Tíðni langvinnra lungnateppusjúkdóma hefur vaxið ört á undanförnum árum og er fjórða algengasta dánarorsök nú á tímum. Langvinn lungnateppa er hindrun á loftflæði um berkjur lungna, vegna lungnaþembu og langvarandi berkjubólgu. Talið er að 16.000 til 18.000 Íslendingar 40 ára og eldri hafi langvinna lungnateppu. Reykingar ásamt mengun (iðnaðarryk, kemísk efni og loftmengun) eru algengustu orsakir þessa illvíga sjúkdóms.
Lúmsk einkenni
Sjúklingar með langvinna lungnateppu upplifa einkenni eins og aukna mæði, hósta, uppgang, hvæsandi öndun, þyngsli yfir brjósti og eiga oft á tíðum í erfiðleikum með að halda holdum. Þá lýsa þeir þreytu, minnkuðu úthaldi, kvíða og depurð. Einkennin þróast á mörgum árum, læðast gjarnan aftan að sjúklingnum og fjölskyldu hans. Afneitunar verður einnig oft vart, en dæmi um þetta er eftirfarandi frásögn: „Það var ekki fyrr en ég var að koma inn í þriðja sinn sama árið á spítala í mæðiskasti og fékk þá stera og sýklalyf vegna lungnasýkingar að ég játaði fyrir mér alvarleika málsins.“
Hætta er á að heilsa sjúklings og einkenni versni, ekki síst vegna endurtekinna öndunarfærasýkinga. Þegar sjúkdómsgreiningin er komin og sjúklingurinn viðurkennir hana þýðir það einfaldlega að hann þarf að búa við sjúkdóminn, en hægt er að halda einkennum í skefjum með réttri meðferð, minnka einkenni, ná stjórn á mæðinni, virkja félagslegan stuðning, breyta hugsanaferli og lausn vandamála sem getur leitt til betri aðlögunar að sjúkdómi.
Blástursprófið
Langvinn lungateppa er flokkuð eftir niðurstöðu blástursprófs í fjóra flokka á grunni sekúndufráblásturs, (FEV1 ). Prósentugildið vísar til hlutfalls af eðlilegu gildi, þar sem 100% er með altalið hjá heilbrigðum einstaklingi.
Stigun1: FEV1 er meira en 80%. Vægur sjúkdómur og sjúklingi versnar sjaldnar eða einu sinni á ári.
Stigun 2: FEV1 er 50–80%. Meðalslæmur sjúkdómur og líkur á að sjúklingi versni sjaldnar eða einu sinni á ári.
Stigun 3: FEV1 er 30–50%. Alvarlegur sjúkdómur og líkur á að sjúklingi versni tvisvar eða oftar á ári.
Stigun 4: FEV1 er minna en 30%. Mjög alvarlegur sjúkdómur og líkur á að sjúklingi versni tvisvar eða oftar á ári.
Meðferð allt lífið
Langvinn lungnateppa hefur áhrif á allt líf einstaklingsins, þó er mismunandi hvernig hver og einn upplifir veikindin og getur það farið eftir persónuleika, gildum, ábyrgð, stuðningsneti og fleiri þáttum.
Í viðtölum við sjúklinga kemur fram að þeir eru með ákveðnar hugmyndir um ástand sitt, eins og eftirfarandi dæmi lýsir: „Ég horfi á ástand mitt í dag sem sjálfskaparvíti og ég skammast mín voðalega þar sem ég get sjálfum mér um kennt að hafa verið fastur í tóbaksfíkninni alltof lengi.“
Annar sagði: „Ég var aldrei með maska þegar ég vann á smíðaverkstæðinu og svo reykti ég líka sem ekki bætti ástandið, en ég veit líka ef ég passa mig að anda ekki að mér menguðu lofti og held reykleysið, tek lyfin mín, hreyfi mig og borða almennilega get ég lifað án teljandi vandræða með sjúkdómnum.“
Sjúklingar eru oft sérfræðingar í sínum sjúkdómi, en þrátt fyrir það eru þeir ekki ánægðir með sig: „Þótt ég telji mig vera sérfræðing í sjúkdómi mínum og veit hvað ég þarf að gera til að lifa sæmilega með honum, þá er það ekki sama að vita og að framkvæma. Ég er oft dapur og kvíðinn, er bara heima … og ég reyni að gera sem minnst en á bara svo erfitt með að vera í hlutverki sjúklings í kringum fjölskylduna mína…“
Einstaklingar með LLT og fjölskyldur þeirra þurfa mikinn stuðning til þess að geta tekist á við sjúkdóminn, þekkja einkennin og tekið á vanda hans. Því fyrr í sjúkdómsferlinu sem sá stuðningur er veittur því meiri möguleikar skapast til að hægja á framgangi sjúkdómsins.
Lungnaendurhæfing
Lungnaendurhæfing er þverfagleg meðferð sem markar upphaf betri lifnaðarhátta til frambúðar. Hún er upphaf að ævilöngu ferli, með það markmið að bæta lífsgæði lungnasjúklinga. Fólk er stutt til reykleysis, hollari lífshátta, fær sálfélagslegan stuðning, líkamlega þjálfun og fræðslu til að bæta færni og minnka sjúkdómseinkenni. Fólk með langvinna lungnateppu losnar ekki við sjúkdóminn, en endurhæfing getur bætt lífsgæðin verulega.
Heimildir
- Chapman, K. R., Mannino, D. M., Soriano, J. B., Vermeire, P. A., Buist, A. S.,
- Epidemiology and costs of chronic obstructive pulmonary disease. Eur Respir J, 27, 188-207.
- Curtin, M. og Lubkin, I. M. (2009). Í Curtin, M. og Larsen, P. D. (ritstj.). Chronic
- Illness, Impact and Interventions. Sudbury: Jones and Bartlett Publishers.
- Papi, A., Luppi, F., Franco, F. og Fabbri, L. M. (2006). Pathophysiology of Exacerbations of Chronic Obstructive Pulmonary Disease. Proc Am Thorac Soc, 3(3), 245-251.