Greinar / 5. febrúar 2018

Erindi SÍBS við þjóðina aldrei brýnna en nú

Páll Kristinn Pálsson ræðir við Guðmund Löve, framkvæmdastjóra SÍBS, um helstu áherslur og framtíðarsýn í starfi samtakanna á þessum merku tímamótum í sögu þeirra.

„Á þeim 80 árum sem liðin eru frá stofnun SÍBS hefur mjög margt breyst í samfélaginu,“ segir Guðmundur þegar við hittumst yfir kaffibolla í höfuðstöðvunum að Síðumúla 6 í Reykjavík. „Í upphafi snerist allt starfið um að sigrast á berklunum, en helstu verkefni okkar í dag lúta að heilbrigði og lýðheilsu á alla lund, einkum með tilliti til langvinnra lífsstílstengdra sjúkdóma. Það hefur þó ekki breyst að við berum áfram heilbrigði þjóðarinnar fyrir brjósti og við viljum snerta á flestum áhrifaþáttum bættrar heilsu.“

Forvarnir

Guðmundur segir SÍBS vinna á öllum stigum forvarna.

„Fyrst og fremst ber auðvitað að nefna endurhæfingarmiðstöðina Reykjalund, sem þúsundir Íslendinga geta þakkað góðan bara og að geta snúið aftur til daglegra starfa. En áður en svo langt er komið í sjúkdómsferlinu að fólk þurfi á endurhæfingu að halda, þá er hægt að stöðva skaðann á fyrri stigum. Fremst í röðinni eru aðgerðir sem tengjast fræðslu og upplýsingum, til dæmis hvað er hollt og hvað ekki, hvað holl og góð hreyfing og ýmsilegt er varðar andlega þætti svo sem svefn og streitu. Næst í aðgerðaröðinni er hægt að freista þess að stemma stigu við skaðanum með inngripum á borð við námskeið og skimanir með mælingum á blóðfitu, blóðsykri, kólesteróli og þess háttar sem gera fólki kleift að grípa sjálft inn í og stöðva sjúkdómsferli áður en til endurhæfingar þarf að koma.

Forvarnaferlið er þannig allt samhangandi frá upplýsingu og yfir í endurhæfingu; ég segi stundum frá feisbúkk til Reykjalundar. Sviðið er svo vítt, fólk þarf aðstoð við að skilja hvað er heilsuhegðun, við getum kallað það heilsulæsi, og þegar fólk er lengra leitt í þróun sjúkdóms þarf það meiri aðstoð, meiri inngrip, en lokatakmarkið er auðvitað það að stöðva og koma í veg fyrir alvarlegan sjúkdóm hjá fólki sem endar með ótímabærum dauða eða alvarlegri skerðingu, jafnvel örorku.

SÍBS rekur nokkur verkefni sem tengjast þessu breiða forvarnaferli. Við höfum um margra ára skeið gefið út blað með greinum eftir okkar helstu sérfræðinga um heilsufar og hollustuhegðun. Allar greinarnar eru aðgengilegar í greinasafni á heimasíðu SÍBS og við höfum einnig gert talsvert af því að dreifa þeim á samfélagsmiðlum. Um þessar mundir erum við með í smíðum fræðsluþætti fyrir sjónvarp um heilbrigði og lífsstíl í samstarfi við nokkur önnur félög, sem sýndir verða næsta vetur og hægt verður að nota í margvíslegu fræðsluskyni í framtíðinni.

Þá höfum við haldið námskeið sem byggja á efni sem notað er í meðferðum á Reykjalundi, aðlagað að almenningi. Við erum komin með vottorð sem framhaldsfræðsluaðili, þannig að auk þess að bjóða námskeiðin á almennum markaði getum við boðið þau innan framhaldsfræðslunnar þar sem þau eru niðurgreidd fyrir þátttakendur.

Við rekum verslun án hagnaðarsjónarmiða í höfuðstöðvum okkar að Síðumúla 6 í Reykjavík þar sem seldar eru ýmis konar stoðvörur og hreyfivörur til að auðvelda fólki að komast út og hreyfa sig, eða létta fólki dagleg störf með hjálpartækjum og stoðvörum. Þetta gengur sem sé mikið út á að stuðla að virkni og vellíðun.“

SÍBS Líf og heilsa

„Svo er ég sérstaklega ánægður með þróun síðustu ára, eftir að við blésum til sóknar með mælingaverkefni okkar sem kallast SÍBS Líf og heilsa, hvað við höfum náð að fóta okkur vel og erum að ljúka heilum hring um landið núna á þessu 80 ára afmælisári okkar og verðum þá búin að bjóða öllum landsmönnum, í öllum byggðalögum, ókeypis mælingu á blóðfitu, blóðsykri, blóðþrýstingi, súrefnimettun og öðrum þáttum. Á þeirri leið höfum við fundið fjölda einstaklinga sem hafa mælst með gildi sem hafa gefið tilefni til frekari skoðunar.

Ég vil taka fram að í SÍBS Líf og heilsa er einungis um skimun að ræða og hún er unnin í samvinnu við sveitarfélög og heilbrigðsstofnanir á hverjum stað, sem geta tekið við þeim sem finnast með há gildi og staðfesta greiningu og læknar á hverjum stað taka við boltanum ef svo ber undir. SÍBS Líf og heilsa getur einnig orðið hluti af heilsueflandi verkefnum hjá sveitarfélögum ef þau hafa slíkt á prjónunum. Mörg fyrirtæki hafa einnig fengið okkur til að koma og framkvæma þessar mælingar á starfsfólki þeirra þegar við erum á staðnum. Bæði sveitarfélög, fyrirtæki og einstakingar hafa styrkt verkefn svo við höfum getað boðið fólki þessar mælingar ókeypis í gegnum stuðningsmannakerfi fræðslu- og forvarnastarfs SÍBS, sem heitir Máttarstólpar SÍBS. Auk samstarfsaðila heima í héraði þá standa með okkur að verkefninu Hjartaheill og Samtök lungnasjúklinga, sem eru aðildarfélög SÍBS og Samtök sykursjúkra. Fleiri félög gætu bæst í hópinn á næstunni undir merkjum SÍBS Líf og heilsa.

Það er gaman að geta þess að það var einmitt Hjartaheill sem hóf þetta mælingarverkefni árið 2000 og þótt SÍBS hafa fljótlega komið að því þá hefur okkur tekist á undanförnum tveimur árum að fjármagna þetta betur og sinna þessu af enn meiri krafti en áður. Við stefnum að því að geta klárað einn hring um landið á tveimur árum og byrja þá í beinu framhaldi á þeim næsta.

Við höfum mestan áhuga á að fá í mælingu fólk sem þekkir ekki gildi sín í þessum þáttum sem við erum að mæla og er ekki undir eftirliti hjá lækni. Í hverju byggðarlagi finnum við nokkuð margra einstaklinga sem haka í eitt eða fleiri box, bæði með hækkaðan blóðþrýsting, hækkaða blóðfitu og með fjölskyldusögu um hjarta- og æðasjúkdóma svo dæmi sé tekið. Það hefur nokkuð oft gerst að fólk hefur verið strax tekið til hliðar og bent á að fara strax í skoðun hjá lækni. Svo er auðvitað alltaf betra að grípa inn í sjúkdómsferli sem fyrst, og þess vegna fá þeir sem mælast með hækkuð gildi en ástæðu til að ráðfæra sig við lækni og gera eitthvað í málinu sjálfir. Fyrst og fremst berum við sjálf ábyrgð á eigin heilsu. Þegar að við komum út úr grunnskólanum hættir hið opinbera kerfi að fylgjast með okkur, það heldur áfram að krefja okkur um að senda bílinn í skoðun en ekki okkur sjálf. Það er markmið okkar að bæta þar úr með verkefninu SÍBS Líf og heilsa.

SÍBS Líf og heilsa heimsækir alla staði á landinu með hundrað til tvö hundruð íbúum og upp úr. Það er passað upp á að enginn verði út undan og við auglýsum þetta eins og kostur er með dreifibréfum í öll hús, auglýsingum í samfélagsmiðlum og ýmsum staðarmiðlum. Þetta á ekki að fara framhjá neinum. Mætingin er líka feikigóð. Við reiknum með um fimm þúsund manns af landinu öllu í einni yfirferð. Það er meira en einn árgangur. Ef okkur tækist að mæla einu sinni á ári, einn árgangur, þá næðum við fyrr eða síðar til allra. Sem stendur náum við því ekki, en það sem er mikilvægast að þeir fimm þúsund sem við náum við í hverjum hring séu þeir sem vita ekki stöðu sína og því fyrr sem fólk mætir í svona skimun því betra. Við mælum fólk frá átján ára og upp úr og því fyrr sem fólk byrjar því betri samanburð hefur það þegar fram í sækir til að meta eigin heilsu. Seinna meir, þegar við höfum farið nokkra hringi í kringum landið, munum við svo öðlast gleggri yfirsýn á þróunina í þessum efnum hjá okkur Íslendingum.“

Fjármögnun

En hvað með kostnaðinn? Hvernig fjármagnar SÍBS starfsemi sína?

„SÍBS fjármagnar sig með mörgum mismunandi leiðum. Happdrættið stendur straum af uppbyggingu á Reykjalundi, Múlalundi og kjarnastarfsemi samtakanna, skrifstofunni og þess háttar. Við njótum styrkja af ýmsu tagi, bæði frá opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum. Svo er gríðarlega mikilvægur félagsskapur sem kallast Máttarstólpar SÍBS, sem styrkja forvarnastarf okkar með mánaðarlegum fjárframlögum að eigin vali. Máttarstólparnir hafa meðal annars gert okkur kleift að blása lífi í fyrrnefnt verkefni Líf og heilsa, þannig að við getum boðið upp á ókeypis mælingar um allt land. Ef einhver sem les þetta langar til að leggja sitt af mörkum þá er hægt að gerast Máttarstólpi með því að hringja einfaldlega til okkar í síma 560 4800 eða senda tölvupóst á [email protected], og þá verður haft samband.“

Afmælisárið

Nú er SÍBS 80 ára á þessu ári, en hver verða helstu áhersluatriðin á komandi árum?

„Á afmælisári lítum við um öxl með þakklæti og ekki síður fram á veginn með bjartsýni og eldmóði. Erindi okkar er engu minna í dag heldur en það var þegar við blasti þjóðarvá í berklafaraldinum sem þá herjaði á landsmenn. Núna er það faraldur lífsstílstengdu sjúkdómanna sem steðjar að okkur og við eigum fullt í fangi með að ná utan um og munum án efa án næstu ár og jafnvel áratugi glíma við þetta verkefni því það snertir svo mörg svið daglegs lífs.

Heilsuhegðun og heilsulæsi er bara rétt að byrja að ryðja sér til rúms meðal almennings sem eitthvað að líta til. Hugsunin hefur fram til þessa verið viðbragðsdrifin, að grípa inn í þegar skaðinn er skeður og gleypa töfluna eða fara í uppskurðinn en núna er að koma betur og betur í ljós að slíkt getur aldrei komið alveg í staðinn fyrir meðvitaða heilsuhegðun alveg frá upphafi og jafnvel ekki náð að lækna langvinna sjúkdóma sem valda margs konar skerðingu á lífsgæðum, ef ekki ótímabærum dauða eða örorku ef einstaklingurinn tekur ekki sjálfur ábyrgð á eigin heilsu. Heilsulæsi frá vöggu til grafar er það sem við þurfum að kenna landsmönnum og gefa þeim öll þau hjálpartæki sem við finnum á leiðinni þvert á upplýsingagjöf, námskeið, skimanir og svo auðvitað þrýsta á stjórnvöld að innleiða almennilega samhæfða forvarnavinnu sem hluta af heilsustefnu.“

Samræmd forvarnastefna

Þykir ykkur stjórnvöld ekki standa sig nógu vel í forvörnum?

„Nei, hér og nú þykir okkur skorta heildstæða samræmda forvarnastefnu stjórnvalda sem tæki á forvörnum, inngripum og meðferð jafnt, þar sem þetta væri samhangandi keðja þvert á áhættuþættina. Það vantar gríðarmikið upp á í því efni. Helstu áhættuþættir lífsstíls kristallast í atferli okkar, hvað við borðum og hvernig við borðum, hvort við hreyfum okkur og hvernig við hreyfum okkur – allt frá líkamsstöðu við skrifborðið og yfir á hlaupabrettið, tannhirðu, áfengisneyslu, reykingar og margt fleira. Og varðandi andlegu þættina skiptir máli hvernig við sinnum svefnþörfinni og hvernig við vinnum með streitu dagslegs lífs og svo auðvitað að vera vakandi gangvart þunglyndi og kvíða sem geta heimsótt okkur hvenær sem er og grípa inn í hvenær sem við verðum vör við slíkt.

Umhverfið getur hjálpað okkur heilmikið í þessu – það er viðkomustaðir einstaklingsins á leið sinni gegnum innviði samfélagsins. Ef ríki og sveitarfélög, vinnustaðir, íþróttafélög, skólinn og fjölskyldan leggja sitt af mörkum þá vildi ég sjá meira af fjölbreyttum aðgerðum allt frá styrktarþjálfun fyrir eldri borgara yfir í læstar öruggar hjólageymslur á vinnustöðum, sykrað gos burt úr sjálfsölunum íþróttamiðstöðvum, hjólandi og gangandi gert hærra undir höfði og þar fram eftir götum. Það er víða í samfélaginu þar sem þessir stofnanir samfélagsins fyrirhitta hina mismunandi samfélagshópa við skilyrði sem hægt væri að bæta úr með tilliti til heilsufars – og ég myndi vilja sjá alla þessa þætti inni í samræmdri forvarnastefnu.

Séð í enn stærra samhengi mætti kannski líta á heilbrigðismálin líkt og peningamálin og koma þeim fyrir í sterkri sjálfstæðri stofnun þar sem að litið væri til heildarinnar. Sjúkratryggingar Íslands hafa til að mynda ekki í dag tök á að verja fé til forvarna og það má örugglega segja að það sé einsdæmi i tryggingaheiminum að tryggingafélag geti ekki notað peninga til að stemma stigu við eigin útborgunum. Sem hluta af forvarnastefnu mætti alveg skoða hlutverk ýmissa opinberra stofnana og hvar þeim væri best fyrir komið.

Hvað heilsuhegðun varðar erum við Íslendingar bæði á toppnum og botninum. Við erum með þeim allra feitustu og eigum eftir að glíma við afleiðingar þess á næstu árum og áratugum, með sprengju af sykursýki 2 og hjarta- og æðasjúkdómar eiga eftir að segja meira til sín að nýju. Á sama tíma erum við óhemju góð í að taka okkur á. Hérna eru allar boðleiðir mjög stuttar og með samstilltu átaki væri hægt að upplýsa þjóðina og koma henni á réttan kúrs á miklu skemmri tíma en annars staðar í heiminum. Það er nákvæmlega þetta sem allt fræðslu- og forvarnastarf SÍBS miðar að.“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum