Líffæraígræðslur hafa verið framkvæmdar í heiminum í meira en 50 ár. Fyrst voru nýru flutt milli manna, síðan bættust við önnur líffæri, hjarta, lungu, lifur. Bris, þarmar, hendur og andlit hafa svo bæst við á síðustu árum. Miklar framfarir hafa orðið bæði hvað varðar aðgerðirnar og lyfjameðferðir eftir ígræðslur. Fyrir stóra sjúklingahópa er ígrætt líffæri lífsgjöf, fyrir aðra aukast lífsgæði og lífslíkur.
Nýtt upphaf
Markmið með líffæraígræðslu er að bæta heilsu sjúklingsins þannig að hann geti tekið þátt í daglegu lífi með fjölskyldu sinni, sinnt vinnu sinni og áhugamálum. Biðtími eftir ígræddu líffæri er mislangur. Hann er mörgum mjög erfiður og reynir mjög á sjúklinginn og fjölskyldu hans, en eftir ígræðsluna batnar oftast bæði líkamleg og andleg heilsa einstaklingsins. Sjúkdómur sem viðkomandi líffæraþegi hefur glímt við heyrir í flestum tilfellum sögunni til og það má segja að ígræðslan marki nýtt upphaf. Til þess að árangur ígræðsluaðgerða verði sem bestur er að ýmsu að hyggja og verður hér farið yfir helstu atriði sem líffæraþegi þarf að hafa í huga eftir ígræðsluna.
Ónæmiskerfið bælt
Ónæmiskerfið okkar er flókið og margþætt, en hlutverk þess er að vernda líkamann og eyða bakteríum, veirum, illkynja frumum og öðru því sem líkaminn túlkar sem framandi hlut eða efni. Eftir ígræðslu er nauðsynlegt að bæla ónæmiskerfið með lyfjum til þess að það túlki ekki ígrædda líffærið sem framandi hlut sem þurfi að eyða. Allir sem fá ígrætt líffæri þurfa því að taka ónæmisbælandi lyf ævilangt, til að koma í veg fyrir að líkaminn hafni hinu nýja líffæri. Undanþegnir eru þeir sem þiggja líffæri frá eineggja tvíbura sínum.
Hætta á sýkingum er aukin eftir ígræðslu bæði frá umhverfinu og matvælum. Mikilvægt er að forðast veikindi, svo sem veiru- og umgangspestir. Mælt er með bólusetningu gegn inflúensu og öðrum bólusetningum samkvæmt læknisráði, en einungis má nota líflaust bóluefni. Fyrst eftir ígræðslu þarf að forðast fjölmenni, sérstaklega innanhúss og ráðlagt er að bíða með ferðalög erlendis þar til einu ári eftir ígræðslu. Gott er að kanna hvernig læknisþjónustu er háttað á ákvörðunarstað fyrir brottför.
Mataræði, hreinlæti, hreyfing
Ekki skal borða hráan fisk, kjöt, egg eða ógerilsneyddar mjólkurafurðir eftir ígræðsluna. Hafa ber í huga að heitur matur á að vera heitur og kaldur matur kaldur. Grænmeti og ávextir eru í góðu lagi, en grape-ávöxtur og afurðir hans eru á bannlista vegna áhrifa hans á lyfin.
Handþvottur er mjög mikilvægur og góð regla er að nota hanska við óþrifalega vinnu. Byggingarvinna, vinna við hey og aðrar aðstæður þar sem hætta er á miklu ryki er ekki æskileg, sérstaklega eftir lungnaígræðslur. Ekki er mælt með að ígræðsluþegar gerist húsdýraeigendur stuttu eftir ígræðslur, en þeir sem eiga húsdýr fyrir ígræðslur þurfa að huga vel að hreinlæti tengt umhirðu dýranna.
Það skiptir miklu máli að stunda reglubundna hreyfingu fyrir ígræðslu eftir getu hvers og eins, en veikindi hafa oft mikil áhrif á líkamlega getu. Eftir ígræðsluna er því mikilvægt að byggja upp líkama og sál með reglubundinni hreyfingu og líkamsþjálfun.
Áhættuþættir
Aukin hætta er á húðkrabbameini vegna ónæmisbælandi lyfjanna. Það er því nauðsynlegt að nota alltaf sólarvörn (stuðul 30 eða meira) og fara reglulega til húðsjúkdómalæknis.
Það er einnig nauðsynlegt að láta fylgjast með þéttni beinanna reglulega vegna lyfjaáhrifa á beinþéttnina. Góð tannheilsa er mikilvæg og regluleg heimsókn til tannlæknis nauðsynleg. Tannlæknirinn þarf að vita að viðkomandi sé á ónæmisbælandi lyfjum ef gera á við skemmdir eða gera aðrar aðgerðir í munnholi, en þá þarf oftast að gefa sýklalyf til að koma í veg fyrir sýkingar.
Framhaldið
Misjafnt er hvenær eða hvort einstaklingur getur stundað vinnu eftir ígræðslu. Það fer eftir heilsufari einstaklingsins og eðli vinnunnar. Ákvörðun um þetta er best að taka í samráði við lækni.
Líffæraígræðsla kemur ekki í veg fyrir að fólk geti stundað kynlíf og kynlíf hefur ekki neikvæð áhrif á ígrædda líffærið. Áhugi og geta til að stunda kynlíf eykst einnig oft eftir ígræðsluaðgerðina. Nauðsynlegt er þó að gæta varúðar, viðhafa gott hreinlæti og nota smokk til að koma í veg fyrir kynsjúkdóma, sérstaklega ef ígræðsluþegi þekkir ekki rekkjunaut sinn. Konur sem velta fyrir sér barneignum eftir ígræðsluaðgerð ættu að ræða fyrirhugaða meðgöngu við sinn lækni. Æskilegt er að bíða með meðgöngu þar til virkni nýja líffærisins er stöðug eða u.þ.b. einu ári eftir ígræðslu.
Ígrætt líffæri er dýrmæt gjöf. Það er ljóst að eftir ígræðsluna þarf líffæraþegi að huga að mörgum þáttum og stundum er á brattann að sækja. Hann þarf ævilangt að mæta í reglulegt eftirlit til læknis, fara eftir leiðbeiningum og taka lyfin sín samkvæmt fyrirmælum. Þannig aukast möguleikar ígræðsluþega á betri heilsu eftir ígræðsluna.
Fyrirspurnir og athugasemdir er hægt að senda á netfangið [email protected].