Greinar / 6. júlí 2022

Ég elska að reyta arfa

Erla Gerður Sveinsdóttir heimilislæknir og lýðheilsufræðingur hefur undanfarinn áratug fengist mest við að aðstoða fólk og fræða um offitu, sjúkdóm sem svo margir lifa með hér á landi og víðar í hinum vestræna heimi. Í því starfi hefur hún tileinkað sér hugmyndir heildrænnar nálgunar sem þróast hefur um svokallaða fjóra hornsteina heilsunnar: mataræði, hreyfingu, svefn og hugarró.

„Þegar ég byrjaði að vinna með offituna fór ég smám saman að sjá hvernig sá vandi spannar í rauninni allt sviðið,“ segir Erla Gerður um aðferðafræðina. „Á þeim tíma snerist meðferð offitu mest um mataræðið og hreyfinguna. Fólk var hvatt til að borða minna og hreyfa sig meira. Það væri ekki mikið flóknara en það. En augu okkar hafa verið að opnast fyrir því að dæmið er þvertámóti afar flókið. Það eru svo gríðarlega öflug kerfi sem stýra orkubúskap líkamans og svo margt sem hefur áhrif á hann. Erfðir, hormónin, svefninn, líkamsklukkan, þarmaflóran, uppeldisáhrif, venjur – já, allt það sem mótar okkur á lífsleiðinni. Auðvitað þurfum við að hafa jafnvægi í næringunni og borða fjölbreyttan hreinan mat sem næst upprunanum. Það er allt þetta gervifæði sem er svo slæmt ef þess er neytt í óhófi og því miður er það uppistaðan í mataræði margra. En ef við borðum náttúrlegt fæði og sleppum „draslinu“, þá getum við haft það nokkurn veginn alveg eins og við viljum, lágkolvetna, grænmetisfæði eða hvað hentar okkur best. Vísindasamfélagið hefur skoðað heilmikið hvað er í matnum sem við setjum ofan í okkur og við höfum líka skoðað hvernig líkaminn vinnur úr næringar- og orkuefnum á mismunandi hátt en svo kemur alveg heill kafli þarna á milli sem er þarmaflóran og getur breytt þessari mynd á marga vegu og það er spennandi kafli út af fyrir sig.

Ef við horfum svo á hreyfinguna og þá hugmynd að við þurfum bara að hreyfa okkur nógu mikið til að léttast, þá reynist það alls ekki vera þannig. Vissulega er hreyfing okkur nauðsynleg til þess að efla styrk og þol og stuðlar að betra jafnvægi í líkamanum á marga vegu, en við erum ekki að hreyfa okkur í þeim tilgangi að léttast. Líkaminn grípur til mótvægisaðgerða ef mikið ósamræmi kemur upp og þannig eru það ekki hitaeiningar inn og út sem hægt er að mæla. Mikilvægt er að við finnum hreyfingu sem hentar okkur á hverjum tíma og hreyfingu sem er það skemmtileg að við getum hugsað okkur að iðka hana til langtíma. Svo má ekki gleyma öllum litlu tækifærunum til hreyfingar í daglegu lífi, nota stigana, teygja reglulega úr sér og fjölga skrefunum í daglegu amstri. Það munar um öll þessi aukaskref og svo fer auðvitað hreyfing í náttúrunni sérstaklega vel með okkur.“


Þar sem áhrif mataræðis og hreyfingar dugðu ekki til að meðhöndla offitu leitaði Erla Gerður að öðrum þáttum og athyglin beindist fljótt að svefninum. „Ég fór að skoða hvað svefninn er okkur mikilvægur og hvað margt er að gerast í líkamanum á meðan við sofum; hverju við erum að missa af ef við virðum ekki svefninn okkar. Þar skiptir miklu að við séum í takti við líkamsklukkuna. Ef við vinnum á móti henni þá er hætt við að við lendum í basli með heilsuna. Ef við vinnum með henni þannig að hún lætur öll kerfin vinna í samræmi þá erum við á miklu betri stað með allt saman.

En líkamsklukkan tifar ekki fullkomlega eins hjá öllum og hún er misviðkvæm. En það eru ákveðin viðmið sem gilda fyrir flesta. Það er sem sé aðeins misjafnt hvenær hentar fólki að fara að sofa og hve lengi hver einstaklingur þarf að sofa en svefngæðin þurfa alltaf að vera góð.

Líkt og með mataræðið og hreyfinguna þarf jafnvægi og meðalhóf varðandi svefninn. Bólgukerfin ræsast til dæmis ef við sofum of lítið og líka ef við sofum of mikið. Það getur vissulega verið kúnst að finna út úr þessum hlutum fyrir okkur sjálf en ef við erum ekkert að hugsa um þessi atriði getur það gert okkur erfitt fyrir– ekki síst þegar árin færast yfir.“

Þú talar mikið um alls konar kerfi; hvað eru mörg kerfi í gangi í líkamanum?

„Það veit ég ekki,“ segir Erla Gerður og hlær. „Og ég held að það séu alltaf að finnast fleiri og fleiri, allavega er alltaf að koma fram ný vitneskja um hvernig þau vinna saman. Varðandi offituna þá eru heilinn og taugakerfið, meltingarkerfið og efnaskiptakerfið í aðalhlutverki en svo koma önnur líka við sögu til dæmis ónæmiskerfið. En það má segja að grunnkerfið sé ósjálfráða taugakerfið, það ræður gífurlega miklu og þekkingin á því fer hratt vaxandi. Hvað það er sem að truflar kerfið og hvað getur sefað það og haldið því í jafnvægi. Þar er sífellt að koma meira inn austræna læknisfræðin og alls konar aðferðir sem verða betur viðurkenndar þegar þær hafa verið rannsakaðar með okkar vestræna vísindalega hætti. Þetta er svo merkilega samtvinnað, til dæmis er öndunin það sem er sameiginlegt með viljastýrðu og ósjálfráðu kerfunum. Við öndum sjálfkrafa, þurfum ekki að hugsa um hvern andardrátt, en við getum líka stýrt önduninni. Þar koma til þessar gömlu austrænu öndunaræfingar tengdar jógafræðunum. Þær má nota með góðum árangri fyrir heilsuna.

Og þar með komum við inn á fjórða hornsteininn, hugarró sem hefur þó ekki ekki fengið nógu mikla athygli að mínu mati. En það er þörf okkar fyrir öryggi, ró, traust og tengsl við aðrar manneskjur. Það er allt það sem tengist andlegri líðan, eða streitunni sem getur bæði verið jákvæð og neikvæð. Í því kerfi er neikvæða streitan birtingarmynd ójafnvægis. Varðandi offituna er til dæmis ljóst að þegar búið er að raska þeim kerfum þá getur líkaminn stillt sig inn á fitusöfnun til varnar, líklega vegna þess að hungur hefur ávallt verið ein af helstu hættum sem að okkur mannverunum hafa steðjað. En þegar offita er orðin sjúkdómur þá er ekki góð hugmynd að bara borða minna og hreyfa sig meira vegna þess að það ræsir streitukerfin enn frekar og veldur meiri fitusöfnun.

Það stækkaði síðan sjóndeildarhringinn þegar við fórum að skilja hvað áföll hafa mikil áhrif á heilsuna og geta valdið röskun og breytingum í grunnkerfunum sem geta síðan komið fram í margskonar myndum. Til dæmis lægri verkjaþröskuldi sem er einn af þáttunum í tilurð á vefjagigt. Þar getum við sagt að sé eins og magnari hafi verið stilltur of hátt í heilanum og valdi verkjum við áreiti sem við ættum ekki að nema. Þarna geta líka orðið breytingar sem fá líkamann til að safna fitu. Þannig að gömul áföll geta átt þátt í offitu og ótal öðrum langvinnum sjúkdómum. Það er engin tilviljun að margir þessara sjúkdóma vilja gjarnan fylgjast að.

Mér fannst mjög merkilegt á sínum tíma þegar ég lærði að það væri samhengi á milli áfalla í æsku og heilsubrests síðar á ævinni. Ef fólk lendir í alvarlegum lífsbreytandi atburðum, hvort sem það eru slys, kynferðisleg misnotkun, hamfarir og annað slíkt. En það sem var svo enn meiri uppgötvun fyrir mig var að það sem gæti valdið slíkum röskunum væri það sem gerðist ekki. Það er vanrækslan, skortur á öryggi, stuðningi, trausti, já, öllu þessu sem myndar fjórða hornsteininn okkar. Ef þessu er ekki sinnt og vantar þá breytist hreinlega lífeðlisfræði heilans og alls kerfisins. Það skiptir sem sé afar miklu máli í meðferð við offitu að taka þetta með í allri okkar nálgun. Fyrsta skrefið í meðferð offitu er að koma jafnvægi á kerfi líkamans, láta þau vinna í eins miklu jafnvægi og hægt er og finna hvaða aðstoð þau þurfa. Þegar þetta jafnvægi er komið er hægt að nýta þau sértæku úrræði sem í boði eru svo sem lyfjameðferð eða skurðaðgerð.“


Hvernig hafa allar þessar pælingar virkað á þig sjálfa? Hefur þú ekki þurft að prófa hlutina á sjálfri þér?

„Jú, það er alveg nauðsynlegt. Ég reyni að passa vel upp á sjálfa mig, en auðvitað er ég ekki til fyrirmyndar í öllu. Ég reyni að borða hollan hreinan mat sem næst upprunanum. Ég var alin upp í sveit í nánum tengslum við náttúruna og tel mig búa að því. Mér þykir mikilvægt að halda góðri reglu á mataræðinu, það er það fyrsta sem maður gerir ef vinna þarf með mataræðið að koma reglu á það. Það er mjög erfitt að tjónka við heilann ef það er í rugli. Og ég reyni að passa vel svefninn minn og þar er reglufestan einnig mjög mikilvæg. Hvað varðar hreyfinguna er ég þannig gerð að þurfa alltaf að hafa einhvern tilgang með henni. Þá er gott að eiga hund og stóran garð að hugsa um, en ég fer einnig í gönguferðir í góðra vina hópi. Ég hef aldrei fundið mig í líkamsræktarsölunum eða einhverju slíku.

Streitupakkinn hefur reynst mér erfiðastur og ég hef þurft að reka mig á alls konar atriði hvað hann varðar. Það sem ég hef einkum þurft að læra er að slaka á. Ég er alin upp í því að vinna sé dyggð og ég er líklegast það sem einhverjir kalla vinnualki. Ég vinn iðulega eins mikið og ég get. Ég hef ekki verið nógu dugleg að taka pásur inn á milli, hreinlega ekki gert það fyrr en ég hef neyðst til þess. Í seinni tíð er ég þó farin að passa meira upp á að hafa jafnvægi.

Ég á góða vinkonu sem hefur leiðbeint mér og eitt af þeim verkfærum sem ég hef notað og hefur strítt gegn mínu grunngildi í vinnuseminni er að púsla. Það þýðir í mínum huga að gera ekkert gagnlegt og að eyða tíma mínum í eitthvað algjörlega þarflaust. Þetta reyndist mikil áskorun fyrir mig. Það fylgdi því mikil streita í upphafi og ég þurfti virkilega að læra að gera þetta. Núna er ég samt komin upp á lag með þetta og í dag er púslið mitt jóga. Ég finn hvernig það endurnærir kerfið mitt og á orðið mörg púsl inni í skáp sem ég dreg fram þegar á þarf að halda. Ég er líka mikið í garðrækt, fæ mikla slökun í henni, meira að segja við það að reyta arfa sem svo mörgum þykir hundleiðinlegt. Ég elska að reyta arfa og hlúa að plöntunum. Ég tel okkur sem þjóð hafa vanrækt mjög þessa andlegu hlið. Við þurfum að vinna betur í því að læra að slaka á og njóta stundarinnar og rækta tengsl við okkar nánustu. Það er fjórða stoðin fyrir góðri heilsu sem væri svo gott að fengi meiri áherslu nú um stundir. Við sjáum enda glöggt hvert við stefnum. Við erum alveg að keyra okkur í kaf í neikvæðri streitu, ekki síst innri streitu með miklum kröfum sem við gerum á okkur sjálf. En við getum snúið þessu við.“


Sem fyrr segir hefur Erla Gerður um langt árabil einkum starfað sem sérfræðilæknir í offitumeðferð og auk einstaklingsmeðferða staðið fyrir fjölda námskeiða og flutt ótal fyrirlestra um það efni. Núna hefur hún svo verið ráðin í nýtt kvenheilsuteymi á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Þetta er ákaflega spennandi tækifæri til að efla heilsu kvenna og vinna með þá sjúkdóma sem herja sérstaklega á konur. Það þarf ekki að koma á óvart að þar mun ég leggja áherslu á heildræna nálgun og mun nýta reynsluna við offitumeðferðina sem ég hef þróað á síðastliðnum árum. Vissulega eru ákveðnir þættir sameiginlegir fyrir bæði kynin og það er ekkert verið að minnka þjónustu við karla, en konur eru með alveg heilt kerfi sem karlar hafa ekki, sem er afar víðtækt og breitt og hefur áhrif á svo margt en hefur verið dálítið skilið út undan til þessa.

Kynhormón hafa mikil áhrif á alla líkamsstarfsemina og það er meira að segja mismunandi hvaða mataræði og hreyfing hentar eftir því hvar konur eru staddar í tíðahringnum. Aldur kvenna hefur líka sitt að segja, það eru til að mynda ólíkir hlutir í gangi fyrir og eftir breytingaskeiðið.

Ef við horfum bara á það hvar offita og kvenheilsa skarast, þá er það öll þessi hormónatengda þyngdaraukning, hvort sem um er að ræða kynþroskaskeiðið og frjósemi eða tengsl við meðgöngu, en einnig sjúkdómar eins og fjölblöðrueggjastokkaheilkenni og fitubjúgur sem er sjúkdómur sem er nær eingöngu hjá konum og lítill gaumur hefur verið gefinn, allt það sem tengist breytingaskeiðinu og margt fleira.

Það er margt sem spilar inn í hvort þyngdaraukning verði að sjúkdómnum offitu eða ekki, en þegar komin er röskun í kerfin sem stjórna líkamsþyngdinni þá þarf grípa til sértækra úrræða til að koma þeim aftur í jafnvægi svo þau gangi í takt. Starf mitt á undanförnum árum hefur snúist fyrst og fremst um að koma á þessu jafnvægi og samstillingu kerfanna. Offita er krónískur sjúkdómur og sem slíkur er hann ekki metinn út frá líkamsþyngdarstöðlum. Líkamsþyngdin segir okkur afskaplega lítið um hvort að sjúkdómurinn sé kominn eða ekki. Ef það er gríðarlega mikið magn af fituvef þá er hann svo mikið efnaskiptalíffæri og svo atkvæðamikið í heildarkerfinu okkar að hann er farinn að hafa víðtæk áhrif þótt hann sé heilbrigt starfandi – en það segir aldrei alla söguna um heilsufar einstaklingsins. Ég veit að mörgum þykir þetta ruglingslegt og það er að hluta til vegna þess að við notum oft sömu orðin yfir offitu sem skilgreind er með líkamsþyngdarstuðli og sjúkdóminn offitu, en það er þó ekki sami hluturinn.

Offitusjúkdómurinn lýtur sínum eigin lögmálum eins og aðrar alvarlegar raskanir á starfsemi líkamans. En ég ætla að nýta þá reynslu sem ég hef aflað mér á þessu sviði á undanförnum árum – ekki síst með heildarnálgun þessara fjögurra hornsteina heilsunnar sem ég hef unnið eftir og það sem ég hef lært á leiðinni hefur bara styrkt mig í þessari nálgun. Mig langar sem sagt að skapa þessu sjónarhorni aukinn sess innan heilsugæslunnar. Þetta er ekkert nýtt undir sólinni. Ég er ekki að koma fram með einhvern nýjan sannleika heldur setja hann þannig fram að hægt sé að vinna markvisst eftir honum.“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum