Landspítali er stærsta stofnun landsins og rennur um þriðjungur þeirra fjármuna sem ríkið ver í heilbrigðismál til spítalans. Landspítali er líka þjóðarsjúkrahús Íslendinga, eina háskólasjúkrahúsið og nýtur almenns velvilja og hlýhugs af hálfu landsmanna. Það fer ekki á milli mála, enda berast Landspítala gjafir hvaðanæva af landinu og í umræðunni sem fram fer um heilbrigðiskerfið fer mikilvægi Landspítala í hugum landsmanna ekkert á milli mála. Við erum afar þakklát fyrir þetta.
Sjúklingurinn í öndvegi
Ísland er fámennt en víðfermt land. Uppbygging heilbrigð isþjónustu við slíkar aðstæður krefst þess að horft sé til heildarinnar þegar ákvarðanir eru teknar. Það er hins vegar sjúklingurinn, og þarfir hans, sem alltaf verður að vera í öndvegi.
Ef ekki er augljóst að tillaga þjóni hagsmunum sjúklinga fyrst og fremst er betur heima setið en af stað farið. Heilbrigðisþjónusta er mjög sérhæfð og mikilvægt að vandað sé til uppbyggingar hennar. Á þetta er bent í nýlegri skýrslu frá McKinsey & Company þar sem lagt er til að þjónustan verði með lóðréttu skipulagi, enda á dreifstýring í litlu kerfi sem okkar ekki vel við. Sérhæfing í heilbrigðisþjónustu er með þeim hætti að til að tryggja öryggi þjónustu dugir ekki annað en að sérfræðingar hafi næg verkefni við sitt hæfi, til að viðhalda þekkingu sinni. Fólksfjöldi á Íslandi er það lítill að suma þjónustu er ekki unnt að veita hér yfirleitt (t.d. sérhæfðar hjartaskurðlækningar barna) og um flestar sérgreinar gildir að samþjöppun þekkingar er nauðsynleg. Hins vegar erum við sammála um að mikilvægt er að allir landsmenn hafi aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Lóðrétt skipulag heilbrigðsþjónustu myndi gera það einfaldara að skipuleggja þjónustu á viðeigandi þjónustustigi, stað og stund. Ég sá raunar ágæta fyrirmynd að þessu nýlega, þar sem heimsóknir sérfræðinga af sjúkrahúsi höfuðborgarinnar er skipulögð með reglulegum hætti á svæðissjúkrahús og heilsugæslustöðvar.
Fjármögnun Landspítala óviðunandi
Það er kunnara en frá þurfi að segja að mikil aðhaldskrafa var á Landspítala í kjölfar bankahrunsins en í raun hefur stöðugt verið þrengt að rekstri hans frá aldamótum. Fjármögnun Landspítala er langt frá því að vera viðunandi, enda þótt talsvert hafi verið bætt úr frá árinu 2013. Kerfið hefur hins vegar verið það svelt í svo langan tíma að þær viðbætur sem þó hafa komið hafa ekki dugað til að halda í við auknar þarfir landsmanna fyrir þjónustu Landspítala, hvað þá til að innleiða nýjungar eða þróunar svo nokkru nemi. Sú áhersla landsmanna sem birtist m.a. í könnun RÚV á mikilvægi heilbrigðismála fyrir komandi kosningar gefur okkur góðar vonir um að nú hylli undir breytingar í sveltu kerfi.
Áhersluþættir til framtíðar
Það er einkum þrennt sem brennur á okkur á Landspítala; aukið rekstrarfé, mönnun og uppbygging innviða.
Viðbótarfjármagn nauðsynlegt
Mikilvægi aukins rekstrarfés verður varla ofmetið. Nýlega kom út skýrsla McKinsey&Company um rekstur Landspítala á þessu kjörtímabili. Skýrslan er í meginatriðum samhljóða þeim athugasemdum sem Landspítali hefur ítrekað komið á framfæri með ýmsum hætti síðustu misseri. McKinsey leggur m.a. áherslu á að mikil þörf sé á viðbótarframlagi í rekstur Landspítala og jafnvel þó verulega yrði bætt í væri reksturinn eftir sem áður umtalsvert hagkvæmari en rekstur sambærilegra stofnana í Svíþjóð. Þegar stjórnvöld hafa aukið fé til Lanspítala hefur það verið nýtt með skipulögðum hætti og hver króna gagnast sjúklingum og starfseminni. Nýjasta dæmið er aukið fé til tækjakaupa.
Landspítali - eftirsóknarverður vinnustaður
Ein helsta ógn sem steðjar að heilbrigðiskerfum heimsins er mannekla. Þar er Ísland engin undantekning. Mikil samkeppni er um starfskrafta þeirra sem mennta sig til starfa í heilbrigðisþjónustu og finnur spítalinn verulega fyrir þessu. Því ríður á að störf á Landspítala séu eftirsóknarverð fyrir þessar stéttir. Landspítali semur ekki um laun starfsmanna sinna en breytingar á launakjörum starfsmanna, sér í lagi hjá læknum, hafa verið til bóta. Það var þó í kjölfar mikilla verkfallsátaka sem höfðu slæm áhrif á rekstur spítalans. Stéttir ýmist sömdu eða lutu úrskurði félagsdóms um launakjör sín. Aðrir þættir en laun skipta miklu þegar kemur að starfsánægju. Aðbúnaður skiptir þar miklu, enda oft forsenda árangurs í starfi. Þar þarf að horfa til húsnæðis og tækifæra starfsfólks til að þróa sig í starfi. Hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahúss skiptir miklu hér, spítalinn verður að vera í stakk búinn til að stunda öflugt vísindastarf samhliða því að veita úrvals heilbrigðisþjónustu. Þannig löðum við nýja starfsmenn til starfa og tryggjum að aðrir haldi tryggð við stofnunina.
Uppbygging án tafar
Uppbygging innviða eftir áratuga aðhaldsstefnu er orðin meira en aðkallandi. Hún er lífsnauðsynleg. Þessi uppbygging lýtur bæði að upplýsingakerfum, tækjabúnaði og ekki hvað síst húsnæði. Landspítali leggur þunga áherslu á að uppbyggingu við Hringbraut ljúki á tilsettum tíma. Mikilvægt er að sú uppbygging tefjist ekki frekar, enda málið margyfirfarið. Samhliða þessu er uppbygging annarra innviða, svo sem tækjabúnaðar og aðstöðu í þeim húsum sem við þreyjum nú þorrann í, afar aðkallandi.
Fleira mætti taka til í upptalningu sem þessari. Við leggjum þó megináherslu á þessa þrjá þætti og mætti í raun segja að þarna sé heilög þrenning á ferðinni - einn þáttur þrenningarinnar verður ekki frá hinum skilinn. Við á Landspítala erum þakklát fyrir þá miklu umræðu sem nú fer fram um heilbrigðisþjónustuna og vonum að pólitíkin leggist á sveif með okkur og landsmönnum öllum.