Greinar / 7. júní 2012

Skattleggjum óhollustuna burt

Lífsstílssjúkdómar eru lýðheilsuvandi númer eitt, og fer offita þar framarlega í flokki ásamt hjarta- og æðasjúkdómum og áunninni sykursýki. Eitt af því sem lífsstílssjúkdómar eiga sameiginlegt, er að þá má að hluta til fyrirbyggja með hollu mataræði. Fræðsla er mikilvæg, en málefnið er flókið: Hvað er hollt að borða og hvað ekki?

Önnur leið að sama marki er að leggja sérstakan skatt á óhollar matvörur. Í grein sem birtist í New England Journal of Medicine 2009 segir hvernig skattur á sykur getur dregið úr neyslu sykraðra drykkja, sem sé ein helsta orsök offitufaraldursins, og sé miklu líklegri til árangurs en fræðsla ein og sér. Þar er einnig talað um að vörugjöld (sem föst krónutala eftir sykurmagni) hvetji til kaupa á smærri einingum, meðan neysluskattur (líkt og virðisaukaskattur) hvetji þvert á móti til kaupa á ódýrari tegundum og stærri einingum og nái því alls ekki sama markmiði.

Í nágrannalöndum okkar er undantekningarlítið farin leið skattlagningar til neyslustýringar:

Í Danmörku var haustið 2011 lagður skattur á mettaða fitu í ýmsum matvælum, en þar voru fyrir í gildi lög um skatt á viðbættan sykur. Í Noregi hefur verið lagt sérstakt gjald á drykki sem innihalda viðbættan sykur og sætuefni, og verið er að skoða hvort sambærileg aðferðafræði hentar fyrir aðrar tegundir matvæla. Í Finnlandi er þegar við lýði skattur á sykraða drykki, ís og sælgæti, en í upphafi þessa árs hóf sérstök nefnd að skoða hvers konar gjöld séu best til þess fallin að stýra neyslu á sykruðum vörum almennt.

Á Íslandi var árið 2007 lækkaður virðisaukaskattur á matvæli og um leið felld niður vörugjöld af matvælum, öðrum en sykri, sykurvörum og súkkulaðivörum. Við þessa aðgerð lækkaði virðisaukaskattur á gosdrykkjum úr 24,5 % í 7% og vörugjöld voru afnumin af þeim. Vörugjöld voru síðan hækkuð að nýju á ýmis matvæli árið 2009.

Þótt Íslendingar séu opinberlega feitasta Norðurlandaþjóðin höfum við enn ekki tekið það skref að skattleggja óhollustuna sjálfa, líkt og nágrannalöndin hafa gert.

Á síðasta ári var þó stigið jákvætt skref hér á landi, þegar sett var reglugerð um leyfilegt hámarksmagn transfitusýra í matvælum hér á landi. Annað jákvætt skref sem við getum stigið er upptaka samnorræna hollustumerkisins skráargatsins, sem tilgreinir vörur með minni fitu, salt og sykur og meira af heilu korni og trefjum.

Skattlagning óhollrar matvöru er óhjákvæmileg aðgerð. Rétt eins og með afleiðingar ofneyslu áfengis, koma afleiðingar ofneyslu sykurs öllu samfélaginu við.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum