Greinar / 19. október 2016

Frá Reykjalundi

Í febrúar á síðastliðnu ári (2015) voru liðin 70 ár frá því að fyrsti berklasjúklingurinn var innskrifaður á Reykjalund. Frá upphafi var rekin endurhæfing á Reykjalundi, til að byrja með starfsendurhæfing fyrir berklasjúklinga, sem margir hverjir voru ungir að árum. Á Reykjalundi var meðal annars starfræktur iðnskóli frá árinu 1949 og allt til ársins 1965. Um og eftir 1960, um leið og mikill árangur hafði orðið í lækningu berkla, breyttist starfsemin á Reykjalundi. Það var þó ekki horfið frá endurhæfingu heldur var farið að bjóða upp á endurhæfingu fyrir fleiri sjúklingahópa en þá sem voru með lungnasjúkdóm. Fyrsti íslenski sérfræðingurinn í endurhæfingarlækningum, Haukur Þórðarson, kom til starfa á Reykjalundi árið 1962 og smám saman breyttist Reykjalundur á næstu 2-3 áratugum í þá stofnun sem hún er í dag.

RJ.JPG

Miklu máli skipti um framþróunina sem varð á Reykjalundi á árunum 1980 – 2000 sá velvilji sem íslensk heilbrigðisyfirvöld á þeim tíma sýndu stofnuninni. Reykjalundur var rekinn á daggjöldum og halli sem varð á starfseminni var ætíð greiddur með hækkuðum daggjöldum eða svokölluðum halladaggjöldum árið eftir. Þetta gerði að verkum að hægt var að fjölga sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki eftir því sem starfsemin þróaðist. Þannig fjölgaði t.d læknum úr 4-5 stöðugildum þegar undirritaður kom fyrst til starfa á Reykjalund sumarið 1975 í 12 um aldamótin 2000 og hjúkrunarfræðingum úr 4 stöðugildum í tæplega 30 á sama tíma. Fyrsti sjúkraþjálfarinn kom árið 1963 og fyrsti iðjuþjálfinn 1974. Stöðugildi sjúkraþjálfara voru 20 og iðjuþjálfa 16 um aldamótin síðustu. Þannig breyttist Reykjalundur frá því að vera vinnuheimili og endurhæfingarstofnun fyrir berklasjúklinga í alhliða endurhæfingarstofnun fyrir nánast alla sjúklinga sem á þurfa að halda. Frátaldir eru þeir sem eru með alvarlegar skerðingar í taugakerfi svo sem heila- og mænuskaða, en frumendurhæfing þeirra einstaklinga fer fram á endurhæfingardeild LSH á Grensási.

Um leið og starfseminni á Reykjalundi óx fiskur um hrygg urðu til sérhæfð teymi um endurhæfingu ýmissa sjúklingahópa. Sú sérhæfing fylgdi sérfræðilæknum sem höfðu sótt sérnám erlendis og komu hver með sína sérþekkingu á endurhæfingu hinna mismunandi sjúkdómaflokka. Fyrst myndaðist hjartaendurhæfingarteymi sem Magnús B. Einarson stýrði, síðan lungnaendurhæfingarteymi sem Björn Magnússon stýrði og þannig koll af kolli. Í dag eru starfrækt 8 mismunandi meðferðarteymi, en um þessar mundir eru teymi gigtar- og verkjasjúklinga að renna saman í eitt stórt stoðkerfisteymi. Þá hefur einnig verið ákveðið að sameina fleiri teymi undir tvö meðferðarsvið þar sem stoðkerfis- geðheilsu- offitu- og starfsendurhæfingarteymi færu saman og síðan hjartalungna- og taugateymi saman á öðru meðferðarsviði.

Rétt eins og þegar starfsemin hófst á Reykjalundi fyrir meira en 70 árum er stór hluti sjúklinga sem koma í endurhæfingu ungt fólk. Meðalaldur sjúklinga í hjarta- og lungnateymi er rétt rúmlega 60 ár, í offitu- og taugateymi er meðalaldurinn 45-50 ár en um og innan við 40 ár í geðheilsu-, stoðkerfis- og starfsendurhæfingarteymum. Þetta rímar vel við fjölda öryrkja á Íslandi en mikill meirihluti þeirra er með stoðkerfis- og geðraskanir, eða 62% kvenna og 71% karla árið 2015.(1) Samkvæmt sömu heimild frá Velferðarráðuneytinu hafði öryrkjum fjölgað um tæp 30% á árabilinu 2005 til 2015 og ekki síst meðal ungs fólks en fjölgun öryrkja á sama tímabili hjá þeim sem voru á aldrinum 20-24 ára var tæp 40%. Þá kom fram í fréttum nýlega að fjölgun öryrkja á fyrri helmingi yfir standi árs hafi verið gríðarleg, eða um tæplega 1000 manns, og eru þeir nú ríflega 18 þúsund.(2) Samkvæmt framansögðu hefur þörfin fyrir endurhæfingu síst minnkað á undanförnum árum. Undirritaður hefur áður fjallað um örorku á þessum vettvangi.(3)

Það ætti ekki að koma á óvart þegar litið er til þróunar síðustu ára að eftirspurn eftir þjónustu á Reykjalundi hefur farið vaxandi. Nú berast 60-70% fleiri beiðnir um meðferð á Reykjalundi en hægt er að sinna miðað við þjónustusamninginn (a.m.k. 1050 sjúklingar á ári). Þróunin kemur vel fram á mynd 1. Um mitt ár 2016 höfðu borist um 1000 beiðnir um endurhæfingu og stefnir þannig í um 2000 innlagnarbeiðnir á árinu. Á Reykjalundi bíða nú tæplega 1000 manns eftir þjónustu.

RJ2.JPG

RJ3.JPG

Þjónustusamningur var gerður við ríkisvaldið um starfsemi Reykjalundar árið 2001. Þá voru starfandi á Reykjalundi vel yfir 200 manns í um 195 stöðugildum faglærðra sem ófaglærðra. Þann 31. desember 2008 voru stöðugildin 186 en hafði fækkað í 162 í lok árs 2012. Á árunum eftir hrun hefur fjármagn til starfseminnar verið skert um 25-30% og fækkað um 15-20 stöðugildi sérhæfðs starfsfólks. Þróun stöðugilda á Reykjalundi frá árinu 1991 má sjá á mynd 2. Með fækkun starfsmanna hefur orðið æ erfiðara að endurhæfa þá 1050 sjúklinga á ári sem þjónustusamningur Reykjalundar gerir ráð fyrir.

En hver er árangurinn af endurhæfingu? Hann er í langflestum tilvikum mjög góður. Árangur má mæla á ýmsan hátt. Það telst góður árangur þegar sjúklingur með fjölþætt heilsufarsvandamál og sem getur ekki búið sjálfstætt og þarfnast aðstoðar við daglegar athafnir nær þeirri færni að verða sjálfbjarga og sjálfstætt búandi. Ungt fólk með stoðkerfis- og geðraskanir sem hafa verið langtímum utan vinnumarkaðar er endurhæft til starfa á almennum vinnumarkaði. Af þeim skjólstæðingum Reykjalundar sem voru til meðferðar í starfsendurhæfingarteymi Reykjalundar á síðastliðnu ári fóru tæp 60% annað hvort í vinnu eða nám að lokinni endurhæfingu. Þetta er mjög góður árangur ekki síst þegar horft er til þess að margir þessara einstaklinga höfðu verið svo árum skipti utan vinnumarkaðarins. Stór rannsókn í verkjateymi Reykjalundar á árunum 2004-2011 (115 einstaklingar) sýndi að aðeins þriðjungur var vinnufær fyrir endurhæfingu, en þremur árum eftir útskrift frá Reykjalundi voru um 60% í vinnu. Heilsuhagfræðileg úttekt á árangrinum sýndi að 6 vikna meðferð sem kostaði 1200 þúsund fyrir hvern einstakling skilaði að meðaltali 9,7 milljónum til baka til samfélagsins.(4) Þetta þýðir með öðrum orðum að hver króna sem sett er í endurhæfingu skilar sér áttfalt til baka.

Hér hefur verið minnst á langa biðlista eftir endurhæfingu á Reykjalundi. Einnig hefur verið bent á sívaxandi eftirspurn eftir þjónustu. Reykjalundur gæti sinnt endurhæfingu mun fleiri sjúklinga fengist sá niðurskurður bættur sem stofnunin hefur sætt eftir hrun (um 300 milljónir á ári). Þá væri hægt að ráða til starfa 20-30 sérhæfða heilbrigðisstarfsmenn og auka þjónustuna. Við vitum að ákveðnir sjúklingahópar fá ekki viðunandi endurhæfingu. Þar á ég m.a. við unga einstaklinga með áunninn heilaskaða. Taugateymi Reykjalundar sinnir þessum einstaklingum að takmörkuðu leyti en annars er lítið sem ekkert um þjónustu fyrir þá að ræða í heilbrigðiskerfinu umfram frumendurhæfingu fyrir hluta hópsins á Grensási. Þá hefur með tilkomu VIRK starfsendurhæfingarsjóðs orðið vaxandi eftirspurn eftir þverfaglegri starfsendurhæfingu, en Reykjalundur hefur yfir að ráða mestri breidd hvað varðar slík teymi sem og besta starfsaðstöðu. Hefur m.a. verið komið á fót sérstökum starfsmatsstöðvum með tilstyrk frá VIRK, en ef framkomin tillaga að breytingu á almannatryggingalöggjöfinni nær fram að ganga mun þörfin fyrir mat á starfsgetu aukast verulega í nánustu framtíð. Við höfum heyrt af því að fjármagni hafi verið veitt í að stytta biðlista eftir skurðaðgerðum. Það er hið besta mál. En það eru víðar biðlistar og heilbrigðisþjónusta snýst ekki einvörðungu um bráðaþjónustu heldur þarf einnig að huga að endurhæfingar- og öldrunarþjónustu.

Fyrir dyrum stendur að gera nýjan þjónustusamning við Reykjalund. Fáist fyrrgreindur niðurskurður bættur í nýjum samningi sé ég fyrir mér að fyrst yrði ráðist í að auka þjónustu í tauga- og starfsendurhæfingarteymum, sbr. framanskráð. Einnig er mikilvægt að auka þjónustu í geðheilsu- og stoðkerfisteymum til að reyna að vinna gegn vaxandi örorku sem hér hefur verið gerð að umtalsefni.

Heimildir
  1. Velferðarráðuneytið; 13. janúar 2016, https://www.velferdarraduneyti.is/ frettir-vel/nr/35442
  2. RÚV; 27. ágúst 2016, http://www.ruv.is/frett/gridarleg-fjolgun-oryrkja-afyrri-helmingi-ars
  3. SÍBS blaðið; febrúar 2015, http://www.sibs.is/images/stories/sibs_bladid/ pdf/sibs_bladid_2015_1.pdf
  4. Héðinn Jónsson; Kostnaðarnytjagreining á verkjasviði Reykjalundar (meistaraprófsritgerð); september 2011; http://skemman.is/stream/get/19 46/10128/25267/1/H%C3%A9%C3%B0inn_J%C3%B3nsson.pdf

Magnús Ólason

Framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi

Nýtt á vefnum