Á Íslandi eiga tugir manna líf sitt að þakka að hafa fengið ígrætt líffæri. Einn látinn einstaklingur getur hjálpað mörgum öðrum til að öðlast annað líf í bókstaflegum skilningi, því við sumum sjúkdómum er ekki til önnur meðferð en líffæraígræðsla. Lifandi gjafar geta auk þess gefið nýra og jafnvel hluta úr lifur. Langir biðlistar eru eftir líffærum, og eðli máls samkvæmt geta ekki allir sjúklingar lifað biðina af.
Ef lesandinn skoðar hug sinn er eins líklegt að hann sé einn af þeim 80-90% sem samkvæmt skoðanakönnunum vilja gefa líffæri eftir sinn dag. Engu að síður blasir við sú staðreynd, að á Íslandi neita aðstandendur líffæragjöf í 40% tilfella. Löggjafinn gengur einnig út frá því að hinn látni hafi neitað líffæragjöf nema hann hafi skráð sig sem líffæragjafa eða aðstandendur heimili líffæragjöf. Þetta kallast upplýst samþykki.
Ætlað samþykki felur hins vegar í sér að gert er ráð fyrir að hinn látni hafi gefið samþykki sitt til líffæragjafar nema hann hafi látið annað í ljós, annað hvort með formlegum hætti eða gegnum ættingja. Ættingjar verða því áfram ávallt spurðir áður en til brottnáms líffæra kemur. Þetta er sú leið sem Norðurlandaþjóðirnar og flestar Evrópuþjóðir hafa farið. Undantekningar eru Ísland og Danmörk.
Með aukinni umræðu og lögleiðingu reglunnar um ætlað samþykki má vonast til að hlutfall neitunar ættingja lækki. Í dag neita ættingjar líffæragjöf í 40% tilfella, og ef það hlutfall næst niður í 10–20%, gæti slíkt bjargað 3-5 mannslífum á ári. Nú stendur því upp á alþingismenn að gera upp hug sinn til líffæragjafa.