Hreyfing gegnir mjög mikilvægu hlutverki í offitumeðferð Reykjalundar. Fljótlega eftir fyrsta viðtal hjá lækni er skjólstæðingurinn látinn taka hámarksþolpróf á þrekhjóli. Í prófinu er fylgst vel með viðbrögðum hjarta- og æðakerfis, s.s. púls, blóðþrýstingi o.fl. Þegar niðurstaða prófsins liggur fyrir er betur hægt að meta líkamleg afköst og sníða skynsama þjálfunaráætlun. Í kjölfarið er sett upp áætlun um reglubundna hreyfingu í samráði við þann sem í hlut á. Þess má geta að þeir sem sérstaklega þurfa á stuðningi að halda varðandi þjálfun mæta reglulega í viðtöl til sjúkraþjálfara eða heilsuþjálfa á göngudeildinni.
Rólega af stað
Líkamlegt ástand fólks sem til okkar leitar er oft afar lélegt í upphafi og takmörkuð reglubundin hreyfing í gangi. Þess vegna er æskilegt fyrir marga að fara rólega af stað með þjálfun. Þannig er í mörgum tilvikum nóg til að byrja með að komast í gang með hreyfingu þrisvar sinnum í viku. Ef fólk heldur þessa reglu um tíma er það viss sigur og sjálfsagt að auka hreyfinguna með tímanum. Þannig komast flestir í gang með hreyfinguna á göngudeild og eru því tilbúnari en ella að takast á við dagdeildarmeðferðina. Í dagdeildarmeðferðunum er margvísleg hreyfing í boði og markvisst reynt að kynna sem fjölbreyttasta hreyfingu. Þetta er liður í að auka líkur á að allir finni hreyfiform við sitt hæfi, sem þeir geta síðan stundað eftir meðferðina.
Einstaklingur og hópur
Eftirfarandi hreyfing er í boði í dagdeildarmeðferðinni: Leikfimi (dýnuæfingar, þolhringir, styrktarhringir, leikir ofl.), vatnsleikfimi, sund, ganga, fjallganga, badminton, stafaganga, golf, folf (frísbígolf), skíðaganga, þjálfun í tækjasal, reiðhjól og bátaþjálfun á Hafravatni. Eins og sést á þessari upptalningu er sumt árstíðabundið, s.s. skíði, golf og bátar, og tekur meðferðin mið af því.
Enda þótt dagdeildarmeðferðin teljist hópmeðferð og þjálfun mikið byggð upp sem slík er samt sem áður lögð rík áhersla á einstaklingsbundna nálgun í þjálfuninni. Þannig fer sjúkraþjálfari yfir hreyfisögu og metur líkamlegt ástand hvers og eins með það að leiðarljósi að allir fái þjálfun við hæfi. Að því loknu er fundið skynsamlegt þjálfunarálag sem tekur mið af getu hans.
Þeir sem þurfa meiri einstaklingsaðstoð varðandi þjálfun og aðhald fá hana hjá sjúkraþjálfara eða heilsuþjálfa. Í þessu sambandi má nefna dæmi varðandi vatnsþjálfun, þ.e. þegar sumir eru vatnshræddir. Algengt er að tekið sé á þeirri hræðslu með aðstoð heilsuþjálfa í sundlauginni. Annað dæmi um sérmeðferð er meðferð við stoðkerfisverkjum. Offeitum einstaklingum er hætt við verkjum í þungaberandi liðum s.s. í mjóbaki, mjöðmum, hnjám og ökklum. Í þeim tilvikum er fólki vísað til sjúkraþjálfara sem leggur mat á ástandið og veitir meðferð sem hæfir. Ennfremur fá allir sérstaka fræðslu hjá sjúkraþjálfara um gildi hreyfingar og um þjálfun sem tekur við eftir útskrift. Ýmis próf sem meta ástand og árangur af þjálfun í offitumeðferðinni eru framkvæmd með reglulegu millibili. Þar má nefna fitumælingu, 6 mínútna göngupróf, 2 km göngupróf, vigtun, mittismál og fleira.
Fyrsta flokks aðstaða
Öll aðstaða til þjálfunar hér á Reykjalundi er til fyrirmyndar. Árið 2001 var nýtt þjálfunarhús tekið í notkun. Þar innandyra má finna íþróttasal í stærð sem hentar starfseminni vel, tvær sundlaugar; önnur 25 metra til sundiðkunar og hin hlýrri og minni til vatnsæfinga og kennslu. Að auki er á efri hæð tækjasalur sem er vel búinn þjálfunartækjum.
Reykjalundur er ákaflega vel í sveit settur þegar kemur að hreyfingu og útiveru. Fallegar gönguleiðir, hæfilega stór fjöll, töluvert skóglendi ásamt nálægð við Hafravatn gerir Reykjalund að óskastað fyrir virka endurhæfingu. Það má með sanni segja að fellin í kringum Reykjalund: Helgafell, Reykjafell og Reykjaborgin séu nánast klæðskerasniðin fyrir suma skjólstæðinga okkar. Það er alltaf farið á eitt fell fyrir þá sem treysta sér í seinni dagdeildarmeðferðinni og einmitt þar vinnur fólk oft stóran sigur í baráttunni fyrir betra lífi og lífstíl.
Áfram áfram
Mjög mikilvægt er að fólk haldi þjálfun áfram eftir að dvölinni líkur hjá okkur. Við leggjum mikið upp úr því að fólk finni sér þá tegund hreyfingar sem það hefur gaman af. Badminton hefur t.a.m. verið mjög vinsælt hjá okkar hópum og gaman að sjá fólk upplifa hreyfingu sem skemmtilegan leik. Þetta hefur leitt til þess að ýmsir skjólstæðingar okkar hafa byrjað að stunda badminton með vinum og fjölskyldu eftir dvölina hér.
Fyrir þá sem eru metnaðarfullir og kappsamir er oft gott að minna á að fara ekki of geyst í þjálfuninni heima. Gæta þarf hófs og ætla sér ekki of mikið, því annars er hætta á að margir gefist upp þegar á reynir. Best er að hafa fast hreyfiskipulag fyrir vikuna og njóta þess að rækta sjálfan sig. Líkaminn þarf á reglulegri hreyfingu að halda og með góðri ástundun hennar líður fólki betur, sem gerir það vel í stakk búið til takast á við lífið og þær lífstílsbreytingar sem það sækist eftir.