Þroski er flókið hugtak sem er meðal annars hægt að skilgreina á þann hátt að hegðun eða færni breytist yfir ákveðinn tíma. Þroska barna er meðal annars hægt að skoða út frá þroskaferlum og tegundum þroska. Þroskaferli barna eru sum hver vel skilgreind og rannsökuð eins og til dæmis bæði hreyfiþroski og vitsmunaþroski. Frávik í þroska eru mörg og mismunandi, það getur verið frávik sem er fyrst og fremst seinkun í þroska en einnig getur verið um frávik að ræða ef þroski fer óhefðbundnar leiðir. Orsakir þroskafrávika geta auk þess verið margskonar og flóknar. Það er mikilvægt að skoða og kortleggja frávik í þroska og fylgjast með þroskaframvindu barna. Ef vel er fylgst með þá er hægt að koma með viðeigandi íhlutun og kennslu um leið og barn fylgir ekki jafnöldrum eða hefðbundnu þroskaferli. Íhlutun og kennsla getur þá farið af stað um leið og frávik er sýnilegt.
Mikilvægt eftirlit
Á Íslandi er fylgst vel með þroska og hegðun allra barna á fyrstu árum lífsins. Oftast fer þetta eftirlit fram á heilsugæslustöðvum eða hjá sérfræðiþjónustu í nágrenni barns og fjölskyldu. Ef vaknar grunur um frávik í þroska er það skoðað nánar og alvarlegustu frávikunum er vísað á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (hér verður minnst á Greiningarstöð í framhaldinu sem styttingu á nafni stofnunarinnar). Þar fá börn og fjölskyldur þeirra þjónustu sem felur í sér greiningu, ráðgjöf og fræðslu auk annarra úrræða sem talin eru til þess fallin að geta bætt lífsgæði og fyrirbyggt frekari erfiðleika hjá barninu.
Greining á frávikum er því mikilvægur hlekkur í þjónustu barns og fjölskyldu en er í þessu tilliti hvorki upphafspunktur né endastöð. Greining á þroskafrávikum ætti alltaf að vera þverfagleg samvinna fagfólks sem þekkir til þroska og hegðunar barna og unglinga. Á Greiningarstöð vinnur hópur sérfræðinga sem margir hafa áratuga reynslu og þekkingu á frávikum í þroska. Þar er unnið eftir viðurkenndu verklagi og nýjustu rannsóknir alltaf hafðar að leiðarljósi. Þegar barn kemur á Greiningarstöð er einnig stuðst við þá kortlagningu og athuganir sem hafa farið fram í nærumhverfi barns og fjölskyldu. Greining er flókið ferli sem felur í sér margar spurningar og vangaveltur, miklu magni upplýsinga er safnað, meðal annars um alla þroskasögu barns og aðstæður fjölskyldunnar.
Vitundarvaking
Algengustu tilvísunarástæður á Greiningarstöð eru grunur um einhverfu og þroskahömlun hjá barni eða unglingi. Þekking á þessum frávikum hefur aukist mikið undanfarna áratugi sem og vitundavakning á því hversu mikilvægt er að tryggja stuðning og umburðarlyndi í samfélaginu. Í því samhengi hefur greining á t.d. einhverfu verið ákveðinn gjaldmiðill fyrir viðeigandi stuðning í sveitafélagi. Aukin áhersla er nú á það að skoða hvort kortlagning eða greining sem er gerð í nærumhverfi barns ætti ekki að veita sömu réttindi þannig að hægt sé að koma með viðeigandi stuðning sem allra fyrst. Á Greiningarstöð er notast við alþjóðlegt greiningarkerfi frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (ICD-10 sem von bráðar verður skipt út fyrir ICD-11). Það hefur ákveðna kosti við greiningu en einnig ákveðnar takmarkanir. Það lýsir því til dæmis ekki alltaf hversu mikla stuðningsþörf barn og fjölskylda er með. Greiningarstöð sinnir því einnig mati á langvarandi stuðningsþörf fyrir börn með alvarleg frávik og notar til þess matskerfi frá Bandaríkjunum sem er oftast kallað SIS-C mat (Supports intensity scale - Children‘s version).
Það ætti alltaf að hafa í huga að greining ætti að gagnast þeim sem hana fær. Kortlagning á vanda barns ætti að nýtast til þess að viðeigandi stuðningur komi frá samfélaginu auk þess að efla skilning hjá bæði barninu sjálfu og foreldrum. Greining á t.d. vitsmunaþroska leiðir oft til þess að kröfur og fyrirmæli verða meira í takt við skilning og getu barns. Gott er að hafa í huga að greining felur bæði í sér að skoða veikleika og styrkleika barns. Það að beina sjónum að styrkleikum sérstaklega getur haft góð áhrif á sjálfsmynd, sjálfsskilning og líðan barns.
Margir um hvert barn
Í nærumhverfi eru margir sem koma að uppeldi og kennslu hvers barns. Hlutverk greiningaraðila ætti að vera að koma niðurstöðum og þekkingu á frávikum til allra þeirra aðila. Þar af leiðandi má sjá að fræðsla er mikilvæg. Á Greiningarstöð eru námskeið í boði um alvarleg frávik í þroska og þær íhlutunarleiðir sem eru viðurkenndar. Aðferðirnar sem kenndar eru á þessum námskeiðum hafa verið gagnreyndar sem þýðir að þær hafa leitt til þess að lífsgæði hafa aukist og líðan batnað hjá börnum sem glíma við sambærileg frávik. Námskeiðin má nálgast á heimasíðunni: greining.is.
Þekking á þroska er sífellt að aukast og nálgunin er sífellt að verða þverfaglegri. Það þarf að skoða þroska út frá mörgum sjónarhornum til að öðlast betri skilning og þekkingu. Í þessu ljósi er það skiljanlegt að þekking á þroskafrávikum, bæði varðandi greiningu og íhlutun er sífellt að aukast. Mikilvægt er að þessi þekking skili sér til íslenskra barna og unglinga og fjölskyldna þeirra. Við sem samfélag ættum öll að vera saman í liði í því að ýta undir aukin lífsgæði allra barna og reyna að fyrirbyggja vanlíðan og erfiðleika hjá sem flestum. Í því samhengi er greining mikilvægur hlekkur.