Greinar / 14. október 2024

Félagslega fæðuumhverfið – gildi fjölskyldumáltíða

Screenshot 2024-10-21 160819.png

Um allan heim sest fólk reglulega niður og borðar saman. Það hefur verið gert með ýmsum hætti í gegnum tíðina í nánast öllum menningarheimum sem við þekkjum. Fræðilega séð er því hægt að rýna í sameiginlegar máltíðir á ýmsa vegu, til dæmis sem tákn fyrir menningarleg fyrirbæri, sem tækifæri til að greina félagsleg samskipti, sem möguleika á að rannsaka matarhegðun með sálfræðilegum aðferðum, eða bara daglegar sveiflur í fæðuvali fólks. Máltíðin getur sem slík verið öflugt fræðilegt tól allt frá hugvísindum til heilbrigðisvísinda. Máltíðin auðveldar okkur að skilja það sem við köllum „félagslega fæðuumhverfið“ – þá félagslegu þætti sem hafa áhrif á hvaða mat við borðum. Félagslega fæðuumhverfið er þar með einn af þeim lykilþáttum sem stuðla að hollum matarvenjum. Hér á eftir verður aðaláherslan á fjölskyldumáltíðina, einkum stöðu þekkingar þegar kemur að hlutverki fjölskyldumáltíða í heilsu og velferð barna og ungmenna.

Hvað er fjölskyldumáltíð?

Í raun er engin ein ákveðin skilgreining til á orðinu „máltíð“. Stundum er átt við hvert skipti sem einstaklingur borðar eitthvað, stundum er átt við hvað er á disknum (t.d. „grænmetismáltíð“ eða „lágkolvetnamáltíð“). Þriðji möguleikinn er að máltíð sé fæðutengdur viðburður þar sem tímaramminn er afmarkaður og kjarni athafnarinnar er að borða. Þessi skilgreining máltíðar er umfjöllunarefni þessarar greinar. Ef ég kem við í götusjoppu og gríp mér hamborgara má kalla það máltíð, en ef ég fæ mér nasl á meðan ég horfi á bíómynd er það ekki máltíð því meginathöfnin var áhorfið. Þetta er engan veginn fullkomin skilgreining, en hún hjálpar okkur að skilja máltíðina sem miðlæga athöfn í því hvernig við skipuleggjum daglegt líf okkar.

Fjölskyldumáltíðin flokkast svo eftir félagslega samhenginu, það er að segja fjölskyldunni en fjölskylda er í reynd annað hugtak sem mætti skilgreina á ýmsa vegu. Hvað nákvæmlega myndar fjölskyldu getur kannski virst augljóst, en staðreyndin er sú að það er mikil fjölbreytni í því hvað fólk telur til fjölskyldu, bæði innan og milli menningarheima. Það hvað fjölskylda merkir getur því einnig verið mismunandi í ólíkum rannsóknum, sem er mikilvægt að hafa í huga þegar meta á gildi fjölskyldumáltíða fyrir heilsu og velferð. Stundum er einfaldlega spurt um fjölskylduna og þá svarar þátttakandinn út frá sinni eigin sýn. Vandinn við það er ónákvæmari samanburður milli einstaklinga. Fyrir einn kann fjölskylda að þýða tveir fullorðnir og eitt barn, en fyrir annan fjórir fullorðnir og þrjú börn, þannig að „fjölskyldan“er ekki eins. Svo er hægt að spyrja með hverjum síðasta máltíð var borðuð og leggja það í hendur rannsakandans að skilgreina hvort það var fjölskyldan eða ekki. Hvaða leið sem farin er við að meta bæði hvað er máltíð og hvað er fjölskylda er vert að hafa í huga að slíkt getur haft áhrif á niðurstöður og túlkun þeirra. Þetta á ekki síst við þegar mikilvægar spurningar liggja til grundvallar eins og áhrif á heilsu og líðan.

Reglulegar fjölskyldumáltíðir

Í fjölda rannsókna má finna tengsl milli þess hversu oft fjölskyldur borða saman og hvernig börnum og ungmennum líður. Yfirleitt eru niðurstöðurnar jákvæðar. Í svokölluðum kerfisbundnum yfirlitsrannsóknum, þar sem mikið magn rannsókna er tekið saman og metið koma fram öfug tengsl, það er að segja að því oftar sem fjölskyldur borða saman því minni hætta er á notkun vímuefna og áfengis, ofbeldishegðun, átröskunum, depurð og sjálfsvígshugsunum. Börn í fjölskyldum sem borða saman reglulega eru einnig líklegri til að tileinka sér heilsusamlegri fæðuvenjur og hafa lægri líkamsþyngdarstuðul (BMI). Umfram allt er þó vert að minnast á að þegar fólk er spurt beint, til dæmis í viðtalsrannsóknum eða könnunum, finnst því almennt gaman að borða saman. Sameiginlega máltíðin er því eitthvað sem flest okkar virðast kunna að meta.

Þrátt fyrir að fjölskyldumáltíðin sem slík geti verið margvísleg benda rannsóknir þannig oftast í sömu átt, þó tengslin séu ekki alltaf jafn skýr. Hin almennt séð jákvæðu tengsl fjölskyldumáltíða við heilsu og líðan hafa meðal annars leitt til ýmissa ráðlegginga tengdar heilsu. Í Bandaríkjunum hefur American Heart Association opinberlega mælt með fjölskyldumáltíðum sem hluta af daglegu lífi, eins og Academy of Nutrition, sem lýsir sér sem stærstu fagfélagasamtökum heims á sviði mataræðis og næringar. Health Canada, sem má kalla landlæknisembætti Kanadamanna, skrifa í næringarráðleggingum sínum að máltíð sé frábært tækifæri til að vera með fjölskyldunni og njóta samveru á hátt sem gagnast öllum, til dæmis með því að bjóða upp á þægileg félagsleg samskipti og stuðla að heilsusamlegum matarvenjum. Í næringarráðleggingum í Brasilíu hefur beinlínis verið lögð áhersla á sameiginlegar máltíðir sem leið til að efla félagslega og menningarlega samheldni, læra heilsusamlegar matarvenjur og þróa með sér samkennd, til dæmis með því að kenna börnum að deila matnum með systkinum sínum.

Af hverju borða saman?

Ef það er svo að fjölskyldumáltíðir stuðli að betri heilsu, þá vaknar spurningin hvers vegna. Hvað er það sem fjölskyldumáltíðirnar leggja til? Innan vísindagreina eins og félagsfræði er stundum talað um félagsleg fyrirbæri á stærri og smærri skala – makró og míkró. Á makróstigi rannsakar maður til dæmis mun á milli ríkja, samfélaga og félags- og efnahagshópa. Míkróstigið snýst frekar um samspil fólks við hvert annað – hvernig við eigum samskipti, myndum félagsleg tengsl og vinnum saman. Og það er venjulega á míkróstigi sem fjölskyldumáltíðin er áhugaverð.

Screenshot 2024-10-21 160731.png

Hvert nýtt samband sem myndast milli tveggja einstaklinga felur í sér myndun nýrra félagslegra tengsla. Þessi tengsl eru mjög mikilvæg til að skilja hegðun og atferli fólks. Maður getur haft fjölmörg eða fá félagsleg tengsl og þau geta verið bæði veik og sterk. Heildarfjöldi félagslegra tengsla einstaklings myndar félagslegt net hans. Það er vel þekkt að fjölbreytt félagsnet með merkingarbærum félagslegum samskiptum er heilsueflandi. Ein möguleg skýring er því sú að máltíðin stuðli að myndun nýrra og styrkingu núverandi félagslegra tengsla og stuðli þar með til lengdar að heilsueflandi félagsneti.

Við getum líka hugsað okkur að fjölskyldumáltíðin efli annan mikilvægan þátt fyrir bæði vellíðan einstaklinga og velgengni samfélaga; félagslegt traust. Í stuttu máli snýst félagslegt traust um hversu mikið við treystum hvert öðru í samfélaginu. Það er því ekki óhugsandi að sameiginleg máltíð með opnum umræðum þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til að eiga skoðanaskipti skapi traust. Einnig má draga fram sálfræðileg áhrif sem tengjast félagsfærni. Börnin læra frá unga aldri að temja sér ákveðna borðsiði og reglur kringum mat, eins og að ekki eigi að borða nammi á undan matnum og að það sé gott að klára grænmetið. Fjölskyldumáltíðum fylgir því ákveðið heilsuuppeldi með tilheyrandi jákvæðum áhrifum.

Þessar þrjár skýringar geta svo tengst innbyrðis. Sterk félagsleg tengsl geta stuðlað að trausti, traust getur stuðlað að því hversu vel við tökum við lærdómi frá öðrum, og svo framvegis. Þessar þrjár skýringar ásamt fleiri þáttum liggja því hugsanlega til grundvallar – en stóra spurning vísindanna er þó HVORT svo sé.

Tengsl eru ekki það sama og orsakasamhengi

En hvað er það sem veldur hverju? Þegar kemur að lýðheilsunæringarfræði getur stundum verið erfitt að greina orsakasamhengi. Þegar um félagslega þætti er að ræða getur það verið enn erfiðara, því þeir eru einnig undir áhrifum þess hvernig okkur líður. Tökum spurninguna um félagslega umhverfið sem dæmi. Það er mjög líklegt að börn og ungmenni sem alast upp í sterku félagslegu umhverfi hafi tilhneigingu til að borða oftar með fjölskyldumeðlimum. Hér gæti það því alveg eins verið að sterk félagsleg samheldni ýti undir það hversu oft er borðað saman, frekar en öfugt. Sama gildir um traust. Hvað fæðuuppeldið varðar má einfaldlega velta fyrir sér hvort það séu ekki bara sérlega meðvitaðir foreldrar er vilja stuðla að góðri heilsu sem leggja sig sérlega fram um að borðað sé saman, enda hefur því víða verið haldið fram að fjölskyldumáltíðin skipti máli. „Ég skal sko sannarlega ekki láta mitt eftir liggja sem ábyrgt foreldri!“ Út frá þessu sjónarhorni má því ætla að reglulegar fjölskyldumáltíðir séu kannski frekar birtingarmynd heilsueflandi fjölskylduumhverfis almennt, frekar en að máltíðin sjálf sem slík skili ávinningnum.

Tengsl hafa líka fundist milli sálfélagslegrar heilsu ungmenna og tíðni fjölskyldumáltíða, og jafnvel þó að það gæti verið orsakasamhengi þar getum við ekki útilokað að ungmennum sem líður illa andlega einangri sig og taki því ekki þátt í fjölskyldumáltíðum, á meðan ungmennum sem líður vel borði frekar með fjölskyldunni. Þar er orsakasamhengi því orðið öfugt, máltíðavenjurnar eru slæmar af því að barninu líður illa. Hér er einnig mikilvægt að hafa í huga ólíka upplifun einstaklinga af fjölskyldumáltíðum. Í fjölskyldu þar sem samskipti eru heilbrigð geta börn og ungmenni notið góðs af því að borða saman, en í fjölskyldu sem einkennist af átökum og óheilbrigðum samskiptum getur fjölskyldumáltíðin verið mjög óþægileg reynsla.

Atferlisgenafræðin

Svo þarf jafnvel að horfa til erfðafræðinnar. Innan vísindasviðs sem kallast atferlisgenafræði hefur á síðustu áratugum komið fram að mjög margir þættir sem við höfum talið alfarið umhverfisbundna, og tengjast heilsu og vellíðan, skýrast einnig að verulegu leyti af erfðafræðilegum mun á milli manna. Því hefur jafnvel verið varpað fram að gen geti spáð fyrir um hvað fólk kýs, hvort það skilur og hversu mikið það horfir á sjónvarp. Ekki á þann hátt að það séu til ákveðin gen sem útskýra tiltekna hegðun, heldur að flókið samspil gena gerir það að verkum að við höllumst frekar að einu eða öðru, til dæmis hvað okkur finnst skemmtilegt, bragðgott eða hversu mikla matarlyst við höfum. Það er aldrei auðvelt að ráða fram úr hlutfallslegum áhrifum erfða á móti umhverfinu og þegar heilsuuppeldi er annars vegar er ljóst að nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina og áhrif þeirra fjölmörgu þátta, líffræðilegra og félagslegra sem erfast milli kynslóða.

Fæðutengdar ráðleggingar

bord.png

Tilhneiging mannsins til að sameinast yfir máltíð í gegnum tíma og rúm bendir til þess að flestum þyki gott að borða saman og meti það mikils. Flest okkar njóta þess að borða góðan mat með fólki sem okkur líkar vel við og líður vel með. Það er því alls ekki ólíklegt að fjölskyldumáltíðir geti verið heilsueflandi. Ef ég þyrfti að veðja á hvort um orsakasamhengi sé að ræða eða ekki, myndi ég veðja á að það sé til staðar. Hins vegar held ég ekki að það sé mjög sterkt, og það er tvímælalaust þannig að mikill breytileiki er í því hversu gott það er fyrir börn og ungmenni að borða með fjölskyldu sinni. Ráðleggingar um mataræði á Norðurlöndunum byggja í grunninn á niðurstöðum norrænna næringarráðlegginga. Þar eru gerðar miklar kröfur um að vísindaleg þekking liggi til grundvallar til að hægt sé að draga ályktanir um til dæmis fitugjafa, heilkorn, fisk eða ávexti og grænmeti. Þótt ekki sé enn tímabært að setja fjölskyldumáltíðir efst á blað í ráðleggingum um mataræði, þar sem enn skortir á rannsóknir, er ljóst að það er verðmætt að njóta góðs matar í góðum félagsskap, og það eigum við að gera áfram ef það veitir okkur vellíðan. Matartíminn hefur ávallt verið viss samskiptagátt í gegnum tíðina, og mun væntanlega áfram hafa öflugt félagslegt gildi.

Höfundurinn stundar meðal annars rannsóknir á gildi máltíða og þess að borða saman, félagslegum og heilsufarslegum áhrifum máltíða með og án félagsskapar. Greinin er þýdd og aðlöguð af Dr. Önnu Sigríði Ólafsdóttur prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands og Uppsalaháskóla, en þau Nicklas eru vinnufélagar þar.

Dr. Nicklas Neuman

Dósent í næringarfræði við Uppsala Háskóla, Svíþjóð
Nýtt á vefnum