Þegar litið er til baka yfir sögu SÍBS og íslensku þjóðarinnar síðastliðna átta áratugi má segja að SÍBS hafi fylgt eftir íslensku þjóðlífi allan þennan tíma og að nokkru leyti speglað það. Þar koma meðal annars fram þau áhrif sem starfsemi SÍBS hafði á velferð þjóðarinnar og göngu hennar frá berklafaraldrinum til betra heilsufars. Sagan hefur leitt í ljós að þau voru afar mikil og enn er starfsemi SÍBS viðurkennd sem afar mikilvæg fyrir lýðheilsu landsmanna.
Í byrjun tuttugustu aldarinnar og allt fram á fimmta áratug hennar var berklaveikin, „Hvíti dauðinn“, skæður bölvaldur. Hún náði hámarki á árunum kringum 1930 og dánartíðnin var áfram mjög há fram á fimmta áratuginn.
Berklasjúklingar voru vistaðir á sérstökum stofnunum, berklahælum, og margir átti ekki afturkvæmt þaðan lifandi. Nokkuð snemma var athygli manna vakin á því að margt væri hægt að gera til að bæta heilsu og líðan berklasjúklinga og voru ýmsar tilraunir gerðar í því skyni. Má þar nefna Kópavogshælið sem tók til starfa árið 1930 og Reykjahælið í Ölfusi 1931. Þeim var báðum ætlað að verða vinnuheimili fyrir berklasjúklinga, að nokkru byggt á enskri fyrirmynd. Þessar tilraunir lánuðust þó á hvorugum staðnum, meðal annars vegna þess að ásókn var mikil í almenn sjúkrarúm fyrir berklasjúka. Þá kann að vera að tíminn hafi ekki verið réttur þegar veikin var í hámarki og að lokum getur verið að opinberir aðilar hafi e.t.v. ekki verið þeir heppilegustu til að ná fram þessum markmiðum.
Áfram voru þessi mál rædd á vettvangi sjúklinganna sjálfra, einkum á Kristneshæli í Eyjafirði, Reykjahæli og á Vífilsstöðum og fór svo að þeir ákváðu að taka málin í sínar eigin hendur. Það er athyglisvert hversu samstæðar þær aðgerðir voru þrátt fyrir veikindi, erfiðar samgöngur og skort á fjármagni. Frumkvæðið kom með bréfi frá Kristneshæli þar sem þeir hvöttu til frumkvæðis sjúklinga sjálfra að stofnum landssambands berklasjúklinga, sem myndi leita úrræða fyrir þá að lokinni hælisvistinni. Sjúklingum af hælum sunnanlands var falið að vinna málið áfram vegna erfiðra samgangna milli Norðurlands og þess að það voru mun fleiri sjúklingar syðra.
Stofnun SÍBS 1938
Í stuttu máli leiddi þetta samstarf sjúklinga af mörgum berklahælum til þess að stofnfundur Sambands íslenskra berklasjúklinga, SÍBS, var haldinn á Vífilsstöðum haustið 1938. Stefnuskrá hins nýja sambands var samþykkt 24. október það ár. Strax var stefnt hátt og ekki kosinn formaður heldur forseti sambandsins. Sá fyrsti til að bera þann titil var Andrés Straumland. Í þessu stutta yfirlit er ekki kostur að nafngreina allt það ágæta fólk sem vann mikið frumkvöðlastarf fyrir SÍBS á öllum tímum, en sagt er ítarlega frá þætti þeirra í sögu SÍBS, Sigur lífsins, sem út kom árið 2013.
Fyrsta verkefni sambandsins var stofnun deilda um allt land, undir nafninu Berklavörn fyrir útskrifaða berklasjúklinga og Sjálfsvörn fyrir sjúklinga sem enn voru á berklahælum. Það var mikill móður í mönnum. Stofnun deilda gekk vel og á strax á fyrst starfsárinu voru deildir orðnar sex með mörg hundruð félagsmenn. Sýnt hafði verið fram á að sjúklingar geta ýmislegt gert til þess að hjálpa sér sjálfir enda varð slagorð SÍBS: „Styðjum sjúka til sjálfsbjargar“.
Strax var hafist handa við fjáröflun og blaðið Berklavörn gefið út sem málgagn sambandsins. Sunnudaginn 6. október 1939 voru seld merki SÍBS ásamt blaðinu Berklavörn, sem þá var nýkomið út, og dagurinn nefndur Berklavarnardagurinn. Það var gengið í nánast hvert hús á landinu og viðtökur voru ótrúlega góðar. SÍBS ,,átti“ síðan fyrsta sunnudag í október um áratuga skeið og aðrir en SÍBS fengu ekki að selja merki eða efna til fjáröflunarsamkoma þann dag. Þetta varð „SÍBS dagurinn“.
Vinnuheimili SÍBS
Frá upphafi var markmið SÍBS að huga að þeim sem höfðu útskrifast af berklahælunum. Þeim var almennt ekki tekið fagnandi á almennum vinnumarkaði og þeir áttu því oft erfitt með að fá vinnu við sitt hæfi. Eðli málsins samkvæmt voru þeir ekki færir um erfiðisvinnu. Því var fljótlega farið að huga að landrými með það fyrir augum að reisa vinnuheimili fyrir útskrifaða berklasjúklinga. Keypt var allstór landspilda vorið 1944, um 30 hektarar að flatarmáli, úr landi Reykja í Mosfellssveit með það fyrir augum að reisa þar vinnuheimili. Ekki voru allir á eitt sáttir með landakaupin í fyrstu og töluðu jafnvel um að keyptur hefði verið „eyðimelur“, þar sem þetta var þá gróðursnautt svæði. Þær raddir urðu þó ekki langlífar, enda var jarðhiti á landinu og braggar eftir herinn, sem nýttust fyrir eldhús, borðsal, verkstæði, saumastofu og svo bíósal þegar starfsemi hófst á Reykjalundi.
Á 4. þingi SÍBS 1944 voru staðfest kaup á landinu og skipulagsuppdráttur á hinu nýkeypta landi samþykktur. Bygging tíu smáhýsa hófst 1944 og voru fimm þeirra tilbúin 1. febrúar 1945, en þá tók vinnuheimilið til starfa undir nafninu Reykjalundur. Frá upphafi naut Reykjalundur mikils trausts meðal þjóðarinnar. Þar varð strax mikill metnaður að vera ávallt í fremstu röð í endurhæfingu, þó orðið sjálft væri ekki komið í tungu landsmanna þá. Þessi metnaður hefur ávallt síðan verið til staðar. Sr. Sigurbjörns Einarssonar, síðar biskup, sagði árið 1946, ári eftir að Reykjalundur tók til starfa: „Hlutverk Reykjalundar er eitt hið göfugasta, sem með höndum er haft í landi hér.“
Síðar, eða árið 1959, tók til starfa annað vinnuheimili á vegum SÍBS sem fékk nafnið Múlalundur, vinnustofa SÍBS. Var sá vinnustaður í upphafi hugsaður sem framhald af vinnu á Reykjalundi, en þar áttu menn einungis að dvelja í skamman tíma. Nánar verður greint frá báðum þessum stofnunum hér síðar.
Upp úr 1950 keypti SÍBS og starfrækti um tíma trésmiðju í Silfurtúni í Garðabæ. Sá rekstur gekk ekki vel og var honum hætt, en flestar vélar fluttar upp að Reykjalundi og nýttar í vinnustofunum þar.
SÍBS starfrækti einnig vinnustofur að Kristnesi í Eyjafirði. Var byggt hús áfast við berklahælið þar og tóku vinnustofurnar til starfa síðla árs 1947. Rekstur þeirra tók þó ekki til sjúkraþáttarins, sem áfram tilheyrði Kristneshæli. Hér var því um einfaldari rekstur að ræða en á Reykjalundi og smærri í sniðum. Í upphafi voru þar bókbandsvinnustofa, saumastofa og trésmíðaverkstæði. Þá voru framleiddar bindilykkjur fyrir steypujárn og stokktré fyrir lóðauppstokkun. Nokkuð var smíðað af húsgögnum og eldhúsinnréttingum. Rekstur vinnustofanna í Kristnesi var jafnan frekar þungur og ef halli varð á starfseminni greiddi SÍBS mismuninn. Rekstri vinnustofanna var hætt haustið 1976 eftir tæplega þriggja áratuga starf. Vélar, áhöld og annað efni var afhent Sjálfsvörn á Kristneshæli og andvirði eigna SÍBS í Kristnesi var varið til stofnunar sjóðs í þágu vistmanna hælisins.
Þá var komið á fót vinnustofu í samráði við Berklavörn á Ísafirði og Sjálfsbjargardeildarinnar þar á staðnum árið 1963, og hlaut vinnustofan nafnið Vinnuver. Fljótlega kom í ljós að ekki var þörf fyrir slíka starfsemi, reksturinn gekk ekki vel og dró fljótlega úr honum. Í árslok 1967 skemmdist vinnustofan verulega í eldi og var þá rekstri endanlega hætt.
Skyndihappdrætti og fjáröflunarskemmtanir
Það var mikill fögnuður meðal félagsmanna SÍBS þegar starfsemin á Reykjalundi hófst. Dagblöð og fjölmiðlar gerðu starfseminni góð skil og SÍBS og Reykjalundur áttu afar mikinn stuðning meðal almennings. Þess var líka þörf, því í hönd fór erfiður tími mörg næstu ár, þar sem stöðugt þurfti að fjármagna starfsemina á Reykjalundi ásamt því að byggja upp húsakost þar og auk fjölbreytni í þjónustunni. Áfram var leitað til almennings um fjárframlög. Seld voru merki SÍBS og Berklavörn, blað samtakanna, sem bar nafnið Reykjalundur 1947-1984. Þá tóku við SÍBS fréttir til ársins 1999 en frá árinu 2000 hefur blaðið heitið: SÍBS blaðið og kemur út þrisvar á ári.
Efnt var til mikilla happdrætta með vinningum, stærri og öðruvísi en áður voru dæmi um. Má þar nefna allt að tuttugu bílum í einum útdrætti, skemmtibát, utanlandsferðir og rúsínan í pylsuendanum í stórvinningunum: Einkaflugvél, ásamt flugkennslu. Þetta vakti mikla athygli og happdrættismiðar runnu út eins og heitar lummur.
Meira þurfti þó til og auk þessa stóð SÍBS fyrir bókaútgáfu og fjölbreyttu skemmtanahaldi í fjáröflunarskyni. Um tíma voru fluttir inn vinsælir skemmtikraftar og haldnir stórskemmtanir með þeim. Má nefna Svíana „Snoddas“, eða Gösta Nordgren, söngkonurnar Hjördísi Scymberg, Alice Babs og Charles Norman tríóið. Þá var enska rokkhljómsveitin „Tony Crombie and his Rockets“ með tilþrifamikla og nokkuð umdeilda tónleika á vegum SÍBS en landsmenn höfðu aldrei séð eða heyrt slíka rokktónleika fyrr. Hápunkturinn var þó þegar SÍBS ákvað að flytja hingað fullbúinn sirkus, „Cirkus Zoo“, í lok október 1951 með trúðum, loftfimleikafólki, fílum, ljónum, hvítabjörnum og öpum. Leigt var flugskýli undir sirkusinn og hann m.a. auglýstur með borða sem flugvél dró á eftir sér yfir bænum. Þó að vetur væri genginn í garð lánaðist þessi fjáröflun afar vel og sirkusinn fékk mikla aðsókn og umfjöllun. Þannig voru menn stórir í sniðum og öfluðu oftast í samræmi við það. Það náðist að fjármagna starfsemina á Reykjalundi og starfið þar dafnaði jafnt og þétt.
Happdrætti SÍBS
Þrátt fyrir að skyndihappdrættin, skemmtanirnar og annað sem gert var til að afla fjár gengi í raun vel, þá var ljóst að festa þurfti fjáröflun í sessi með varanlegum hætti. Happdrætti Háskólans hafði verið rekið með góðum hagnaði en það hafði einkarétt á peningahappdrætti, svo ekki var sú leið fær. Forráðamenn SÍBS þekktu vel til danska Vöruhappdrættisins eða „Varelotteriet“ sem hafði verið starfrækt frá 1887. Það varð úr að það voru sett lög frá Alþingi um 10 ára leyfi SÍBS til að reka vöruhappdrætti, sem tók til starfa í árslok 1949. Þetta leyfi hefur síðan fengist framlengt aftur og aftur.
Straumhvörf urðu í fjáröflun SÍBS með tilkomu happdrættisins. Það varð strax afar öflugt, var með umboðsmenn um allt land og hefur allar götur síðan verði burðarásinn í fjáröflun SÍBS og staðið undir byggingarframkvæmdum á Reykjalundi og Múlalundi. Enn þann dag í dag er Happdrætti SÍBS, eins og það heitir nú, drifkrafturinn í fjáröflun SÍBS og afar þýðingarmikið. Tekjur þess eru í raun grundvöllur þess að áfram er hægt að byggja upp á Reykjalundi og Múlalundi. Í áranna rás þróaðist starfsemi Happdrættisins en afnám kvaða um vörur eða ígildi þeirra í vinningum happdrættisins varð ekki að fullu fyrr en árið 2006. Happdrættið var tölvuvætt fljótlega eftir að sú tækni kom til sögunnar. Með tímanum fækkaði umboðsmönnum og umsvif þeirra færðust heim í höfuðstöðvarnar. Með þróun rafrænna greiðsluleiða hefur umboðsmönnum fækkað mikið á síðustu þremur áratugum. Söfnun nýrra áskrifenda er í nú höndum aðalumboðsins og miðaeigendur greiða miða sína að mestu rafrænt.
Happdrætti SÍBS hefur alltaf haldið sig við happdrættisformið eitt og ekki tekið þátt í rekstri spilakassa eða netleikja. Hins vegar hefur SÍBS ávallt tekið þátt í og stutt aðgerðir gegn spilafíkn ásamt öðrum happdrættum hérlendis.
Breytt viðhorf - fjölgun aðildarfélaga
Þegar berklasjúklingum fór mikið að fækka með batnandi lyfjum og öðrum úrræðum um miðja síðustu öld breyttist meðferðin á Reykjalundi og fleiri sjúklingahópar fengu þar bót meina sinna. Með hliðsjón af þessu var talið rétt að fá til liðs við SÍBS aðra brjóstholssjúklinga. Astma- og ofnæmisfélagið kom til samstarfs við SÍBS árið 1974 og þá var nafni sambandsins jafnframt breytt í Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, en skammstöfunin áfram SÍBS. Landssamtök hjartasjúklinga (nú Hjartaheill) komu inn í samtökin árið 1992, því næst kom Vífilsstaðadeild SÍBS, (nú Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir) árið 1994 og þar næst Samtök lungnasjúklinga árið 1998. Þessi skipan hefur haldist síðan og saman mynda þessi félög stjórn SÍBS ásamt frumherjunum, gömlu berkladeildunum, sem hefur fækkað mjög í tímans rás. Með sameiningu deilda eru nú tvær deildir eftir sem tóku upp nöfnin Berklavörn, sem hefur heimasvæði í Reykjavík og nágrenni og Sjálfsvörn sem starfar á Reykjalundi. Þessar deildir velja sér sameiginlega fulltrúa í stjórn SÍBS og mynda því eina af fimm „stoðum“ SÍBS, en framantalin félög mynda hinar fjórar. Samstarf þessara félaga hefur gengið afar vel og er komið í fastar skorður. Þrátt fyrir að vera hluti SÍBS heldur hvert félag sjálfstæði sínu og vinnur að eigin hagsmunamálum auk hinna sameiginlegu. Þau hafa t.d. hvert og eitt sjálfstæða aðild að Öryrkjabandalagi Íslands.
Reykjalundur
Hér að framan var sagt frá stofnun Reykjalundar. Fyrstu ár starfseminnar voru þar eingöngu útskrifaðir berklasjúklingar. Með tilkomu berklalyfjanna 1947-1952 fór berklasjúklingum fækkandi. Þá var farið að taka við öðrum sjúklingum til endurhæfingar og 1963 var tekin í notkun sjúkraþjálfunardeild í kjallara aðalbyggingar Reykjalundar. Uppbyggingastarfið hélt áfram með styrk happdrættisins og stöðugt var byggt upp. Reykjalundur var og hefur síðan ávallt verið í fremstu röð í endurhæfingarstarfi og þróun þess. Upp úr 1990 var orðið ljóst að aðstaða þjálfunardeilda hamlaði framgangi endurhæfingar á Reykjalundi og var reynt að mæta því með ýmiskonar hagræðingu húsnæðis. Slík bjargráð leystu þó ekki vandann til frambúðar. Því var tekin ákvörðun um að koma upp rúmgóðu, sérhæfðu þjálfunarhúsi. Fyrsta skóflustungan var tekin 1. október 1999 af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni.
Nýtt glæsilegt þjálfunarhús var vígt 2002. Húsið er 2700 fermetrar með tveim laugum, sundlaug og þjálfunarlaug, stórum þjálfunarsal og margvíslegri annarri aðstöðu. SÍBS stóð fyrir mikilli söfnun meðal landsmanna til byggingar þessa húss. Því má segja að það sé að hluta þjóðareign, eins og segja má um Reykjalund allt frá upphafi, því sjúklingarnir sjálfir hófu þetta verk og nutu ávallt góðvildar og stuðnings almennings við að byggja þar upp.
Starfsfólk Reykjalundar leitast við að fylgjast ávallt vel með breyttum lifnaðarháttum landsmanna og svara þörfum vegna svokallaðra „lífsstílssjúkdóma“, sem m.a. hafa komið til vegna reykinga, hreyfingarleysis og breytts mataræðis.
Þá hefur Reykjalundur þjónað öllum þeim sem leita eftir endurhæfingu þó að ekki sé um aðild þeirra að samtökunum að ræða. Þörfin fyrir endurhæfingu er því miður mikil og biðlistar langir. Stöðugt á sér stað uppbygging á Reykjalundi, sem SÍBS er falið að fjármagna. Með kaupum á miða í Happdrætti SÍBS, er hægt að aðstoða SÍBS við að ná fram markmiðum sínum og renna þannig enn frekari stoðum undir þá mikilvægu starfsemi sem unnið er að á vegum SÍBS og Reykjalundar.
Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð SÍBS er að fullu í eigu SÍBS en rekin á grundvelli samnings við heilbrigðisyfirvöld og á fjárlögum ríkissjóðs. Stjórn SÍBS er jafnframt stjórn Reykjalundar en forstjóri Reykjalundar yfirmaður stofnunarinnar. Samkvæmt skipuriti heyra þjónustusvið og rekstrarsvið undir framkvæmdastjórn Reykjalundar, sem aftur heyrir undir stjórn SÍBS.
Endurhæfingarsvið Reykjalundar skiptist nú í tvö svið: Meðferðarsvið 1, en undir það heyra: taugateymi, hjartateymi og lungnateymi.
Meðferðarsvið 2, en undir það heyra geðteymi, verkjateymi, gigtarteymi, starfsendurhæfing og offituteymi.
Sameiginlegt með báðum sviðum eru rannsóknir, kennsla, vísindi og þróun, og göngudeild. Innan sviðanna er teymisvinna fagstéttanna lögð til grundvallar endurhæfingunni. Teymin eru þverfaglegir vinnuhópar. Markmiðið með endurhæfingu er að sjúklingurinn nái aftur eins góðri líkamlegri, andlegri og félagslegri færni og kostur er. Meðferðaráætlunin er sniðin eftir þörfum hvers og eins og getur verið bæði í formi hópmeðferðar og einstaklingsmeðferðar. Mikil áhersla er lögð á fræðslu til sjúklinga og það undirstrikað að heilbrigðir lífshættir stuðla að góðri heilsu.
Múlalundur
Múlalundur hefur allt frá stofnun gegnt þýðingarmiklu hlutverki. Þar hefur fengið vinnu fólk með skerta starfsgetu af ýmsum orsökum allt frá upphafi. Sem vinnustaður er Múlalundur öðruvísi en margir aðrir. Þar svífur glaðværð jafnan yfir vötnum og menn leggja sig fram, hver á sínu starfssviði, en framleiðslan þar hefur verið ótrúlega fjölbreytt.
Fyrsta aðsetur Múlalundar var í Ármúla 16, sem síðar varð númer 34. Á árunum 1980-1981 byggði SÍBS 1200 fermetra húsnæði í Hátúni 10 á lóð ÖBÍ fyrir starfsemina. Þangað flutti Múlalundur1981 og var þar til ársins 2010, að öll starfsemi Múlalundar var flutt í húsnæði á Reykjalundi, þar sem hún hefur verið síðan.
Í tímans rás hefur verið fengist við margt á Múlalundi. Þar voru framleidd skjólföt á börn og fullorðna, sjófatnaður, regnfatnaður, gólfmottur, netahringir, Lilju dömubindi, töskur, sloppar, barnanáttföt og borðdúkar með servíettum úr sama efni, svo fátt eitt sé nefnt. Allt frá fyrstu árum var þó áherslan mest á bréfabindi og frá 1967 undir vörumerkinu „Egla“.
Nú má segja að Múlalundur framleiði eða flytji inn hvaðeina sem þörf er á fyrir skrifstofur. Egla bréfabindin koma enn sterk inn en auk þess eru framleiddar dagbækur, ráðstefnumöppur, skjalavasar, tölvuvörur, fermingarbækur og fjöldamargt fleira. Verslun er í Múlalundi og þar geta Mosfellingar og aðrir gestir fengið hvaðeina sem þörf er á fyrir skrifstofur eða heimilisbókhald.
Múlabær og Hlíðabær
Þegar Múlalundur flutti úr Ármúla 34 var ákveðið að nýta húsnæðið áfram í þágu SÍBS. Ákveðið var á ári aldraðra 1982, að koma á fót dagvistun fyrir aldraða í samstarfi við fleiri aðila. Þessi stofnun hlaut nafnið Múlabær og var rekin í samstarfi við Reykjavíkurdeild Rauða krossins fram til ársins 2008 að hún var gerð að sjálfseignarstofnun, en SÍBS kemur að stjórn hennar áfram.
Eftir góða raun af rekstri Múlabæjar var ákveðið að bæta við dagvistun fyrir heilabilaða. Sú stofnun fékk nafnið Hlíðabær og er á Flókagötu 53, í afar fallegu húsi sem Reykjavíkurborg á og leigir út fyrir þessa starfsemi. Líkt og með Múlabæ gekk þessi starfsemi vel og eru jafnan fullsetin pláss þar. Hlíðabær var einnig gerður að sjálfseignarstofnun 2008.
Forvarnastefna og endurnýjað umboð
Frá árinu 2012 hafði verið uppi umræða innan SÍBS um mikilvægi forvarna gegn lífsstílstengdum sjúkdómum. Á sambandsþingi SÍBS 2014 færði formaður SÍBS í tal hversu mikilvægt væri að sett yrði á laggirnar almenn forvarnastefna í lýðheilsumálum og þar ætti SÍBS að vera í fararbroddi líkt og Reykjalundur væri nú þegar í endurhæfingu. Þá nefndi hún heilsu og líðan langveikra og fatlaðra og nefndi Múlalund sem dæmi um góða vinnu sem þar væri innt af hendi. Nýkjörin stjórn tók við keflinu og vann drög að forvarnastefnu sem lögð var fyrir formannafund SÍBS 2015 og samþykkt þar til frekari útfærslu.
Á sambandsþingi SÍBS 2016 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum tillaga fráfarandi stjórnar um forvarnastefnu SÍBS:
„Ályktun 40. þings SÍBS um forvarnastefnu samtakanna:
40. þing SÍBS haldið á Reykjalundi 5. nóvember 2016 leggur áherslu á að unnið verði markvisst að því að halda á lofti mikilvægi forvarna. Það verði gert með því að:
- Standa fyrir jafningjafræðslu og annarri forvarnastarfsemi.
- Vera stefnumótandi í heilbrigðismálum og lýðheilsumálum.
- Vera öflugur málsvari sjúklingahópa SÍBS.
- Vera þátttakandi í opinberri umræðu.
Upplýsingar um heilsusamlegt líf þurfa að hitta fyrir alla þjóðfélagshópa á sem flestum viðkomustöðum þeirra í samfélaginu, hvort sem það er hjá heilbrigðisstofnunum, í skólum, hjá íþróttafélögunum, á vinnustöðum, í verslunum, í fjölmiðlum eða annars staðar. Þetta er gert með samvinnu við:
- Heilbrigðisyfirvöld.
- Sveitarfélögin, samfélagsmál.
- Löggjafann, skattar og gjöld.
- Eftirlitsaðila, viðurlög.
- Fyrirtæki, hvatning og menning um heilbrigðan vinnustað.
Með því að framfylgja ofangreindri forvarnastefnu má segja að SÍBS hafi endurnýjað umboð sitt hjá þjóðinni sem virkt afl gegn þeirri heilsufarsvá sem nú steðjar að þjóðinni með lífsstílstengdum sjúkdómum – umboð sem er í raun mjög svipað upphaflega erindinu gegn lýðheilsuvá þess tíma, berklunum.
Skipulag SÍBS
Æðsta vald í málefnum SÍBS er í höndum sambandsþings sem haldin eru annaðhvert ár. Stjórn SÍBS er skipuð sjö aðalmönnum og þremur til vara. Fimm stjórnarmenn SÍBS eru valdir af félögunum fimm og valið staðfest á þingi SÍBS. Formaður, varaformaður og þrír varamenn í stjórn eru kosin á sambandsþingi. Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum SÍBS milli sambandsþinga. Stjórnin fylgir eftir stefnumótun sambandsþinga og tekur að öðru leyti ákvarðanir um rekstur og fjárfestingar. Framkvæmdastjóri SÍBS er starfsmaður stjórnarinnar.
Formannafundur aðildarfélaga og sambandsstjórnar er ráðgefandi fyrir sambandsstjórn í mikilvægum málefnum. Hann er haldinn annað hvert ár þegar ekki eru þing SÍBS
Aðalskrifstofa SÍBS og Happdrættis SÍBS er í Síðumúla 6 í Reykjavík. Þar eru jafnframt aðalstöðvar og skrifstofur aðildarfélaganna og Verslun SÍBS. Húsið gengur jafnan undir nafninu SÍBS húsið og þar fara fram ýmsir viðburðir og samkomur á vegum SÍBS og aðildarfélaga, svo sem námskeiðahald, fræðslufundir, stjórnarfundir og almennir félagsfundir. Í húsinu er mjög vel búin fundar- og samkomuaðstaða.