Greinar / 19. október 2016

Heilsugæslan - oft var þörf en nú er nauðsyn!

Titillinn hér að ofan er tekinn beint frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO), The World Health Report 2008 - Primary Health Care (Now More Than Ever). En af hverju endurnýjun heilsugæslunnar? Og af hverju er það nauðsynlegt núna meira en nokkru sinni fyrr?

Fyrstri viðkomustaðurinn

GGG.JPG

Heilbrigðiskerfi heimsins standa frammi fyrir miklum áskorunum og eru ekki að uppfylla væntingar almennings. Það gætir óþolinmæði hjá almenningi þegar heilbrigðisþjónustan nær ekki markmiðum sínum. Flestir eru sammála um að heilbrigðiskerfin þurfi að bregðast við þessari áskorun hraðar og betur. Alþjóðlegum heilbrigðisyfirvöldum og í nágrannaríkjum okkar er mönnum orðið ljóst á síðustu árum að það er heilsugæslan sem á áhrifaríkastan hátt getur svarað þessum áskorunum. Heilsugæslan annast fólk og læknar það, færir því hvatningu og eflir það á öruggan og árangursríkan hátt. Heilsugæslan veitir sína þjónustu á ytri mörkum heilbrigðiskerfisins og er tengiliður þess við sjúkrahús og sérfræðinga. Heilsugæslan flokkar ekki fólk eftir sjúkdómsgreiningum, eða aldri, allir eru velkomnir alltaf og það er réttur fólks að mínu mati að aðgangur að heilsugæslu sé óhindraður. Þetta er það sem liggur að baki þegar gerð er krafa um að heilsugæslan eigi að vera „fyrsti viðkomustaðurinn“.

Flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar á Íslandi vilja efla heilbrigðiskerfið. Enginn hefur hins vegar þorað að fara nánar í útfærsluna, þ.e.a.s. forgangsraða í þágu almennings. Enginn hefur lagt í að gera eins og gert er um þessar mundir alþjóðlega og ekki síst í nágrannalöndum okkar að segja hreint út að til þess að annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónusta geti sinnt hlutverki sínu þurfi að vera hægt að reiða sig á heilsugæsluna. Heilsugæslan á Íslandi hefur liðið fyrir langvarandi undirfjármögnun og stjórnunarvanda. Megin rekstrarmarkmið stærstu heilbrigðisstofnana sem reka heilsugæslur hefur verið að skila stofnunum réttum megin við fjárheimildir. Til viðbótar kom átakanlegur niðurskurður árið 2008 sem þjónustan hefur liðið fyrir.

Árangursríkasta úrræðið

Heilsugæsla á landsbyggðinni stendur veikt og er læknisþjónustan að miklu leyti rekin með aðstoð tilfallandi afleysara í verktöku. Slíkt er ekki boðlegt fólki í hinum dreifðu byggðum. Fórnarkostnaðurinn við að skila hallalausum rekstri hefur verið heilsugæsla í sárum sem ekki nær að sinna hlutverki sínu og starfsánægja í lágmarki. Til samanburðar má nefna að í fjármögnunarlíkaninu í Svíþjóð, sem er fyrirmynd þess fjármögnunarlíkans sem á að innleiða á næsta ári í heilsugæslu, er fjármögnunin um 40% meiri miðað við gengið 21.09.2016. Þó er skólaheilsugæsla og mæðravernd ekki inni í sænska líkaninu. Þá væri munurinn enn meiri.

Í janúar á þessu ári kom út rannsóknarskýrsla fyrir alþingi þeirra svía, Riksdagen, þar sem rannsóknaraðilum var falið koma með tillögur að úrræðum til að bæta heilbrigðiskerfið. Skýrsluhöfundar skiluðu viðamiklum tillögum til úrbóta þar sem rauði þráðurinn er að veita þjónustuna á forsendum sjúklingsins í samráði við sjúklinginn á viðeigandi stað og af viðeigandi aðilum. Efla þyrfti samfellu í þjónustunni og styrkja lárétt samstarf milli mismunandi aðila innan heilbrigðiskerfisins. Auka þyrfti innsæi og skilning mismunandi aðila í kerfinu á starfi hvers annars. Skýrslan er 800 bls. en á síðu 30 í samantekt um skýrsluna segir eftirfarandi:

„Rannsóknin sýnir þar að auki að efling heilsugæslunnar er að öllum líkindum árangursríkasta staka úrræðið til að auka jöfnuð í heilsu borgaranna. Við leggjum þess vegna til löggjöf á landsvísu sem skilgreinir verkefni heilsugæslunnar.“

Undirmönnuð þjónusta

Á vef Ríkisendurskoðunar má sjá að stofnunin hefur ákveðið af eigin frumkvæði að fara í úttekt á stærsta veitanda heilsugæslu á Íslandi, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Tilefnið er fyrirferðarmikil umræða um málefni heilsugæslunnar og gagnrýni á langa bið eftir læknisþjónustu. Með hliðsjón af mikilvægi Heilsugæslunnar í heilbrigðiskerfinu ákvað Ríkisendurskoðun að kanna hvernig Heilsugæslan stæði undir hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu. Stefnt er að því að birta niðurstöður stofnunarinnar í skýrslu til alþingis í september 2016. Tími ætti þannig að gefast til að ræða niðurstöður skýrslunnar í aðdraganda kosninga.

Ljóst er að heilsugæslan á Íslandi er verulega undirmönnuð, sérstaklega af læknum. Bætt hefur verið við sáfræðingum en betur má ef duga skal að gera þessa þá þjónustu aðgengilega öllum. Einnig er erfitt að fá hjúkrunarfræðinga til starfa. Hvað varðar skort á heimilislæknum þá vantar nú um 50 heimilislækna á landsvísu og svipaður fjöldi fer á eftirlaun í landinu á næstu 10 árum. Sérnám sem stutt er af Velferðarráðuneytinu með 15 námsstöðum og einum kennslustjóra er allt of lítið til að fylla þetta skarð. Að auki eru nokkrir sérnámslæknar til viðbótar fjármagnaðir af heilbrigðisstofnunum, oftast þá í gegnum stöðugildi sem ekki hefur tekist að ráða sérfræðinga í. Þannig hefur sérnámið verið með 30-40 námslækna undanfarið og 4-9 útskrifast að jafnaði á ári. Ef við miðum okkur við Svía ættu hér að vera 80 sérnámslæknar og 3 kennslustjórar fjármagnaðir af velferðarráðuneyti. Hér þarf að bæta verulega í.

Samhliða þarf að efla kennslu í heimilislækningum við læknadeild Háskóla Íslands til mað kynna fagið betur og fá fleiri unga lækna í heimilislækningar. Nýlega auglýsti læknadeild 25% stöðu lektors í heimilislækningum en í raun þarf mun öflugri innspýtingu. Með eflingu sérnámsins væri hægt að fylla ósetnar stöður og ná eðlilegum viðmiðum um læknamönnun á 10-15 árum. Hér verður velferðarráðuneytið að setja sér markmið og fylgja þeim eftir, fjármagna og ná þessu markmiði innan 2-3 ára. Ef ekkert verður að gert frekar er hættan sú að undirstöður þessa sérnáms séu ekki til staðar eftir nokkur ár, þar sem margir öflugir heimilislæknar eldast og nýliðun er ekki nægjanleg.

Kerfisbreyting til bóta

Sú kerfisbreyting sem núverandi heilbrigðisráðherra hefur staðið fyrir er að mínu mati mjög til bóta fyrir almenning. Tvær nýjar heilsugæslustöðvar munu opna á næsta ári sem er mikilvægt skref til þess að byggja upp heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Nám í heilsugæsluhjúkrun hefur verið sett á laggirnar við Háskólann á Akureyri sem mun styrkja heilsugæsluna þegar fram í sækir. Markmiðin sem sett eru fram í umbótaáætlun heilbrigðisráðherra, eins og nafngreindur heimilislæknir fyrir alla og kröfulýsing fyrir veitendur þjónustunnar, eru mjög í takt við alþjóðleg gæðaviðmið um þjónustuna sem veita á. Þjónustan sem kallar á auðvelt aðgengi og samfellda persónulega umönnun við sjúklinga með flókin vandamál krefst aukinnar teymisvinnu eins og gert er ráð fyrir í tillögum ráðherra. Skilgreind kröfulýsing eykur svo gæði og jöfnun fjármögnunar eykur sjálfstæði notandans og er réttlátari gagnvart þeim er veitir þjónustuna.

Kröfulýsing fyrir heilsugæslu hefur því miður ekki verið kostnaðargreind og aukin gæði og fleiri verkefni kalla auðvitað á aukið fjármagn. Þannig hefur uppbygging og umgjörð verið bætt verulega en til þess að breytingarnar skili árangri þarf að fylgja fjármagn til framkvæmda á áætluninni. Vissulega hefur verið bætt nokkuð í á undanförnum árum, sérnámsstöðum fjölgað og fjármagni veitt í sálfræðiþjónustu en þegar borið er saman við fjármögnun viðlíka verkefna í nágrannalöndum skín í gegn skortur á fjármagni til að standa undir háleitum markmiðum. Niðurskurður í kjölfar efnahagshruns er óbættur og heilsugæsla þar sem starfsmenn eru á þönum að gera sitt besta getur ekki uppfyllt væntingar fólksins í landinu og samstarfsaðila um lausn á brýnum verkefnum.

Í aðdraganda kosninga

Heilbrigðismál eru ofarlega í huga kjósenda og í aðdraganda kosninga koma vel í ljós áherslur stjórnmálaflokka. Heilsugæslan er í eðli sínu lágstemmd og persónuleg þjónusta og skapar sjaldan stórar fyrirsagnir í fjölmiðlum. Stjórnmálamönnum ber skylda til að gefa heilsugæslu meiri gaum. Öldrun þjóðarinnar, aukning lífsstílssjúkdóma og fjölgun sjúklinga með flókinn heilsuvanda og marga sjúkdóma eru ekki bara orðin tóm. Þetta eru staðreyndir sem verður að bregðast við. Flestir eru sammála um að það verði best gert með því að styrkja heilsugæsluna. Ekki bara með skipulagsbreytingum eða með því að hliðra fjármagni frá öðrum grunnstoðum heilbrigðiskerfisins heldur verður að koma til nýtt fjármagn samhliða auknum kröfum til heilsugæslunnar. Fólkið í landinu verður að geta reitt sig á heilsugæsluna og samstarfsaðilar innan heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu verða að geta reitt sig á að hún sé verkefnum sínum vaxin.

Eftirfarandi einföldu spurningum tel ég afar brýnt að stjórnmálaflokkarnir sem bjóða sig fram til alþingis svari skýrt og skorinort:

  1. Er það stefna þíns flokks að auka fjárframlög til heilsugæslunnar? Ef svo er hversu mikið?
  2. Er það stefna þíns flokks að velferðarráðuneytið fjármagni fleiri sérnámsstöður í heimilislækningum? Ef svo er hversu margar?
  3. Er það stefna þíns flokks að auka vægi heimilislækninga við læknadeild Háskóla Íslands?
  4. Er það stefna þíns flokks að auka framlög til heilbrigðismála almennt sem hlutfall af vergri landsframleiðslu? Ef svo er hversu mikið?
  5. Er það stefna þíns flokks að allir íslendingar hafi nafngreindan heimilislækni sem ber læknisfræðilegu ábyrgðina utan sjúkrahúsa?

Þórarinn Ingólfsson

Formaður Félags heilsugæslulækna

Nýtt á vefnum