf heilmikið að segja um eigin hamingju en það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að erfðir, umhverfi okkar, aðstæður og samfélagsgerð spila einnig mikilvægt hlutverk.

Önnur tilvitnun í Dalai Lama minnir okkur á að við erum oft svo upptekin af öðrum þáttum að við gleymum að huga að hamingjunni. Þegar Dalai Lama var spurður að því hvað kæmi honum mest á óvart varðandi mannlega tilveru á hann að hafa svarað eitthvað á þá leið að það væri að maðurinn fórni heilsu sinni til að eignast peninga. Svo fórnar hann peningunum til að ná aftur heilsu sinni. Á sama tíma er hann svo spenntur fyrir framtíð sinni að hann nýtur ekki augnabliksins. Afleiðingin er sú að hann lifir hvorki í nútíð né framtíð. Og hann lifir eins og hann muni aldrei deyja – og svo deyr hann án þess að hafa lifað í raun. Það er heilmikið til í þessu og þá vaknar spurningin: Af hverju er þetta svona? Og þarf þetta að vera svona?

Hamingja eða peningar?

Untitled design (6).png

Hvað varð til þess að peningar og efnahagsleg gæði urðu aðalmarkmiðið? Þegar við setjumst niður og veltum fyrir okkur hvort skiptir meira máli hamingja eða peningar þá svörum við örugglega flest hamingja; og ef við þyrftum að velja milli hamingju og peninga handa þeim sem okkur þykir vænst um þá myndum við örugglega flest velja hamingju. En af hverju halda svo margir að peningar séu forsenda hamingju?

Þegar ég fór að kynna mér rannsóknir á hamingju fyrir rúmlega 20 árum síðan var margt sem kom á óvart. Ein af fyrstu rannsóknunum sem gerð var í Bandaríkjunum upp úr 1960 var til dæmis með þá tilgátu að hamingjusamasta fólkið væri einmitt heppna fólkið sem hefði átt þægilegasta lífið, en sú tilgáta kolféll. Það sem hamingjusamasta fólkið átti sameiginlegt var að það hafði allt lent í töluverðum erfiðleikum og náð að vinna úr þeim á uppbyggilegan hátt. Erfiðleikar leiða ekki til hamingju einir og sér, en ef vel tekst að vinna úr þeim er eins og fólk nái að sjá betur tilganginn í lífinu og það sem virkilega skiptir máli. Þetta kveikti áhuga minn og leiddi til þess að ég fór sjálf að stunda rannsóknir á hamingju.

Ég fór að skoða hvaða þættir hefðu mest áhrif á hamingju Íslendinga. Það kemur kannski ekki á óvart miðað við það sem nú þegar hefur komið fram að hamingja eykst með aldrinum. Því eldra sem fólk er því hamingjusamara. Það mælist ekki munur milli kynja, en þegar kemur að hjúskaparstöðu þá eru þau sem eru gift alltaf hamingjusamari en aðrir hópar. Sá þáttur sem skiptir svo langmestu máli fyrir hamingjuna eru félagsleg tengsl.

Þegar samband tekna og hamingju er skoðað kemur í ljós að tekjur Íslendinga spá aðeins fyrir um 1% af hamingju Íslendinga og sambandið er svipað í öðrum löndum. Það er því skiljanlegt að það komi Dalai Lama á óvart að mannfólkið fórni heilsu sinni og oft hamingju til þess að eignast peninga. Það er þó mikilvægt að taka fram að fjárhagsáhyggjur hafa neikvæð áhrif á hamingju. Sá hópur sem á erfitt með að ná endum saman er yfirleitt óhamingjusamastur. En það þarf ekki alltaf að vera tekjulægsti hópurinn. Það er til fólk sem er með lágar tekjur sem nær samt endum saman og býr því ekki við fjárhagsáhyggjur. Á móti finnst fólk í tekjuhæsta hópnum sem á erfitt með að ná endum saman og býr þannig við fjárhagsáhyggjur, sem hefur neikvæð áhrif á hamingjuna. Það er búið að innprenta svo fast í okkur að peningar færi okkur hamingju, en svo er ekki raunin. Það er mikilvægt að hafa í sig og á og vera laus undan fjárhagsáhyggjum en eftir það bæta peningar ekki miklu við hamingjuna. Ef við viljum virkilega fjárfesta í hamingju þá ættum við að fjárfesta í góðum og innihaldsríkum tengslum við fólk sem okkur líður vel í kringum.

Stjórnvöld geta haft áhrif á hamingju fólksins

Stjórnvöld hafa heilmikið að segja um hvaða tækifæri fólk hefur til að upplifa hamingju. Adam Smith, sem oft er nefndur upphafsmaður nútíma hagfræði sagði árið 1790 að aðalmarkmið stjórnvalda væri að stuðla að hamingju þeirra sem búa undir þeim og því væri hamingja þegnanna mikilvægasti mælikvarðinn á hversu vel tækist til.1 Undir þetta tók Thomas Jefferson árið 1809, þá forseti Bandaríkjanna, þegar hann sagði að umhyggja fyrir mannslífi og hamingju en ekki eyðilegging þeirra væri fyrsta og eina lögmæta markmið góðrar ríkisstjórnar.2 Samkvæmt þessu ætti að taka ákvarðanir með það í huga hvað leiði til mestrar hamingju fólksins.

Til þess að svo megi verða er mikilvægt að mæla hamingju fólksins og setja fram aðgerðaráætlun sem leiðir til aukinnar hamingju fyrir sem flesta. En stjórnvöld hafa ekki verið mjög upptekin af því að mæla hamingju. Þær mælingar sem hafa náð mestri athygli stjórnvalda síðustu áratugi eru hagfræðilegir mælikvarðar eins og hagvöxtur og þjóðarframleiðsla sem hefur leitt til þess að aðalfókusinn er að auka hagvöxt án þess að íhuga hvaða áhrif það hafi á hamingju fólks og jarðarinnar.

Robert Kennedy benti á það árið 1968 að hagfræðilegir mælikvarðar eins og þjóðarframleiðsla eykst með alls konar þáttum sem hafa bæði neikvæð áhrif á fólk og jörðina. Síðustu ár hafa fleiri og fleiri vakið athygli á þessu og þá ekki síst hagfræðingar. Þeirra á meðal er Joseph Stielitz nóbelsverðlaunahafi, en hann hefur bent á að það sem þú mælir hefur áhrif á það sem þú gerir „if you don´t measure the right thing, you don´t do the right thing“. Þessi hugmyndafræði, að mæla það sem skiptir máli fyrir fólkið og jörðina hefur fengið meðbyr á síðustu árum undir formerkjum velsældarhagkerfis sem fjallað er nánar um í annarri grein í þessu blaði.

Það sem við mælum fær athygli og vex. Þetta á bæði við þegar kemur að stjórnvöldum og í okkar persónulega lífi. Til að auka hamingju í samfélaginu þurfa stjórnvöld að mæla hamingju þegnanna og setja fram aðgerðaráætlun til að auka hamingju byggða á rannsóknum. Það sama á við um einstaklinga, ef við viljum auka hamingju í okkar lífi þá þurfum við að vera meðvituð um hvað færir okkur hamingju og hlúa að þeim þáttum.

Hugarfar og hamingja

Eins og fram hefur komið hér að framan þá snýst hamingja og óhamingja ekki um fjölda vandamála eða erfiðleika í lífinu. Það sem greinir þarna á milli er hvernig fólki tekst að takast á við mótlætið. Þau sem sjá erfiðleika sem eitthvað sem brýtur þau niður verða fórnarlömb og finna síður fyrir hamingju en þau sem líta á erfiðleika sem eitthvað sem þau geta tekist á við og sigrað. Þannig verða þau gerendur í því að finna lausnir og leysa vandann.

Hugarfar hefur áhrif á það hvernig þú lifir lífinu þínu, hvernig þú tekst á við áskoranir, mótlæti, fyrirhöfn, gagnrýni og hvernig þú lítur á velgengni annarra. Sálfræðingurinn Carol Dweck hefur sett fram kenningu um hugarfar þar sem hún fjallar um hugarfar festu og grósku. Þegar fólk er í festuhugarfari þá forðast það áskoranir, gefst auðveldlega upp þegar það lendir í hindrunum og mótlæti og tekur því mjög illa ef því mistekst, og þá er betra að sleppa því að reyna. Þau líta svo á að mistök endurspegli eða komi upp um takmarkanir þess. Það tekur gagnrýni mjög persónulega, heldur sig við það sem það kann og þekkir og finnur fyrir afbrýðisemi þegar öðrum gengur vel, velgengni annarra vekur því ógn. Hins vegar þegar fólk er í gróskuhugarfari þá sækir það í nýjar áskoranir og finnur uppbyggilegar leiðir til að takast á við þær, er til í að prófa nýja hluti, lítur á hindranir og mótlæti sem verkefni til að takast á við og mistök sem tækifæri til að vaxa, eitthvað sem hægt er að læra af og finnur fyrir innblæstri og hvatningu þegar öðrum gengur vel.

Það er mikilvægt að átta sig á því að enginn hefur lofað okkur því að lífið verði auðvelt og sanngjarnt. Með því að gera ráð fyrir mótlæti er hægt að vinna sér inn smá forskot og láta það ekki koma sér á óvart þegar mótlæti eða erfiðleikar verða á vegi okkar

Hugarfar1.png

Jákvæðni – jákvæðar hugsanir

Það er vísindalega sannað að við þurfum fleiri jákvæðar hugsanir og tilfinningar en neikvæðar til þess að líða vel. Þær neikvæðu eru sterkari og því þarf hlutfallslega fleiri jákvæðar til að blómstra. Það sem við hugsum hefur bein áhrif á það hvernig okkur líður, ef við hugsum um eitthvað jákvætt þá líður okkur vel, ef við hugsum um eitthvað sorglegt þá erum við sorgmædd og svo framvegis.

Það er mjög eðlilegt að upplifa sorg þegar við höfum misst eitthvað sem okkur þykir vænt um og það er mikilvægt að gefa sorginni gaum og upplifa hana. Það er ekki gott að skauta bara yfir hana eða bæla hana niður. Það er ekki hjálplegt og ef við ætlum að þvinga okkur í jákvætt hugarástand þegar það á ekki við, þá getur það verið skaðlegt og flokkast undir það sem kallað er óhjálpleg jákvæðni eða „eitruð jákvæðni“. En það er heldur ekki gott að festast í sorginni eða öðrum erfiðum tilfinningum. Við þurfum að leyfa þeim að koma, ekki berjast á móti þeim, heldur hafa hugrekki til að vera með erfiðum tilfinningum og finna svo farsæla leið til að vinna okkur út úr þeim. Málið er að það fara fleiri þúsund hugsanir í gegnum huga okkar á hverjum degi og flestar þeirra eru ómeðvitaðar. Þar á meðal eru oft neikvæðar niðurrifshugsanir sem gera ekkert gagn. Með því að gefa hugsunum okkar meiri gaum og velja að gefa jákvæðum uppbyggjandi hugsunum meiri gaum getum við bætt líðan og aukið hamingju. Góð leið til þess að þjálfa þetta er í gegnum núvitundarþjálfun.

Fimm leiðir að vellíðan

Það er mikilvægt að hugsa hamingjuna sem ferðalag frekar en einhvern áfangastað sem við stefnum að. Hamingjan snýst ekki um það að vera brosandi allan sólarhringinn eða vera alltaf jákvæð. Hamingjan felst í því að finna sátt við lífið, takast á við mótlæti á uppbyggjandi hátt og hafa hugrekki til að vera með erfiðum tilfinningum. Ef það væri ekkert myrkur þá myndum við ekki sjá stjörnurnar og á sama hátt þá kunnum við miklu betur að meta lífið og gleðina þegar við höfum upplifað erfiðar tilfinningar. Hamingjufræðin hafa þróast mikið frá upphafi og nú síðustu ár hafa fleiri og fleiri vísindamenn rannsakað hvað það er sem gerir gott líf að góðu lífi. Breska ríkisstjórnin leitaði á sínum tíma til helstu rannsakenda við virtustu háskóla þar í landi og bað þau að taka saman hvað rannsóknir sýna að auki hamingju og velsæld fólks. Hún bað þau um að setja niðurstöðurnar fram á einfaldan og skýran hátt svipað og lýðheilsuskilaboð um „5 á dag“ sem vísar í að við þurfum að borða 5 ávexti og grænmeti á dag. Niðurstaðan varð 5 leiðir að vellíðan og langar mig að enda á þessum skilaboðum um það sem við getum gert til að auka hamingju og vellíðan í lífinu.

  • Fyrsta leiðin snýst um mikilvægasta þáttinn fyrir hamingju og vellíðan: Myndum tengsl.
  • Önnur leiðin snýr að því að vera virk og hreyfa okkur sem er mjög mikilvægt fyrir vellíðan.
  • Þriðja leiðin er tökum eftir, sem minnir okkur á að vera í núinu og njóta þess, núlíðandi stund er oftast vel viðráðanleg.
  • Fjórða leiðin snýr að því að halda áfram að læra og þroskast út lífið.
  • Fimmta leiðin snýr að því að gefa af okkur, því það er búið að sanna að það er sælla að gefa en þiggja.
Fimm leiðir að vellíðan.png

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

Sálfræðingur og lýðheilsufræðingur, sviðsstjóri á Lýðheilsusviði hjá embætti landlæknis
Nýtt á vefnum