Vanlíðan og sjúkdómar sem tengjast óheilbrigðum lífsstíl er alvarlegur vandi á Íslandi. Vandinn snýr að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu þjóðarinnar. Beinn skaði sem samfélag og einstaklingar verða fyrir af völdum lífsstílssjúkdóma má jafna við að tíunda hvert æviár glatist vegna ótímabærs dauða eða örorku hjá öllum Íslendingum 40 ára og eldri. Hér er ekki verið að telja til það sem okkur er áskapað, heldur aðeins ótímabæran skaða sem við getum sjálf reynt að koma í veg fyrir með því hvernig við kjósum að lifa lífinu.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mælir það heilsutjón sem verður vegna óæskilegs lífsstíls. Hjarta-, æða- og öndunarfærasjúkdómar vega þungt, og glatast af þeirra völdum 12 þúsund „góð æviár“ á hverju ári samkvæmt skýrslunni Global Burden of Disease frá desember 2012. Sé stoðkerfis- og geðröskunum bætt við má tvöfalda þá tölu. Miðað við landsframleiðslu á mann árið 2012 jafngilda þessi 24 þúsund æviár 130 milljörðum króna á ári, og er þá ótalin sú mannlega þjáning sem þarna liggur að baki.
Í fyrra dóu í fyrsta sinn fleiri af völdum ofþyngdar en vannæringar í heiminum, svo tæplega verður við lífsstílsvandann ráðið í einu vetfangi. En þegar vandinn er svo mikill sem raun ber vitni telja litlir sigrar stórt. Sem dæmi má nefna, að samkvæmt rannsóknum unnum við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst nemur kostnaður íslensks samfélags vegna offitu einnar milli 5 og 10 milljarða króna á ári – og það eitt að þjóðin létti sig um að meðaltali þrjú kíló myndi spara meira en milljarð króna árlega.
Stærstu lífsstílsbreyturnar eru mataræði, hreyfing, áfengi og tóbak, svefnvenjur og streituumhverfi. Óheppilegt mataræði er útnefnt af WHO sem aðalorsök glataðra æviára á Íslandi. Ásamt góðu mataræði getur hreyfing haldið líkams- þyngd í skefjum og aukið lífsgæði, ásamt því að spara þjóðfélaginu útgjöld til lengri tíma. Því miður sjáum við á þróun undanfarinna ára að þetta gerist ekki af sjálfu sér.
Hvernig má þá stemma stigu við því að 24 þúsund æviár glatist á hverju einasta ári samhliða gríðarlegum samfélagslegum kostnaði? Svarið liggur í forvörnum, en fræðsla ein og sér er ekki nóg, heldur þurfa einstaklingar sem eiga við lífsstílsvanda að etja að geta fengið heildstæða meðhöndlun og eftirfylgni áður en þeir verða alvarlega veikir.
Við viljum ekki að næsta kynslóð verði sú fyrsta til að lifa skemur en hin núlifandi. Nú þurfum við að hugsa út fyrir rammann og finna leiðir til að snúa þróuninni við.