Greinar / 7. júní 2012

Næring og heilsa – borðum mat, ekki matarlíki

Góð heilsa er okkur mikilvæg og hún byggir á mörgum samverkandi þáttum. Góð næring, regluleg hreyfing, hæfilegur svefn og andlegt jafnvægi skapar þann grunn sem þarf til að halda góðri heilsu, fyrirbyggja sjúkdóma og auðvelda okkur að njóta lífsins. Einn af þessum stóru þáttum góðrar heilsu, næringin, er til umfjöllunar í þessu blaði. Umfjöllun um næringu og mataræði í fjölmiðlum er mikil og sjónarhornin eru mörg. Maturinn gegnir margskonar hlutverki í okkar daglega lífi umfram það að veita okkur sem lífverum hentuga næringu. Við höldum veislur, notum mat til að gleðjast og fagna og svo eigum við það til að hugga okkur með mat þegar lífið er öfugsnúið. Oft er erfitt að átta sig á því hvað er heilsusamlegt og hvað ekki, en öll tökum við ákvörðun sem varðar mat oft á degi hverjum.

Mataræði Íslendinga skánar

Nýlega kom út skýrsla sem unnin var á vegum embættis landlæknis og samstarfsaðila um mataræði Íslendinga. Þar kemur fram að mataræði okkar þokast nær ráðleggingum um heilsusamlegt mataræði miðað við niðurstöður sambærilegrar könnunar sem gerð var árið 2002. Þar er að finna ýmsar góðar fréttir svo sem að neysla þjóðarinnar á harðri fitu og viðbættum sykri hefur minnkað, meira er borðað af grænmeti, ávöxtum og grófu brauði og fleiri taka lýsi. Markmiðum um takmörkun á neyslu á transfitusýrum hefur verið náð og neysla á snakki og poppi er minni en áður. Þrátt fyrir þessar góðu fréttir eigum við samt langt í land með það markmið að þorri þjóðarinnar fylgi ráðleggingum um neyslu á grænmeti, grófum brauðum og D-vítamíni. Þó neysla á grófu brauði og hafragraut hafi tvöfaldast frá síðustu könnun og neysla á kexi og kökum hafi minnkað erum við samt að borða um það bil tvöfalt meira af kexi og kökum en grófu brauði (1). Fleiri góðar fréttir tengdar heilsu landsmanna berast. Dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma lækkaði á tímabilinu 1981 til 2006 um 80% meðal karla og kvenna á aldrinum 25-75 ára. Þessar góðu fregnir eru raktar til lækkunar áhættuþátta, sem eru lækkun á blóðfitu, minni reykingar, lækkun á blóðþrýstingi og aukin hreyfing í frítíma að þremur fjórðu hlutum og betri meðferðar að einum fjórða. Á móti kemur aukning annarra áhættuþátta sem eru aukið algengi sykursýki og offitu sem jók dánartíðni kransæðasjúkdóma um 9% samkvæmt nýlegri grein Hjartaverndar (2).

Við erum samt alltof feit

Offita hefur verið mikið til umræðu að undanförnu enda hefur offita áhrif á flest líffærakerfi líkamans og mikil áhrif á lífsgæði. Hún eykur líkur á sjúkdómum eins og hjartasjúkdómum, sykursýki og krabbameinum og er þannig fimmti stærsti áhættuþáttur dauða, samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (3). Áðurnefnd könnun Landlæknisembættisins sýndi að tæplega 60% fullorðinna einstaklinga eru of þungir eða of feitir sem er verulegt áhyggjuefni (1). Það er því gleðiefni að rannsókn sem gerð var á vegum Landlæknisembættisins og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sýndi að heldur hefur dregið úr tíðni ofþyngdar og offitu hjá börnum sem mæld eru í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu (4) en betur má ef duga skal. Íslenskir unglingar standa ekki sérlega vel hvað heilsu varðar samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var á holdafari, hreyfingu og efnaskiptasniði meðal 18 ára framhaldsskólanema. Hún sýndi meðal annars að hlutfall þeirra sem voru of þungir/of feitir var 23% og hún sýndi einnig þá athyglisverðu niðurstöðu að 51% þeirra var með of hátt hlutfall líkamsfitu (5).

Mikið hefur verið lagt upp úr útliti í sambandi við holdafar og því grennri því betra. Það er þó ekki samasemmerki við hollustu. Samsetning líkamans og dreifing líkamsfitu skiptir ekki síður máli en líkamsþyngdin. Að vera í góðu formi, hreyfa sig reglulega og fá þá næringu sem líkaminn þarfnast skiptir meira máli en þyngdin sjálf. Þannig getur fólk sem er í kjörþyngd verið með of hátt hlutfall fitu af líkamsþyngd og því verið í aukinni heilsufarslegri áhættu. Einstaklingar sem eru yfir kjörþyngd geta hinsvegar verið í góðu formi og verið með heilbrigðari líkama og því í minni heilsufarsáhættu. Horfum á heildarmyndina, leggjum áherslu á heilbrigðan lífsstíl í stað þess að einblína á þyngdina. Höfum hugfast að forvarnir eru ávallt auðveldari leið en meðferð við hverskonar heilsuvanda, það er aldrei of seint að bæta lífshættina.

Óhollustumet Íslendinga

undanförnum árum hef ég fylgst með umræðu um næringu í þjóðfélaginu í tengslum við starf mitt við meðferð offitu og sem áhugamaður um bætta heilsu þjóðarinnar. Umræðan hefur oft á tíðum verið villandi og upplýsingar misvísandi. Þetta getur gert það að verkum að margir gefast hreinlega upp við að reyna að átta sig á því hvað skynsamlegt er að gera.

Sykurneysla okkar hefur verið mikið til umræðu og svo sem ekki að ástæðulausu. Þjóðin á þar vafasöm met miðað við höfðatölu. Fjallað hefur verið um gosdrykkjaneyslu, nammibarina, skyndibitavæðinguna og alla óhollustuna sem við setjum ofan í okkur sem er ekki af hinu góða. En við erum líka fljót í öfgar á hinum vængnum og fyrst mikill sykur er ekki góður fyrir okkur þá hlýtur hann að vera eitur. Áherslan í mataræði hefur mikið til snúist um hverju við ættum að sleppa úr fæðinu og hvað við eigum ekki að borða. Hver kannast ekki við að byrja í enn einu átakinu og byrja á því að sleppa brauðinu, fara í nammibindindi, taka út þetta og hitt. Vissulega þarf hver einstaklingur að skoða sína stöðu og líðan. Við erum ekki öll eins. Sumir einstaklingar þola ákveðnar fæðutegundir illa og mikilvægt er að hlusta á líkamann. Fyrir flest okkar er þó hentugt að fylgja þeirri hugsun að það er „ekkert bannað“, setjum þetta góða inn fyrst og látum ósiðina í mataræði fjara út. Ef við myndum fylgja sjálf þeirri uppeldisreglu sem við setjum börnunum okkar: „borðum þetta holla fyrst“ – gerðist það sjálfkrafa að við fengjum næringuna sem við þurfum og borðuðum síður næringarsnauðar hitaeiningar, sem síðan vilja sitja sem fastast á okkur það sem eftir er. Ef við síðan borðum hollan mat reglulega fylgir ýmislegt með í kaupbæti, til dæmis verður meltingin betri og við verðum orkumeiri, að ekki sé talað um langtímaáhrifin sem eru minni hætta á ýmsum sjúkdómum. Skoðum hvað við erum að setja inn í staðinn fyrir að leggja áherslu á það sem á að taka út. Skoðum hvort við erum að fá góða næringu og hvort við erum að fá næringu reglulega yfir daginn. Skoðum hvort við erum að fá öll efnin sem líkaminn þarfnast til að vera í jafnvægi, sem er undirstaða fyrir góða heilsu og ekki síður til að halda henni.

Hjá ákveðnum hluta einstaklinga er lögð ofuráhersla á hitaeiningar en minni áhersla á næringu og mikilvægi hennar. Hjá þeim er orka inn og orka út það sem skiptir máli. Einstaklingar sem lengi hafa glímt við offitu eru sérfræðingar í talningu hitaeininga eftir reynslu ótal megrunarkúra sem settir hafa verið fram með þær áherslur. Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að vera meðvituð um hvaða magn hitaeininga er við hæfi á hverjum tíma til að geta stýrt inntöku þeirra á skynsamlegan hátt í samræmi við orkunotkun. Rannsókn Fjólu Guðmundsdóttur á áhrifum næringarinnihalds í mismunandi skyndibitum, sem hún segir frá í þessu blaði, sýnir okkur hins vegar skýrt hversu miklu máli skiptir hvaðan hitaeiningarnar koma. Í blaðinu er líka finna athyglisverðar greinar um prótein, sykur og fitu en misvísandi ráðleggingar um orkuefnin hafa ruglað marga í rýminu.

Við heyrum líka oft umræðu þeirra sem leggja ofuráherslu á að hámarka næringu úr hverri einingu fæðunnar. Hver munnbiti þarf að innihalda eins mikla næringu og kostur er; lífrænt, hráfæði eða ofurfæði. Það er í sjálfu sér besta mál að neyta slíkrar fæðu og ekki vil ég draga úr þeim sem það gera. Hætta er hinsvegar á að þessi mikla áhersla brengli sýn almennings, sem týnir sér dálítið í öllum þeim misvísandi upplýsingum sem koma fram og litast stundum of mikið af markaðssetningu, og dragi þá ályktun að ekki sé hægt að fá góða næringu nema neyta þessara fæðutegunda. Þetta á hugsanlega hlut að máli í þeirri sterku trú margra að hollur matur sé dýrari en sá óholli þrátt fyrir að kannanir bendi til annars.

Villandi markaðssetning fæðubótarefna

Svo er það umræðan um fæðubótarefnin og allt duftið sem okkur er bráðnauðsynlegt. Sjálf svaraði ég fyrir forvitnissakir spurningalista um fæðuvenjur mínar hjá sölumanni slíkra vara og fékk þá ráðgjöf í kjölfarið að það væri nauðsynlegt fyrir mig að byrja daginn á próteinhristingi. Hafragrautur með léttmjólk gaf núll stig fyrir morgunmat samkvæmt þeirra flokkunarkerfi. Einnig var mér ráðlagt að kaupa hylki af omega fitusýrum hjá þeim enda lýsið sem ég hafði tekið ekki til á listanum og þar var aftur núll stig. Ég verð að viðurkenna að ég fékk aðeins betri skilning á því hvernig hægt er að villa um fyrir fólki sem er lítið meðvitað um næringu enda stóð þetta þarna „svart á hvítu“. Ekki má gleyma því að það er líka bráðnauðsynlegt að kaupa allskyns efni til að hreinsa líkamann. Í því sambandi langar mig að velta upp þeirri spurningu hvort ekki væri skynsamlegra að draga úr magni aukefna og verksmiðjuframleiddri matvöru sem sett er inn í líkamann fyrst og leyfa þeim öflugu hreinsikerfum sem líkaminn býr yfir að annast eðlilega hreinsun sem þau eru fullfær um?

Lífsskoðanir okkar, aðstæður í lífinu, menningarumhverfi, uppeldi og smekkur er hluti af þeim þáttum sem hafa áhrif á fæðuval okkar og lífsstíl. Það er margt sem við vitum ekki enn um tengsl mataræðis og heilsu og vísindin hafa ekki fundið svör við öllum okkar spurningum. Okkur ber þó að styðjast við það sem best er vitað á hverjum tíma. Það eru til margar leiðir til betri heilsu. Flestar þeirra bera okkur þó að sama brunni hvað varðar mataræði. Borðum mat. Borðum fjölbreytta fæðu, sem næst uppruna sínum og notum hátt hlutfall úr plönturíkinu. Fáum þau næringarefni sem líkaminn þarfnast, verum meðvituð um hæfilegt magn og dreifum því jafnt yfir daginn þannig að líkaminn starfi á sem eðlilegastan hátt. Höfum opinn huga fyrir nýjungum en forðumst bábiljur og sölumennsku. Mikilvægt er að einstaklingar geti tekið upplýsta ákvörðun um val sitt á fæðu til að uppfylla næringarþörf sína með skynsamlegum hætti, halda góðri heilsu og njóta lífsins.

Heimildir

1. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Hrund Valgeirsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Elva Gísladóttir, Bryndís Elva Gunnarsdóttir, Inga Þórsdóttir, Jónína Stefánsdóttir og Laufey Steingrímsdóttir. (2012). Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Reykjavík: Embætti landlæknis, Matvælastofnun og Rannsóknarstofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahús.
2. Thor Aspelund, Vilmundur Guðnason, Bergrún Tinna Magnúsdóttir, Karl Andersen, Gunnar Sigurðsson, Bolli Þórsson, Laufey Steingrímsdóttir, Julia Critchley, Kathleen Bennett, Martin O‘Flaherty og Simon Capewell. (2010). Analysing the Large Decline in Coronary Heart Disease Mortality in Icelandic Population Aged 25-74 between the Years 1981 and 2006. PLoS ONE 5(11): e13957. doi:10.1371/journal.pone.0013957.
3. World Health Organization (2011): Obesity and owerweight. http://who.int/mediacentre/factsheets/fs311.
4. Stefán Hrafn Jónsson, Margrét Héðinsdóttir, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir og Jón Óskar Guðlaugsson. (2011). Börn á höfuðborgarsvæðinu léttari nú en áður: Niðurstöður úr Ískrá á þyngdarmælingum barna frá 2003/4-2009/10. Reykjavík: Landlæknisembættið og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
5. Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Erlingur Birgir Richardsson, Kári Jónsson, Anna Sigríður Ólafsdóttir. (2012). Holdafar, úthald, hreyfing og efnaskiptasnið meðal 18 ára íslenskra framhaldsskólanema. Læknablaðið 2012/98 277-282.

Erla Gerður Sveinsdóttir

Heimilislæknir, lýðheilsufræðingur og sérfræðilæknir við offitumeðferð

Nýtt á vefnum