Við erum við sífellt minnt á að þjóðin er að þyngjast og fleiri eru að glíma við ofþyngd og offitu ásamt tilheyrandi fylgikvillum. Á okkur dynja skilaboð úr ýmsum áttum um freistandi tilboð á tilbúnum mat sem oft inniheldur litla næringu og stuðlar að áðurnefndri þyngdaraukningu og lífsstílssjúkdómum. Flestir hafa áhuga á að snúa þyngdarþróun sinni til betri vegar og auka heilbrigði sitt. Margar lausnir eru í boði og af auglýsingum má skilja að við getum jafnvel haldið áfram að borða það sem okkur þykir gott ef við einungis tökum bætiefni eða nýjustu undraefnin og drekkum duft prótíndrykki eða forðumst ákveðnar fæðutegundir.
En hver skyldi vera hin gullna regla varðandi mataræði og heilbrigði? Eru ákveðnar fæðutegundir eða fæðuflokkar heppilegri en aðrar til að stuðla að heilbrigði og varna sjúkdómum?
Ótal rannsóknir benda í sömu átt
Bókin „The China Study“ sem skrifuð er af feðgunum T.Colin Campbell Phd. og Thomas M. Campbell, er byggð á rannsóknum um áhrif mataræðis á heilsu manna og tengsl ákveðinna fæðutegunda við tíðni og framgang langvinnra sjúkdóma. Í bókinni er vitnað í fjölda rannsókna, bæði faraldsfræðirannsókna og tilraunarannsókna og niðurstöður þeirra benda allar í sömu átt. Að plönturíkt fæði sé lykilatriði þegar kemur að heilbrigði og langlífi. Campbell ólst upp á mjólkurbúi og var kennt sem barni að mjólk væri fullkomnasta fæða náttúrunnar og börnum nauðsynleg vildu þau öðlast sterk bein og heilbrigðar tennur. Hann taldi, líkt og flestir á þeim tíma að prótínrík fæða úr dýraríkinu svo sem mjólkurvörur, kjöt, fiskur og egg væru hornsteinn góðrar heilsu þar til hann fékk niðurstöður úr rannsóknum sem bentu til þess að þessu væri þveröfugt farið. Campbell var að rannsaka tíðni lifrarkrabbameina hjá börnum á Filipseyjum þegar hann komst að því að tíðni þessarar tegundar krabbameina var mun hærri hjá börnum ríkra fjölskyldna þar sem neysla á kjöti og prótínríkri fæðu var algengari en hjá þeim fátækari. Á sama tíma voru birtar niðurstöður tilraunarannsókna á Indlandi þar sem kom í ljós að vöxtur krabbameinsæxla í músum var mun hraðari ef músunum var gefið prótínríkt fæði og að æxlisvöxturinn stöðvaðist ef mýsnar fengu einungis 5% af hitaeiningum sínum úr prótínum. Það sem meira er, það skipti máli hvers kyns prótín var um að ræða. Prótín úr plöntum olli ekki þessari aukningu á æxlisvexti en prótín úr dýrafæði örvaði æxlisvöxt mikið.
Raunverulegur matur
Campbell hefur alla sína starfsævi einbeitt sér að rannsóknum á samhengi næringar og sjúkdóma og er höfundur fleiri en 300 rannsókna um efnið. Hann er einn af vísindamönnunum á bak við umfangsmestu rannsókn um tengsl mataræðis og langvinnra sjúkdóma sem gerð hefur verið og er bókin The China Study nefnd eftir þeirri rannsókn.
Eftir áratuga rannsóknir er niðurstaða Campbells einföld: „Þeir sem borða hæst hlutfall hitaeininga sinna úr prótínríku dýrafæði búa við mesta hættu á krónískum sjúkdómum á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki II, krabbamein og meltingarsjúkdóma. Þeir sem borða mest af sinni fæðu úr plönturíkinu auka hins vegar líkur á heilbrigði og draga verulega úr hættu á langvinnum sjúkdómum”.
Hann telur einnig að lykilinn að heilbrigðu langlífi sé ekki að finna í flóknum bætiefnum eða vítamínum sem tekið hafa verið úr samhengi fæðunnar. Í stuttu máli telur hann að við eigum að borða raunverulegan mat (ekki duft eða pillur), óunninn og sem allra hæst hlutfall plantna og þá sérstaklega græns grænmetis. Það ásamt hollri hreyfingu og jákvæðri hugsun sé lykillinn að heilbrigðu langlífi.