Eitt af því sem getur haft veruleg áhrif á svefngæði og heilsu eru svefnháðar öndunartruflanir, þ.e. hrotur og kæfisvefn.
Hvað er kæfisvefn?
Kæfisvefn er skilgreindur sem endurtekin öndunarhlé eða grynnkun á öndun í svefni vegna þrengsla í öndunarvegi. Flest öndunarhlé valda lækkun á súrefnismettun í blóði og truflun á svefngæðum. Hvert öndunarhlé er að lágmarki 10 sekúndur að lengd en hjá sumum einstaklingum eru hléin umtalsvert lengri, t.d. 1-2 mínútur. Alvarleika kæfisvefns er skipt í 3 stig: kæfisvefn á vægu stigi, 5-14.9 öndunarhlé á klst, kæfisvefn á meðalháu stigi, 15-29.9 öndunarhlé á klst og kæfisvefn á háu stigi, 30 eða fleiri öndunarhlé á klst. Alþjóðleg viðmið mæla fyrir meðferð á kæfisvefni á meðalháu og háu stigi en einnig á vægu stigi ef veruleg einkenni eða fylgikvillar eru til staðar.
Einkenni sem kæfisvefnssjúklingar finna helst fyrir eru dagsyfja og/eða þreyta. Þeir geta einnig upplifað uppvaknanir þar sem þeir ná ekki andanum, haft tíð þvaglát að nóttu og haft mikinn nætursvita eða vélindabakflæði að nóttu. Makar verða varir við hrotur og regluleg hlé á öndun yfir nóttina. Kæfisvefn getur því skert lífsgæði og með dagsyfjunni getur skapast veruleg slysahætta.
Kæfisvefni geta fylgt önnur sjúkdómseinkenni og ber þar helst að nefna háan blóðþrýsting sem svarar illa lyfjameðferð, gáttatif, hjartsláttaróreglu í svefni, hjartabilun sem versnar að næturlagi, endurtekin blóðþurrðarköst í heila og sykursýki tegund 2.
Helsti áhættuþáttur fyrir kæfisvefni er ofþyngd. Þó geta grannir einstaklingar einnig verið með kæfisvefn, t.d. vegna stórra hálskirtla, innfallinnar höku eða annars sem þrengir að efri öndunarvegi.
Hvernig er kæfisvefn greindur?
Kæfisvefn er yfirleitt greindur með einföldum mælibúnaði þar sem mældar eru öndunarhreyfingar í brjóstkassa og kvið, loftflæði í nösum, súrefnismettun í blóði, staða líkama og hreyfingar. Flestir fá mælitæki með sér heim, setja á sig sjálfir og sofa með eina nótt heima. Einnig eru lagðir fyrir spurningalistar til að meta einkenni eins og dagsyfju eða aðra fylgikvilla kæfisvefns.
Konur og kæfisvefn
Konur eru ólíklegri til að greinast með kæfisvefn en karlar. Bæði er algengi kæfisvefns u.þ.b. helmingi minna hjá konum en körlum, en einnig eru einkennin oft ólík. Konur með kæfisvefn eru líklegri til að lýsa þreytu frekar en dagsyfju og því að dotta á daginn. Þær lýsa einnig frekar erfiðleikum við að sofna á kvöldin og morgunhöfuðverk en sjaldnar hrotum og öndunarhléum. Því eru konur ólíklegri til að vera sendar í kæfisvefnsrannsókn en karlar. Staðalímyndin er einnig karlmaður á miðjum aldri í yfirþyngd sem veldur því að jafnvel þó kona lýsi sömu einkennum og karlmaður, eru samt minni líkur á að henni sé boðin kæfisvefnrannsókn og meðferð. Mikilvægt er að vita að líkur á kæfisvefni aukast með aldri hjá báðum kynjum en aukast sérstaklega við tíðahvörf hjá konum vegna breytinga á hormónum og fitudreifingu líkamans.
Skipta hroturnar sjálfar máli?
Reglubundnar háværar hrotur án þess að einstaklingur hætti að anda geta einnig haft neikvæð áhrif á heilsu. Þeir sem hrjóta eru líklegri til að lýsa dagsyfju og þreytu, verri frammistöðu í vinnu og morgunhöfuðverk. Einnig eru vísbendingar um að titringurinn af hrotunum geti valdið æðakölkun í hálsslagæðum. Frekari rannsókna er þörf á þessu sviði til að skilja betur hvenær hrotur hafa skaðleg áhrif á heilsu en greinahöfundar starfa m.a. á þessu sviði. Fyrri rannsóknir hafa flestar treyst á spurningalista þar sem spurt er um algengi og hávaðastig hrota en nú er hægt að mæla hrotur á hlutlægan hátt og skoða þannig áhrif þeirra á nákvæmari hátt.
Áhrif hrota á maka geta einnig verið umtalsverðar. Rannsóknir sýna að maki þess sem hrýtur hátt er líklegri til að þjást af svefnleysi, þ.e. vandræðum við að sofna eða viðhalda svefni yfir nóttina. Einnig er makinn líklegri til að tapa heyrn á því eyra sem snýr að maka sem hrýtur hátt (sjá mynd 2).
Algengi kæfisvefns hjá fullorðnum
Nýleg íslensk rannsókn bendir til þess að um 15% Íslendinga á miðjum aldri hafi ógreindan kæfisvefn á meðalháu til háu stigi. Til viðbótar voru 4% þátttakenda með greindan kæfisvefn og á meðferð við honum. 24% til viðbótar greindust með kæfisvefn á vægu stigi. Af þeim rúmum helmingi þátttakenda sem greindust þá með engan kæfisvefn, sagðist þriðjungur hrjóta þrisvar í viku eða oftar.
Þegar þátttakendur með ógreindan kæfisvefn á meðalháu til háu stigi, þar sem alþjóðleg viðmið mæla með meðferð, voru skoðaðir nánar mátti sjá að einungis hluti hópsins hafði einkenni kæfisvefns, lýsti dagsyfju o.þ.h. Einnig var hluti þátttakenda með eingöngu hrotur og kæfisvefn á vægu stigi með einkenni. Þessi rannsókn og erlendar rannsóknir af sama toga sýna því að breyttra aðferða fyrir greiningu á kæfisvefn er þörf. Mikilvægt er að horfa samhliða á niðurstöðu svefnmælingar, einkenni sjúklings og aðra sjúkdóma þegar ákveða skal meðferð við kæfisvefni og mögulega þurfa sumir einstaklingar sem hrjóta einnig meðferð.
Geta börn fengið kæfisvefn?
Talið er að 1-5% íslenskra barna þjáist af kæfisvefni og enn fleiri af miklum hrotum flestar nætur sem þarf að athuga m.t.t. áhrifa á heilsu barnsins. Kæfisvefn hjá börnum er skilgreindur sem eitt eða fleira öndunarhlé á klst. Fjölmargar rannsóknir sýna þó sambærileg neikvæð áhrif af reglubundnum hrotum hjá börnum og þeim sem hætta að anda i svefni.
Oft má sjá þessi börn reigja upp hálsinn í svefni, svitna mikið á nóttunni, sofa með opinn munn og berjast við að anda alla nóttina (sjá mynd 3). Þau sem eru verst sett fylgja jafnvel ekki eðlilegri vaxtarkúrfu og eru lítil og grönn eftir aldri. Fái þau rétta meðhöndlun við kæfisvefni taka þau oft vaxtarkipp.
Börnin eru líka oft með stóra hálskirtla eða þröngan öndunarveg af öðrum ástæðum. Oft hætta þau að anda í gegnum nefið og fara að anda mikið í gegnum munninn, einnig að degi til. Þau þróa þá með sér andlitsfall sem verður langt og mjótt. Kjálkavöðvarnir verða slappir og geta þau jafnvel ekki lokað munninum eðlilega. Þessi börn eru líklegri en önnur til að vera með kæfisvefn þegar þau verða fullorðin vegna þess hvað þau hafa þröngan og lítinn góm og tungan kemst ekki almennilega fyrir. Tennurnar geta líka orðið skakkar því þær komast ekki fyrir í gómnum sem vex ekki eðlilega þar sem tungan þrýstir ekki eðlilega á efri góm. Því þurfa þau oft miklar tannréttingar.
Hvaða dageinkenni sjást hjá börnum?
Hrotur og kæfisvefn geta haft neikvæð áhrif á heilaþroska barna sem lýsir sér t.d. í verri frammistöðu í skóla og hegðunarvanda. Þessi börn sýna einnig oft svipuð einkenni og börn greind með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD) og hafa skerta rökhugsun. Ef börn eru svefnvana og þreytt þá sofna þau almennt ekki fram á borðið eins og fullorðnir gera. Þau eru hins vegar sífellt á iði og órólegri en eðlilegt gæti talist. Þessi börn eiga líka erfiðara með að stjórna tilfinningum sínum, verða oftar reið og geta sýnt oftar ofbeldishegðun en önnur börn. Þau eiga almennt erfitt með að hafa stjórn á sér vegna þess að þau eru óúthvíld.
Hvað er til ráða?
Fullorðnir
Ef grunur er á kæfisvefni, t.d vegna háværra hrota eða öndunarstoppa í svefni, er hægt að leita til heimilislæknis og fá tilvísun í kæfisvefnsmælingu. Ef viðkomandi greinist er honum boðin viðeigandi meðferð, eftir alvarleika kæfisvefns. Ef kæfisvefninn er einungis tengdur við baklegu, er hægt að nota stöðubelti. Belti gefur frá sér merki ef einstaklingur sefur á bakinu og hann veltir sér þá yfir á hliðina. Önnur meðferð er notkun bitgóms, sem sérsmíðaður er af tannlækni. Bitgómur stýrir því að höku er þrýst fram og stuðlar þannig að opnari öndunarvegi. Þriðja meðferðin er svefnöndunartæki, þar sem lofti er streymt um loftveg undir þrýstingi um grímu (um nef eða nef og munn). Þetta loftflæði opnar öndunarveg til að fá eðlilega öndun í svefni. Mikilvægt er að huga að breyttum lífsvenjum ef kæfisvefn er vegna ofþyngdar. Meðferð getur því falist í breyttum lífsstíl.
Börn
Ástæða þykir til að skoða málið ef barn hrýtur hátt flestar nætur, en ekki vegna einungis tilfallandi hrota, t.d. vegna kvefs. Ef aðstandendur grunar að barn hrjóti óeðlilega mikið eða sé mögulega með kæfisvefn þá er ráðlagt að tala við heimilislækni eða barnalækni og óska eftir svefnmælingu. Meðferðin getur verið ýmis konar og jafnvel ólík þeirri sem fullorðnir fá. Ástæðan fyrir því er sú að hjá börnum getur öndunargríma valdið breytingum á andlitsfalli barnsins, þar sem hún ýtir á andlitsbein sem eru að þroskast. Ef hálskirtlar og nefkirtlar barna eru stórir er hægt að fjarlægja þá, en sú aðgerð dugir ekki alltaf til. Séu bólgur í nefi er oft hægt að laga það með lyfjum. Börn sem anda mest allan tímann með munninum geta einnig fengið meðferð hjá tannlæknum, sem felur í sér notkun á sérstökum gómi til að þjálfa þau í að anda aftur með nefinu. Einnig er hægt að hjálpa börnum að þjálfa vöðvana í kringum kjálkana og munninn, en á þeim vill slakna við stöðuga munnöndun.
Þörf á breyttum greiningarskilmerkjum
Hefðbundna aðferðin til að mæla kæfisvefn metur einungis fjölda öndunarhléa á klukkustund og tímabil grynnkaðrar öndunar. Ekki er horft til lengdar öndunarhléa eða hve mikill súrefnisskortur í blóði á sér stað. Öll öndunarhlé eru metin jafn slæm. Einnig er munur hvað varðar fullorðna og börn. Börnin hætta sjaldnast að anda lengi en þau erfiða við að anda alla nóttina og það eitt og sér getur verið sjúkdómsástand. Greinahöfundar og erlendir samstarfsaðilar eru að vinna að rannsóknum til að skilgreina betur hvenær kæfisvefn og hrotur eru sjúkdómsástand sem þarfnast meðhöndlunar bæði hjá börnum og fullorðnum. Því vonumst við til að skilja betur á næstu árum eðli hrota og öndunarhléa, hvaða afleiðingar þær hafa og hvenær þarf að grípa inn í til að bæta heilsu og líðan viðkomandi.
Heimildir
- ES Arnardottir, E Bjornsdottir, KA Olafsdottir, B Benediktsdottir and T Gislason. “Obstructive sleep apnoea in the general population: highly prevalent but minimal symptoms”. Eur Respir J 2016, 47(1):194-202.
- PE Brockmann, MS Urschitz, M Schlaud, and CF Poets, "Primary snoring in school children: prevalence and neurocognitive impairments," Sleep Breath, vol. 16, no. 1, pp. 23-9, Mar 2012.
- Þórarinn Gíslason og Erna Sif Arnardóttir. Klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð svefntengdra öndunartruflana/kæfisvefns. Landspítali háskólasjúkrahús, 2015.