Meðferðin sem veitt er á offitu- og næringarsviði Reykjalundar hefur frá upphafi verið atferlismeðferð. Atferlismeðferðir við offitu, stundum nefndar lífsstílsmeðferðir komu fyrst fram á sjöunda áratugnum og hafa verið í stöðugri þróun síðan þá. Hefðbundin atferlismeðferð tekur á mataræði (s.s. matardagbók, næring matvæla, fækkun hitaeininga), hreyfingu (s.s. aukin hreyfing, fræðsla um áhrif hreyfingar) og svo er unnið með ýmsa þætti tengda atferli (s.s. takast á við áreiti í umhverfinu sem auka löngun í mat, lausnamiðuð nálgun kennd o.fl.).
Andlegir þættir
Á síðustu árum hefur þróunin í offitumeðferð verið í þá átt að leggja meiri áherslu á andlega þætti auk mataræðis, hreyfingar og atferlis. Margar rannsóknir hafa sýnt góðan árangur hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) við ofþyngd og þá sérstaklega að hún auki langtímaárangur meðferðarinnar, þ.e. að einstaklingar nái frekar að viðhalda því þyngdartapi sem náðst hefur eftir HAM miðað við hefðbundna atferlismeðferð.
Í offitumeðferðinni á Reykjalundi hefur vægi sálfræðilegrar vinnu aukist undanfarin ár og gert er ráð fyrir að enn meiri áhersla verði lögð á þann þátt í framtíðinni. Í upphafi meðferðar eru lagðir fyrir spurningalistar sem meta andlega líðan. Þeim einstaklingum sem skora hátt á þeim listum, og/eða það kemur í ljós í forskoðunarviðtali að um andlega vanlíðan sé að ræða, er vísað í viðeigandi úrræði til að taka á því. Ennfremur er töluverð áhersla í meðferðinni (sem allir fá) á að vinna með andlega líðan (s.s. sjálfsstyrkingartímar, farið í grunnlögmál HAM, þjálfun svengdarvitundar, slökun, jafnvægi í daglegu lífi o.fl.).
Þegar um andlega vanlíðan er að ræða hjá skjólstæðingum eru algengustu kvillarnir þunglyndi og kvíði, sem er ekki skrítið þar sem tíðni þessara kvilla er jafnframt há í almennu þýði. Gera má ráð fyrir að allt að fjórða hver kona (10-25%) og áttundi hver karlmaður (512%) þjáist af þunglyndi einhvern tíma á ævi sinni og um 45% fólks þjáist af alvarlegum kvíða einhvern tíma á ævi sinni. Talið er að eingöngu 1 af hverjum 4 sem þjást af þunglyndi leiti sér hjálpar.
Í rannsókn sem gerð var á offitu- og næringarsviðinu fyrir nokkrum árum kom fram að um 46% skjólstæðinga voru með miðlungs- og alvarleg þunglyndiseinkenni og um 36% með miðlungs- eða alvarleg kvíðaeinkenni (skoðaðir voru allir þeir sem komu á sviðið á eins árs tímabili). Algeng einkenni þunglyndis eru dapurleiki, þreyta, minnkuð virkni, lágt sjálfsmat, óeðlileg sjálfsgagnrýni, skerðing á einbeitingu eða ákvarðanatöku, breytingar á matarlyst/ líkamsþyngd og svefntruflanir. Algeng einkenni kvíða eru áhyggjur, svefnleysi, niðurgangur, sviti, vöðvaspenna, skjálfti, þreyta, tíð þvaglát, eirðarleysi, einbeitingarleysi og pirringur.
Allir í HAM
Sú meðferð sem er veitt á offitu- og næringarsviðinu þegar um andlega vanlíðan er að ræða er einkum hugræn atferlismeðferð. Eins og komið hefur fram fá jafnframt allir skjólstæðingar sviðsins (hvort sem um andlega vanlíðan eða ekki er að ræða) fræðslu um grunnlögmál HAM án þess að um eiginlega meðferð sé að ræða. Hugræn atferlismeðferð byggir á þeirri grunnhugmynd að tengsl séu á milli hugsana, tilfinninga og hegðunar. Það er ekki atburður sem slíkur sem hefur áhrif á líðan heldur hvernig hann er túlkaður og hvernig er brugðist við honum. Í meðferðinni fær einstaklingur í hendur verkfæri til að greina á milli þessara þátta og skilja hvernig þeir virka hver á annan. Á þann hátt uppgötvar hann hvernig hægt er að hafa áhrif á líðan sína (og þar með oft hegðun) með því að taka eftir, skoða og vinna með hugsanamynstur sitt. Einnig eru notuð verkfæri til að skoða hegðun og áhrif hennar á líðan og hugsanir.
Önnur meðferðarnálgun sem byggir á hugrænni atferlismeðferð er þjálfun svengdarvitundar (appetite awareness training) sem jafnframt er notuð í meðferðinni á Reykjalundi. Hún felst í þjálfun í að fara eftir merkjum líkamans um svengd og seddu, og að verða meðvitaðri um hvort um sé að ræða raunverulega svengd eða „tilfinningasvengd“. Rannsóknir hafa sýnt góðan árangur hennar við að hjálpa fólki að taka upp heilbrigðari lífsstíl og léttast.
Félagslegir þættir
Í meðferðinni er einnig tekið á félagslegum þáttum eins og fjárhag, atvinnu og fjölskylduerfiðleikum. Það hefur sýnt sig að fólk á erfitt með að nýta sér endurhæfingu ef grunnþarfir eru ekki fullnægjandi, t.a.m. fjárhagur. Oft er hægt að leysa fjárhagsvandamál í meðferðinni, t.d. með því að sækja um viðeigandi framfærslu, en ef vandinn er orðinn mikill er viðkomandi vísað í viðeigandi úrræði. Sama má segja um erfiðleika í fjölskyldum, ýmist er unnið með þá innan Reykjalundar eða fjölskyldunni vísað í önnur úrræði. Í öllum tilfellum, hver sem vandinn er, er reynt eftir megni að finna þau úrræði sem best henta, innan eða utan Reykjalundar.
Harpa Ásdís Sigfúsdóttir, félagsráðgjafi og Helma Rut Einarsdóttir, sálfræðingur