Greinar / 6. júní 2016

Erfðabreytt matvæli

Erfðabreytt matvæli hafa verið áberandi í umræðunni að undanförnu vegna birtingar nýrrar langtímarannsóknar á eitrunaráhrifum á rottur af erfðabreyttum maís og illgresiseyðinum Roundup. Því er ekki úr vegi að staldra við og íhuga hvers vegna erfðabreytingar eru gerðar á matvælum, hugsanlegar hættur erfðabreyttra matvæla og kröfur sem gerðar eru til erfðabreyttra matvæla á markaði.

Erfðabreytt matvæli eru unnin úr lífverum, oftast stórum nytjaplöntum svo sem soja, maís, baðmull, repju, kartöflum og tómötum, sem hefur verið breytt lítillega af manna völdum. Þá er einu eða fleiri genum í erfðamengi lífverunnar eytt, bætt við eða breytt. Erfðabreytt matvæli komu fyrst á markað í Bandaríkjunum árið 1994 og enn í dag eru Bandaríkin langstærsti framleiðandi og útflytjandi þeirra. Í humátt fylgja Kanada og Kína en minnst er framleiðslan í Evrópu.

Hvers vegna eru erfðabreytingar gerðar á matvælum?

Langoftast eru erfðabreytingar gerðar á nytjaplöntum til að kalla fram eftirsóknarverða eiginleika eða einkenni til að fleiri plöntur komist á legg. Svo dæmi sé tekið er hægt að flytja „kuldaþolið“ gen úr þorski, sem gerir fiskinum kleift að lifa í köldum sjó, yfir í tómata sem þá skemmast síður í kuldum. Með erfðabreytingum má einnig auka viðnám nytjaplanta gegn skordýrum og illgresiseyðum. Erfðabreytingar plantna gætu aukið uppskeru og komið þannig til móts við síaukna eftirspurn eftir matvælum samfara auknum mannfjölda í heiminum.

Matvæli eru einnig erfðabreytt til að fá fram breytta vinnslueiginleika, bætt gæði, geymsluog flutningsþol og eftirsóknarvert orku- og næringargildi. Þekktasta dæmið um að erfðatækni sé notuð í þessu skyni eru „gullnu hrísgrjónin“ sem þróuð voru til að berjast gegn A-vítamínskorti.

Gullnu hrísgrjónin

A-vítamín er fituleysið vítamín sem meðal annars er nauðsynlegt fyrir sjón og ónæmiskerfið. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir A-vítamínskort sem eitt af algengustu alþjóðlegu vandamálunum sem sporna þarf gegn. Þessi vítamínskortur hrjáir allt að þriðjung barna undir fimm ára aldri í heiminum, veldur blindu þúsunda þeirra á ári hverju og dregur mörg til dauða vegna sýkinga og sjúkdóma. Þess skal getið að þetta vandamál bitnar fyrst og fremst á börnum í þróunarlöndum en er sjaldgæft á Íslandi. Í mörgum þeirra landa þar sem A-vítamínskortur er landlægur eru hrísgrjón aðaluppistaðan í fæðinu. Í kringum aldamótin síðustu voru þróuð erfðabreytt hrísgrjón sem innihéldu beta-karóten sem líkaminn breytir í A-vítamín ef vítamínið skortir. Beta-karóten finnst náttúrulega, m.a. í gulrótum, og veldur gulum lit í matvælum. Vegna þessa voru grjónin kölluð „gullnu hrísgrjónin“ og var þeim aðallega ætlað að draga úr tíðni A-vítamínskorts. Grjónunum var dreift ókeypis til bænda á fátækum svæðum, þau gáfu góða uppskeru, stóðust ítarlegar öryggisprófanir og engar vísbendingar voru um að þau hefðu neikvæð áhrif á heilsu neytenda. Engu að síður leið ekki á löngu þar til dreifingu þeirra var hætt og eru þau ekki lengur fáanleg. Ástæðurnar eru margar og af ýmsum toga, m.a. pólitískar en einnig áhyggjur margra af því að erfðabreytt hrísgrjón geti haft slæm áhrif.

Hættur erfðabreyttra matvæla

Áhyggjur manna vegna erfðabreyttra matvæla stafa fyrst og fremst af ótta um neikvæð áhrif þeirra á neytendur og umhverfið. Í þessu sambandi hefur verið bent á að erfðabreytt matvæli geti hugsanlega haft skaðleg áhrif á heilsu manna, t.d. valdið alvarlegum sjúkdómum, ofnæmi eða eitrunum. Eins hefur verið bent á að þau geti ef til vill haft slæm áhrif á umhverfið og lífríkið í heild. Þar er t.d. horft til þess að nýir eiginleikar erfðabreyttra plantna geti hugsanlega flust yfir í villtar plöntur, að erfðabreyttar plöntur geti dreift sér svo mjög að ræktendurnir missi stjórn á þeim eða að inngrip í náttúrulegt erfðamengi plantna dragi úr erfðabreytileika þeirra.

Kröfur sem gerðar eru til erfðabreyttra matvæla

Áður en erfðabreytt matvæli koma á markað gangast þau undir ítarlegar rannsóknir, öryggisprófanir og áhættumat. Ferlið frá því að rannsóknir hefjast á tilteknum genaflutningi þar til leyfi fæst til að framleiða og markaðssetja erfðabreytt matvæli getur tekið meira en 10 ár. Einungis er heimilt að markaðssetja erfðabreytt matvæli sem standast kröfur og eru talin skaðlaus með öllu fyrir menn, dýr og umhverfið. Niðurstöður fjölda rannsókna á vegum Evrópusambandsins benda til þess að erfðabreytt matvæli hafi engin neikvæð áhrif á heilsu og að erfðatækni í landbúnaði sé ekki hættulegri en hefðbundnar ræktunaraðferðir.

Þess ber þó að geta að erfðabreytt matvæli hafa einungis verið á markaði í tæpa tvo áratugi og því er ekki útséð um langtímaáhrif þeirra á heilsu manna eða umhverfið.

Margar tegundir erfðabreyttra matvæla eru á markaði í Bandaríkjunum og þar er þess ekki krafist að þau séu merkt sérstaklega. Evrópusambandið leggur aftur á móti vissar hömlur á dreifingu erfðabreyttra lífvera, auk þess sem það krefst þess að erfðabreytt matvæli séu merkt. Íslendingar hafa tekið upp svipaða stefnu og Evrópusambandið og tók reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla gildi í janúar 2012. Gera má ráð fyrir að ýmsar erfðabreyttar afurðir séu á íslenskum markaði. Þetta á einkum við um matvæli sem innihalda soja-, maís-, repju- og baðmullarafurðir.

Í góðu horfi á Íslandi

Erfðabreytingar eru gerðar á nytjaplöntum til að laða fram eftirsóknarverðra eiginleika. Þrátt fyrir miklar rannsóknir bendir ekkert staðfastlega til þess að erfðabreytt matvæli séu skaðleg, hvorki heilsu manna né umhverfi. Fyrir þessu hefur þó ekki fengist fullkomin vissa þar sem erfðabreytt matvæli hafa einungis verið á markaði í mjög stuttan tíma og langtímaáhrif því ekki þekkt. Mikilvægt er að stjórnvöld vegi hugsanlega kosti á móti hugsanlegri áhættu og setji áreiðanlegar reglur sem styðjast við vísindalegar rannsóknir. Eins skiptir miklu máli að neytendur geti valið eða hafnað erfðabreyttum matvælum og því skipta merkingar og rekjanleiki meginmáli.

Birna Þórisdóttir

Lektor í næringarfræði HÍ
Nýtt á vefnum