Sýkingar í loftvegum einkennast af slímmyndun í nefi, hósta og særindum í hálsi. Þeim getur fylgt hiti, beinog vöðvaverkir, höfuðverkir og fleiri einkenni. Langalgengasti orsakavaldur eru veirur af ýmsum toga.
Engin lyfjameðferð er til við þeim veirum sem almennt eru orsakavaldur þessara veikinda, og einstaklingar með frískt ónæmiskerfi og án undirliggjandi sjúkdóma eða hrörleika vinna oftast bug á þessum veirusýkingum. Inflúensan er ákveðin tegund veirusýkingar sem gengur í faröldrum yfirleitt um miðjan vetur. Inflúensan einkennist af hita, bein- og vöðvaverkjum, höfuðverk, sárum hósta, kvefi og hálssærindum. Í sumum inflúensufaröldrum er hitatímabilið lengra en í venjulegum veirusýkingum, allt upp í eina viku. Á markaðnum eru lyf við inflúensuveiru sem virðast geta haft viss áhrif á sjúkdómsganginn en eingöngu ef meðferð hefst mjög fljótt eftir að veikindi byrja.
Þó að veirur séu langoftast orsakavaldur þessara sýkinga þarf að hafa í huga að ýmsar öndunarfærabakteríur geta valdið sjúkdómum eins og lungnabólgu, eyrnabólgu og bólgu í nefholum. Einnig geta svokallaðir streptókokkar valdið hálsbólgu. Slík sýking einkennist, a.m.k. hjá fullorðnum, af hálsbólgu án kvefs og hósta. Sýkingar af völdum baktería er mögulegt að meðhöndla með sýklalyfjum en þó ber að hafa í huga að alls ekki er nauðsynlegt eða gagnlegt að meðhöndla allar sýkingar, til dæmis í miðeyrum eða nefholum. Minnkað næmi fyrir sýklalyfjum í heiminum er mikið áhyggjuefni. Sýklalyfin voru bylting í læknisfræðinni og fyrir samfé lagið allt og hvílir mikil ábyrgð á læknum í dag og samfélaginu í heild að standa vörð um þessi lyf sérstaklega með því að vinna gegn óþarfri notkun þeirra og óþarfri notkun breiðvirkra lyfja sem eykur hættuna á ónæmum bakteríustofnum. Þetta á sérstaklega við um sýkingar í loftvegum þar sem mjög mikil sýklalyfjanotkun á sér stað og mikilvægt að nota eingöngu sýklalyf þegar líklegt er að um bakteríusýkingu sé að ræða og að líklegt sé að meðferðin bæti batahorfur.
Þrálátir öndunarfærasjúkdómar eins og astmi og langvinn lungnateppa (LLT) eru vangreindir í okkar samfélagi, en áríðandi er að greina þá snemma til að geta beitt viðeigandi meðferð. Sýkingar í loftvegum eru algengasta ástæðan fyrir versnun á þessum sjúkdómum og líklega ein af algengustu ástæðum þess að einstaklingar með ógreindan astma eða LLT leita til læknis. Þá er mikilvægt að hafa í huga áhættu þætti eins og ættarsögu um asma, ofnæmi eða exem, eða eigin sögu um ofnæmi og exem, svo og reykingasögu sem geta verið lykill að réttri sjúkdómsgreiningu.