Hvernig er þetta eiginlega? Það má bara ekkert gerast í dag þá þarf fólk áfallahjálp og er komið með áfallastreituröskun!
Lífið er þannig að það reynir á hjá öllum á einhverjum tímapunkti og margir lenda í erfiðri lífsreynslu sem mætti kalla áfall. En hversu djúp spor áföll skilja eftir sig veltur á mörgum þáttum. Sumir atburðir eru þess eðlis að þeir munu hafa djúpstæð áhrif á hvern þann sem í þeim lendir, aðrir hafa mikil áhrif vegna aðstæðna eða þess sem á undan er gengið.
Hvað er áfall?
Það hefur reynst fræðimönnum erfitt að skilgreina nákvæmlega hvernig atburður þarf að vera til að geta valdið áfallastreituröskun. Það eru tvö greiningarkerfi ráðandi, greiningarkerfi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (ICD-11) og greiningarkerfi Ameríska geðlæknafélagsins (DSM-5). Í ICD-11 er áfall skilgreint sem gríðarlega ógnandi eða hræðilegur atburður eða röð atburða. Samkvæmt DSM-5 er áfall atburður felur á einhvern hátt í sér dauða, lífsháska, alvarleg meiðsli, kynferðisofbeldi eða hótun um eitthvað slíkt.
Tilgangur þess að skilgreina áfall í greiningarkerfum er að bera kennsl á þá lífsreynslu sem getur valdið áfallastreituröskun. Ýmislegt sem í daglegu tali er kallað áfall fellur ekki undir þessar skilgreiningar greiningarkerfanna á áfalli. Þar með er ekki sagt að þeir atburðir séu fólki ekki áfall eða hafi mikil áhrif á það sem fólk getur þarfnast aðstoðar við.
Viðbrögð í kjölfar áfalla og áfallahjálp
Í kjölfar áfalls, þar sem einstaklingur hefur fundið sig í mikilli hættu eða mætt hryllingi, finna flestir fyrir bráðri streitusvörun (acute stress reaction; ICD-11). Það er ástand sem einkennist af líkamlegum kvíðaeinkennum svo sem hröðum hjartslætti og miklum svita, einnig að líða eins og í þoku eða vera ringlaður. Bæði verður vart dofa og sterkra tilfinninga með stuttu millibili auk viðkvæmni. Þegar fólk er í þessu ástandi vill það gjarnan draga sig í hlé og á erfitt með að takast á við viðfangsefni sem það ætti undir venjulegum kringumstæðum ekki í neinum vandræðum með. Þetta ástand dvínar á nokkrum dögum eða þegar ógnin er yfirstaðin.
Þegar hlúa skal að einhverjum sem hefur nýlega lent í áfalli og sýnir einkenni bráðrar streitusvörunar þá er aðaláherslan á að vera til staðar án þess að hughreysta. Þegar fólk fer að hughreysta þá á það til að gefa sér hvað einhver er að hugsa eða hvernig honum eða henni líður. Frekar ber að hlusta af yfirvegun. Gagnlegt er að hjálpa við að koma á öryggi, huga að grunnþörfum og hjálpa til við að leysa vanda eða verkefni sem viðkomandi getur átt erfitt með sjálfur.
Þrátt fyrir að fólk sýni sterk viðbrögð í kjölfar áfalls þarf ekki að vera að það muni þróa með sér áfallastreituröskun eða þurfi sálfræðimeðferð. Mælt er með að fylgjast með hvernig fólki reiðir af og ef að einkenni eru enn til staðar að nokkrum vikum eða mánuðum liðnum þá er rétt að veita gagnreynda meðferð við áfallastreituröskun (NICE, 2005).
Oft er það þó þannig að fólk sækir sér ekki aðstoðar strax í kjölfar áfalls. Fólk reynir að halda áfram með líf sitt eftir bestu getu. Því miður fær það iðulega ekki aðstoð við hæfi þó að það reyni að sækjast eftir henni.
Áfallastreituröskun
Áfallastreituröskun (PTSD) er geðröskun sem kemur í kjölfar áfalls og einkennist af endurupplifunum, forðun frá því sem minnir á áfallið og viðvarandi tilfinningu um yfirvofandi ógn (ICD-11). Ameríska geðlæknafélagið telur einnig til einkenna breytingar á viðhorfum til hins verra, hvort sem það er til sín sjálfs, annarra eða heimsins. Auk þess einkennist áfallastreituröskun af ýktri sjálfsásökun, ánægjumissi og erfiðleikum við að finna fyrir jákvæðum tilfinningum. Margra einkennanna verður einnig vart í öðrum geðröskunum, svo sem þunglyndi, almennri kvíðaröskun og vímuefnafíkn.
Það sem greinir áfallastreituröskun frá öðrum geðröskunum eru einkenni um endurupplifun. Fólk getur fundið fyrir endurupplifun á ýmsan hátt svo sem í ljóslifandi endurminningum sem koma óumbeðnar í tíma og ótíma, hvort sem er í draumi eða vöku. Einnig martraðir þó að þær séu ekki nákvæmlega um atburðinn. Það er einnig hægt að fá endurupplifanir á öðru formi heldur en sjónrænar ímyndir; það er hægt að endurupplifa sömu kenndir eða tilfinningar, lykt eða hljóð. Því er greining áfallastreituröskunar vandaverk og mikilvægt að greina á milli hennar og annarra geðraskana.
Þegar einkenni áfallastreituröskunar hafa verið til staðar lengur en nokkra vikur eða mánuði þá dregur verulega úr líkum á því að þau hverfi án faglegrar aðstoðar. Því miður er of algengt að fólk þjáist af einkennum PTSD í mörg ár eða áratugi án þess að leita sér aðstoðar eða fá viðeigandi meðferð. Það má meðal annars rekja til þess að eitt af höfuðeinkennum röskunarinnar er forðun frá því sem minnir á áfallið og því er það oft svo að fólk forðast að sækja sér aðstoðar því það muni fela í sér að það þurfi að tala um það sem gerðist.
Það sem drepur þig ekki, gerir það þig sterkari?
Það hefur löngum verið sagt að fólk þroskist og verði sterkari í kjölfar erfiðleika eða áfalla. Seinustu ár hafa fræðimenn beint sjónum sínum að mögulegum jákvæðum breytingum hjá fólki sem hefur lent í áföllum og er það kallað áfallaþroski (e. Post traumatic growth). Áfallaþroski birtist meðal annars í því að fólk kann betur að meta lífið, sambönd við aðra verða betri, það forgangsraðar betur og finnur fyrir meiri persónulegum styrk. Samkvæmt rannsóknum er hluti fólks sem greinir frá því að finna fyrir þessum jákvæðu breytingum. Flestar rannsóknirnar byggja á spurningalistum sem lagðir eru fyrir hóp fólks sem hefur lent í áfalli og það beðið að merkja við að hve miklu leyti það finni fyrir einkennum áfallaþroska. En hvernig er hægt að vita hvort að um raunverulegar breytingar til hins betra sé að ræða?
Í einni rannsókn var virkni og líðan háskólanema metin við upphaf og lok annar. Við lok annar var einnig spurt hvort að það hefði lent í áfalli og spurt um áfallaþroska. Hluti nemanna svöruðu því til að þeir finndu fyrir áfallaþroska en aðrar mælingar studdu ekki mat þeirra. Önnur rannsókn bar saman einkenni áfallastreituröskunar nokkrum mánuðum eftir að fólk var spurt um áfallaþroska. Þeir sem svöruðu þannig að þeir hefðu þroskast við áfallið sýndu meiri einkenni áfallastreituröskunar nokkrum mánuðum síðar.
Það að líta á björtu hliðarnar er ekki meðferð við áfallastreituröskun. Það getur verið erfitt að horfast í augu við að hafa lent í einhverju hræðilegu og að það hafi haft slæmar afleiðingar. En það er mikilvægt að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru, það getur verið fyrsta skrefið í áttina til þess að ná betri andlegri heilsu að nýju.
Þrautir lífsins móta okkur til góðs og ills. Það að lenda í áföllum, fara í gegnum sársaukann og takast á við hann, getur vissulega leitt til aukins persónulegs þroska. Fólk sem lendir í áföllum getur haldið áfram að lifa innihaldsríku lífi. Það að fá góðan félagslegan stuðning og viðeigandi meðferð þegar um áfallastreituröskun er að ræða getur gert gæfumuninn.
Heimildir
- Dr. Berglind Guðmundsdóttir og Þórunn Finnsdóttir, 2017. Sálræn skyndihjálp – Leiðbeiningar um viðurkennt verklag á vettvangi. Sótt af: https://www. almannavarnir.is/utgefid-efni/salraen-skyndihjalp-leibeiningar-um-vidurkennt-verklag-a-vettvangi/ .
- NICE, 2005.
- Sareen, J., 2014.