Greinar / 7. júní 2016

Offitumeðferð á Reykjalundi

Offitumeðferð á Reykjalundi á sér langa sögu. Framan af var hún eingöngu hugsuð fyrir þá sem komu af öðrum heilsufarsástæðum á hin ýmsu meðferðarsvið en þurftu að léttast til að ná betri árangri í sinni endurhæfingu.

Í kjölfarið fóru læknar, sem urðu varir við að þessum málum var sinnt á Reykjalundi, að vísa fólki hingað gagngert til offitumeðferðar. Undir aldamótin var þetta orðið talsvert algengt. Það leiddi til þess að ákveðið var að hefja sjálfstæða offitumeðferð og gerður um það þjónustusamningur við heilbrigðisráðuneytið.

Það sem studdi þessa ákvörðun enn frekar var sú þekking að offitumeðferð skilar bestum árangri ef hún er fjölþætt og unnin í þverfaglegri teymisvinnu, en þar er endurhæfing með forskot á aðra innan heilbrigðisþjónustunnar.

Fyrsti þjónustusamningurinn

Þegar Reykjalundur og heilbrigðisráðuneytið gerðu með sér fyrsta þjónustusamninginn, sem tók gildi í janúar 2001, var kveðið á um að 25 offitusjúklingar fengju þar meðferð á ári hverju. Það kom strax í ljós að þetta var langt frá því að mæta þörfum. Það bárust að jafnaði um 250–270 beiðnir árlega um offitumeðferð og er svo enn. Fyrstu árin voru því hátt í 60 sjúklingar á ári teknir til offitumeðferðar.

Þegar þjónustusamningurinn var endurskoð­ aður árið 2007, var samið um að auka offitumeðferðina í 90 – 110 manns árlega. Það er því enn langt í land með að hægt sé að koma til móts við eftirspurn eftir slíkri meðferð hér á offitusviði Reykjalundar. Vegna þessa hefur bið eftir meðferð verið að lengjast og er nú komin í 16 – 17 mánuði.

Á þeim tæpu 11 árum sem sjálfstætt offituteymi hefur verið starfrækt hefur meðferðin tekið miklum breytingum og mönnun einnig breyst talsvert. Í fyrstu var meðferðin skipulögð með sama sniði og tíðkast hafði á Reykjalundi, það er að segja fólk var tekið inn beint af bið­ lista og var innskrifað í 6 vikur og meðferð þar með lokið.

Meðferðin

Til að mæta þörfum þeirra fjölmörgu skjólstæðinga sem eru á biðlista er þeim boðið á námskeið fljótlega eftir að beiðni berst. Námskeiðið er í formi fræðslu og ráðlegginga um hvernig best sé að takast á við offituvandann sem fyrst. Eftir að ákvörðun hefur verið tekin um breytt líferni er áhugahvötin oft hvað sterkust og vilji til breytinga mikill. Stuðningur er þá mikilvægur. Þessi námskeið hafa gefist vel og þátttakendur hafa lýst yfir ánægju með þau.

Skipulag meðferðar er þannig að hún hefst á göngudeild. Sá hluti meðferðarinnar er mislangur allt eftir því hvernig fólki gengur, en gerð er krafa um að fólk sýni vilja til að takast á við nauðsynlegar lífsháttabreytingar og sé komið af stað með þær. Síðan tekur við dagdeildarmeðferð sem er skipulögð sem einstaklingsmiðuð hópmeðferð þrjá hálfa daga í viku. Hún er tvískipt, fyrst fimm vikur og eftir hálft ár þá aftur í þrjár vikur. Að því loknu er eftirfylgd í 2 ár með 6 endurkomum alls. Heildarmeðferðartími er því 3 – 3,5 ár. Markmiðið með þessu skipulagi er að reyna að tryggja að atferlisbreytingarnar, sem leitast er við að koma til leiðar, festist í sessi og verði varanlegar.

Hópmeðferðarformið hefur gefist vel og er bæði hvetjandi og styðjandi fyrir skjólstæðinga. Við skilgreinum offitumeðferðina sem atferlismótandi meðferð til eðlilegra, heilbrigðra lífshátta og unnið er með hverskyns lífsstílsbreytingar. Meðferðarmarkmið eru bætt heilsa og lífsgæði en ekki eingöngu þyngdartap. Meðferðin er byggð upp sem víðtæk atferlismeðferð þar sem unnið er með andlega, líkamlega og félagslega þætti í lífi fólks. Einstökum þáttum meðferðarinnar eru gerð nánari skil hér í blaðinu.

Offituteymið

Árið 2001 hófst samstarf Reykjalundar og handlæknisdeildar Landspítala um meðferð við alvarlegri offitu. Samstarfið snýst um það að Reykjalundur undirbýr og velur fólk til magahjáveituaðgerðar og fylgir þeim eftir ásamt Landspítala að aðgerð lokinni. Þetta samstarf hefur gefið mjög góða raun, bæði í góðum árangri af aðgerðunum og tiltölulega fáum fylgikvillum. Það hefur vakið talsverða athygli á hinum Norðurlöndunum og verið fyrirmynd fyrir skipulag aðgerða þar. Hingað hafa komið ótal hópar fólks sem vinna að offitumeðferð til að kynna sér meðferðina hér. Skurðlæknarnir og yfirlæknir offitu- og næringarsviðsins hafa verið fengnir til að segja frá meðferðinni á þingum og fundum erlendis.

Lögð hefur verið áhersla á að gera árangursmat á meðferðinni og fleiri rannsóknir. Gagnasöfnun hjá okkur hefur tekið mið af að slíkt sé mögulegt. Þannig hafa margir meistaranemar í sálfræði, íþrótta- og heilbrigðisvísindum, næringarfræðum og lýðheilsufræðum unnið eða eru að vinna lokaverkefni sín hjá okkur. Þessar rannsóknir eru meðal annars notaðar til að breyta og bæta meðferðina auk þess að afla annarrar þekkingar sem tengist offitu.

Offituteymið hefur kynnt starf sitt víða hérlendis og meðal annars haldið tvö námskeið fyrir heilsugæslustarfsmenn um offitumeðferð og farið á nokkra staði í sama skyni. Kristnesspítali í Eyjafirði hóf fyrir nokkrum árum meðferð offeitra á sínu starfssvæði og nýtti sér reynslu okkar. Heilsustofnun HNLFÍ í Hveragerði hefur einnig komið og kynnt sér meðferðina. Líkamsræktarstöðin Heilsuborg og margar heilsugæslustöðvar hafa einnig notað reynslu okkar við skipulagningu meðferðar hjá sér. Þannig hefur okkur tekist að breiða út aðferðafræði okkar og verið öðrum hvatning til að sinna þessum brýna heilbrigðisvanda.

Framtíðin

Offita og heilsufarslegar afleiðingar hafa vaxið hröðum skrefum. Beiðnafjöldi til offitu- og næringarsviðs hefur verið í takti við þá þróun og búast má við að fjöldi beiðna eigi enn eftir að aukast.

Sérstaða offitumeðferðar á Reykjalundi er mikil umfram önnur meðferðarúrræði er bjóðast. Offita er samspil margra þátta sem þarf að vinna með á heildrænan hátt og sem langtímaverkefni.

Til að mæta þeirri þörf sem til staðar er í dag í þjóðfélaginu þyrfti að auka slíka þjónustu þar sem offitusviðið annar ekki eftirspurninni. Mikil vakning er í gangi um bættan og betri lífsstíl og tækifærin til forvarna og offitumeðferðar gríðarleg.

Ludvig Guðmundsson

Læknir

Olga Björk Guðmundsdóttir

Hjúkrunarstjóri offitusviðs

Nýtt á vefnum