Nú þegar ég sest niður til að skrifa þessar línur eru örfáir dagar liðnir frá því að fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 var lögð fram.
Það sem stingur einna helst í augum er hinn mikli samdráttur sem orðið hefur í þeim málaflokkum er síst skyldi, heilbrigðismálum, menntamálum og löggæslu.
Samdráttur undanfarinna þriggja ára hefur komið illa niður á sjúklingum og öryrkjum. Almenningur hefur ríkan skilning á því að spara þurfi í heilbrigðiskerfinu og ýmsar sparnaðarleiðir sem farnar hafa verið hafa tekist nokkuð vel. Nú er hins vegar svo komið að varla er hægt að spara meira án þess að það komi verulega niður á þeim sem síst skyldi, langveikum sjúklingum, öryrkjum og öldruðum.
Samkvæmt fjálagafrumvarpi næsta árs verða heildartekjur ríkissjóðs 552 milljarðar. Skera á niður um 1,5 – 3% í velferðarmálum, svo sem heilbrigðisþjónustu, skólamálum, löggæslu, bótakerfum og sjúkratryggingum. Við fyrstu sýn virðist þetta ekki vera há upphæð, niðurskurður til heilbrigðismála er um tveir milljarðar.
Eins og áður segir er vandséð hvernig eigi að spara meira án þess að það komi niður á þjónustunni. Það sem gerir þessar sparnaðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar svo erfiðar og umdeildar er að þær eru oft á tíðum ekki nógu hnitmiðaðar. Sterkar vísbendingar eru um að þær skapi meiri kostnað en það sem sparast. Dregið hefur verið úr greiðslum til sjúkraþjálfunar um 23%. Sjúkraþjálfun er árangursrík leið til að bæta lífsgæði sjúklinga. Þeir sem eiga kost á sjúkraþjálfun ná fyrr heilsu, nota minna af lyfjum og þurfa síður að leggjast inn á sjúkrahús.
Því miður hafa stjórnvöld ekki gripið til neinna mótvægisaðgerða samhliða hinum mikla niðurskurði.
Upplýsingagjöf og fræðsla til sjúklinga er lítil, markvisst forvarnarstarf er lítið og ekki nægilega vel skipulagt.
Þá er það verulegt áhyggjuefni að ungir læknar snúi ekki heim að námi loknu. Reynslan sýnir að því lengur sem læknar starfa erlendis minnka líkur á því að þeir snúi aftur heim. Þá fjölgar einnig þeim læknum sem starfa erlendis í hlutastarfi. Hætta er á að einhverjir þessara lækna, margir þeirra sérfræðingar með mikla starfsreynslu, hverfi alfarið til starfa erlendis.
Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin taki á þessu máli og finni leiðir til að efla og tryggja starfsskilyrði lækna á Íslandi. Hætt er við því að innan tíðar verði hér læknaskortur ef ekkert er að gert.