Einn af hverjum fimm Íslendingum yfir 40 ára aldri þjáist af einkennum langvinnrar lungnateppu og einn af hverjum tíu hefur talsverð eða alvarleg einkenni. Langvinnir öndunarfærasjúkdómar fara hljótt miðað við hversu miklum heilsufarsskaða þeir valda, en langvinnir lungnateppusjúkdómar eru nú fjórða algengasta dánarorsök Íslendinga.
Myndin skerpist enn þegar skoðaðar eru tölur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um langvinna lungnasjúkdóma. Í stað þess að horfa eingöngu á dánartölur, mælir WHO heilsufarsskaða þjóða sem „glötuð góð æviár“: samtölu ára sem lifað er með örorku og ára sem glatast vegna ótímabærs dauða.
Sé mælikvarða WHO brugðið á langvinna öndunarfærasjúkdóma aðra en lungnakrabbamein, kemur í ljós að þeir standa fyrir um 5% af heilsufarsskaða Íslendinga, hvort heldur sem mælt er í ótímabærum dauða eða árum lifað með örorku. Sjúkdómsbyrðin vegna langvinnra öndunarfærasjúkdóma er þannig álíka mikil og vegna brjóstakrabbameins, blöðruhálskirtilskrabbameins, krabbameins í eggjastokkum og krabbameins í endaþarmi – samtals! Þetta eru því sannarlega sjúkdómar sem fara hljótt en valda miklum skaða.
Langvinn lungnateppa stendur fyrir bróðurpartinum af langvinnum öndunarfærasjúkdómum almennt. Sjúkdómurinn einkennist af hindrun á loftflæði um berkjur lungnanna vegna lungnaþembu og langvarandi berkjubólgu. Helstu orsakir eru reykingar ásamt mengun (iðnaðarryk, kemísk efni og loftmengun). Þótt tíðni reykinga hafi farið lækkandi eru reykingar enn þriðji stærsti áhættu þáttur heildarsjúkdómsbyrði Íslendinga, á eftir slæmu mataræði og ofþyngd. Reykingar eru sem sagt ennþá stærri áhættuþáttur en „góðkunningjarnir“ háþrýstingur og hækkuð blóðfita, svo dæmi sé tekið.
Astmi telst einnig til langvinnra öndunarfærasjúkdóma, og einkennist af endurteknum köstum með mæði, hósta, surgi og þyngslum fyrir brjósti, sem versnar oft í köldu lofti. Ólíkt lungnateppu veldur astmi síður dauða, en stendur þó lungnateppu fyllilega á sporði sem áhrifavaldur örorku samkvæmt tölum WHO.
Lungnateymi Reykjalundar hefur náð góðum árangri í endurhæfingu lungnasjúkdóma. Í grein Hans Jakobs Beck og Guðbjargar Pétursdóttur hér í blaðinu er því vel lýst hvernig sjúklingar með langvinna lungnateppu upplifa einkenni eins og aukna mæði, hósta, uppgang, hvæsandi öndun, þyngsli yfir brjósti, minna úthald, kvíða og depurð – einkenni sem þróist á mörgum árum, læðist gjarnan aftan að sjúklingnum og fjölskyldu hans og endi jafnvel í afneitun. Þannig sé lungnaendurhæfing þverfagleg meðferð sem marki upphaf betri lifnaðarhátta í ævilöngu ferli með það markmið að bæta lífsgæði lungnasjúklinga.
Hægt er að koma í veg fyrir talsverðan heilsufarsskaða með því að grípa inn í sjúkdómsferli lungnateppu á fyrri stigum. Hægt er að mæla fráblástur með einföldum hætti á heilsugæslustöðvum, og æskilegt er að hver einstaklingur þekki fráblástursgildið sitt svo að greina megi snemma ef einhver frávik verða þar á, og ætti öndunarmæling að vera jafnsjálfsögð og mæling á blóðþrýstingi.