Viðhorf til mataræðis hafa breyst mjög hægt í gegnum mannkynssöguna. Talið er að í um 18 milljónir ára hafi allri orkuþörf forvera nú- tímamannsins verið mætt með neyslu jurtafæðu. Jurtir voru ekki bara meginuppistaðan í matarræðinu heldur líka notaðar til lækninga. Það er ekki nema fyrir um 2 milljónum ára sem dýraafurðir bættust við mataræðið, þá sérstaklega kjöt og egg, enda jók notkun elds meltanleika matvöru sem unnin var úr dýraríkinu.
Áhrif fæðuframboðs
Ef við skoðum þá fortíð sem stendur okkur ennþá nær sést að mataræðið hefur lengst af samanstaðið af tveimur þriðja hluta grænmetis og einum þriðja hluta kjöts. Maðurinn varð að veiðimanni og safnara fyrst og fremst til að mæta orkuþörf sinni. Framboð af fæðu var ekki stöðugt á heimaslóðum mannsins sem varð til þess að hungursneyð varð fastur hluti tilverunnar.
Óreglulegt framboð af fæðu er því hluti af erfðafræðilegri þróun mannsins sem hjálpaði honum að lifa af með því að gera honum kleift að geyma orkubirgðir í líkamanum. Mikilvægt er að skilja að erfðafræðileg uppbygging líkama hellisbúa og nútímamannsins eru næstum nákvæmlega eins. Efnaskipti hafa aðlagast að þörf okkar til að mæta fæðuskorti með því að geyma orku í formi fitu, jafnvel þó að í dag sé engin hætta á hungursneyð. Þetta er stór ástæða fyrir þeim mikla offitufaraldri sem nú geysar og tengdum sjúkdómum sem hrjá okkur á Vesturlöndum.
Neyslumenning nútímans
Frá árinu 1960 höfum við séð gríðarlega byltingu verða í framleiðslu matvæla. Matur er til hvar og hvenær sem er, sem er að sjálfsögðu jákvætt. En það sem hefur haft neikvæðustu áhrifin á neyslumenningu nútímamannsins eru gæðin á þeim mat sem við borðum. Það hefur haft mikil áhrif hvaða fóður við gefum dýrum og hvernig kornmeti, ávextir og grænmeti er ræktað.
Meginmarkmið í framleiðslu er að afurðin sé sem best hvað varðar lykt og bragð og minni áhersla lögð á næringarinnihald og hollustu. Til þess að ná því fram eru gerðar breytingar á erfðaefnum og beitt mikilli efnafræðilegri meðhöndlun. Dýrum er gefið iðnaðarframleitt fóður ásamt því að vera sprautuð með vaxtarhormónum, sýklalyfjum og öðrum efnum sem ætlað er að flýta fyrir að dýrið nái kjörþyngd áður en því er slátrað. Hveitikorn er verkað þannig að úr verði hvítt hveiti sem hefur lengri líftíma en vantar mikilvægar trefjar, steinefni og vítamín. Á sama hátt er líftími kjöts lengdur með því að bæta við það rotvarnarefnum og kjötið svo fryst.
Þessi meðhöndlun á fóðri hefur leitt til þess að efnasamsetning kjöts og fiskmetis hefur breyst mikið. Fæðan inniheldur því í dag miklu meira magn af óæskilegum mettuðum fitusýrum og omega-6 fjölómettuðum fitusýrum á meðan magn æskilegra omega-3 fitusýra hefur minnkað. Það leiðir til þess að við erum að borða mikið af matvælum sem eru ekki í góðu jafnvægi þegar kemur að næringu. Í dag vitum við að omega-6 fitusýrur geta stuðlað að langvarandi bólgum í líkamanum sem eru taldar tengjast æðakölkun og öðrum svokölluðum lífsstílssjúkdómum. Að auki drekkum við ekki lengur nóg af vatni sem inniheldur mikilvæg steinefni, heldur er fólk farið að drekka í auknum mæli sykraða gosdrykki. En ef aðeins er drukkin ein flaska af gosi á dag sem er 0,5 l þá er fólk að innbyrða um 20 kíló af sykri á ári – aukalega, umfram alla aðra neyslu.
Skyndibitaþjóðin
Árið 2007 gaf bandaríski rannsóknarblaðamaðurinn Eric Schlosser út mjög áhugaverða bók sem heitir Food Nation. Í henni dregur hann upp mynd af nútímasamfélaginu, sem hann kallar skyndibitaþjóðina (e. Fast Food Nation). Bókin greinir annars vegar frá amerískum skyndibitafyrirtækjum og hvernig þau markaðssetja vöru sína með mjög árangursríkum hætti og hvaða áhrif þau hafa á samfélagið í heild. En á hinn bóginn geymir hún sorglegar sögur af venjulegu fólki sem er orðið þrælar þessarar ódýru en næringarsnauðu tegundar af mat.
Bókin sýnir þannig hvernig fyrirtækin beita áhrifaríkri markaðssetningu, sem miðað er að börnum, til þess að búa til langvarandi framtíðarviðskiptavini. Sagan sýnir svo hvernig ameríska skyndibitamenningin hefur breiðst út til annarra landa, sem fram að þessu höfðu ástundað hollt matarræði (t.d. Japan), og hvernig það hefur leitt til hrakandi tölfræði sem varðar heilsu og lífshorfur. Það er ótrúlegt hvernig höfundinum tekst að sýna fram á staðreyndir um framleiðslu skyndibitamatar sem ógn við heilsu neytenda. Lesandinn lærir meðal annars hvernig bragð- og lyktarefni í matvöru eru ekki náttúruleg heldur framleidd í tilraunastofum úr hundruðum efna sem ætlað er að tryggja að bragð endist til langs tíma. Framleiðendur þessara matvæla horfa þannig ekki til þess hvað sé best fyrir neytendann, heldur hvað seljist best. Þessi bók ætti að vera skyldulesning fyrir alla foreldra sem umhugað er um heilsu barnanna sinna.
Skyndibitinn og lyfjaiðnaðurinn
Það er mjög áhugavert að þessi þróun í matvælaiðnaði hefur myndað aðstæður sem annar risaiðnaður, lyfjaiðnaðurinn, hefur reynt að nýta sér. Ruslfæði, eins og við köllum það, er mjög ríkt af hitaeining um í formi fitu og sykurs en skortir á sama tíma alla góða næringu. Á hillum apóteka sjáum við hvernig selt er í töfluformi það sem við fengum áður úr plöntum og fjölbreyttari fæðu. Í stað jarðaberja og hindberja er seld ellagicsýra, í staðinn fyrir grænt te bjóða þau töflu af catechin, í stað bláberja selja þau delphinidin og þannig hafa hundruð taflna með mismunandi vítamínum og steinefnum komið í staðinn fyrir hollt og fjölbreytt mataræði. Þessi þróun hefur aðeins verið í gangi síðastliðin 50 ár, sem er örlítið brot af þróunarsögu mannsins og því má segja þarna hafi átt sér stað skyndileg breyting í neyslumynstri sem ekki fellur vel að erfðafræðilegri uppbyggingu mannslíkamans.
Þrátt fyrir að lyf hafi á undanförnum áratugum leitt til byltingar í meðferð sjúkdóma hafa þau ekki náð að mæta þeirri neikvæðu þróun sem orðið hefur í fjölda tilvika hjarta- og æðasjúkdóma og krabbameins. Einnig hefur orðið mikil fjölgun á sjúkdómum eins og sykursýki, tilfella alsheimers og offitu meðal barna. Sú þróun að fólk lifi lengur en kynslóðin á undan hefur algerlega stöðvast. Samkvæmt Evrópsku heilsusamtökunum (European Public Health Alliance) leiða sjö megin-áhættuþættir til langvinnra sjúkdóma: hár blóðþrýstingur, notkun tóbaks, ofneysla alkóhóls, hátt kolesteról, að vera í yfirvigt, lítil neysla grænmetis og ávaxta, og hreyfingarleysi. Hægt er að sigrast á öllum þessum þáttum með lífstílsbreytingum.
Krafan um heilbrigðan lífsstíl
Fólk er farið að krefjast þess að ríkisvaldið verji líf þess og heilsu. Það krefst þess að andrúmsloftinu sé haldið hreinu og aukinnar verndar gegn glæpum og náttúruhamförum. Því miður krefst það ekki sömu verndar gegn þrálátri kynningarstarfsemi á óheilbrigðum lífstíl sem hefur margfalt meiri áhrif á líf þeirra og heilsu. Það er ákveðin þversögn okkar tíma hvernig hægt er að ráðskast með samfélagslega hugsun með þessu móti.
Í þessu samhengi sé ég mikið vandamál í skorti á góðum og gagnlegum upplýsingum með áherslu á heilbrigðan lífstíl. Fyrir utan auglýsingar fyrir nammi, gosdrykki og skyndibita er líka mikil markaðssetning í kringum svokallaða heilsurétti. Hráfæði er stundum auglýst sem lykillinn að heilbrigðu líferni, þrátt fyrir að sannað sé að eldun ákveðinna matvæla auðveldi meltingu eða losi um ákveðinn næringarefni (eins og t.d. lycopene í tómötum).
Önnur bylgja sem er í gangi er að drekka vatn sem hefur verið síað á ýmsa vegu, en það getur leitt til þess að líkaminn fær ekki eins mikið af magnesíum og öðrum steinefnum. Ýmis fyrirtæki auglýsa sérstaklega að vörur þeirra innihaldi eitthvað sem þeir kalla ofurfæðu, sem er yfirleitt framandi planta eða fræ. Þessar vörur eiga að koma í veg fyrir að fólk þyngist og hafa jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Vissulega eru margar þessar vörur með frábært næringarinnihald en við ættum ekki einungis að leita þeirra í fjöllum Himalaya eða í Amazonfrumskóginum. Kál, hvítlaukur, fiskur, laukur, tómatar, sveppir, mjólkurvörur með lifandi gerlum, baunir og krydd ætti allt skilið að vera kallað ofurfæði og þessar afurðir eru í okkar nánasta umhverfi.
Draumaland æsku minnar
Fyrstu kynni mín af Íslandi voru þegar ég las á barnsaldri hina þekktu skáldsögu Jules Verne Ferðin að miðju jarðar. Allar götur síðan dreymdi mig um að heimsækja þetta merkilega land í norðrinu, sem þakið væri eldfjöllum og jöklum. Sá draumur rættist ekki fyrr en eftir fall kommúnismans, sem hafði árum saman haldið þegnum sínum bak við járntjaldið.
Fyrstu tvær vikurnar á Íslandi bætti ég við eldfjöll, jökla og hveri barnshugans hinum fallegu litum landslagsins, hestunum, söfnunum, bókmenntunum og einkum hinu fallega, heiðarlega fólki sem býr yfir svo mikilli samkennd. Næstu ferðir mínar til landsins miðuðu aðallega að því, fyrir utan að skoða hina fallegu náttúru, að skoða það hvernig væri hægt að nota jarðhitann og hreina vatnið til að koma í veg fyrir lífstílssjúkdóma, ásamt því að hitta hér sérfræðinga. Ég fór að hafa mikinn áhuga á stöðu heilbrigðismála og heilbrigðiskerfinu á Íslandi.
Í einni af ferðum mínum til landsins, þar sem ég gisti á hóteli sem starfrækt var í skóla, tók ég eftir því að þar var sjálfsali fyrir gosdrykki og svo sá ég að franskar kartöflur voru í miklu uppáhaldi hjá íslenskum börnum. Ég sá líka tölfræði sem sýndi fjölgun íslenskra barna með offitu, ásamt fjölgun tilfella brjóstakrabbameins. En á hinn bóginn tók ég eftir Íslendingar fara mikið í heitar laugar og að það er framúrskarandi heilbrigðisþjónusta í boði fyrir eldra fólk. Íslensk heilbrigðisþjónusta snýst að miklu leyti um forvarnir og það er ekki bara talað um forvarnir heldur er þeim beitt. Þau matvæli sem hér eru framleidd eru á heimsmælikvarða hvað gæði varðar. Hér gengur fénaður og nautgripir frjálsir og borða gras í náttúrunni og fiskurinn syndir í ómenguðum sjó. Þetta leiðir til þess að gæði kjötsins, mjólkurafurða og fisks eru mjög mikil.
Mér varð ljóst að Íslendingar ættu aldrei að leyfa það að þessum mætvælum yrði skipt út fyrir ruslfæði nútímamannsins. Ég dáist að Íslendingum fyrir það að bregðast við, að eftir að ljóst hefur orðið hversu slæm áhrif þessi þróun hefur haft, með því að reyna að beita forvörnum í baráttunni gegn óheilbrigðum lífstíl. Skilvirkar forvarnir byrja á því að þjóðfélagið sýni málefninu áhuga og hvetji stjórnmálamenn til að beita sér fyrir lausn vandamálsins. Af öllum Evrópulöndunum hefur Ísland mestan möguleika á því að bæta heilsu þegna sinna og koma í veg fyrir hnignun á lífsgæðum. Því það er auðveldara að stuðla að heilbrigðum lífstíl í landi þar sem mannfjöldi er ekki mikill, sem enn heldur í hefð- bundnar búskaparaðferðir og hreyfir sig reglulega. Að sama skapi er gott að fáir búi á Íslandi því þá eruð þið því ekki mjög mikilvæg fyrir fyrirtækin sem framleiða skyndibita og eru helstu forsvarsmenn óheilbrigðs lífstíls. Á Íslandi getur fólk betur haft áhrif á stjórnmálamenn og þrýst á innleiðingu stefnu sem hvetur til heilbrigðari lífstíls. En það mun á endanum leiða til lægri kostnaðar í heilbrigðisgeiranum, færri bótaþega, eykur vinnuþátttöku og bætir lífið í ellinni.
Stefnt í rétta átt
Í síðustu heimsókn minni til Íslands í júní síðastliðnum veittist mér tækifæri til að heimsækja endurhæfingarstöðina að Reykjalundi. Það er frábær stofnun, sem náð hefur stórkostlegum árangri. Heimsóknin staðfesti fyrir mér mikilvægi svona starfsemi. Nútímalegustu lækningaaðferðir næðu ekki svona jákvæðum árangri án jafn skilvirkrar endurhæfingar. Það veitti mér ánægju að sjá hvernig tekist er á við offitu hjá ungu fólki með markvissri fræðslu jafnt sem líkamsþjálfun. Meðferð á offitu er ekki auðvelt verkefni og til að árangur náist þarf fólk að vera í umsjón hóps sérfræðinga í langan tíma. Það er mun auðveldara að fyrirbyggja það ástand sem verður til af langtíma bólgum í líkamanum og leitt getur til hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, slitgigtar og ótímabærrar örorku, heldur en það er að meðhöndla það.
Ég tel að sú heilbrigðisáætlun sem sett hefur verið í gang á Íslandi muni verja fólk gegn óhóflegri markaðssetningu óhollrar fæðu og muni hvetja fólk til að borða hollan mat og lifa löngu lífi. Ísland getur þannig orðið fordæmi annarra um hvernig megi lengja lífið ásamt því að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu.
Janka Zalesakova er læknir að mennt og sérfræðingur í meðhöndlun lífsstílssjúkdóma. Hún hefur skrifað fjölda greina og haldið fyrirlestra víða um heim um endurhæfingu og forvarnir á sviðinu. Þá hefur hún margoft komið til Íslands og þekkir vel til aðstæðna hér á landi.